Færsluflokkur: Bloggar
13.4.2009 | 09:18
Síðasta færslan
Já þið skiljið þetta rétt. Þetta er í síðasta skipti sem ég blogga. Ég hef bara enga orku í þetta lengur eins og þið hafið sjálfsagt tekið eftir. En ég get ekki hætt án þess að kveðja fyrst og koma með loka pælingu sem vert er að hafa í huga í daglega lífinu.
Það er búið að vera ansi mikið að gera hjá mér síðustu 2 vikurnar. Leifur minn kom í heimsókn með konuna sína hana Ernu og dóttir hennar, en hún heitir Þóra. Hún reyndar gengur undir nafninu "Skotta" hjá mér og held ég að henni líki það nú ágætlega, enda spurði hún mig um daginn "ammaaaa áttu nokkuð fleiri skottur?". Mér líkar ömmu hlutverkið mjög vel og svei mér ef ég er ekki bara ágætis amma. Heilsan er því langt frá því að vera góð og eins og áður sagði þá er þreytan orðin ansi mikil. Þannig að ég get ekki beitt mér eins og ég svo gjarnan vildi.
Leifur og Erna eru búin að taka þá ákvörðun að búa hér á Selfossi og eru nú að leita sér að vinnu og húsnæði en eru hérna hjá okkur þar til þá. Einnig eru yngstu strákarnir okkar, þeir Óli og Valdi (synir Gunnars) búnir að vera hjá okkur í páskafríinu en fara aftur heim til sín í dag.
En að hafa allt þetta fólk í kringum mig hefur fengið mig til að hugsa um hvaða minningar um mig ég skilji eftir til þeirra.
Kannist þið við að hafa lesið minningargreinar og velt því fyrir ykkur hvernig viðkomandi var í augum vina og ættingja? Hafið þið hugsað út í hvernig og hvort það verði skrifað um ykkur þegar þið farið? Munu margir sakna ykkar? Hefur ykkur tekist að marka djúp spor í lífi einhvers? Hafið þið látið framhjá ykkur fara, tækifæri til að kynnast nánum ættingja eða vini almennilega?
Mér þykir undurvænt um hann bróður minn og erum við í góðu sambandi. Hann er að verða 43 ára en ég er 37. Samt sem áður er það svo að við töluðum í fyrsta skipti í morgun um okkar langanir. Einnig las hann bloggið mitt í fyrsta sinn í morgun og komst að því að ég væri nú bara alveg ágætis penni. Hvernig mun hann t.d minnast mín sem systur? Reyndist ég honum góð systir eða gekk ég bara að honum gefnum án þess að huga að því að hann væri svo miklu meira en bara bróðir minn?
Ég held ég hafi sagt þetta við öll börnin mín en þori samt ekki að staðhæfa, en ég hef alveg örugglega sagt þetta við hann Kristján minn, að hann skuli ætíð haga lífinu með það í huga hvernig hann vilji láta minnast sín en vera samt sjálfum sér samkvæmur.
Staðreyndin er sú að innst inni erum við öll alveg ógurlega sjálfhverf og viljum vera hrókur alls fagnaðar, viljum að fólk telji okkur vera æðisleg, yndisleg, frábær, ómissandi hjá einhverjum, skemmtilegust og allt það. Kannski viljum við ekki vera þekkt fyrir að vera þetta allt saman sem ég var að telja hér upp, en alveg örugglega eitthvað af þessu. Öll viljum við að fólk hugsi jákvætt til okkar. Við könnumst öll við að lifna öll við þegar við fáum hrós eða þegar um okkur er talað á jákvæðan hátt. Því jákvæð athygli er á bið stærstu orkubombu sem fáanleg er.
Spurningin er því þessi: Hvernig haldið þið að fólk muni minnast ykkar? Myndum við vera betri við náungann og jafnvel jákvæðari almennt ef við hefðum þessa spurningu að leiðarljósi? Eru þið sátt við ykkur sjálf? Elskið þið ykkur sjálf eða eru þið allt of hörð við ykkur? Myndu þið vilja breyta einhverju ef þið vissuð að þið mynduð kveðja þennan heim á morgun? Ef svo er............ gerið það þá...... það er enn tími. Ok ok þetta voru nokkrar spurningar en það er bara í góðu lagi
Að lokum vil ég þakka fyrir alla vináttu og hlýhug sem þið hafið sýnt mér frá því ég byrjaði að blogga. Mörgu yndislegu fólki hef ég kynnst hérna og góðar stundir hef ég haft hér á blogginu. En nú er komið að leiðarlokum hjá mér og bið ég almáttugum Guði að geyma ykkur og vernda alla tíð.
Bless bless
Munið svo þennan sannleik sem William Shakespeare sagði: Eitt augnablik getur bæði drepið kærleikann og lífgað hann.
Bloggar | Breytt 16.4.2009 kl. 07:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
30.3.2009 | 11:11
Upplifun barna
Veikindi eru alltaf erfið en maður tekur á þeim eins og öðru. Sumir segja að maður sé alveg svakalega duglegur, en það er nú ekki eins og maður hafi eitthvað val. Lífið heldur áfram hvernig sem manni líður og er þá ekki um neitt annað að ræða en að halda áfram. En það er eitt sem maður stendur ráðþrota fyrir en það er hvernig börn manns upplifa þetta ástand.
Kristján minn (16 ára) fór í fermingaveislu hjá bróður sínum í gær (samfeðra) sem var í bænum. Ég ákvað að fara ekki því ég kúgast orðið svo mikið að ég forðast að vera í margmenni. Mínir nánustu vita af þessu og láta sem ekkert sé þegar ég byrja. En ég vil ekki bjóða ókunnugum upp á þetta.
Þegar Kristján kom svo heim í gærkvöldi þá sagði hann að margir hefðu spurt eftir mér og hvers vegna ég hefði ekki komið. Skýring hans var þessi "Mamma er orðin svo SVAKALEGA veik að pabbi neyðist til þess að vinna heima svo hann sé hjá henni". Guð minn almáttugur........... gott ef fólk heldur ekki bara að ég sé dauðvona eftir svona yfirlýsingu.
Fyrst hugsaði ég sem svo að það væru nú naumast ýkjurnar í stráknum. En er það svo? Það er nóg að ég kúgist einu sinni og þá segir hann "shit hvað þetta var kreepí". Og nú hefur hann þurft að horfa upp á mig vera svo slæma að hann fer allur í kleinu og vanlíðan hans, yfir að geta ekkert gert, fer alveg með hann. Í hans augum er ég nær dauða en lífi. Í hans augum er ég alveg svakalega veik. Í síðustu viku spurði hann mig hvort það væri eitthvað sem ég væri að leyna honum varðandi mín veikindi.
Ég veit ekki af hverju ég er að minnast á þetta hérna, en ég veit ekki hvað ég get gert til að auðvelda honum þetta. Ég reyni af fremsta megni að leyna honum því hversu slæm ég er en ég veit hann skynjar annað. Það liggur við að mér finnist meira þreytandi að fela fyrir honum, heldur en að takast á við verkina og veikindin. Hversu óhamingjusöm eru börnin þegar þau búast sífellt við hinu versta? Hvernig get ég dregið úr þessari hræðslu hjá stráknum? Ekki get ég falið það fyrir honum þegar ég byrja að kúgast, því það er ekkert sem varar mig við að ég sé að byrja. Ég get falið fyrir honum þegar ég er mjög slæm af verkjum en ekki hinu.
Æ ég er bara orðin svo þreytt, bæði á sál og líkama og ég er ráðþrota og líklega á einhverju sjálfsvorkunnarskeiði. Börn ættu ekki að þurfa að alast upp við svona. Þau hafa ekki þroskann til að vinna úr svona. Það er varla að maður hafi það sjálfur. Ég reyni að lifa eins eðlilegu lífi og mér er frekast unnt en þreytan er orðin mikil.
Farið vel með ykkur og megi Guð vera með ykkur, hvað sem þið takið ykkur fyrir hendur.
Molinn: Guð leggur á okkur birgðarnar en hann gaf okkur líka bakið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
24.3.2009 | 09:03
Hamingjan
Hamingja er réttur hvers og eins. Samt eru svo margir óhamingjusamir. Af hverju er það? Veit fólk ekki hvað hamingja er eða hvernig hún er fengin? Því miður er það í okkar eðli að vilja kenna öðrum eða öðru um. Makanum, vinnunni, heilsunni, ríkisstjórninni og svona mætti lengi telja án þess að telja okkur sjálf upp.
Sumir skilja, aðrir segja upp vinnunni eða flytja landshorna á milli í þeirri viðleitni að finna hamingjuna. En í stað þess að finna hana, finnur fólk önnur vandamál. Staðreyndin er nefnilega sú að okkar líðan er að finna innan í okkur sjálf. Við erum sjálf bílstjórar í eigin lífi. Við verðum sjálf að ákveða hvernig við sjáum lífið. Er glasið hálf fullt eða hálf tómt?
Jú víst eru tímarnir erfiðir núna en ég sé þau jafnframt sem tækifæri. Tækifæri til hreinsunar. Núna er rétti tíminn til að taka til hjá sér. Rétti tíminn til að setjast niður og ákveða hvert við ætlum og til að finna út hvað það er sem raunverulega skiptir máli.
Misjafnir eru erfiðleikarnir sem settir eru á okkar leið. En í stað þess að sjá þetta sem vandamál þá ættum við að gefa okkur smá stund til að horfa framan í vandamálið og hugsa með okkur "Ok......... hvaða lærdóm get ég dregið af þessu úr því ég varð endilega að lenda í þessu?" Ekki aðeins verður léttara að taka á því heldur eru minni líkur til þess að þetta tiltekna vandamál komi upp aftur, vegna þess að EF það kemur aftur að þá kunnum við að taka rétt á því og erum því ekki að mikla þetta eins mikið fyrir okkur. Við verðum að treysta því að við erum á réttum stað hverju sinni. Á réttum stað til að draga úr þann lærdóm sem við þurfum til að ná þeim andlega þroska sem okkur er ætlað í það skipti.
Hættum að vera óhamingjusöm. Veitum okkur frelsi og finnum hamingjuna sem okkur er ætluð. Hræðumst ekki breytingar, þær færa með sér yndisleg tækifæri til að breyta okkar lífi til framtíðar. Mig langar í það minnsta að vera hamingjusöm og er það þrátt fyrir allt.
Ert þú hamingjusöm/samur??
Molinn snýst því að sjálfsögðu um hamingjuna: Flest fólk er eins hamingjusamt og það ákveður sjálft að vera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
13.3.2009 | 10:42
Queen tónleikar
Hún móðir mín kom til mín á Selfoss á sunnudaginn var, þar sem við höfðum boðið henni með okkur á Queen tónleikana sem voru í gær. Dóttir mín og tengdasonur syngja í kór FSU. Við fórum 4, Mamma, Gunnar, Tengdamamma og ég. Mikið svakalega var þetta gaman. Ég missti af tónleikunum í fyrra sökum veikinda og var því enn ákveðnari en ella að fara á þá núna.
Þessi viðburður var merkilegur að fleira en einu leyti. Þetta var nefnilega í fyrsta skipti sem ég geri eitthvað svona með mömmu og líka með tengdamóður mína.
Ingó Idol hitaði upp fyrir tónleikunum og var svo skemmtilegur að það var hrikalega leiðinlegt að horfa á eftir stráknum af sviðinu. En svo tóku kórinn, Eiríkur Hauks, Hera Björk og Magni við. Þetta var einu orði sagt ÆÐISLEGT.
Ég læt hér fylgja með nokkrar myndir sem teknar voru í gærkvöldi.
Tengdamamma og Gunnar. Gunnar tók myndina og skildi hún ekkert í því hvað hann væri eiginlega að gera.
Eiríkur Hauks á sviði með kórnum.
Viðar tengdasonur minn til vinstri og Gummi bróðir hans.
Að lokum eru hérna Mamma og ég.
Ég ætlaði svo að skoða niðurstöðurnar úr könnuninni, en þá var hún bara horfin!! Að minnsta kosti var niðurstaðan síðast þegar ég gáði, að síðan væri bara fín eins og hún hefur verið.
Hugmyndin er að hún Mamma mín verði hérna hjá mér til 25 mars, og því veit ég ekki hversu mikið ég verði á netinu. Leyfi ykkur samt að fylgjast með.
Eigið ljúfa helgi öll sem eitt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
5.3.2009 | 14:34
Könnun
Að þessu sinni verður engin hugleiðing. Þess í stað langar mig að biðja ykkur um að hjálpa mér við að gera þessa síðu betri með því að svara þessari könnun sem er hér til hliðar. Hún verður þarna í viku og mun ég í framhaldinu birta niðurstöðurnar. Sumir eru nefnilega farnir að hafa orð á því að ég sé helst til þung í mínum bloggfærslum upp á síðkastið.
Að lokum óska ég ykkur góðrar helgar og hafið þið það sem allra best.
Munið svo að: Dagur án hláturs er glataður dagur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
2.3.2009 | 12:58
Hættum að dæma aðra
Það er mikið um stríð í heiminum vegna þess að stór hluti manna líkar ekki það sem nágranninn gerir. Ein þjóð þolir ekki hvað önnur gerir, trúarbragðahópar telja sína trú vera hina einu sönnu og vilja neyða sínar skoðanir upp á aðra o.s.frv. Metingur er í hávegum hafður og flest okkar teljum við okkur betri en einhver annar.
Við megum ekki gleyma því að öll búum við yfir frjálsum vilja og ber okkur að virða það að aðrir búa yfir því sama. Við erum ekki í þessum heimi til þess að vera eins og allir aðrir. Hvert okkar hefur sitt hlutverk í þessu lífi sem og takmark.
Mörg okkar erum stöðnuð í lífinu. Það er ekki fyrr en við hættum að eyða orku í að dæma aðra, gagnrýna aðra og að pæla í líferni annarra sem við komumst áfram á okkar þroskaleið, en alls ekki fyrr en þá.
Staðreyndin er sú að oftast er það þannig að það sem við gagnrýnum mest í fari annarra eru gallar sem við búum yfir sjálf. Ekki fræðilegur að við viðurkennum það, en ef við gefum okkur smátíma og hugsum þetta aðeins, þá er ég hrædd um að þetta sé sannleikanum samkvæmt. Fólk er sett á okkar leið af ástæðu. Hvort sem þetta eru vinir okkar eða ekki. Allir sem við mætum kenna okkur eitthvað. Ýmist verða þau fyrirmyndir eða sýna okkur hvernig við viljum ekki vera.
Við getum og megum ekki dæma fólk út frá því hvernig við erum sjálf. Því að með því segjumst við í raun vera betri en sá dæmdi. Í stað þess að einblína á ókosti annarra og sök, væri okkur nær að skoða hvaða lærdóm við getum dregið af viðkomanda. Notum síðan orkuna sem við hefðum annars notað í að dæma og virkjum það frekar í að læra.
Sannleikurinn er að meðan við einblínum á galla annarra, að þá komumst við hjá því að sjá hvernig við sjálf erum í raun og veru. Hafið þið spáð í að það fólk sem þið gagnrýnið mest hugsi kannski það sama um ykkur, en lætur það samt afskiptalaust, á meðan að þið kvartið og mótmælið þeirra lífi?
Lífið í ljósi...................... það er svo fallegt. Guð geymi ykkur öll.
Molinn: Vertu ætíð ögn góðviljaðri en nauðsynlegt er. - James M Barrie.
P.s Ekki halda að ég sé svona góð manneskja og hugsi alltaf svona. Ég er sjálf að læra þetta og á það svo sannarlega til að dæma aðra. En ég geri mitt besta til að breyta því og langar bara einlæglega að deila með ykkur mínum skoðunum og þið ráðið svo hvort þið tileinkið ykkur eitthvað af þessum hugrenningum mínum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
26.2.2009 | 15:57
Enn ein pælingin
Kannast þú við að fara allt í einu að hugsa um eitthvað sem þú hefur gert einhverjum eða sagt sem var kannski miður fallegt? Það kemur ansi oft fyrir mig nú til dags og fer ég þá ósjálfrátt að gretta mig og hjartað í mér herpist við tilhugsunina. Um leið spyr ég sjálfa mig "hvað varstu að hugsa þá og hver var nákvæmlega tilgangurinn með þessu?"
Helst langar mig þá að hlaupa af stað og biðja viðkomandi fyrirgefningar á gjörðum mínum og/eða orðum. En hver væri hugsunin á bak við? Væri ég að þessu til að hinum líði betur eða til að friða sjálfa mig og mína samvisku?
Sannleikurinn skal sagður hér og er ég hrædd um að hið siðarnefnda væri rétta ástæðan. Jújú ég get svo sem talið sjálfri mér trú um að ég væri að þessu til að hinum líði betur og væri það sjálfsagt líka viljinn með því, en við vitum öll að það væri ekki allskostar rétt. Sennilegast er viðkomandi búin að jafna sig á særindunum að því marki að þetta hefur engin áhrif á hið daglega líf.
En hvað get ég þá gert þegar samviskan bankar upp á vegna liðinna atburða? Mín skoðun er að tvennt verði að koma til. Það fyrsta er að iðrast einlæglega og hitt er að læra af reynslunni. Staðreyndin er sú að annað má sín lítils ef hitt fylgir ekki. Ég tel heldur ekki nóg að segja mér sjálfri mér að þetta ætli ég aldrei að gera aftur. Því eftir stendur að ég særði einhvern og verð ég að bæta fyrir það. Mitt mat er að best sé að vera einhversstaðar ein með sjálfri mér og gefa mér svo tíma til að setja mig spor þess sem fyrir varð, helst þar til ég skynja sársaukann sem ég olli með framferði mínu. Þetta held ég að sé eina leiðin til að iðrast einlæglega og læra af reynslunni.
Ansi oft bregst ég við aðstæðum án þess að hugsa. T.d get ég nefnt eitt af því sem ég þoli ekki, en það er léleg þjónusta. En hver þykist ég vera? Er ég svona óskaplega sjálfhverf og merkileg að mér sé gjörsamlega fyrirmunað að gefa gaum að því að kannski líður afgreiðslumanninum ekki vel á sálinni, í hjartanu eða líkamlega? Ætla ég virkilega að vera sú sem bætir á vanlíðan viðkomanda? Dóttir mín vinnur við afgreiðslu og hefur það ansi oft komið fyrir að hún kemur eyðilögð heim vegna framkomu viðskiptavina. Hún hefur sagt mér að stundum sé hún bara búin að fá nóg af ömurlegri framkomu manna að þegar svo kemur einn almennilegur þá sé það henni nánast um megn að vera almennileg á móti.
Lítum okkur nær og tökum aðeins til hjá okkur og okkar framkomu. Ég veit ekki með ykkur en svo sannarlega langar mig ekki til að vera manneskjan sem eyðileggur daginn fyrir öðrum. Þess vegna ætla ég að æfa mig í að setja mig í spor annarra.
Það býr kærleikur og samkennd í okkur öllum. Dreifum því í kringum okkur. Brosum meira, því meðan við brosum er erfitt að hnussa, agnúast út í aðra, hvæsa eða vera með leiðindi.
Guð geymi ykkur öll, fangið ljósið sem býr innra með ykkur og látið það lýsa upp ykkar tilveru.
Molinn: Það skiptir ekki mestu að bæta árum við líf sitt, heldur hitt, að bæta lífi við ár sín. - Alexis Carrel
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
16.2.2009 | 13:56
Hugleiðing
Meðan ég sat og hlustaði á þetta lag með lokuð augu, varð mér hugsað til ykkar vina minna nær og fjær, sem standa hjarta mínu næst. Þetta lag fyllti hjarta mitt af kærleik og sendi ég það allt upp til himna fyrir ykkur og langar mig því að deila þessu með ykkur. Hlustið á það og hugsið til allra sem standa hjarta ykkar nær um leið og þið finnið hvernig sál ykkar og hjarta fyllist af hlýju.
Jafnframt er hér smá hugleiðing sem vert er að hafa í huga. Vinkona mín sendi mér þetta.
Lag af ryki verndar viðinn undir því..... Húsið verður heimilislegra þegar þú getur skrifað "Ég elska þig" í rykið á húsgögnunum. Ég var vön að eyða endalausum tíma í þrif um hverja helgi til þess að vera viss um að allt væri fullkomið ef að einhver skyldi koma óvænt í heimsókn. Að lokum uppgötvaði ég að það kom engin í heimsókn því það voru allir úti að skemmta sér ! !
Jæja.......... en þegar fólk kemur í heimsókn, þá þarf ég ekki að útskýra ástandið á heimilinu. Þeir hafa meiri áhuga á að heyra um þá hluti sem ég hef verið að gera á meðan ég var úti á lífinu að skemmta mér.
Ef þú hefur ekki uppgötvað þetta ennþá, þá skaltu fara eftir þessu heilræði: Lífið er stutt............... njóttu þess ! ! ! !
Þurrkaðu af ef þú verður, en þá verður ekki mikill tími til; að synda í ám og klifa fjöll, hlusta á tónlist og lesa bækur. Fagna með vinum og lifa lífinu.
Þurrkaðu af ef þú verður..... en væri ekki betra að mála mynd eða skrifa bréf, baka smákökur eða kökur og sleikja sleifina, eða sá fræi? Hugleiddi muninn á því sem þú vilt eða þarft.
Þurrkaðu af ef þú verður..... en heimurinn bíður eftir þér þarna úti, með sólskinið í augum þínum, vindinn í hárinu, flögrandi snjókornum eða fíngerðum úða.
Þessi dagur kemur ekki aftur og þegar þú ferð - og þú verður að fara, þá munt þú sjálf/sjálfur skapa meira ryk
Það er ekki það sem þú safnar, heldur það sem þú sáir sem segir til um það hvernig lífi þú hefur lifað.
Molinn er tileinkaður lífinu. Nýttu sem best það sem er á þínu valdi, taktu öðru bara eins og það kemur fyrir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
7.2.2009 | 11:49
Mýslan mín
í dag er það mýslan mín hún Agnes sem á afmæli og er hún 19 ára í dag. Þó að hún sé langminnst að þá var samt LANGerfiðast að koma henni inn í þennan heim. Hún Agnes mín er líka eina stelpan í hópnum. Hún er sú allra rólegasta og jafnframt sú alvörugefnasta. Hún er líkust mér og minnir mig afskaplega á sjálfa mig þegar ég var yngri. Það er ekki til að dóttir mín geri eitthvað af sér, það er bara ekki í henni. Eins og er með mig þá fæddist þessi drottning fullorðin. Og dugleg er hún. Því miður er hún orðin fullorðin og er flutt að heiman, þannig að ég gat ekki kysst hana til hamingju með daginn en sendi henni þess í stað fljúgandi koss hér í gegnum netið. Einnig er þessari drottningu minni gjörsamlega fyrirmunað að vera með símann á sér, en þegar hún er með hann þá er ansi oft slökkt á honum. Kom það mér því ekki mikið á óvart þegar ég hringdi í morgun að hún skuli ekki svara, en hún hringdi nú til baka fljótlega.
Til hamingju með 19 árið þitt hjartans Mýslan mín. Og ég hlakka mikið til að sjá þig fljótlega. Hér er svo moli sem mig langar að tileinka þér krútta og vona að þú hugsir mikið um hann á þessu ári. Gleymdu svo aldrei hversu heitt ég elska þig stelpa,
Uppspretta hamingjunnar er í hjarta þínu, ekki í umhverfinu í kringum þig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
1.2.2009 | 11:56
Orlofið búið
Jæja yndislega fólk, þá er orlofið mitt búið og ég komin heim.
Þegar ég kvaddi starfsfólkið á deildinni þá spurðu þær hvernig ég hefði nú haft það í orlofinu. "Ég er búin að hafa það mjög gott, góð þjónusta og yndislegt starfsfólk. Verst þið misskilduð þetta fyrstu 3 sólarhringana þar sem þið trufluðuð mig á 4 tíma fresti til að taka úr mér blóð" sagði ég og glotti feitt. Þá var einn sjúkraliðinn fljót að svara og sagði "ÞAÐ VORU BARA HJÚKKURNAR" um leið og hún benti á eina.
Sérfræðingurinn kom til að útskrifa mig um leið og hún sagði mér hvað hefði komið út úr öllum þessum rannsóknum. Það eina sem hún gat sagt var að niðurstöðurnar meikuðu engan veginn sens og að hún hefði bara aldrei séð þetta áður. Hún var með helling af línuritum til að útskýra sitt mál, en ég var bara engu nær. Fyrir mér voru þetta bara línur á blaði. Ég meina....... ef þetta meikar ekki sens fyrir hana..... hvernig átti það þá að gera það fyrir mig? Er von maður spyrji. En hún er enn að bíða eftir fleiri niðurstöðum og ætlar þá að funda með fleiri innkirtlasérfræðingum og reyna að fá botn í þetta.
Þó furðulegt megi virðast þá gerðist nú margt skemmtilegt þarna enda starfsfólkið með eindæmum skemmtilegt. Ekki ætla ég að telja þetta allt saman upp en ég verð að minnast á eitt. Einn daginn lá ég þarna í rúminu og var ég að lesa. Einn herbergisfélagi minn var með gest hjá sér og var mikið fjör hjá dömunum. Allt í einu heyri ég að þær eru eitthvað að rembast við að lesa frönsku. Þá er gesturinn víst að læra kokkinn og þarf hún núna að læra heitin á fagmálinu sem er víst franska. Var hún með bókina sína með sér og skemmtu þær sér við að lesa upp úr henni. Ég var farin að eiga ansi bágt með mig því mér fannst þær svo fyndnar. Á endanum gat ég ekki á mér setið og segi "Adda mín................. það er sko greinilegt að ég verð að taka þig í smá frönskukennslu í kvöld". Labbaði svo til þeirra og ræddi í smástund við þær. Til að gera langa sögu stutta, þá kom í ljós að hún Adda mín er fyrrum nemandi minn. Dóttir mín er snillingur í að roðna meistaralega ENN......... ég hef ALDREI séð manneskju roðna eins mikið og hana Öddu þegar hún fattaði hver ég var. En ég s.s kenndi henni frönsku þegar hún var í 10 bekk árið 1999. Ef þið hafið lesið athugasemdirnar við síðustu færslu, þá ætti þetta að skýra skotin sem gengu á milli Leifs sonar minns og Öddu Monster.
Að lokum þá var síðasti opnunardagur Blaze í gær og fór ég til að vinna. Hann Gunnar minn var vægast sagt ekki glaður að sjá mig þegar hann fattaði að ég ætlaði mér að vinna þennan daginn. En ég gat ekki annað. Ég bara varð að vera með síðasta daginn. Ég er búin að leggja allt mitt í þessa búð, síðustu 3 ár (tæp) og gott betur en það. Það verður sárt og skrítið að taka allt niður næstu 2 vikurnar. Marga fasta og góða kúnna höfum við eignast á þessum tíma og verður erfitt að sjá eftir þeim. En ég stend enn fast á því að þetta hafi verið rétt ákvörðun eins og sakir standa. Tíminn einn á eftir að leiða það í ljós.
Lífið heil elskurnar mínar og allir hinir og megi almætti geyma ykkur og vernda.
Þar til næst þá er hér einn góður moli sem ég fann. Þú ert lifandi segull. Það sem þú dregur inn í líf þitt er í samræmi við ríkjandi hugsanir þínar. -Brian Tracy
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)