12.7.2008 | 10:36
Bakslag og bloggleysi
Mér hafa borist til eyrna spurningar og jafnvel kvartanir yfir bloggleysi hjá mér og hver ástæðan gæti verið. Því miður er það ekki af fúsum vilja en þannig er að ég fór í stóra aðgerð um miðjan maí og allt gekk vel þar til fyrir 3 vikum síðan að mér fór aftur að versna. Síðasta vika hefur síðan verið mér mjög erfið og hef ég bara getað verið í tölvunni í örlitla stund í einu en aldrei nógu lengi til að geta lesið blogg bloggvina minna, kvittað eða skrifað neitt sjálf. En ég hugsa mikið til ykkar og vona að ég geti farið að kíkja á bloggin hjá ykkur fljótlega. Þetta sem ég er að skrifa hér tekur mig langan tíma, þar sem ég þarf reglulega að taka hlé á skrifunum. En ég er öll að koma til og hef oft verið verri en ég er núna. Þannig að það er sko bara bjart framundan .
Ég er með sjúkdóm sem heitir Cushing (getið googlað það ef þið viljið). Í maí var tekin hjá mér nýrnahetta, en þar var stórt hormónaframleiðandi æxli. Einnig er ég með æxli við heilann eða í heildadingli nánar tiltekið. Góðu fréttirnar eru að við hjónin fengum að vita í gær að sem stendur er það æxli ekki að gera neitt af sér (7-9-13). Engin skýring er enn komin á hvað veldur bakslaginu, en við tökum einn dag fyrir í einu og þökkum bara fyrir hann.
Ég vil alls ekki fá neina vorkunn eða neitt svoleiðis. Ástæðan fyrir því að ég er að segja frá þessu, þrátt fyrir að vera búin að ákveða áður að gera það ekki, er að þegar fólk fær ekki að vita hvað er í gangi, afhverju maður sé hættur að vinna og afhverju maður líti svona illa út, þá fer það að geta í eyðurnar og er það manni sjaldnast í vil. Sem betur fer eru þessar raddir í miklum minnihluta. En eins og gengur og gerist eru það því miður neikvæðu raddirnar sem eru hvað háværastar. Ég þakka bara Guði og almættinu fyrir hann Gunna minn, en hann kemur með mér í hverja einustu rannsókn, hverja læknisskoðun og stendur fastar við hlið mér en klettur. Það eru ekki allir svona heppnir. Einnig á ég öflugt stuðningsnet í fjölskyldu minni og vinum. Þannig að mér dettur ekki til hugar að kvarta.
Margir af vinum mínum létu sig hverfa þegar ég veiktist. Ekki gerðu þau það af mannvonsku, heldur vegna þess að þau hreinlega vita ekki hvernig þau eiga að haga sér í kringum sjúkling. Staðreyndin er sú að það á ekkert að koma eitthvað öðruvísi fram við okkur en áður. Mér er það hrein lífsnauðsyn að finna að ég er enn lifandi og venjuleg manneskja. Á móti kemur að ég eignaðist nýja vini og varð jafnframt nánari þeim eldri. Elskuleg systir mín hún Anna ætlaði í bíó með vinkonu sinni í gær þegar hún ákvað allt í einu að hún gæti allt eins farið í bíó hér á Selfossi og draga mig með (en hún býr í bænum). Til að gera langa sögu stutta þá var ég dregin í bíó á Mamma Mía (hrikalega góð mynd) og skemmti mér konunglega. Þetta var ekki auðvelt en mikið svakalega hafði ég gott og gaman af þessu og þessi bíóferð var hrein næring fyrir sálina. Kann ég systur minni og vinkonu hennar hinar bestu þakkir fyrir þessa tilbreytni. Dýrka þig í ræmur elsku systa .
En hafið ekki áhyggjur þó ég bloggi ekki um tíma, því ég kem aftur....................... ég kem ALLTAF aftur
Kram og knús á línuna gott fólk. Njótið helgarinnar og það sem lífið hefur upp á að bjóða.
Moli dagsins er að þessu sinni tengdur þessari færslu: Ef þú vilt vita hverjir vinir þínir eru, þá skaltu gera þér upp veikindi. Kínverskur málsháttur.
Athugasemdir
Já mín elskuleg það hafa allir sinn djöful að draga en misjafna djöfla þó. Þinn er ekki eftirsóknarverður það verður að segjast. En Almættið hefur greinilega talið að þú værir nógu sterk til að takast á við hann. (rétta týpan) Já svo sitjum við hin og kvörtum undan litlu púkunum sem þykjast vera djöflar usss bara.
En það er mikið satt að það eru ekki allir vinir, vinir í raun. Því miður. Ég hef talið mig vera það en margir minna vina hafa sko ekki verið það. Því á ég fáa en góða vini (held ég) Það eru verstu vinirnir sem þykjast vera vinir (jafnvel í raun) en naga mann stöðugt í bakið og smjatta á því sem til fellur. (ég forðast þetta fólk enda er það búið að brenna mann) Ég flutti nefnilega norður og þekkti engann og komst að því að það eru helv.... margir smjattarar hér. En einni samstarfskonu gat ég treyst og síðar manninum mínum núverandi. En ég flutti og skildi 6 mán. síðar og já ekki fögur saga þar.
En elskulegust farðu vel með þig og vel á minnst svakalega áttu frábæra systir. Knús og klemm á helgina þína.
JEG, 12.7.2008 kl. 10:58
Sæl Tína mín. Var einmitt að hugsa til þín í gær. Gott að vita að þér er að skána, ég vissi reyndar ekkert um þessa stóru aðgerð hjá þér, þetta er nú fjandans mikið sem lagt er á ykkur, en Gunni þinn er jafn pottþéttur og Bjarni minn, mikið erum við heppnar konur. Gangi þér allt í haginn elskuleg og þú leyfir okkur að fylgjast með. Batakveðjur
og frá Bjarna líka.
Ásdís Sigurðardóttir, 12.7.2008 kl. 14:18
Hrönn Sigurðardóttir, 12.7.2008 kl. 16:54
Farðu vel með þig flotta kona
Hólmdís Hjartardóttir, 12.7.2008 kl. 17:50
knús á þig dúlla,veit þú kemur alltaf aftur !!!
mátt bjalla á mig við tækifæri ,hef fréttir að færa
nei ég er ekki að koma með aðra tvíbura 
Gunna-Polly, 12.7.2008 kl. 20:12
Innlitskvitt - og batakveðjur.
Sigrún Óskars, 12.7.2008 kl. 22:09
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 13.7.2008 kl. 02:00
Ég fæ nú bara gæsahúð. Þú stendur þig vel.
En ég skil ekki vini sem hverfa þegar á móti blæs. Mun aldrei skilja það reyndar.
Ég held að þú eigir svo mikið betra skilið.
Milljón knús og kram.
Jenný Anna Baldursdóttir, 13.7.2008 kl. 12:12
Ástæða þess að ég er búinn að hugsa mikið til þín/ykkar - er meðal annars sú að ég kom á Selfoss um síðustu helgi - og hvað helduru - Jú, mar kíkti í Blaze verzlunina...
En, ég vona sannarlega að þú fáir sem mestan styrk sem fyrst - og vona að þú farir extra vel með þig mín kæra. Ég er sammála þér með það að stundum eru neikvæðar raddir svo háværar að þær yfirgnæfa þær jákvæðu - en vinir sem hverfa þegar maður veikist - eru engir vinir, bara kunningjar sem koma og fara. Spakmælið þitt hérna er svo lifandi rétt og satt.
Knús á þig elsku bloggvinkona og farðu vel með þig, we will always be here for you!
Tiger, 13.7.2008 kl. 16:07
Ég googlaði þennan sjúkdóm, það er ekkert smáræði sem þú ert að glíma við. Ég óska þér góðs bata
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.7.2008 kl. 01:28
Takk fyrir hlýjar og góðar kveðjur yndislega fólk.
Tigercopper: Æ hvað mér finnst nú leiðinlegt að missa af þér elsku vinur. En því miður er ég sama sem aldrei upp í búð, nema þá til að færa húsbandinu eitthvað að borða. En já það var húsbandið sem þú hefur spjallað við. Fékkstu þér ekki í það minnsta kaffi? Og hvernig leist þér svo á herlegheitin?
Tína, 14.7.2008 kl. 09:30
Nei, ég kom bara við á leiðinni að Úlfljótsvatni frá Hellu - því mig vantaði gömlu gerðina af Hlýrabol handa mági mínum sem var að farast úr hita og er spéhræddur með eindæmum - þorir ekki að vera ber að ofan.. hehehe.
Tiger, 14.7.2008 kl. 19:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.