Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Ef þið gætuð breytt einhverju í ykkar lífi í dag - hvaða breyting yrði það?

Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Þetta er örugglega ekki í fyrsta skiptið sem þið hugsið ykkar eigið svar við þessari spurningu - en hvað heldur þá aftur af ykkur?

Hafið þið hugsað út í það að það er aðeins EITT sem þið raunverulega þurfið að gera til þess að allt falli í réttar skorður og þið sjáið breytingarnar eiga sér stað? Þetta hljómar kannski of einfalt, en þetta EINA sem þið þurfið að breyta er ..... hugsunarhátturinn.

Kannist þið ekki við að fólk beri líðan sína bókstaflega utan á sér og lítur ýmist "vel" út eða "illa"? Líkaminn er nefnilega þjónn hugans. Við neikvæðar hugsanir, sekkur líkaminn fljótlega niður í veikindi og slappleika, og fólk lítur illa út. En við jákvæðar og glaðar hugsanir klæðist líkaminn nánast ungdóm og fegurð. Fólk hreinlega geislar.

Hræðsluhugsanir hafa verið þekktar fyrir að drepa fólk jafn örugglega og byssukúla. Þó ekki jafn hratt. Fólk sem lifir í hræðslu við sjúkdóma er fólkið sem mun veikjast. Fólk kallar ósjálfrátt á aðstæður sínar með hugsunarhættinum.

"Hvað með fjármála ástandið eins og það er í dag og allt sem er í gangi alls staðar......... ekki kalla ég það yfir mig!" kunnið þið jafnvel að hugsa. Svarið við þessari spurningu er því miður að vissu leyti "jú þið gerið það" . Þið eruð nefnilega bílstjórar eigin hugans og lífs. Þið breytið kannski ekki ástandinu á fjármálamörkuðum og þess háttar, en þið getið ákveðið hvaða áhrif ástandið fái að hafa á ykkar líf og tilveru. Þið ákveðið sjálf hvað fer í taugarnar á ykkur og hvað ekki. Þið ákveðið sjálf hvort þið ætlið að láta eitthvað ákveðið eyðileggja fyrir ykkur. Eins er það þegar einhver fer alveg í ykkar fínustu og fær ykkur til að líða illa, alveg sama hvað. Það eruð þá þið sem hafið ákveðið að veita viðkomandi valdi yfir því að ákveða hvernig ykkur líður. Til þess að breyta þessu verðið þið að hugsa meðvitað. Setjast niður í smástund áður en allt fer í handaskol og segja við ykkur sjálf "Ég ætti ekki annað eftir en að láta hann/hana ráða því hvernig mér líður".

Sjáið t.d í kreppunni mikluí Bandaríkjunum 1934. Þegar Bill Hewlett og David Packard störtuðu í henni miðri, það sem í dag er með stærstu hugbúnaðarfyrirtækjum heims - HP. Þeir hlustuðu ekki á neikvæðisraddir og fjölmiðla og það ættuð þið heldur ekki að gera. Það eina sem við þurfum að hræðast er hræðslan sjálf.

Takið meðvitaða ákvörðun um að utanaðkomandi áhrif og tímabundið ástand fái ekki að eyðileggja ykkar tilveru. Setjið ykkur markmið og náið þeim. Um leið og þið eruð búin að skrifa markmiðið niður þá er ekkert því til fyrirstöðu að þið náið þeim. Þið þurfið ekkert að setja ykkur gommu af markmiðum til að lífið breytist til batnaðar. Hversu mikið myndi lífsgæði ykkar bætast ef þið næðuð þó ekki væri nema eitt lífsmarkmið á næstu 10 árum.

Verum lífsglöð en umfram allt jákvæð. Allt verður svo miklu auðveldara viðureignar þannig. Þó ekki væri nema vegna þess að það dregur hugann burt frá því sem leiðinlegt er. Gefið ykkur tíma til að  sjá hvað allt er fallegt úti í haustlitunum. Látið svona smáatriði ekki framhjá ykkur fara. Ég ætla að minnsta kosti að brosa mikið í dag........ en þið?

Er þetta ekki bara hin ágætasta hugleiðing fyrir vikuna??

 

Molinn í dag sem jafnframt er vert að tileinka sér: Einu takmörkin í lífi þínu eru þau sem þú setur þér sjálfur.

 


Fréttir af mömmu og myndir.

Þessir síðustu dagar hafa einkennst af ferðum fram og til baka milli Selfoss og Reykjavíkur. Ég má reyndar ekki keyra, en stundum spyrja aðstæður ekki út í svoleiðis smáatriði. Ég ætla að setja hér nokkrar fréttir af mömmu fyrir þá sem hana þekkja og vilja aðeins fylgjast með.

Hún Mamma mín er með þarmalömun og ef ég skildi nú allt saman rétt, þá fékk hún ranga meðferð fyrstu 4 dagana á Akranesi. Þeir hefðu átt að stinga svokallaða sondu niður í maga í gegnum nefið á henni um leið og hún kom þangað inn en það var ekki gert fyrr en á 4 degi þegar hún var send suður. Um leið og það var gert, þá dældust upp úr henni margir lítrar af galli og fylgdi því eðlilega mikinn létti fyrir þessa elsku. Þeir á Landsspítalanum voru hræddir um að mistökin hefðu jafnvel kostað dauða þarmana.

Mamma sýndi ágætis framför og á föstudaginn var hún í það minnsta farin að tuða og skammast, sem í hennar tilfelli er góðs viti. Þess vegna var ákveðið á laugardagsmorgninum að taka úr henni allar slöngur og svoleiðis viðhöld og leyfa henni að byrja að borða. Strax um kvöldið var fjandinn orðinn laus og mömmu snar hrakaði. Kvöldið og nóttin voru henni mjög erfið, en öllum slöngum var snarlega komið fyrir aftur. Málið er að hún móðir mín er með 2 mjög slæm kviðslit. Annað myndar stærðarinnar kúlu framan á henni sem er stærra en hausinn á mér. Þarmarnir eru flæktir þar inn í. Undir vel flestum kringumstæðum myndu læknar bara skera og laga þetta, en í hennar tilfelli er það meira en að segja það. Líkurnar á að hún lifi svoleiðis aðgerð af eru sama sem engar. En ef við reynum að vera jákvæð og hugsum okkur að hún myndi gera það, þá koma upp ný vandamál en þau eru að ef hún lifir aðgerðina af, þá myndi hún líklegast ekki ná andanum og hreinlega kafna ef læknarnir loka kviðslitinu. Ástæðan er einföld. Hún hefur verið með þetta kviðslit í mörg mörg ár og hafa líffærin fengið að stækka frekar frjálslega. Ef öllu yrði troðið inn aftur og net sett yfir þá yrðu öndunarerfiðleikarnir staðreynd. ´

Líðan hennar er stöðug sem stendur og bíðum við nú eftir því að læknarnir taki ákvörðun um framhaldið. 

En að öðru......... loksins getið þið farið að skoða nokkrar myndir af utanlandsreisu okkar hjóna. Ég verð reyndar að setja þetta inn í skömmtum því ómægod hvað þetta eru margar myndir!!! Það er nú ekki mikið mál að setja myndir inn, en þetta er lúmskur tímaþjófur. Bæði er ég búin að skíra myndirnar en svo fyrir neðan flestar myndir er smá skýringartexti. Meðal annars er þarna ein skýringamynd fyrir þig Einar minn. Finndu hana nú Tounge. Þið getið annað hvort farið hér eða farið í "myndaalbúm" og þar í möppu sem örugglega mörgum til mikillar furðu, heitir "Noregur".

Næst set ég inn myndir sem teknar voru í Þýskalandi.

En áður en ég hætti þá langar mig að þakka fyrir öll fallegu commentin sem skilin voru eftir við síðustu færslu. Ég get sagt ykkur hreinskilnislega að ég er búin að skipta litum eins og litaspjald. Ég las bloggið aftur og aftur til að skilja af hverju ég ætti skilið að fá svona falleg comment en varð engu nær. Ég ákvað því að mér bæri að þakka fyrir mig og njóta þess að mikið er til af yndislegu og hjartahlýju fólki.

 

Molinn í dag er: Það er í mótlætinu og sorginni  sem tækifærin skapast og möguleikarnir til að gleðjast aftur yfir því smáa opnast. - Höfundur Tína


You have to do it with a smile.

Meðan við hjónin vorum í Noregi í gsm og netleysi þá eyddi ég miklum tíma í lestur og íhugun. Hrikalega spennandi kunna sumir að hugsa, en ég get með sanni sagt að þarna opnaðist fyrir mér nýr heimur.

Ég tók nefnilega með mér bók sem heitir "Mikael handbókin, þú lifir aftur og aftur". Hún fjallar um sálarferil hvers manns og andlegur þroski. Hún er í rauninni of margbrotin og flókin til að telja upp hér um hvað hún fjallar nákvæmlega, en ég mæli eindregið með henni. Ég er alveg ógurlegur spíritísti í mér og drekk í mig allt sem snýr að andlegum málefnum. En þið þurfið ekki endilega að vera sammála því að líf sé að loknu þessu eða hlynnt andlegum málefnum til að setjast niður í smástund og skoða ykkar innra sjálf. Hver eru þið? Hvað getið þið lært af reynslunni sem þið verðið fyrir? Hver er tilgangurinn með lífinu?  Hvað langar ykkur til að fá út úr þessari jarðvist? Dugir ykkur lífsgæðakapphlaupið eða viljið þið kafa dýpra?

Lestur þessarar bókar fékk mig til að staldra aðeins við og hugsa "Hvers vegna er ég hér og hvað er það sem ég ætla að læra með þessari jarðvíst?" Ég hljóp hratt yfir þau tæplegu 37 ár sem ég hef lifað og komst furðu fljótt að niðurstöðu. Mér er hreinlega ætlað að læra þolinmæði og æðruleysi. Þolinmæði í víðustu merkingu þess orðs. Allt frá því að temja mér þolinmæði í umferðinni til þess að hlutirnir hreinlega gerast á þeim hraða sem þeim er ætlað, og að engin pirringur í veröldinni eða óþolinmæði fái því breytt svo vel sé. Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki þá er það að bíða og að hlutirnir gerist ekki alltaf þegar mér hentar. Og mér gengur bara ansi vel á þolinmæðisbrautinni þó ég segi sjálf frá en á samt slatta eftir í land. En þetta kemur hægt og bítandi.

En þá komum við að æðruleysinu. Af hverju tel ég að mér sé ætlað að temja mér það? Ég ætla nú að forða ykkur frá því að þurfa að lesa um allt sem ég hef upplifað á minni lífsleið en ætla aðeins að renna yfir þetta ár sem blessunarlega er bráðum á enda runnið. Í byrjun ársins fundust æxlin í heilanum og nýrnahettu, og hefur það sem komið er af árinu snúist um baráttuna við þennan sjúkdóm. Í vor lést Gunnhildur amma Gunnars og daginn sem hún var jörðuð þá dó amma mín. Jarðskjálftinn kom svo í maí sem lagði heimilið okkar í rúst aðeins 10 dögum eftir stóra aðgerð sem ég fór í. Í byrjun september mánaðar lést fóstursonur minn. Núna liggur hún móðir mín elskuleg hættulega veik á Landsspítalanum og er mjög tvísýnt um hana. Einnig er gengishrunið að gera rekstur búðarinnar mjög erfitt fyrir, sérstaklega þar sem við flytjum allt inn sjálf.

En þrátt fyrir þetta allt þá erum við hjónin hvergi á því að láta bugast. Sum hjónabönd þola ekki svona álag. En þetta hefur styrkt okkur. Ég hef alla tíð vitað hversu lánsöm ég er með minn eiginmann, ég hef bara fengið staðfestingu á því á þessu ári. Og á hverjum degi styrkist ég í þessari skoðun minni. Þetta hefur allt þjappað fjölskyldunni saman og við vitum að við munum standa þetta allt saman af okkur. Því ekkert getur grandað svona sterka einingu. Það er mín einlæga trú. Og það er ein setning sem gestgjafi okkar Kjell Aage í Noregi segir alltaf þegar á móti blæs eða eitthvað er leiðinlegt sem þarf samt að gera og hún er "You have to do it with a smile" Og vitiði hvað? Þetta er svo rétt hjá honum og einfaldar svo allt saman.

En á ég að segja ykkur svolítið? Ég ætlaði alls ekki að skrifa um þetta þegar ég ákvað að skrifa færslu, heldur ætlaði ég að láta ykkur vita að maðurinn minn elskulegi kom færandi hendi heim í gær með nýja höggþolna tölvu (ég missti nefnilega hina í gólfið þegar ég fékk aðsvif). Þannig að núna er ekkert því til fyrirstöðu að ég fari að hlaða inn myndum af utanlandsreisu okkar hjóna.

Ég ætla því að láta hér staðar numið í dag og sendi ykkur orkuknús inn í daginn ykkar og áður en þið farið að sofa í kvöld þá langar mig að biðja ykkur að gefa ykkur örlitla stund og hugsa hvaða lærdóm þið dragið af þessum degi.

 

 Molinn í dag hljómar svona: Ef þú veist ekki hvert þú stefnir, endar þú örugglega einhvers staðar annars staðar. Laurence J. Peter.

 


Misnotkun á aðstöðu.

Það hlaut að koma að því að ég myndi misnota mér bloggið!!! En þar sem þó nokkuð margir eru farnir að líta á þessar hugrenningar mínar þá langar mig að prufa svolítið. Og ég skammast mín ekkert fyrir það.

Eins og flestir er kannski búnir að komast að þá er því miður aftur komin upp sú staða í þjóðfélaginu að það er varla vinnu að fá nema í gegnum klíkuskap. Ég vonaði innilega að börnin mín þyrftu ekki að kynnast þessa stöðu, en kannski hafa þau bara gott af því að finna að það er ekki allt auðvelt. Þau eru alin upp í velmegun þar sem hægt var að skipta um vinnu ef hitt var ekki alveg nógu gott og svo framvegis.

En þá að misnotkuninni................................. Honum Leifi mínum langar afskaplega mikið að komast á sjó og hefur leitað víða en því miður hefur árangurinn orðið enginn. Ef einhver sem les þetta veit um pláss fyrir hann eða þekkir einhvern sem vantar mann, þá yrði ég svo afskaplega þakklát og gott betur en það ef hann/hún myndi láta mig vita. Hægt er þá að senda mér tölvupóst á christinedevolder@msn.com . Eins og fyrr segir hefur hann verið ansi iðinn við að leita sjálfur en ekkert gengið. Það sem helst hefur staðið honum fyrir þrifum er að hann hefur enga reynslu, en hvernig í ósköpunum á hann að öðlast hana ef hann fær hvergi tækifæri??? Langar mig því að kanna hvort þessi leið sé líklegri til árangurs.

Hér eru svo nokkrar upplýsingar um manninn.

Leifur er að verða tvítugur, hörkuduglegur sem kallar ekki allt ömmu sína. Hann er búin að skrá sig á byrjendanámskeiði, en það er víst skilyrði til að komast á sjóinn. Eins og ég var búin að taka fram að þá hefur hann enga reynslu en ofgnótt af áhuga sem og vilja. Hann er búsettur hérna hjá okkur hjónum á Selfossi en setur það ekki fyrir sér að þurfa t.d að fara til Eyja til að komast á sjóinn. Áhuginn er svo mikill hjá honum að sjógallinn og allt sem hann þyrfti að hafa með sér er löngu orðið klárt og taskan tilbúin ef kallið kemur. Hann getur s.s byrjað hvenær sem er. Þess vegna í dag ef því er að skipta. En ef ykkur vantar einn duglegan í dag þá mæli ég með því að hringt verði í búðina okkar Blaze, þar sem ávallt einhver er við símann. Síminn þar er 482-4824 eða þið getið sent póst á blaze@blaze.is og yrði hann þá strax látinn vita og viðeigandi ráðstafanir gerðar til að hann komist þá strax um borð.

Nú vona ég bara inn að innstu hjartarótum að þessi leið skili árangri, en ég kemst víst ekki að því nema prufa hana. Einnig langar mig að þakka fyrirfram fyrir okkur þó svo þetta skili engu. Tilraunin er þess virði.

Hjartans knús inn í daginn hjá ykkur öllum.

 

Molinn í dag hlýtur því að tengjast það sem ég er að gera með þessari færslu ekki satt: Af góðum hug koma góð verk.

 


Taktu ábyrgðina

Hvað segið þið gott fólk............... finnst ykkur ekki alveg vera kominn tími á nýja speki hjá mér? Ef svo, haldið áfram að lesa, en ef ekki........ well þá mæli ég með því að þið haldið áfram að lesa. Aldrei að vita nema það sé smá vit í þessu Cool.

Eitt af stóru veikleikum þjóðfélagsins í dag, er viðhorf okkar til fórnalambshlutverksins. Margir telja sig vera fórnalamb utanaðkomandi aðstæðna. "Ég þurfti að láta lýsa mig gjaldþrota vegna fyrrverandi maka..", "Ef fyrirtækið sem ég vann hjá hefði ekki sagt mér upp..", Ef þessi bílstjóri hefði ekki snögghemlað fyrir framan mig..".

Þegar við erum fórnalömb atburða, eða verur utanaðkomandi ástands, þá höfum við ekkert vald. Við höfum þá gefið atburði lífsins valdið. Því lengur sem við gefum atburðina vald, því verri verða aðstæðurnar.

Spekingur að nafni James Allen, sem ég hef miklar mætur á, skrifaði í bók sem hann gaf út (Above life's turmoil) "Þú ímyndar þér aðstæður þínar vera aðskilda frá sjálfum þér, en þau eru innilega skyld þínum hugsunarheimi. Ekkert gerist án fullnægjandi orsaka."

Til að ná stjórn á ástandinu verðum við fyrst að viðurkenna okkar eigin ábyrgð á því hvers vegna við erum þar sem við erum. Þetta reyndist mér hvað erfiðast af því að "fórnalambið" í okkur öllum vill alls ekki taka þessa ábyrgð.

Þegar við tökum ábyrgðina verðum við síðan að ná stjórn á hugsunarhættinum. Og já, því verður ekki neitað að oft getur það reynst ansi erfitt. Það virðist nefnilega vera í okkar eðli að hugsa fyrst á neikvæðan hátt. En þetta er einungis vegna þess að við höfum vanið okkur á það. Og eins og er með allt sem snýr að vana, þá er hægt að skipta því út fyrir vana þess að hugsa rétt.

Emmet Fox sagði einhverju sinni "Þú ert ekki hamingjusamur af því þér líður vel. Þér líður vel af því þú ert hamingjusamur. Þú ert ekki þunglyndur vegna þess að vandamál komu upp, vandamálin komu vegna þess að þú varst þunglyndur" Þið getið breytt hugsunarhættinum og tilfinningunum, og þá breytast utanaðkomandi aðstæður í samræmi við það.

 

Og þetta held ég að sé þess virði að leiða hugann að þessa vikuna. Hafið það alveg truflaðslega gott í dag og ef eitthvað leiðinlegt kemur upp sem þarf að gera....................... gerið það þá með bros á vör.

 

Molinn í dag er því í takt við pistilinn: Við berum ekki aðeins ábyrgð á þvi sem við gerum heldur einnig á því sem við látum ógert. - Moliére

 

 


Miss me?

Jæja elskurnar mínar.......... þá er ég komin aftur og vona að fráhvarfseinkennin hafi ekki alveg farið með ykkur.

Því miður að þá dó tölvan mín og get ég því ekki sett neinar myndir inn á enn sem komið er. En ég er að vinna í þessu. Þessa stundina er ég í tölvu eiginmannsins en þetta er vinnutölvan hans og þess vegna er ég ekki að hlaða inn neinar myndir. Þið bíðið bara róleg er það ekki?

En að ferðinni........................... hún var einu orði sagt ÆÐISLEG. Gestgjafarnir Kjell Aage og Lill búa á fallegasta stað sem ég hef séð og í enn fallegra húsi. Bíðið bara þar til þið sjáið myndirnar!! En húsið var svo klikkað að ég gerði mér lítið fyrir og bað hreinlega um teikningarnar af húsinu Tounge og fannst þeim það nú lítið mál. Þannig að framtíðarplanið er að byggja eitt stykki svona hús þegar ég er orðin rík. Takk fyrir.

Þarna var ekkert gsm samband eða netsamband. Sveitakyrrðin s.s í hámarki. Húsið er umkringt skógi og á bak við húsið rennur á þar sem Gunnar reyndi að veiða. Það eina sem hann veiddi reyndar var 1 stk tré LoL. Ég meina........... það er nú ekki beint eins og hann sé vanur að hafa risatré í veginum þegar hann er að kasta út í. Maturinn sem fram var borin þarna var ótrúlegur og smökkuðum við margt í fyrsta skipti. T.d fengum við dúfu bringur, fullorðin humar (ekki eins og hérna heima), krabba, elg og margt fleira. Þarna var heldur ekkert horft á sjónvarp. Þetta var s.s afslöppun út í eitt og algjör hvíld fram á miðvikudag. Ekkert verslaði ég nú í Noregi, enda allt suddalega dýrt þarna. Fyndið að segja þetta komandi frá rándýru landi sjálf.

Á miðvikudeginum flugum við til Þýskalands en stefnan var sett á Moseldalinn, eða til Traben nánar tiltekið . Mikið svakalega er nú fallegt þar. Þarna sleit ég lappirnar upp að hnjám get ég sagt ykkur. Það eina sem við gerðum frá morgni og fram á kvöld var að borða, labba, borða, labba og svo var farið heim að sofa. Þarna voru vínberja raðirnar hvert sem litið var.  Líka fannst mér hrikalega fyndið að sjá að allsstaðar voru drykkjardallar fyrir hunda. í öllum verslunargötum og veitingastöðum, en hvergi gat ég fundið öskubakka!! Nema að sjálfsögðu við veitingastaðina. Við hjónin fórum þarna á safn sem snerist eingöngu um icona. Margt af þessu var afar fallegt og örugglega þræl merkilegt. Verst að allir textar við þessar myndir voru eingöngu á þýsku, þannig að við skildum ekki bofs. Ég verð nú að viðurkenna að mér fannst þetta alveg stór furðulegt í ljósi þess að á sama stað var tourist information. Sömu sögu er að segja um matseðlana á veitingastöðunum. Mig minnir að það hafi aðeins verið einn staður sem bauð upp á enskum texta á matseðlinum. Annars vissi ég hvernig sveppur er á þýsku, og leitaði ég alltaf að því orði á seðlinum og pantaði það. Fékk að vísu þrisvar pasta með sveppum, en það er önnur saga Grin.

Leiðin lá svo aftur til Noregs á laugardeginum og gistum við Gunnar í Osló síðustu nóttina. Og svo komum við heim í gær. Leifur stóð sig eins og hetja og Kristján líka. Fyndið samt hvernig Leifur varð hálfgerð mamma meðan við vorum í burtu. Hann þvoði þvott og þreif húsið, eldaði og stóð sig að öllu leyti eins og best verður á kosið. Að sjálfsögðu heyrði ég í honum á hverjum degi og gat ekki hamið mig þegar ég hlustaði á hann tuða um hversu erfitt væri að koma Kristjáni á fætur og svona fram eftir götunum. Ég hló alveg óskaplega mikið að þessu.

Það var alveg hrikalega gott að komast aðeins burt og best var að Gunnar minn náði aldeilis að hvíla sig og hlaða batteríin. En til þess var leikurinn nú einu sinni gerður. En mikið afskaplega var nú gott að koma heim samt. Nú tekur hversdagslífið við aftur og því verður tekið með bros á vör.

Hlakka mikið til að heyra frá ykkur aftur.

Og nú er alveg kominn tími á nýjum mola: Besta prófið á greind okkar er hvað við gerum í frítímanum. - ókunnur höfundur.


Ég fer í fríið

Jább þið lásuð þetta rétt. Ég er sum sé að fara í frí í viku með eiginmanninum og við förum á morgun. Þetta var ákveðið í apríl en eins og þið vitið að þá er alltaf/oft oggulítið vesen á mér, þannig að það er ekki fyrr en í dag sem ég leyfi mér að segja að ég sé að fara í fríið.

Kjell Aage Hemm heitir eigandi fatamerkisins Jameson, sem við flytjum inn. Hann var hér á Íslandi í apríl þegar ég var mjög slæm. Þá tilkynnti hann okkur það að hann ætlaði að bjóða okkur heim til sín til Noregs núna í september og skikka okkur í viku frí. Hann lét ekki standa við orðin tóm heldur pantaði miðana og við förum á morgun og komum til baka sunnudaginn 21 sept. Þannig að þið fáið frið fyrir mér í heila viku. Guð einn veit að elskulegur eiginmaður minn veitir ekki af smá fríi. Auðvitað hef ég líka gott af því, en ég geri fjandakornið ekki neitt heilu og hálfu dagana meðan hann er eins og þeytispjald um allar trissur.

Spáið aðeins í þessu........þetta verður fyrsta frí okkar hjóna saman í 8 ár. Jújú við höfum farið saman til útlanda og svona, en þá var það alltaf vegna vinnu (innkaupaferðir) eða ráðstefnur og þess háttar. En núna hangir ekkert annað á spýtunni en hvíld. Við ætluðum reyndar að taka okkar fyrsta sameiginlega frí í maí en þá kom blessaði jarðskjálftinn og hristi aðeins upp í þessa áætlun. Þannig að við fljúgum til Osló á morgun og mun Kjell koma og sækja okkur og fara með okkur heim til sín sem er í Sandefjord <--- gæti þurft að leiðrétta þetta. Síðan á miðvikudaginn fljúgum við ásamt Kjell og hans frú, til Þýskalands þar sem sonur þeirra hjóna á sumarhús í Moseldalnum <--- gæti líka þurft að leiðrétta þetta.  Vissuð þið að Mosel væri í Þýskalandi? Ég hélt þetta væri í Noregi og var ekki alveg að skilja þessa ferðaáætlun en ákvað að vera bara farþegi og láta karlinn um þetta. Fékk svo skýringu á þessu öllu þegar Gunnar sagði mömmu sinni ferðaáætlunina. En í Mosel verðum við til laugardags, en þá förum við aftur til Noregs og heim á sunnudaginn.

Ég þarf að taka svo mikið af lyfjum með mér og vona ég innilega að það verði ekki gert leit hjá mér. Yrði örugglega sökuð um inn eða útflutning Police 

Annars er ég nokkuð góð þessa dagana. Fyrir utan að geta varla sofið. Ég reyndi að ná á hana Helgu lækni til að hún gæti breytt lyfjaskammtinum svo ég geti sofið. En hún er í útlöndum og kemur ekki aftur fyrr en á þriðjudag. Ég verð því að sætta mig við þetta þar til þá. Sjónin á vinstra auga fer versnandi og næ ég því orðið aldrei í fókus. Þannig er að sjóntaugarnar liggja í kringum heiladingulinn og líklegt er að æxlið sé farið að stækka og þannig farið að þrysta á sjóntaugarnar. Þetta er að vísu ekki alslæmt, því ég virðist alltaf vera að blikka alla hægri vinstri þegar ég reyni að ná fókus og ég held svei mér þá að það sé bara nokkuð sætt Wink. Það góða er að ég er hætt að kasta upp og ógleðin er að mestu horfin. Og núna er ég að minnsta kosti með meðvitund. Kannski full mikla, en með meðvitund engu að síður. Við skulum ekki gera lítið úr því.

Reynið nú að sakna mín ekkert allt of mikið meðan ég er í burtu en usssss hvað ég á eftir að sakna ykkar samt.

Molin að þessu sinni á því að duga út vikuna: Heimurinn er eins og býflugnabú. Við komum öll inn um sömu dyr en búum í mismunandi hólfum. - Afrískur málsháttur.

Knús á ykkur öll og við skjáumst fljótlega.


Það borgar sig stundum að hugsa

SKO.................. Þegar Tína er andvaka og fer að hugsa, þá gerast hlutirnir get ég sagt ykkur. Í það minnsta stundum. Við skulum passa upp á hógværðina hérna Whistling

En þið kannski munið að ég talaði um í þar síðustu færslu hvort ég væri kannski að nota veikindin sem afsökun fyrir að hafa mig ekki til og svoleiðis? Well, ég tók mig s.s til í gær og málaði mig!!! Jessöríí ég er ekki að grínast. Ég var að fara á kaffihús að hitta nokkrar bloggvinkonur og þar sem þær eru hver annarri fallegri, ákvað ég að það minnsta sem ég gæti gert væri nú að setja á mig andlit. Að vísu kom í ljós við þessa andlitsaðgerð að það væri nú bara fjári langt síðan ég hefði notað þetta stöff sem kallast snyrtidót. Ef við eigum að fara út í einhver smáatriði hérna, þá eru reyndar margir mánuðir síðan. Hef í mesta lagi notað maskara. Ég var t.d búin að gleyma að meikið mitt væri vatnshelt. Þegar ég ætlaði að reyna að þvo mér um hendurnar að þá kristallaðist bara vatnið í lófunum á mér. Þarna stóð ég eins og algjör álfur og var ekki alveg klár á hvað ég ætti að gera. Ekki vildi ég þurrka af höndunum í handklæðið. Það endaði á því að ég hristi hendurnar eins og ég gat og þurrkaði síðan það sem eftir var framan í mig Blush. Ég var orðin eins og klessuverk, en þetta bjargaðist nú fyrir rest. Þetta tókst meira að segja svo vel að hann Kristján minn sagði "mikið ofboðslega ertu nú falleg mamma mín" InLove

Blóm

 

 

Hann Gunnar minn var svo ánægður með þetta að hann sendi mér þennan blómbönd Heart 

It seems like I still have my mojo Wink

 

 

kort

 

 

 Og á kortinu stóð......................... "meira svona" LoL

 

 

 

En eins og fyrr sagði þá hitti ég þær Hrönn, Þórdísi (Zordís) og Sollu (Ollasak), og það var mikið spjallað, hlegið og spáð í bolla. Einnig fékk ég þá færi á að kveðja hana Þórdísi áður en hún fer heim til sín aftur. En hún býr á Spáni.

Sigurlín elskuleg vinkona kom svo í heimsókn til mín um kvöldið og var óborganleg. Hún er það reyndar alltaf, en þarna sló hún öll met. Það sem valt ekki upp úr kellingunni!!!

 

Þóra er síðan með yndislegri stelpum sem ég hef kynnst.  En hún krúttleg                                                  kom eins og himnasending til Leifs. Hún hefur reynst honum ómetanleg þessa síðustu daga og er hrein unun að sjá þau tvö. Þegar ég fór að sofa í gærkvöldi, þá sátu þau úti og voru bara að tala saman. Mér fannst sjónin svo krúttleg að ég mátti til með að taka af þeim mynd.

 

 

 

Þegar á heildina er litið þá var þetta nokkuð góður dagur. Hann vakti mig til umhugsunar og vonandi til betri vegar. Spurning hvort svefnleysið sé að fara svona með mig Shocking . Ég meina........ spáum aðeins í það........ það er varla að ég hafi sofið svo heitið geti síðan lyfjaskammturinn var hækkaður, og þetta er afraksturinn.

Molinn hljómar þess vegna svona: Fátt er með svo öllu illt að ei boði nokkuð gott. - Man ekki hver.

Farið vel með ykkur í dag og njótið þess sem lífið hefur upp á að bjóða þrátt fyrir allt, eða kannski einmitt vegna þess.

Kram, kreist og knús á línuna.

 

 


Kertasíða Sverris

Leifur og ég ákváðum að opna svona kertasíðu til minningar um Sverri Franz, sem eins og logandi kerti, lýsti ávallt upp sitt nánasta umhverfi.

Við hvetjum ykkur til að kveikja á kerti fyrir hann og megir þú njóta Guðs blessunnar fyrir. Slóðina getið þið fundið hér til hliðar í tenglum eða farið á  http://www.gratefulness.org/candles/candles.cfm?l=eng&gi=SFG

 

Molinn: Betra er að tendra eitt ljós en að bölva myrkrinu. - Konfúsíus


Erfiðleikar

Flestir sem lesa þessar hugleiðingar mínar halda örugglega að ég skrifi þær bara handa öðrum. Sannleikurinn er sá að ég skrifa þær alveg eins fyrir mig. Ég þarf jafn mikið ef ekki meira á þeim að halda og þið sem þetta lesið.

Fyrir nokkrum dögum þurfti ég að horfast í augu við erfiðleika sem fylltu mig miklum kvíða. Við þurfum ansi oft að eiga við einhverja erfiðleika eða vandamál og sum þeirra eru alls ekki ný eða koma neitt óvænt. En þetta er eitt af þeim erfiðleikum sem fá mann til að vilja breiða yfir sig sængina á morgnana.

Einhvern tímann las ég setningu sem ég hef aldrei getað gleymt.... og hún segir manni að það eru engir erfiðleikar til að vera haldin kvíða yfir. Við getum annaðhvort leyst vandamálin eða þá að það er ómögulegt að leysa þau. Minnir mann svolítið á æðruleysisbænina er það ekki?

Eftir að ég veiktist þá hef ég átt ófáar andvökunætur. En mér tókst að finna eitt gott við þær. Það er nefnilega á nóttinni sem maður hefur frið til að hugsa Wink Og nóttin sem er nú senn að líða er engin undantekning þar á. Ég fór að hugsa um það af hverju lífið væri svona erfitt. Og þá laust niður fullt af spurningum................... Getur verið að ég sé að gera þetta allt saman erfiðara en það ætti að vera? Getur verið að ég sé að nota veikindin sem afsökun fyrir ansi mörgu? Afsökun fyrir hverju kunnið þið að spyrja ykkur, ekki satt? Hérna eru nokkur dæmi:

Afsökun til að vera fórnalamb og fá klapp á bakið og athygli fyrir dugnað og hetjuskap

Afsökun til að gera ekki hlutina af því ég er svo slöpp.

Afsökun fyrir því að hafa mig ekki til og vera bara illa útlítandi "það sést hvort eð er að ég er með bauga og..........."

Afsökun til að vera bara niðurdregin af því þetta er allt svo afskaplega erfitt og ósanngjarnt.

Svona mætti lengi telja. Þið hugsið kannski með ykkur núna "Já en hún er svo dugleg og svona". En er ég það? Jú sjálfsagt er ég það líka enda held ég að meðan maður dregur andann þá sé ekki annað hægt. En oft á tíðum hef ég grun um að þetta sé bara sýning sem ég er að halda út á við í stað þess að taka raunverulega á málinu. Ég veit það ekki, en ég gæti sem best trúað því að ansi oft sé það raunin. Og á þetta ekki við um okkur öll að við þörfnumst hvatningar þegar á reynir og gerum það sem þarf til að öðlast það.

Gefum okkur smá tíma og spáum í hvernig við högum okkur þegar vandamál ber að garði. Gefum okkur tíma til að hugsa hvort þetta sé alltaf jafn slæmt og við viljum vera láta. Eða hvort það sé ekki hreinlega komin tími til að taka hausinn út úr rassgatinu og halda áfram að lifa.

Molinn í dag er því bæn sem við höfum flest heyrt ansi oft en gleymum alltaf jafn óðum:

 

 

ÆÐRULEYSISBÆNIN.

Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, 

kjark til að breyta því sem ég get breytt,

og vit til að greina þar á milli.

Njótið dagsins elskurnar mínar nær og fjær. Og knús frá einni sem á það til að hugsa of mikið LoL


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband