Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Slepptu takinu á fortíðinni.

Sagt hefur verið að meirihluti samræðna hjá þeim sem eru fertugir og eldri séu um fortíðina. Stundum er það um "góðu gömlu dagana" og stundum er það af atvikum sem fóru illa, "ef ég hefði aðeins....." sögur, glötuð tækifæri og svoleiðis. En ég hef komist að þeirri niðurstöðu að yngra fólk er engin undantekning þar á.

Að láta syndir okkar og mistök gærdagsins stjórna hugsunum okkar í dag rænir okkur gleði dagsins í dag og framtíðarhamingju. Það veldur því að við missum af tækifærum dagsins í DAG!!!!

Til þess að taka skref fram á við í dag, verður þú að læra að kveðja særindi gærdagsins, harmleika og bagga. Þú getur ekki byggt minnisvarða fortíðarvandamála og ætlast svo til að geta haldið fram á við.

Taktu þér tíma til að gera lista yfir neikvæða atburði fortíðarinnar sem gætu enn haft tangarhald á þér. Fyrir hvern atburð sem þú setur á listann skaltu gera eftirfarandi:

1) Viðurkenndu sársaukann

2) Syrgðu missinn

3) Fyrirgefðu manneskjunni.

4) Fyrirgefðu sjálfri/sjálfum þér!!

5) Taktu meðvitaða ákvörðun um að sleppa takinu á viðkomandi atviki og haltu áfram á þinni braut.

Bestu dagarnir eru svo sannarlega framundan ef þú kemur fram við "mistökin" (eða hvað sem þú kýst að kalla það) sem nauðsynlega reynslu til að læra af. Ef þú skilur að hver reynsla hefur með sér ákveðið magn af visku, getur þú skilið hversu ríkt líf þitt er í rauninni að verða.

Margir ná ekki að upplifa velgengni drauma sinna vegna þess að þeir sleppa ekki tökin á fortíðinni og barma sér yfir því að tækifærið er runnin þeim úr greipum. Þó að eitthvað hafi valdið því að þú gast ekki látið draumana þína rætast á sínum tíma, hvað kemur í veg fyrir að þú gerir það núna? Aldur? Fjárhagur? Börn? Tími? Þetta eru bara afsakanir fyrir að gera ekki hlutina og til að leyfa sér að syrgja glötuð tækifæri. Hættu að hugsa um allt sem mögulega gæti komið upp á, eða finna upp 100 ástæður fyrir því að þú getur ekki látið drauminn rætast. Eins og ég hef sagt við börnin mín frá því þau eru pínulítil, þegar þau hafa staðið frammi fyrir ákvarðanatöku (hversu lítilmótleg sem hún kannski var og er)................ "Annað hvort sturtar þú niður eða ekki!!" Þetta er ekki flóknara en það. Auðvitað gætir þú flækt málin með því að standa fyrir framan dolluna og hugsað um hvort það væri jafnvel ekki betra að fara inn í eldhús ogfylla skál af vatni (eftir að þú ert búin að eyða tíma í að ákveða hvaða skál) og hella því niður í klósettið, en svo er spurning hvort þú þurfir þá ekki að fara margar ferðir með skálina því hún tekur ekki nægilega mikið magn af vatni og hvort það sé þá ekki betra að taka stóran pott já eða kannski fötu frekar.......... Skilurðu hvert ég er að fara með þessu? Það er endalaust hægt að flækja hlutina. Slepptu því að skapa þér mígreni yfir hlutunum og sturtaðu niður! Já eða slepptu því Wink  Notaðu síðan tímann sem hefði annars farið í vangaveltur, í annað skemmtilegra og njóttu þess að vera búin að taka meðvitaða ákvörðun.

Þessi kafli er að miklu leyti tileinkaður dóttur minni. Við lágum í rúminu hennar í morgun og vorum á trúnó. Og var þetta meðal annars eitt af því sem við töluðum um. Ég hef oft sagt þetta við hana en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Elska þig Agnes mín. Heart

Molinn er því sérstaklega ætlaður henni. Engin siðfræðikenning getur tekið af mönnum ómakið að taka sínar eigin ákvarðanir. - Páll Skúlason.

Og eitt til þín sem lest þetta................ Mundu að það er engin betri til að elska og sem getur notið þess sem lífið hefur upp á að bjóða en einmitt þú. Aðrir í lífi þínu munu síðan njóta góðs af.

 


Sá lærir sem lifir.

Ég býst við að sem foreldri þá hættir maður aldrei að læra. Börnin mín voru sem sagt enn einu sinni að kenna mér eitthvað. Og þar sem ég vil gjarnan miðla af reynslu minni, þá langar mig til að deila þessu með ykkur. Who knows............... kannski tekst mér að forða ykkur frá þessu Wink

Ég þori næstum því að veðja að þið séuð orðin geðveikt spennt að vita hvað gerðist. Ekki satt? En ok.... ég skal ekki draga þetta lengur.

Það sem ég lærði var að ef þú ferð að sofa á undan börnunum þínum, þá skaltu sjá til þess að hvorki séu skæri, bartskerar eða rakvélar í seilingarfjarlægð. Leyfið mér að skýra þetta nánar.

Aðfaranótt laugardags fór ég á fætur um miðja nótt eins og ég er gjörn á. Hann Leifur minn (elsta barnið) var enn vakandi og segir við mig að hann hafi tekið sig til fyrr um kvöldið og klippt bróður sinn. Okeiiiiiiiiiiiiiiii. Ég fór ekki að verða hrædd fyrr en hann segir við mig "þetta væri nokkuð flott sko ef þetta hefði verið gert á stofu" W00t

Það var síðan með kvíðahnút í maganum sem ég beið eftir að Kristján færi á fætur. Svo kom karlinn fram. Mikið rosalega var ég fegin að Leifur skyldi vera búin að vara mig við. Guð minn góður!!!! Kristján var s.s kominn með þennan líka fína hanakamb og Leifur hafi snoðað hann stutt á hliðunum en ekki sköllóttann. Núna skemmti ég mér við að reyna að lesa út úr dulmálinu sem leynist í blettaskallanum LoL (þetta er sko blettaskalli í lagi get ég sagt ykkur). Kristján var samt ekki viss hvort honum líkaði nýju klippinguna eða ekki. Þegar ég keyrði hann síðan í vinnuna þá spyr hann mig "mamma........ hvað heldur þú að fólkið segi í vinnunni?" Ég sagði honum blessuðum að hafa ekki áhyggjur af þessu, við myndum láta laga þetta eftir helgina.

Kristján kom svo heim úr vinnunni og skein eins og sól í heiði. Þá hafði drengurinn víst fengið svo mörg hrós fyrir hárið að allur efi var horfinn eins og dögg fyrir sólu. Og honum finnst hann vera ógurlega töff svona. Þess vegna vill hann ekki láta laga þetta Pinch. En ég reyni þá bara áfram að athuga hvort ekki sé hægt að finna út myndir eða dulmál úr blettaskallanum á stráknum Tounge

Molinn er svolítið kaldhæðinn að þessu sinni: Ber er hver að baki nema sér bróður eigi. - Brennu-Njáls saga - Kári Sölmundarson.

Smá heilsufréttir.

Ég var svo kvalin í gær að ég sá mig tilneydda til að fara á læknavaktina. Ég hefði allt eins getað sleppt því, en það eina sem ég fékk að heyra var að það væri ekkert hægt að gera fyrir mig þar sem hún vildi ekki grípa fram fyrir hendurnar á sérfræðingnum mínum. Það var sama þó ég reyndi að segja henni að sérfræðingurinn minn væri enn í fríi og því gæti ég ekki náð sambandi við hana. Læknirinn vildi bara ekkert gera og ráðlagði mér að reyna að flýta tímanum sem ég ætti í næstu viku Devil. Með þetta fór ég bara heim, hundsvekkt og enn kvalin. Síðan voru kvalirnar svo svakalegar í nótt að ég gat ekki annað en hringt á næturlækni. Hann sagði mér að koma upp á sjúkrahús, sem ég og gerði. Greyið stóð bara á gati eftir að hafa látið mig gera allskonar leikfimiæfingar, og var engu nær. Sögulokin urðu þau að hann sprautaði mig með morfíni og sendi mig heim aftur. Í augnablikinu er ég s.s því sem næst verkjalaus (allavega miðað við hvernig var fyrir sprauturnar). Stundum skil ég ekkert í mér að vera að eyða tímanum í að fara á vaktina. Svei mér þá. Fyrir utan þetta þá hef ég það bara nokkuð fínt. Ástandið gæti víst alltaf verið verra. Ekki satt?

Hafið það ljúft í dag elskurnar mínar og munið að njóta þess að vera til.


Að sá og uppskera

Góðar hugsanir og aðgerðir geta aldrei leitt af sér slæma útkomu; Slæmar hugsanir og aðgerðir geta aldrei leitt af sér góðar útkomur. Í rauninni er ég að segja að ekkert getur orðið úr korni annað en korn.

Dæmi: Í nokkur ár var morgunrútínan mín þannig að ég byrjaði á að lesa dagblöðin, flesta daga eyddi ég rúmum hálftíma eða meira í að fara í gegnum þau áður en ég mætti í vinnu. Ég vissi ekki að hugur okkar er hvað móttækilegastur strax þegar maður fer á fætur og rétt áður en maður leggst til svefns á kvöldin. Fersk eftir lestur ( og hugsanir ) af dagsins innbrotum, misþyrmingum, sprengingum og morðum og öðrum “ fréttum “ Hefði það ekki átt að koma mér á óvart að “sáningin “ í huganum myndi “uppskera” ákveðið “attitude” gagnvart ökumönnunum í aðalumferðatímanum sem voru með “samsæri” um að keyra hægt og teppa umferðinni svo ég kæmi of seint í vinnu. Þannig að loks þegar ég mætti í vinnu þá var ég búin að leggja línurnar fyrir daginn, og þær voru ekki jákvæðar.

Ég hætti þessari morgunrútínu og fór að gefa mér tíma til að lesa eitthvað fræðandi og jákvætt (eins og t.d blogg bloggvina minna), með það í huga að sá einhverju jákvæðu sem myndi uppskera “jákvæða útkomu”. Ekki gerði ég mér grein fyrir því þá að postulinn Páll segir einhversstaðar í Biblíunni, “ festið hugann á það sem er gott, rétt og jákvætt. Hugsið um hluti sem eru hrein, kærleiksrík og dveljið á það góða og jákvæða í náunganum. Hugsið um allt sem þið getið þakkað Guði fyrir og verið glöð yfir.”   

Við uppskerum alltaf því sem við sáum og það á sérstaklega við um það sem við hugsum. Eins og Emmet Fox skrifar, Leyndarmál lífsins eru að stjórna huganum, vegna þess að ef þú gerir það, þá mun hitt fylgja. Að sætta sig við sjúkdóm, vandræði, og mistök sem eitthvað óumflýjanlegt, er heimska, vegna þess að það er með þessa sátt sem þú gerir sem heldur þessari slæmsku inn í þinni tilveru. Maðurinn er ekki takmarkaður af umhverfi sinu. Hann skapar umhverfi sitt með trú sinni og tilfinningum. Að ætla annað er eins og að hugsa að rófan vaggi hundinum.

Molinn: Haltu sjálfum þér hreinum og björtum því þú ert glugginn sem þú sérð veröldina í gegnum. - George Bernard Shaw

Dagarnir eru enn mjög erfiðir því veikindin eru að segja til sín með fullum þunga (það vona ég að heila æxlið sé ekki farið að gera einhvern óskunda). Sigurlín elskuleg vinkona mín reynir af veikum mætti að fá mig til að fara til læknis en ég þrjóskast við, því ég á hvort eð er að hitta sérfræðinginn minn eftir tæpar 2 vikur. Ástæðan fyrir því að ég vil ekki fara til læknis er að sérfræðingurinn minn hún Helga Ágústa er enn í fríi og er þessi sjúkdómur það sjaldgæfur að margir læknar standa á gati þegar ég kem vegna einhverra kvilla og hafa undantekningalaust þurft að hringja í Helgu. Og ég hreinlega orka ekki að standa í einhverri vitleysu núna. En ég er ekki það slæm að ég sé í einhverjum henglum hérna. Enda segir mamma að ég sé bara með flensu LoL Gott ef væri.

Takk öll fyrir orkubúntin sem ég hef fengið frá ykkur öllum. Það stendur greinilega ekki á hjálp frá ykkur og er ég ykkur endalaust þakklát fyrir það. Heart


Smá hnökrar

Dagarnir eru svolítið erfiðir um þessar mundir. Þess vegna megið þið gjarnan senda mér smá orku Wink. Mér veitir ekki af.

Molin fyrir næstu daga: Það hæfir manninum betur að hlæja að lífinu en að harma það. Seneca


Dönsum eins og engin sé að horfa

Við sannfærum okkur sjálf að lífið verði betra eftir að við giftum okkur, eignumst börn, síðan annað barn (til að hafa ofan af fyrir fyrra barnið). Síðan pirrum við okkur yfir því að krakkarnir verði nógu gömul og erum sannfærð að við verðum betur stödd þegar að því kemur. Næst erum við örg yfir því að við þurfum að eiga unglinga, við munum svo sannarlega verða hamingjusöm þegar því skeiði er lokið. Við teljum sjálfum okkur trú um að líf okkar verði fullkomið þegar maki okkar tekur til í sínum málum, þegar við fáum betri bíl, þegar við fáum tækifæri til að fara í gott frí eða þegar við setjumst í helgan stein.

Sannleikurinn er sá að það er ekki og verður aldrei betri tími til að vera hamingjusamur en einmitt núna!! Ef ekki núna..... hvenær þá? Lífið verður alltaf fullt af áskorunum og viðfangsefnum. Það er best að viðurkenna þetta fyrir okkur sjálf strax og ákveða að vera hamingjusöm engu að síður á hverjum einasta degi.

Eitt sinn var sagt við mig "Í langan tíma fannst mér alltaf að líf mitt væri í þann mund að hefjast.... hið raunverulega líf, en alltaf var einhver hindrun í veginum. Eitthvað sem ég þurfti að eignast fyrst, einhver óútkljáð mál, mig vantaði meiri tíma til að sinna hlutunum og alltaf voru einhverjar ógreiddar skuldir. Þá loks gæti ég byrjað að lifa lífinu. Að lokum rann upp fyrir mig ljós. Þessar "hindranir" eru líf mitt." Þetta sjónarhorn hjálpar okkur að sjá að það er engin leið að hamingjunni....... hamingjan ER leiðin.

Varðveittu því og lærðu að meta hvert augnablik sem þú átt. Lærðu að meta það meira vegna þess að þú deildir því með einhverjum sérstökum, nógu sérstökum til að eyða tíma þínum með. Og mundu að tíminn bíður ekki eftir neinum.

Hættu bara að bíða eftir að þú klárir þetta eða hitt fyrst, bíða eftir að þú missir nokkur kíló, eftir að þú náir á þig nokkrum kílóum. Hættu að bíða eftir að þú eignist börn og síðan barnabörn og eftir að börnin flytji að heiman, eftir að þú byrjir að vinna, að þú hættir að vinna, að þú giftist, að þú skiljir, eftir laugardagskvöldinu, sunnudagsmorgninum. Hættu að bíða eftir nýja bílnum, eftir að þú sért búin að borga af nýja bílnum eða húsinu, eftir vetrinum, vorinu, sumrinu, haustinu. Hættu að bíða með að ákveða........... besti tíminn til að vera hamingjusamur er núna.InLove

Hamingjan er ferðalag........... ekki ákvörðunarstaður.

Í dag er tími til að...

.... Vinna eins og þú þurfir ekki á peningnum að halda.

.... elska eins og engin hafi nokkurn tímann sært þig.

.... dansa eins og engin sé að horfa.

Molinn að þessu sinni er því: Ég get hvergi fundið hamingjuna ef ég finn hana ekki hjá sjálfum mér.Edvard Grieg.

Úfffffffffff hvar ég er eitthvað alvarlega þenkjandi þessa dagana.Whistling


Allt hefur tvær hliðar

Aðstæður eru hvorki jákvæðar né neikvæðar, aðstæður eru hlutlausar. Það eru hugsanir okkar og hugarástand, hvernig við sjáum aðstæður, sem gera þær jákvæðar eða neikvæðar.

Bob Proctor kennir eitt það besta í þessum efnum og notar til þess alheimslög og kallar þetta "Lög andstæðra póla" og segir;

Allt í umheiminum hefur sína andstæðu. Það væri ekkert "fyrir innan" í herbergi ef það væri ekki "fyrir utan". Þú ert með hægri og vinstri hlið á líkamanum. Framhlið og bakhlið. Allt sem er upp hefur niður og allt sem er niður hefur upp. Það er ekki nóg með að þessi lög segja að allt hafi sína andstæðu heldur líka "jafnt og". Ef það er einn metri frá gólfi upp að borðbrún, þá er líka einn metri frá borðbrún niður á gólf. Ef það eru 50 km frá Selfoss til Reykjavíkur þá samkvæmt lögum þarf að vera 50 km frá Reykjavík til Selfoss. Það gæti ekki verið öðruvísi.

Ef eitthvað sem þú álítur slæmt gerist í lífi þínu, þá hlýtur einnig að vera eitthvað gott við það. Ef það var pínu slæmt, þegar þú hugarfarslega vinnur að hinni hliðinni, muntu aðeins finna pínu gott.

Hér er eitt lítið dæmi. Ef þú ert með sprungið dekk, sem virðist neikvæð aðstaða fyrir þig, þá er það mjög jákvætt fyrir dekkjavinnustofuna. Ef þú athugar jafnvel aðeins lengra er það mögulegt að á meðan verið er að skipta um dekk þá kemur ef til vill önnur alvarlegri bilun í ljós sem hefði þá kostað þig miklu meiri pening ef þú hefðir beðið lengur.

Það sem ég er að reyna að segja er að hvert atvik er hægt að sjá á tvennan hátt. Það er hvernig við metum aðstæður sem ákvarðar áhrif þess á hugsun okkar og hugarástand. Og við vitum öll að það ákvarðar gæði lífs okkar.

Skiptir engu hversu slæmt eitthvað getur litið út fyrir að vera, skoðum það þá frá annarri hlið, þá framkallast alltaf eitthvað gott.

Hvert hjartasár, hver mistök og hver hindrun ber alltaf með sér jafngildi þess í jákvæðu formi.

Því til sönnunar þá get ég sagt að ef ekki hefði komið til jarðskjálfti sem setti hús mitt í rúst, þá hefði ég ekki byrjað að blogga og kynnst helling af yndislegu fólki.

Molin í dag er því: Reynsla er ekki það sem hendir okkur. Reynsla er það hvernig við nýtum okkur það sem hendir okkur. Höf ókunnur


Engar áhyggjur

Ég gleymi alltaf að líta á gestabókina hér á þessari síðu, en elskuleg Daddý vinkona mín til margra ára benti mér á að kíkja annað slagið þangað því að þar kvittar hún fyrir sig.

Eins og ég er nú hlýðin með eindæmum þá gerði ég það sem fyrir mig var lagt, og sá þá að fólk er að hafa áhyggjur af mér. Eins sá ég fyrst núna að angakarlinn minn hann Valdi er líka að hafa áhyggjur af mér. Það vildi ég óska að ég gæti tekið þessar áhyggjur burt frá börnunum mínum. Þau eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur af mér. Það er mitt að sjá um þau. Og það tekur mig ótrúlega sárt að geta ekki gert það almennilega. Mér finnst ég svo lítil og vanmáttug (fann ekki rétta orðið) þegar Kristján er t.d að biðja mig um að gera hitt og þetta með sér, en of oft líður mér of illa til að geta það. Það sker mig í hjartað þegar ég sé vonbrigðin í augunum á honum. Líka þegar ég sé áhyggjurnar í augunum á krökkunum. En ég SKAL komast yfir þetta og stefni að því á hverjum einasta degi.

Hafið þess vegna ekki of miklar áhyggjur af mér elskurnar mínar. Ég er enn ofar moldu, dreg enn andann og er langt frá því að vera eitthvað dauðvona. OG ég er miklu betri en ég var þó ég eigi slæmar stundir á milli. Þannig að það er bara jákvætt.

Elsku Valdi minn birtist svo hérna algjörlega á óvörum í gærkvöldi. Mikið svakalega var nú gott og notalegt að faðma strákinn minn. Allt of langt síðan ég hef séð hann og heyrt í honum. Hann er með svo fallegt og gott hjarta strákurinn.

Auka moli dagsins: Þegar öllu er á botninn hvolft, þá fer allt einhvernvegin, þótt margur efist um það á tímabili. - Halldór Laxness. Sjálfstætt fólk.


Einum of spennandi leikur

Þetta var sko einum of spennandi leikur. En leikaraskapur kóreumanna var alveg með eindæmum. Svona gott lið á ekki að þurfa að grípa til svona ráða að mínu mati. Verst að dómararnir létu glepjast framan af.

Adrenalínið fór á fullt hjá mér og hefði ég þurft þrefaldan skammt af blóðþrystingslyfjum á síðustu mínútum leiksins. Ég stóð bara of spennt fyrir aftan sófann (vildi ekki eiga á hættu að brjóta neitt í látunum) til að gefa mér tíma til að taka inn aukaskammt Grin. Svo bíður maður bara spenntur eftir leiknum á móti dani. Ferlega væri nú sætt að vinna þá Devil

Svo er útsalan (loksins segja kannski sumir) að byrja hjá okkur í Blaze. Eins og venjulega stendur hún bara stutt, en þetta er líka alvöru útsala frá fyrsta degi get ég sagt ykkur. Komið endilega og lítið við, alltaf heitt á könnunni og starfsfólkið ávallt í góðu skapi sem og til í spjall þó ekki væri meira.  

Af mér er allt gott að frétta. Ég fór á Kaffi Krús í fyrradag og hitti fullt af skemmtilegum konum. Sumar þekkti ég fyrir en aðrar ekki. Alltaf pláss í mínu hjarta fyrir skemmtilegt fólk og þær voru það allar upp til hópa.

Molinn að þessu sinni er því tileinkaður vinum: Líf okkar getur ekki verið fullkomið án vina. Dante.

 


mbl.is Ísland tapaði með einu marki fyrir Suður-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

13 ára all over again

Almáttugur minn........................ gott ef ég skipti ekki litum eins og litaspjald þegar ég las allar athugasemdirnar sem mér bárust frá ykkur vinum mínum, við síðustu bloggfærslu mína Blush. Bæði fór ég hjá mér en hlýnaði svo um hjartarætur að mér líður eins og 13 ára. Ég held svei mér að ég sé ekki að fara með neina rangfærslu þegar ég segi að ég hafi ekki roðnað svona síðan ég uppgötvaði að Gunnar minn væri skotinn í mér!!!!!

Tilfinningaflæðið fór með mig í rússíbanareið. Tigercopper og Hólmdís fengu mig til að hlæja, ég fann til í hjartanu með Ingu Maríu og Ragnheiði, Andinn mikli (Sigurður Einarsson) vakti forvitni mína, fylltist söknuði yfir að hafa misst af Hrönn þegar hún kom við í búðina mína og fylltist þakklæti til Eddu, Jenný, Ásdísi, JEG og já bara allra fyrir sýndan samhug. Alveg ótrúlegt og hjartastyrkjandi að eiga þvílíkt bakland. Staðreyndin er nefnilega líka sú að allir sem maður mætir á lífsleiðinni þjóna einhverjum tilgangi í okkar lífi. Og þið eruð mitt hjartalyf Heart

En svo líður mér eins og 13 ára af annarri ástæðu líka. Og þá gagnvart Leifi syni mínum. Hann tekur sko hlutverk sitt mjög alvarlega. Ef hann fer út á kvöldin þá hringir hann reglulega í mig til að kanna hvernig ég hafi það, einnig líst honum ekki betur á en svo að hann spurði mig hvort ekki væri tímabært að auka lyfjaskammtinn aftur, ég væri hreinlega ekki að þola þessa minnkun. Svo leið mér fyrst eins og krakka þegar ég vaknaði í fyrrinótt og fór fram. Þar sat Leifur minn og var í tölvunni, horfði á mig og sagði:

Leifur: Hvað ert þú að gera á fótum?

Ég: Æ mig verkjaði svo þannig að ég ætla bara að taka inn verkjalyf.

Leifur: Hmmmmm, allt í lagi...... en svo ferðu aftur í rúmið að sofa!!

Ég: Okei.

Nú er sko eggið farið að kenna hænunni, því ég gerði eins og mér var sagt LoL. En mér dettur ekki til hugar að fara að amast eitthvað yfir þessu, því mér þykir endalaust vænt um þetta. Að mínu mati sýnir þetta mér hvaða hug hann ber til mömmu sinnar. 

Hafið það gott yndislega fólk nær og fjær, hvort sem ég þekki ykkur eða ekki.

Molinn í dag: Leitaðu að einhverju fögru og þú munt finna það. Það er aldrei langt undan. - Sara Teasdale


Kannski komin tími á nýtt blogg.

Sæl verið þið elsku krússlurnar mínar.

Nú er bóndinn minn farinn aftur til Danmerkur en kemur til baka aðfaranótt mánudags (hann sem var að koma). Hann er að vinna á sýningu þarna úti þar sem hægt er að finna flest fatamerkin sem vit er í. Jafnframt er hann svo að panta inn fyrir búðina. Maður venst því seint held ég að panta föt fleiri mánuði fram í tímann. En það sem er pantað núna er til afhendingar í feb-apríl 2009. Bæði er erfitt að sjá út svona langt fram í tímann hvað viðskiptavinir munu vilja, hversu mikil aukning verður og núna bætist ofan á að maður verður að reyna að sjá út hvaða stefnu krónan muni taka. Flestir sem eiga fataverslun hér á landi fara á þessa sýningu. Bæði er þetta skemmtilegt en líka alveg ógurlega mikil vinna. Svo fær maður sjokkið þegar vörurnar koma. "Hriiiiikalega er þetta ljótt!! Ég pantaði þetta sko ALDREI" eða "Úffffff pantaði ég virkilega 768 skyrtur?!?!" Það er nefnilega fleira en gengið sem breytist á nokkrum mánuðum get ég sagt ykkur. Smekkurinn fer stundum í kollhnís afturábak og minnið með.

Annars er nú afskaplega lítið að frétta héðan sem ekki er heilsutengt. Kolla mín er komin aftur eftir sumarfrí og var virkilega gott og gaman að knúsa hana aftur. Leifur minn er að passa mig í fjarveru Gunnars. Lyfjagjöfin er að fara frekar illa í mig núna, en það var verið að minnka skammtinn aftur og hef ég sterkan grun um að ég sjálf sé ekki enn farin að framleiða kortisól, þannig að Leifur fylgist með að ég fari ekki í skort. En það er alveg búið að setja unga manninn í hvernig hann eigi að bregðast við ef þörf krefur.

Síðan svona rétt í lokin þá bara verð ég að fá að klaga aaaaaaaaaðeins pínkupons. En þannig er að það kom til mín maður í síðustu viku og sagði eftir að hafa horft á mig í smástund "Veistu Tína........ að það eru 2 ár síðan ég kynntist þér en þú hefur elst um 15" Frown Ég varð alveg miður mín og kom hreinlega ekki út úr mér einu orði. Ekki var það meiningin hjá honum að vera kvikindislegur held ég, heldur sé miklu frekar um algjört hugsunarleysi að ræða.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég hef látið á sjá þessa síðustu mánuði EN í guðana bænum ekki benda mér á það sem ég veit. Nóg er nú samt að vita þetta sjálf. Ég er ekki að biðja um að þið segið mér hvað ég líti vel út og svoleiðis, því það er í raun ekki betra þegar augljóst er að svo er ekki. Sumir hafa komið til mín og sagt við mig að ég sé farin að líta betur út en ég gerði t.d í vor............... ÞAÐ er allt annar handleggur að mínu viti, því ég VEIT að það er rétt (alveg makalaust hvað smá brúnka gerir mikið fyrir mann!). Ég veit satt að segja ekki hvað ég er að biðja um. Nema kannski eins og hún Ásdís Sig mín og fleiri hafa sagt svo réttilega

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Eigið nú ljúfar stundir gott fólk.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband