Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Síðasta færslan

Já þið skiljið þetta rétt. Þetta er í síðasta skipti sem ég blogga. Ég hef bara enga orku í þetta lengur eins og þið hafið sjálfsagt tekið eftir. En ég get ekki hætt án þess að kveðja fyrst og koma með loka pælingu sem vert er að hafa í huga í daglega lífinu.

Það er búið að vera ansi mikið að gera hjá mér síðustu 2 vikurnar. Leifur minn kom í heimsókn með konuna sína hana Ernu og dóttir hennar, en hún heitir Þóra. Hún reyndar gengur undir nafninu "Skotta" hjá mér og held ég að henni líki það nú ágætlega, enda spurði hún mig um daginn "ammaaaa áttu nokkuð fleiri skottur?". Mér líkar ömmu hlutverkið mjög vel og svei mér ef ég er ekki bara ágætis amma. Heilsan er því langt frá því að vera góð og eins og áður sagði þá er þreytan orðin ansi mikil. Þannig að ég get ekki beitt mér eins og ég svo gjarnan vildi.

Leifur og Erna eru búin að taka þá ákvörðun að búa hér á Selfossi og eru nú að leita sér að vinnu og húsnæði en eru hérna hjá okkur þar til þá. Einnig eru yngstu strákarnir okkar, þeir Óli og Valdi (synir Gunnars) búnir að vera hjá okkur í páskafríinu en fara aftur heim til sín í dag. 

En að hafa allt þetta fólk í kringum mig hefur fengið mig til að hugsa um hvaða minningar um mig ég skilji eftir til þeirra. 

Kannist þið við að hafa lesið minningargreinar og velt því fyrir ykkur hvernig viðkomandi var í augum vina og ættingja? Hafið þið hugsað út í hvernig og hvort það verði skrifað um ykkur þegar þið farið? Munu margir sakna ykkar? Hefur ykkur tekist að marka djúp spor í lífi einhvers? Hafið þið látið framhjá ykkur fara, tækifæri til að kynnast nánum ættingja eða vini almennilega? 

Mér þykir undurvænt um hann bróður minn og erum við í góðu sambandi. Hann er að verða 43 ára en ég er 37. Samt sem áður er það svo að við töluðum í fyrsta skipti í morgun um okkar langanir. Einnig las hann bloggið mitt í fyrsta sinn í morgun og komst að því að ég væri nú bara alveg ágætis penni. Hvernig mun hann t.d minnast mín sem systur? Reyndist ég honum góð systir eða gekk ég bara að honum gefnum án þess að huga að því að hann væri svo miklu meira en bara bróðir minn?

Ég held ég hafi sagt þetta við öll börnin mín en þori samt ekki að staðhæfa, en ég hef alveg örugglega sagt þetta við hann Kristján minn, að hann skuli ætíð haga lífinu með það í huga hvernig hann vilji láta minnast sín en vera samt sjálfum sér samkvæmur. 

Staðreyndin er sú að innst inni erum við öll alveg ógurlega sjálfhverf og viljum vera hrókur alls fagnaðar, viljum að fólk telji okkur vera æðisleg, yndisleg, frábær, ómissandi hjá einhverjum, skemmtilegust og allt það. Kannski viljum við ekki vera þekkt fyrir að vera þetta allt saman sem ég var að telja hér upp, en alveg örugglega eitthvað af þessu. Öll viljum við að fólk hugsi jákvætt til okkar. Við könnumst öll við að lifna öll við þegar við fáum hrós eða þegar um okkur er talað á jákvæðan hátt. Því jákvæð athygli er á bið stærstu orkubombu sem fáanleg er.

Spurningin er því þessi: Hvernig haldið þið að fólk muni minnast ykkar? Myndum við vera betri við náungann og jafnvel jákvæðari almennt ef við hefðum þessa spurningu að leiðarljósi? Eru þið sátt við ykkur sjálf? Elskið þið ykkur sjálf eða eru þið allt of hörð við ykkur? Myndu þið vilja breyta einhverju ef þið vissuð að þið mynduð kveðja þennan heim á morgun? Ef svo er............ gerið það þá...... það er enn tími. Ok ok þetta voru nokkrar spurningar en það er bara í góðu lagi

 

Að lokum vil ég þakka fyrir alla vináttu og hlýhug sem þið hafið sýnt mér frá því ég byrjaði að blogga. Mörgu yndislegu fólki hef ég kynnst hérna og góðar stundir hef ég haft hér á blogginu. En nú er komið að leiðarlokum hjá mér og bið ég almáttugum Guði að geyma ykkur og vernda alla tíð.

 

Bless bless

 

Munið svo þennan sannleik sem William Shakespeare sagði: Eitt augnablik getur bæði drepið kærleikann og lífgað hann. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband