Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Enn ein pælingin

Kannast þú við að fara allt í einu að hugsa um eitthvað sem þú hefur gert einhverjum eða sagt sem var kannski miður fallegt? Það kemur ansi oft fyrir mig nú til dags og fer ég þá ósjálfrátt að gretta mig og hjartað í mér herpist við tilhugsunina. Um leið spyr ég sjálfa mig "hvað varstu að hugsa þá og hver var nákvæmlega tilgangurinn með þessu?"

Helst langar mig þá að hlaupa af stað og biðja viðkomandi fyrirgefningar á gjörðum mínum og/eða orðum. En hver væri hugsunin á bak við? Væri ég að þessu til að hinum líði betur eða til að friða sjálfa mig og mína samvisku?

Sannleikurinn skal sagður hér og er ég hrædd um að hið siðarnefnda væri rétta ástæðan. Jújú ég get svo sem talið sjálfri mér trú um að ég væri að þessu til að hinum líði betur og væri það sjálfsagt líka viljinn með því, en við vitum öll að það væri ekki allskostar rétt. Sennilegast er viðkomandi búin að jafna sig á særindunum að því marki að þetta hefur engin áhrif á hið daglega líf.

En hvað get ég þá gert þegar samviskan bankar upp á vegna liðinna atburða? Mín skoðun er að tvennt verði að koma til. Það fyrsta er að iðrast einlæglega og hitt er að læra af reynslunni. Staðreyndin er sú að annað má sín lítils ef hitt fylgir ekki. Ég tel heldur ekki nóg að segja mér sjálfri mér að þetta ætli ég aldrei að gera aftur. Því eftir stendur að ég særði einhvern og verð ég að bæta fyrir það. Mitt mat er að best sé að vera einhversstaðar ein með sjálfri mér og gefa mér svo tíma til að setja mig spor þess sem fyrir varð, helst þar til ég skynja sársaukann sem ég olli með framferði mínu. Þetta held ég að sé eina leiðin til að iðrast einlæglega og læra af reynslunni.

Ansi oft bregst ég við aðstæðum án þess að hugsa. T.d get ég nefnt eitt af því sem ég þoli ekki, en það er léleg þjónusta. En hver þykist ég vera? Er ég svona óskaplega sjálfhverf og merkileg að mér sé gjörsamlega fyrirmunað að gefa gaum að því að kannski líður afgreiðslumanninum ekki vel á sálinni, í hjartanu eða líkamlega? Ætla ég virkilega að vera sú sem bætir á vanlíðan viðkomanda? Dóttir mín vinnur við afgreiðslu og hefur það ansi oft komið fyrir að hún kemur eyðilögð heim vegna framkomu viðskiptavina. Hún hefur sagt mér að stundum sé hún bara búin að fá nóg af ömurlegri framkomu manna að þegar svo kemur einn almennilegur þá sé það henni nánast um megn að vera almennileg á móti.

Lítum okkur nær og tökum aðeins til hjá okkur og okkar framkomu. Ég veit ekki með ykkur en svo sannarlega langar mig ekki til að vera manneskjan sem eyðileggur daginn fyrir öðrum. Þess vegna ætla ég að æfa mig í að setja mig í spor annarra.

Það býr kærleikur og samkennd í okkur öllum. Dreifum því í kringum okkur. Brosum meira, því meðan við brosum er erfitt að hnussa, agnúast út í aðra, hvæsa eða vera með leiðindi.

 

Guð geymi ykkur öll, fangið ljósið sem býr innra með ykkur og látið það lýsa upp ykkar tilveru.

 

 

Molinn:  Það skiptir ekki mestu að bæta árum við líf sitt, heldur hitt, að bæta lífi við ár sín. - Alexis Carrel


Hugleiðing

 

Meðan ég sat og hlustaði á þetta lag með lokuð augu, varð mér hugsað til ykkar vina minna nær og fjær, sem standa hjarta mínu næst. Þetta lag fyllti hjarta mitt af kærleik og sendi ég það allt upp til himna fyrir ykkur og langar mig því að deila þessu með ykkur. Hlustið á það og hugsið til allra sem standa hjarta ykkar nær um leið og þið finnið hvernig sál ykkar og hjarta fyllist af hlýju.

 

Jafnframt er hér smá hugleiðing sem vert er að hafa í huga. Vinkona mín sendi mér þetta.

 

Lag af ryki verndar viðinn undir því..... Húsið verður heimilislegra þegar þú getur skrifað "Ég elska þig" í rykið á húsgögnunum. Ég var vön að eyða endalausum tíma í þrif um hverja helgi til þess að vera viss um að allt væri fullkomið ef að einhver skyldi koma óvænt í heimsókn. Að lokum uppgötvaði ég að það kom engin í heimsókn því það voru allir úti að skemmta sér ! !

Jæja.......... en þegar fólk kemur í heimsókn, þá þarf ég ekki að útskýra ástandið á heimilinu. Þeir hafa meiri áhuga á að heyra um þá hluti sem ég hef verið að gera á meðan ég var úti á lífinu að skemmta mér. 

Ef þú hefur ekki uppgötvað þetta ennþá, þá skaltu fara eftir þessu heilræði: Lífið er stutt............... njóttu þess ! ! ! !

Þurrkaðu af ef þú verður, en þá verður ekki mikill tími til; að synda í ám  og klifa fjöll, hlusta á tónlist og lesa bækur. Fagna með vinum og lifa lífinu. 

Þurrkaðu af ef þú verður..... en væri ekki betra að mála mynd eða skrifa bréf, baka smákökur eða kökur og sleikja sleifina, eða sá fræi? Hugleiddi muninn á því sem þú vilt eða þarft. 

Þurrkaðu af ef þú verður..... en heimurinn bíður eftir þér þarna úti, með sólskinið í augum þínum, vindinn í hárinu, flögrandi snjókornum eða fíngerðum úða. 

Þessi dagur kemur ekki aftur og þegar þú ferð - og þú verður að fara, þá munt þú sjálf/sjálfur skapa meira ryk

Það er ekki það sem þú safnar, heldur það sem þú sáir sem segir til um það hvernig lífi þú hefur lifað.

 

Molinn er tileinkaður lífinu. Nýttu sem best það sem er á þínu valdi, taktu öðru bara eins og það kemur fyrir. 


Mýslan mín

Agnes

 

í dag er það mýslan mín hún Agnes sem á afmæli og er hún 19 ára í dag. Þó að hún sé langminnst að þá var samt LANGerfiðast að koma henni inn í þennan heim. Hún Agnes mín er líka eina stelpan í hópnum. Hún er sú allra rólegasta og jafnframt sú alvörugefnasta. Hún er líkust mér og minnir mig afskaplega á sjálfa mig þegar ég var yngri. Það er ekki til að dóttir mín geri eitthvað af sér, það er bara ekki í henni. Eins og er með mig þá fæddist þessi drottning fullorðin. Og dugleg er hún. Því miður er hún orðin fullorðin og er flutt að heiman, þannig að ég gat ekki kysst hana til hamingju með daginn en sendi henni þess í stað fljúgandi koss hér í gegnum netið. Einnig er þessari drottningu minni gjörsamlega fyrirmunað að vera með símann á sér, en þegar hún er með hann þá er ansi oft slökkt á honum. Kom það mér því ekki mikið á óvart þegar ég hringdi í morgun að hún skuli ekki svara, en hún hringdi nú til baka fljótlega.

 

Til hamingju með 19 árið þitt hjartans Mýslan mín. Og ég hlakka mikið til að sjá þig fljótlega. Hér er svo moli sem mig langar að tileinka þér krútta og vona að þú hugsir mikið um hann á þessu ári. Gleymdu svo aldrei hversu heitt ég elska þig stelpa,

 

Uppspretta hamingjunnar er í hjarta þínu, ekki í umhverfinu í kringum þig.


Orlofið búið

Jæja yndislega fólk, þá er orlofið mitt búið og ég komin heim.

Þegar ég kvaddi starfsfólkið á deildinni þá spurðu þær hvernig ég hefði nú haft það í orlofinu. "Ég er búin að hafa það mjög gott, góð þjónusta og yndislegt starfsfólk. Verst þið misskilduð þetta fyrstu 3 sólarhringana þar sem þið trufluðuð mig á 4 tíma fresti til að taka úr mér blóð" sagði ég og glotti feitt. Þá var einn sjúkraliðinn fljót að svara og sagði "ÞAÐ VORU BARA HJÚKKURNAR" um leið og hún benti á eina. LoL

Sérfræðingurinn kom til að útskrifa mig um leið og hún sagði mér hvað hefði komið út úr öllum þessum rannsóknum. Það eina sem hún gat sagt var að niðurstöðurnar meikuðu engan veginn sens og að hún hefði bara aldrei séð þetta áður. Hún var með helling af línuritum til að útskýra sitt mál, en ég var bara engu nær. Fyrir mér voru þetta bara línur á blaði. Ég meina....... ef þetta meikar ekki sens fyrir hana..... hvernig átti það þá að gera það fyrir mig? Er von maður spyrji. En hún er enn að bíða eftir fleiri niðurstöðum og ætlar þá að funda með fleiri innkirtlasérfræðingum og reyna að fá botn í þetta. 

Þó furðulegt megi virðast þá gerðist nú margt skemmtilegt þarna enda starfsfólkið með eindæmum skemmtilegt. Ekki ætla ég að telja þetta allt saman upp en ég verð að minnast á eitt. Einn daginn lá ég þarna í rúminu og var ég að lesa. Einn herbergisfélagi minn var með gest hjá sér og var mikið fjör hjá dömunum. Allt í einu heyri ég að þær eru eitthvað að rembast við að lesa frönsku. Þá er gesturinn víst að læra kokkinn og þarf hún núna að læra heitin á fagmálinu sem er víst franska. Var hún með bókina sína með sér og skemmtu þær sér við að lesa upp úr henni. Ég var farin að eiga ansi bágt með mig því mér fannst þær svo fyndnar. Á endanum gat ég ekki á mér setið og segi "Adda mín................. það er sko greinilegt að ég verð að taka þig í smá frönskukennslu í kvöld". Labbaði svo til þeirra og ræddi í smástund við þær. Til að gera langa sögu stutta, þá kom í ljós að hún Adda mín er fyrrum nemandi minn. Dóttir mín er snillingur í að roðna meistaralega ENN......... ég hef ALDREI séð manneskju roðna eins mikið og hana Öddu þegar hún fattaði hver ég var. En ég s.s kenndi henni frönsku þegar hún var í 10 bekk árið 1999. Ef þið hafið lesið athugasemdirnar við síðustu færslu, þá ætti þetta að skýra skotin sem gengu á milli Leifs sonar minns og Öddu Monster.

Að lokum þá var síðasti opnunardagur Blaze í gær og fór ég til að vinna. Hann Gunnar minn var vægast sagt ekki glaður að sjá mig þegar hann fattaði að ég ætlaði mér að vinna þennan daginn. En ég gat ekki annað. Ég bara varð að vera með síðasta daginn. Ég er búin að leggja allt mitt í þessa búð, síðustu 3 ár (tæp) og gott betur en það. Það verður sárt og skrítið að taka allt niður næstu 2 vikurnar. Marga fasta og góða kúnna höfum við eignast á þessum tíma og verður erfitt að sjá eftir þeim. En ég stend enn fast á því að þetta hafi verið rétt ákvörðun eins og sakir standa. Tíminn einn á eftir að leiða það í ljós.

Lífið heil elskurnar mínar og allir hinir og megi almætti geyma ykkur og vernda.

 

Þar til næst þá er hér einn góður moli sem ég fann.  Þú ert lifandi segull. Það sem þú dregur inn í líf þitt er í samræmi við ríkjandi hugsanir þínar. -Brian Tracy

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband