Færsluflokkur: Ferðalög

Fréttir af mömmu og myndir.

Þessir síðustu dagar hafa einkennst af ferðum fram og til baka milli Selfoss og Reykjavíkur. Ég má reyndar ekki keyra, en stundum spyrja aðstæður ekki út í svoleiðis smáatriði. Ég ætla að setja hér nokkrar fréttir af mömmu fyrir þá sem hana þekkja og vilja aðeins fylgjast með.

Hún Mamma mín er með þarmalömun og ef ég skildi nú allt saman rétt, þá fékk hún ranga meðferð fyrstu 4 dagana á Akranesi. Þeir hefðu átt að stinga svokallaða sondu niður í maga í gegnum nefið á henni um leið og hún kom þangað inn en það var ekki gert fyrr en á 4 degi þegar hún var send suður. Um leið og það var gert, þá dældust upp úr henni margir lítrar af galli og fylgdi því eðlilega mikinn létti fyrir þessa elsku. Þeir á Landsspítalanum voru hræddir um að mistökin hefðu jafnvel kostað dauða þarmana.

Mamma sýndi ágætis framför og á föstudaginn var hún í það minnsta farin að tuða og skammast, sem í hennar tilfelli er góðs viti. Þess vegna var ákveðið á laugardagsmorgninum að taka úr henni allar slöngur og svoleiðis viðhöld og leyfa henni að byrja að borða. Strax um kvöldið var fjandinn orðinn laus og mömmu snar hrakaði. Kvöldið og nóttin voru henni mjög erfið, en öllum slöngum var snarlega komið fyrir aftur. Málið er að hún móðir mín er með 2 mjög slæm kviðslit. Annað myndar stærðarinnar kúlu framan á henni sem er stærra en hausinn á mér. Þarmarnir eru flæktir þar inn í. Undir vel flestum kringumstæðum myndu læknar bara skera og laga þetta, en í hennar tilfelli er það meira en að segja það. Líkurnar á að hún lifi svoleiðis aðgerð af eru sama sem engar. En ef við reynum að vera jákvæð og hugsum okkur að hún myndi gera það, þá koma upp ný vandamál en þau eru að ef hún lifir aðgerðina af, þá myndi hún líklegast ekki ná andanum og hreinlega kafna ef læknarnir loka kviðslitinu. Ástæðan er einföld. Hún hefur verið með þetta kviðslit í mörg mörg ár og hafa líffærin fengið að stækka frekar frjálslega. Ef öllu yrði troðið inn aftur og net sett yfir þá yrðu öndunarerfiðleikarnir staðreynd. ´

Líðan hennar er stöðug sem stendur og bíðum við nú eftir því að læknarnir taki ákvörðun um framhaldið. 

En að öðru......... loksins getið þið farið að skoða nokkrar myndir af utanlandsreisu okkar hjóna. Ég verð reyndar að setja þetta inn í skömmtum því ómægod hvað þetta eru margar myndir!!! Það er nú ekki mikið mál að setja myndir inn, en þetta er lúmskur tímaþjófur. Bæði er ég búin að skíra myndirnar en svo fyrir neðan flestar myndir er smá skýringartexti. Meðal annars er þarna ein skýringamynd fyrir þig Einar minn. Finndu hana nú Tounge. Þið getið annað hvort farið hér eða farið í "myndaalbúm" og þar í möppu sem örugglega mörgum til mikillar furðu, heitir "Noregur".

Næst set ég inn myndir sem teknar voru í Þýskalandi.

En áður en ég hætti þá langar mig að þakka fyrir öll fallegu commentin sem skilin voru eftir við síðustu færslu. Ég get sagt ykkur hreinskilnislega að ég er búin að skipta litum eins og litaspjald. Ég las bloggið aftur og aftur til að skilja af hverju ég ætti skilið að fá svona falleg comment en varð engu nær. Ég ákvað því að mér bæri að þakka fyrir mig og njóta þess að mikið er til af yndislegu og hjartahlýju fólki.

 

Molinn í dag er: Það er í mótlætinu og sorginni  sem tækifærin skapast og möguleikarnir til að gleðjast aftur yfir því smáa opnast. - Höfundur Tína


Miss me?

Jæja elskurnar mínar.......... þá er ég komin aftur og vona að fráhvarfseinkennin hafi ekki alveg farið með ykkur.

Því miður að þá dó tölvan mín og get ég því ekki sett neinar myndir inn á enn sem komið er. En ég er að vinna í þessu. Þessa stundina er ég í tölvu eiginmannsins en þetta er vinnutölvan hans og þess vegna er ég ekki að hlaða inn neinar myndir. Þið bíðið bara róleg er það ekki?

En að ferðinni........................... hún var einu orði sagt ÆÐISLEG. Gestgjafarnir Kjell Aage og Lill búa á fallegasta stað sem ég hef séð og í enn fallegra húsi. Bíðið bara þar til þið sjáið myndirnar!! En húsið var svo klikkað að ég gerði mér lítið fyrir og bað hreinlega um teikningarnar af húsinu Tounge og fannst þeim það nú lítið mál. Þannig að framtíðarplanið er að byggja eitt stykki svona hús þegar ég er orðin rík. Takk fyrir.

Þarna var ekkert gsm samband eða netsamband. Sveitakyrrðin s.s í hámarki. Húsið er umkringt skógi og á bak við húsið rennur á þar sem Gunnar reyndi að veiða. Það eina sem hann veiddi reyndar var 1 stk tré LoL. Ég meina........... það er nú ekki beint eins og hann sé vanur að hafa risatré í veginum þegar hann er að kasta út í. Maturinn sem fram var borin þarna var ótrúlegur og smökkuðum við margt í fyrsta skipti. T.d fengum við dúfu bringur, fullorðin humar (ekki eins og hérna heima), krabba, elg og margt fleira. Þarna var heldur ekkert horft á sjónvarp. Þetta var s.s afslöppun út í eitt og algjör hvíld fram á miðvikudag. Ekkert verslaði ég nú í Noregi, enda allt suddalega dýrt þarna. Fyndið að segja þetta komandi frá rándýru landi sjálf.

Á miðvikudeginum flugum við til Þýskalands en stefnan var sett á Moseldalinn, eða til Traben nánar tiltekið . Mikið svakalega er nú fallegt þar. Þarna sleit ég lappirnar upp að hnjám get ég sagt ykkur. Það eina sem við gerðum frá morgni og fram á kvöld var að borða, labba, borða, labba og svo var farið heim að sofa. Þarna voru vínberja raðirnar hvert sem litið var.  Líka fannst mér hrikalega fyndið að sjá að allsstaðar voru drykkjardallar fyrir hunda. í öllum verslunargötum og veitingastöðum, en hvergi gat ég fundið öskubakka!! Nema að sjálfsögðu við veitingastaðina. Við hjónin fórum þarna á safn sem snerist eingöngu um icona. Margt af þessu var afar fallegt og örugglega þræl merkilegt. Verst að allir textar við þessar myndir voru eingöngu á þýsku, þannig að við skildum ekki bofs. Ég verð nú að viðurkenna að mér fannst þetta alveg stór furðulegt í ljósi þess að á sama stað var tourist information. Sömu sögu er að segja um matseðlana á veitingastöðunum. Mig minnir að það hafi aðeins verið einn staður sem bauð upp á enskum texta á matseðlinum. Annars vissi ég hvernig sveppur er á þýsku, og leitaði ég alltaf að því orði á seðlinum og pantaði það. Fékk að vísu þrisvar pasta með sveppum, en það er önnur saga Grin.

Leiðin lá svo aftur til Noregs á laugardeginum og gistum við Gunnar í Osló síðustu nóttina. Og svo komum við heim í gær. Leifur stóð sig eins og hetja og Kristján líka. Fyndið samt hvernig Leifur varð hálfgerð mamma meðan við vorum í burtu. Hann þvoði þvott og þreif húsið, eldaði og stóð sig að öllu leyti eins og best verður á kosið. Að sjálfsögðu heyrði ég í honum á hverjum degi og gat ekki hamið mig þegar ég hlustaði á hann tuða um hversu erfitt væri að koma Kristjáni á fætur og svona fram eftir götunum. Ég hló alveg óskaplega mikið að þessu.

Það var alveg hrikalega gott að komast aðeins burt og best var að Gunnar minn náði aldeilis að hvíla sig og hlaða batteríin. En til þess var leikurinn nú einu sinni gerður. En mikið afskaplega var nú gott að koma heim samt. Nú tekur hversdagslífið við aftur og því verður tekið með bros á vör.

Hlakka mikið til að heyra frá ykkur aftur.

Og nú er alveg kominn tími á nýjum mola: Besta prófið á greind okkar er hvað við gerum í frítímanum. - ókunnur höfundur.


Ég fer í fríið

Jább þið lásuð þetta rétt. Ég er sum sé að fara í frí í viku með eiginmanninum og við förum á morgun. Þetta var ákveðið í apríl en eins og þið vitið að þá er alltaf/oft oggulítið vesen á mér, þannig að það er ekki fyrr en í dag sem ég leyfi mér að segja að ég sé að fara í fríið.

Kjell Aage Hemm heitir eigandi fatamerkisins Jameson, sem við flytjum inn. Hann var hér á Íslandi í apríl þegar ég var mjög slæm. Þá tilkynnti hann okkur það að hann ætlaði að bjóða okkur heim til sín til Noregs núna í september og skikka okkur í viku frí. Hann lét ekki standa við orðin tóm heldur pantaði miðana og við förum á morgun og komum til baka sunnudaginn 21 sept. Þannig að þið fáið frið fyrir mér í heila viku. Guð einn veit að elskulegur eiginmaður minn veitir ekki af smá fríi. Auðvitað hef ég líka gott af því, en ég geri fjandakornið ekki neitt heilu og hálfu dagana meðan hann er eins og þeytispjald um allar trissur.

Spáið aðeins í þessu........þetta verður fyrsta frí okkar hjóna saman í 8 ár. Jújú við höfum farið saman til útlanda og svona, en þá var það alltaf vegna vinnu (innkaupaferðir) eða ráðstefnur og þess háttar. En núna hangir ekkert annað á spýtunni en hvíld. Við ætluðum reyndar að taka okkar fyrsta sameiginlega frí í maí en þá kom blessaði jarðskjálftinn og hristi aðeins upp í þessa áætlun. Þannig að við fljúgum til Osló á morgun og mun Kjell koma og sækja okkur og fara með okkur heim til sín sem er í Sandefjord <--- gæti þurft að leiðrétta þetta. Síðan á miðvikudaginn fljúgum við ásamt Kjell og hans frú, til Þýskalands þar sem sonur þeirra hjóna á sumarhús í Moseldalnum <--- gæti líka þurft að leiðrétta þetta.  Vissuð þið að Mosel væri í Þýskalandi? Ég hélt þetta væri í Noregi og var ekki alveg að skilja þessa ferðaáætlun en ákvað að vera bara farþegi og láta karlinn um þetta. Fékk svo skýringu á þessu öllu þegar Gunnar sagði mömmu sinni ferðaáætlunina. En í Mosel verðum við til laugardags, en þá förum við aftur til Noregs og heim á sunnudaginn.

Ég þarf að taka svo mikið af lyfjum með mér og vona ég innilega að það verði ekki gert leit hjá mér. Yrði örugglega sökuð um inn eða útflutning Police 

Annars er ég nokkuð góð þessa dagana. Fyrir utan að geta varla sofið. Ég reyndi að ná á hana Helgu lækni til að hún gæti breytt lyfjaskammtinum svo ég geti sofið. En hún er í útlöndum og kemur ekki aftur fyrr en á þriðjudag. Ég verð því að sætta mig við þetta þar til þá. Sjónin á vinstra auga fer versnandi og næ ég því orðið aldrei í fókus. Þannig er að sjóntaugarnar liggja í kringum heiladingulinn og líklegt er að æxlið sé farið að stækka og þannig farið að þrysta á sjóntaugarnar. Þetta er að vísu ekki alslæmt, því ég virðist alltaf vera að blikka alla hægri vinstri þegar ég reyni að ná fókus og ég held svei mér þá að það sé bara nokkuð sætt Wink. Það góða er að ég er hætt að kasta upp og ógleðin er að mestu horfin. Og núna er ég að minnsta kosti með meðvitund. Kannski full mikla, en með meðvitund engu að síður. Við skulum ekki gera lítið úr því.

Reynið nú að sakna mín ekkert allt of mikið meðan ég er í burtu en usssss hvað ég á eftir að sakna ykkar samt.

Molin að þessu sinni á því að duga út vikuna: Heimurinn er eins og býflugnabú. Við komum öll inn um sömu dyr en búum í mismunandi hólfum. - Afrískur málsháttur.

Knús á ykkur öll og við skjáumst fljótlega.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband