Tína

Ég er 36 ára (1971) hamingjusamlega gift kona á Selfossi og á sæg af börnum og fósturbörnum. Maður getur víst alltaf á sig blómum bætt. Christinar nafnið nota ég eingöngu við formlegheit, en annars er ég alltaf kölluð Tína.

Maðurinn sem ég er gift og deili skugga með heitir Gunnar Einarsson og er hann minn allra besti vinur og með fyndnari og traustari mönnum sem ég þekki. Við höfum gengið í gegnum margt saman, bæði súrt og sætt en með sameiginlegu átaki hefur okkur tekist að komast í gegnum þetta allt saman. Hann Gunnar minn hefur stutt mig dyggilega í gegnum veikindi mín og verið með eindæmum ósérhlífinn. Það er með stolti og mikilli ást sem ég kalla hann eiginmann minn.

Frá því ég man eftir mér þá ætlaði ég alltaf að eignast 5 börn. En þar sem ég gat bara átt 3, þá fann ég mér bara mann sem átti 2!! Líffræðilega séð á ég elstu börnin 3 en hann yngstu 2. En ég á samt 5! Sama hvað hver segir og elska ég þau öll hjartanlega og inn að beini.

Leifur minn er elstur (fæddur 1989). Leifur er búsettur á Akranesi hjá og finnst mér afskaplega leiðinlegt hvað ég sé hann sjaldan. Leifur hefur nefnilega alveg einstakan húmor og getum við og Gunnar fíflast út í eitt, skotið á hvert annað hægri vinstri en aldrei hljótast nein særindi eða leiðindi út frá því. En hann er nú sem betur fer duglegur að hringja í mig þessi elska. Leifur er með tóneyra dauðans. Umlaðu eitthvað lag fyrir hann og hann spilar það á gítar eins og hann hafi aldrei gert neitt annað. Hann er ofsalegur barnakarl og sækja börn mikið í hann. Hann hefur oft misstigið sig hann sonur minn en alltaf staðið upp aftur. Ég hef mikla trú á honum og er alveg ofsalega stolt af honum.

Agnes mín er næst í röðinni og eina stelpan í þessum krakkahóp (fædd 1990). Kærastinn hennar heitir Viðar og er hann einu ári eldri en hún. Þau eru búin að vera saman nokkuð lengi og hef ég á tilfinningunni að hér sé eilifðarpar á ferðinni. Þau eru öllu rólegri og yfirvegaðri en Leifur og Sandra. En við Agnes erum alveg ofsalega líkar í útliti og að miklu leyti er innrættið líka líkt. Ég var líka svona ofsalega róleg á hennar aldri (og er enn). En það er eitt sem við Agnes eigum sameiginlegt umfram annað, en það er að við höfum báðar ofsalega gaman af að tala!! Agnes teiknar listavel en hennar hæfileiki (að mínu mati) liggur mest í söngnum. Hún syngur undursamlega fallega og verður bara betri með árunum.

Kristján minn heitir sá þriðji (fæddur 1993). Ef einhver barnanna er tilfinningavera af guðs náð, þá er það hann. Hann má ekkert aumt sjá og fátt sem hann dýrkar meira en börn og dýr. Hann er alveg svakalegur mömmustrákur og skammast sín sko ekkert fyrir það. Hann er orðheppinn með eindæmum (það er að segja þegar hann er ekki að REYNA að vera fyndinn). Hann er því miður alveg svakalegur tölvusjúklingur og finnst mamma sín frekar leiðinleg að gefa honum ekki takmarkalausan aðgang að netinu. Hann tuðar smá en kvartar samt ekki. Hann er líka sá sem er búin að vera (að öðrum ólöstuðum) lang duglegastur við að hjálpa mér og aðstoða á allan hátt í mínum veikindum og telur það aldrei eftir sér. Og er alveg svakalega iðinn við heimilisþrifin. Hún verður sko heppin stelpan sem á eftir að næla sér í þennan dreng.

Næstur er hann Óli minn (fæddur 1995). Hann er elsti sonur Gunnars og er búsettur á Bifröst ásamt 2 yngri bræðrum og móður. Óli er svo rólegur að það er varla að það hreyfist í honum blóðið. Hann er svakalega samviskusamur og ábyrgðarfullur ungur maður og tekur hlutverk sitt sem stóri bróðir mjög alvarlega. Hann er sá barnanna minna sem er einna duglegastur við að fara út og gera eitthvað. Honum leiðist aldrei (eða í það minnsta mjög sjaldan). Þessi drengur er listamaður fram í fingurgóma, en það er hrein unun að horfa á hann teikna. En annað áhugamál hefur hann sem hann stendur sig sko líka meistaralega í, en það er að æfa sund. Þið skuluð fylgjast með honum í framtíðinni gott fólk, því hann á eftir að láta til sín taka á því sviði.  Hann ber alveg ofsalega umhyggju fyrir alla í kringum sig og man alltaf eftir að spyrja í fullri einlægni hvernig hinir og þessir hafa það.

Valdimar minn rekur lestina (fæddur 1996). Hann er yngsti sonur Gunnars og sá dulasti af öllum okkar börnum. Hann er lúmskur húmoristi og meinfyndinn. Hann er svo lúmskur að fólk fattar oft ekki að hérna er prakkarinn í hópnum á ferðinni. Það er oft ekki fyrr en eftir á sem maður fattar hvað krakkinn sagði. Ef þú þarft að eiga við einhverskonar græju þá er langbest að láta hann um það. Hann er sko ekki lengi að finna út úr þeim málum. Að því leytinu er hann mjög líkur Kristjáni. Fyrir utan að vera algjör tölvukarl líka. Hann hefur svakalega gaman af að lesa og getur hreinlega gleymt sér við bókalestur. Hann er mikill pælari og dútlari, en því minna gefinn fyrir læti.

Til viðbótar við þessi börn eigum við ógrynni fósturbarna sem koma reglulega í heimsókn og leyfa okkur að fylgjast með þeim og okkur þykir endalaust vænt um þau öll.

Anna Bella (alltaf kölluð bara Anna)er svo ein manneskja sem ég hvorki get né vil sleppa að minnast á hér því hún skiptir mig ÖLLU máli, en það er hún tvíburasystir mín. Hún starfar sem einkaþjálfari hjá World Class og er fitness drottning með meiru. Engin getur fengið mig til að hlæja jafn innilega og hún. Það getur heldur engin gert mig jafn brjálaða og hún. Engin getur fengið mig til að sleppa algjörlega fram af mér beislinu eins og hún og kæri ég mig þá kollótta um hvað öðrum kann að finnast. Börnin okkar gera mikið grín að því að það sé stórhættulegt að vera í kringum okkur þegar við erum saman. Samband okkar systrana er mjög sérstakt svo ég tali nú ekki um hversu nánar við erum og þýðingarlaust með öllu fyrir nokkurn mann að reyna að skilja þetta (nema þá kannski fyrir aðra tvíbura). Samt verðum við nánari með hverjum deginum sem líður. Án hennar er ég ekki. Svo einfalt er það. Oft skil ég hana ekki, en það skiptir heldur engu máli svo lengi sem ég hef hana í lífi mínu. Að fá hana í fjölskylduboðum er algjört möst og ávísun á skemmtilegheit. Tala ekki um ef Frikki bróðir og Leifur eru á staðnum á sama tíma. Úffffffffffffff þá er sko fjandinn laus.   

Ég gæti endalaust talið upp fólk hérna sem skiptir mig máli, en þau eru bara svo endalaust mörg. Því ætla ég að láta hér staðar numið og vona svo bara að þau sem ekki eru nefnd hér sárni það ekki og fullvissa ég þau um að öll eiga þau sérstakan stað í hjarta mínu og líf mitt væri svo sannarlega litlausara án þeirra.

 

 

 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband