26.9.2008 | 06:50
You have to do it with a smile.
Meðan við hjónin vorum í Noregi í gsm og netleysi þá eyddi ég miklum tíma í lestur og íhugun. Hrikalega spennandi kunna sumir að hugsa, en ég get með sanni sagt að þarna opnaðist fyrir mér nýr heimur.
Ég tók nefnilega með mér bók sem heitir "Mikael handbókin, þú lifir aftur og aftur". Hún fjallar um sálarferil hvers manns og andlegur þroski. Hún er í rauninni of margbrotin og flókin til að telja upp hér um hvað hún fjallar nákvæmlega, en ég mæli eindregið með henni. Ég er alveg ógurlegur spíritísti í mér og drekk í mig allt sem snýr að andlegum málefnum. En þið þurfið ekki endilega að vera sammála því að líf sé að loknu þessu eða hlynnt andlegum málefnum til að setjast niður í smástund og skoða ykkar innra sjálf. Hver eru þið? Hvað getið þið lært af reynslunni sem þið verðið fyrir? Hver er tilgangurinn með lífinu? Hvað langar ykkur til að fá út úr þessari jarðvist? Dugir ykkur lífsgæðakapphlaupið eða viljið þið kafa dýpra?
Lestur þessarar bókar fékk mig til að staldra aðeins við og hugsa "Hvers vegna er ég hér og hvað er það sem ég ætla að læra með þessari jarðvíst?" Ég hljóp hratt yfir þau tæplegu 37 ár sem ég hef lifað og komst furðu fljótt að niðurstöðu. Mér er hreinlega ætlað að læra þolinmæði og æðruleysi. Þolinmæði í víðustu merkingu þess orðs. Allt frá því að temja mér þolinmæði í umferðinni til þess að hlutirnir hreinlega gerast á þeim hraða sem þeim er ætlað, og að engin pirringur í veröldinni eða óþolinmæði fái því breytt svo vel sé. Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki þá er það að bíða og að hlutirnir gerist ekki alltaf þegar mér hentar. Og mér gengur bara ansi vel á þolinmæðisbrautinni þó ég segi sjálf frá en á samt slatta eftir í land. En þetta kemur hægt og bítandi.
En þá komum við að æðruleysinu. Af hverju tel ég að mér sé ætlað að temja mér það? Ég ætla nú að forða ykkur frá því að þurfa að lesa um allt sem ég hef upplifað á minni lífsleið en ætla aðeins að renna yfir þetta ár sem blessunarlega er bráðum á enda runnið. Í byrjun ársins fundust æxlin í heilanum og nýrnahettu, og hefur það sem komið er af árinu snúist um baráttuna við þennan sjúkdóm. Í vor lést Gunnhildur amma Gunnars og daginn sem hún var jörðuð þá dó amma mín. Jarðskjálftinn kom svo í maí sem lagði heimilið okkar í rúst aðeins 10 dögum eftir stóra aðgerð sem ég fór í. Í byrjun september mánaðar lést fóstursonur minn. Núna liggur hún móðir mín elskuleg hættulega veik á Landsspítalanum og er mjög tvísýnt um hana. Einnig er gengishrunið að gera rekstur búðarinnar mjög erfitt fyrir, sérstaklega þar sem við flytjum allt inn sjálf.
En þrátt fyrir þetta allt þá erum við hjónin hvergi á því að láta bugast. Sum hjónabönd þola ekki svona álag. En þetta hefur styrkt okkur. Ég hef alla tíð vitað hversu lánsöm ég er með minn eiginmann, ég hef bara fengið staðfestingu á því á þessu ári. Og á hverjum degi styrkist ég í þessari skoðun minni. Þetta hefur allt þjappað fjölskyldunni saman og við vitum að við munum standa þetta allt saman af okkur. Því ekkert getur grandað svona sterka einingu. Það er mín einlæga trú. Og það er ein setning sem gestgjafi okkar Kjell Aage í Noregi segir alltaf þegar á móti blæs eða eitthvað er leiðinlegt sem þarf samt að gera og hún er "You have to do it with a smile" Og vitiði hvað? Þetta er svo rétt hjá honum og einfaldar svo allt saman.
En á ég að segja ykkur svolítið? Ég ætlaði alls ekki að skrifa um þetta þegar ég ákvað að skrifa færslu, heldur ætlaði ég að láta ykkur vita að maðurinn minn elskulegi kom færandi hendi heim í gær með nýja höggþolna tölvu (ég missti nefnilega hina í gólfið þegar ég fékk aðsvif). Þannig að núna er ekkert því til fyrirstöðu að ég fari að hlaða inn myndum af utanlandsreisu okkar hjóna.
Ég ætla því að láta hér staðar numið í dag og sendi ykkur orkuknús inn í daginn ykkar og áður en þið farið að sofa í kvöld þá langar mig að biðja ykkur að gefa ykkur örlitla stund og hugsa hvaða lærdóm þið dragið af þessum degi.
Molinn í dag hljómar svona: Ef þú veist ekki hvert þú stefnir, endar þú örugglega einhvers staðar annars staðar. Laurence J. Peter.
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Bloggar, Vefurinn, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 06:53 | Facebook
Athugasemdir
Þú ert falleg kona Tína, að utan sem innan greinilega.
Jenný Anna Baldursdóttir, 26.9.2008 kl. 07:33
Hmm... Þetta er innlitskvitt. Mig langar líka að bæta við texta, en veit ekki alveg hvar skal byrja. Byrja þá bara einhvers staðar, og held áfram...
Veistu, mér finnst það frábært! hvernig bros og jákvæðnin hjá þér skín í gegn um allt sem þú og þið eruð að gera og ganga í gegnum. Á sama tíma finnst mér ærið nóg hafa verið lagt á ykkur. Það eru ekki allir sem hefðu staðið undir svona álagi. Og á sama hátt þá finnst mér það alveg frábært hjá ykkur, hvernig þið náið að standa saman, þétt saman. Og þjappist bara enn betur saman við hverja ágjöf.
Vissulega má flokka þetta sem vissa tegund af heimspeki, að takast á við málin eins og þið eruð að gera. Sumir myndu segja að þetta væri tilefni til að íhuga og skoða trú... Aðrir segja að þetta sé viss heimspeki... eða lærdómur í æðruleysi.
Ég áttaði mig á því smátt og smátt í sumar.... hvað það getur verið skemmandi að pirrast of mikið út í allt og alla... Ég er farinn að ná að tappa pirrinu af mér áður en það brýst fram eins og stífla sem brestur skyndilega. Lesa síðan pistlana frá þér, og kommentin frá þér í athugasemdakerfunum út um allt... það bætir í "jákvæðnikvótann" í heiminum. Og það er bara meira heldur en að segja það.... nóg er af öðrum neikvæðum áhrifum, og óþarfi að bæta þar í. (Ok, ég er kannski ekki enn kominn með geislabauginn, varðandi pirrið... en... ég er á leiðinni :-)
Hmm... Þetta átti semsagt að vera innlitskvitt... Ég held ég láti staðar numið hérna, og segi bara ... "Hæ, einfalt innlitskvitt" (þó þetta hafi flækst aðeins meira en til stóð í upphafi).
Einar Indriðason, 26.9.2008 kl. 08:29
Hrönn Sigurðardóttir, 26.9.2008 kl. 08:30
Jenný: Þakka þér fyrir elskan en sjálf ertu falleg á allan hátt.
Ester: Það ætla ég að vona að það fari að koma sól.............. við þurfum nefnilega að gera við þakið sem míglekur um allt eftir jarðskjálftann. Spurning hvort maður hafi svo tíma þegar loksins þornar
Einar: Ég sé svo sannarlega að það er farið að glitta meira en lítið í geislabauginn hjá þér vinur minn. Og ég verð nú að viðurkenna að ég bíð alltaf spennt eftir athugasemd frá þér sem og færslu, því skemmtilegur ertu með eindæmum og frábærlega þenkjandi. En ég get víst stundum verið neikvæð líka. T.d þegar ég sá rétt í þessu að það væri að myndast hinn myndarlegasti pollur í anddyrinu hjá mér því fjárans þakið lekur og rigningunni slotar ekki þannig að við getum farið í þakviðgerðir. Sko......................... þarna er ég búin að pústa ærlega
Hrönn: Dýrka þig kona.
Tína, 26.9.2008 kl. 08:54
Elsku Tina mín. Ég held ég viti líka einn tilgang lífs þíns og hann er sá að kenna okkur hinum hve ótrúleg jákvæðni og umhyggja getur miklu áorkað. Það eru fáar manneskjur sem geta gefið frá sér slíka orku sem þú gerir og það jafnvel gegn um skrif á netinu hvað þá í eigin persónu. Þetta er svo sannarlega eiginleiki sem við viljum öll hafa og ég get allavega sagt fyrir mína parta að ég læra alltaf eitthvað smá um þetta í hvert skipti sem ég les skrif frá þér. Takk fyrir þessa miklu og dýrmætu gjöf sem þú ert að gefa okkur hinum
Dísa Dóra, 26.9.2008 kl. 09:08
Búkolla: Það getur ekki annað verið en tilgangurinn sé einhver. Það væri annars frekar tilgangslaust að vera til og ganga í gegnum bæði gleði og sorg. En engill er ég nú ekki þó svo að allt stefni í að við Einar förum að hittast til að bóna geislabaugana okkar í sameiningu, svona ef til þess kemur að við getum farið að setja þá upp
Dísa Dóra mín: Nú roðnaði ég niður í hársrætur og alla leið niður á tær svo vægt sé til orða tekið. En það gleður mig að þessar pælingar mínar hjálpi þér á einhvern hátt. En mikið óskaplega hlakka ég til að læra af þér!!!
Ditta: Þakka þér fyrir elskan mín og ég vona að þér sé nú farið að líða betur.
Tína, 26.9.2008 kl. 09:19
Takk fyrir innlitið Tína mín og gott að heyra að þið hjónin hafi notið ferðarinnar og enn þá betra hvað þið standið vel saman.
Færslan þín er frábær að vanda, það er sko klárt að þú ferð í það að pússa geislabauginn fjótlega....annars sýnist mér hann glitra frábærlega nú þegar.
Þú er svo sannarlega meiri háttar, þú lærir af áföllunum og kennir okkur hinum að taka okkar áföllum af æðruleysi.Takk fyrir góða færslu.
Sóldís
Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 26.9.2008 kl. 10:07
Tína mín, takk fyrir skilaboðin. Ég bið fyrir ykkur, og vona að mamma þín hressist.
Endilega notaðu númerið mitt við tækifæri, ég hef trú á að við höfum um margt að spjalla. Því fleiri færslur sem ég les hjá þér, því meir sé ég að við erum í sömu andlegu fjölskyldunni.
Hlakka til að hitta þig, fyrr en síðar.
Með kærleika og virðingu,
SigrúnSveitó, 26.9.2008 kl. 10:13
Já krússudúlla, það er þetta með þolinmæðina og æðruleysið það á svo vel við okkur báðar að það hálfa væri nóg, Jú krúsla það er það sem við eigum víst að læra af okkar reynslu, ég er hér með ljóð upp á vegg sem ég les þegar mér finnst ég vera að gefast upp, þetta ljóð kom frá henni systur þinni og heitir Don´t Quit.
Svo er ég alltaf á leiðinni í kaffi til þín en leiðinn er löng eins og allir vita er Selfoss stór bær
Helga Auðunsdóttir, 26.9.2008 kl. 10:36
Sæl elsku Tína!
Ég á bara ekki til orð yfir það hvað þetta er dásamlega rétt hjá þér. Þú ert algjör perla
Bið þess að mömmu þinni batni
Vona að dagurinn verði þér góður, kær kveðja
Ásdís Emilía Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 11:09
Frábært! Tína mín, við höfum fengið svipað námsefni að þessu sinni. Læra þolgæði, þolinmæði og æðruleysi að ekki sé minnst á ástina sem við höfum lært á. Mitt verk hefur verið að elska skilyrðislaust án þess þó að láta þá sem ég elska brjóta mig niður. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt.
Nú um stundir er ég í miklu prógrammi og hef þar með mér Guð. Ég er líka að læra umburðarlyndi og ég er að læra að sleppa dómhörkunni.
Ég þakka hvern dag, ég á bara þann dag. Himmi minn er með í hjartanu, þessi elsku strákur.
ps. Mér finnst þeir sem skrifa hér fyrir ofan algerlega æðislegir, frábær komment sem þú færð mín kæra.
Ragnheiður , 26.9.2008 kl. 11:58
Sigurður: Það sem þú segir hérna er svo satt og rétt.
Sóldís: Takk fyrir falleg orð elskan mín. En kannastu við að þegar þig vantar svar við einhverju þá dugi oft að tala um það? Jæja..... þetta er það sama sem ég er að gera hér. Ég læri s.s um leið og þið og oft fá commentin frá ykkur, mig til að sjá hlutina í enn víðara samhengi og frá sjónarhornum sem ég hefði jafnvel ekki hugsað út í.
Sigrún: Ég hlakka sjálf voðalega mikið til að hitta þig vinkona. En fyndið að þú skulir nefna sálarfjölskyldu..... því það er einmitt farið út í það í fyrrnefndri bók.
Helga: Satt segirðu að innanbæjar vegalengdirnar hérna eru æri langar. Það endar bara með því að ég kíki aftur til þín ljúfust
Ásdís: Glitrandi perla ertu sjálf góða mín. En ég skal skila kveðjunni til mömmu og vona ég að þinn dagur verði einnig dásamlegur.
Ragga: Að elska skilyrðislaust er meiriháttar verkefni og dáist ég að þér fyrir að taka þér það hlutverk á hendur. Gakktu á Guðs vegum elskan mín. En satt segirðu með commentin hérna. Allir eru svo yndislegir og hjartahlýir. Dásamlegt að eiga svona góða að svo ekki sé nú minnst á styrkinn sem í þessu felst.
Tína, 26.9.2008 kl. 12:50
það er ekki laust við að maður tárist við þennan lestur....eigðu góðan dag
Hólmdís Hjartardóttir, 26.9.2008 kl. 13:00
Fallegt og gott blogg hjá þér..hvernig stendur á því að ég hef ekki rekist á þig áður???
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 26.9.2008 kl. 13:33
Innlitsknús á þig dúllan mín. En nú er maður frekar busy og getur varla lesið bloggin eins og venjulega. En þetta gengur yfir og þá fer maður að lesa ykkur í strimla. En nú er smá pása í fjárstússi og þá þarf að baka því lítill gutti þarf að fá afmælispartý og það verður á morgun. Svo verður haldið áfram að þukla og skoða lömb. Já og redda sér aðstoðarfólki í hin og þessi verk sem framkvæma þarf. Svo kemur kallinn heim .....vonadi eftir helgina. Og það þarf að redda því.
En nú er minn tími búinn í bili svo ég segji bara knús og klemm í klessu mín kæra og farðu vel með þig
JEG, 26.9.2008 kl. 13:47
Elsku Tína mín, ég er með gæsahúð eftir lesturinn, get svo sett mig í þín spor þó mín veikindi hafi ekki verið eins erfið finnst mér. Þú ert heppin eins og ég að hafa eignast yndislegan eiginmann og lífsförunaut. Er sammála þér með þetta allt með þolinmæði, reynslu og æðurleysi, ótrúlegt hvað hægt er að tækla með góðan mann sér við hlið. Nú eru dýrin mín farin á frábær heimili og ég fæ að fylgjast með þeim, heilsan er betri og ég á leið í þjálfun framhaldið hlýtur bara að vera gott. Guð gæti mömmu þinnar og farðu vel með þig elsku Tína, hlakka til að sjá myndir. Góða helgi
Ásdís Sigurðardóttir, 26.9.2008 kl. 15:45
Hólmdís: Vonandi þá gleðitárum darling.
Katrín: Ekki hef ég grænan grun um afhverju það tók þig svona langan tíma að finna mig. Og ég sem beið bara hérna eftir þér
JEG: Elsku hjartað mitt............... það vona ég að þú fáir nú einhverja hjálp við þetta allt saman. Ég veit það er auðvelt fyrir mig að segja þetta en erfiðara að fara eftir því........................... en viltu í guðana bænum passa upp á heilsuna þína????? Ég VAR bara að finna þig skilurðu.
Ásdís: Veikindi eru veikindi, hversu alvarleg sem þau eru þá breytir það ekki þeirri staðreynd að þau eru alltaf erfið viðureignar. Að eiga góða að breytir öllu um hversu létt baráttan verður. Frábært að heyra þetta með dýrin þín og að þú sért nú öll að koma til.
Tína, 26.9.2008 kl. 17:52
Rétt hjá þér Tína mín, það er ekki hægt að flokka veikindi þau eru alltaf erfið. Hlakka til að hitta þig fljótlega. Knús og kveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 26.9.2008 kl. 17:56
Kom aftur til að lesa hægar og betur ;) Vitaskuld er öllum hollt að staldra aðeins við og hugsa. Sérstaklega af því að enginn virðist hafa tíma lengur til að hvorki staldra við né hugsa. Ég renndi yfir mín rúmu fjörtíu ár og ég held ég sé komin að niðurstöðu um það hvert mitt hlutverk er.
Vildi líka segja þér að ég hef aldrei nokkurn tíma hitt neina manneskju sem braut sér leið að hjarta mínu svona hratt og örugglega eins og þú. Yfirleitt þarf fólk að fara ýmsar krókaleiðir og feta marga slóða til að ná þangað. Eitt faðmlag frá þér dugði hinsvegar til að ég bráðnaði
Hrönn Sigurðardóttir, 26.9.2008 kl. 18:35
Get tekið undir orð Hrannar. Það er svo auðvelt og eðlilegt að þykja vænt um þig elsku Tína mín. Þú ert einfaldlega yndisleg manneskja.
Ásdís Sigurðardóttir, 26.9.2008 kl. 18:38
Hrönn dúllurassinn minn: Ég held ég taki mér orð Sigrúnar í munn þegar ég segi að við hljótum að vera í sömu sálarfjölskyldu. Málið er nefnilega að mér fannst eins og ég hefði alltaf þekkt þig. Það er bara ekki flóknara en það. Og þvílík vinkona sem ég eignaðist!!!! Tala nú ekki um að ég er þekkt fyrir að fara styttri leiðirnar. Er ekkert að vesenast þetta skilurðu
Ásdís: Hlakka líka mikið til að hitta þig aftur krútta og sjálf ertu yndisleg og með hjarta úr gulli.
Tína, 26.9.2008 kl. 18:47
Elsku krúttið mitt. þetta er góð og gagnlegt blogg hjá þér þessar bækur eru líka bara snild
Sigurlín (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 18:53
Sigurlín: Elsku hjartans besta vinkona mín................. það kann vel að vera að þetta hljómi svolítið 2007 að segja "besta" en þetta er einfaldlega staðreynd engu að síður. Enga vinkonu hef ég átt sem hefur reynst mér eins sönn, góð og vel eins og þú. Sama í hvernig ástandi sálartetrið á mér er og á hvaða tíma sólarhrings (hef að vísu enn ekki notfært mér þig að næturlagi) að þá ert þú til staðar fyrir mig. Það besta sem hefur komið út úr minni veikindabaráttu var að kynnast þér. Takk fyrir að vera til Sigurlín mín. Ég elska þig inn að beini.
Tína, 26.9.2008 kl. 19:39
Ég las þessa Michael handbók fyrir mjög mörgum árum, þótti mér lesningin mjög áhugaverð. Ég trúi því að við séum hérna til þess að læra, og ef við stöndum okkur ekki þurfum við að endurtaka leikinn seinna Það er frábært hvað þú hefur fengið marga bloggvini, sem virkilega þykir vænt um þig. Ég vildi að ég gæti tjáð mig svona vel eins og þú gerir. Ein sem dáist að þér. Ég vona að mömmu þinni líði vel, og að allt muni ganga vel hjá ykkur hjónunum.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.9.2008 kl. 00:28
http://huxa.blog.is/album/myndir/image/675047/ Hei meðan ég man, þetta er ástæða þess að táin á örverpinu sýktist í haust. Ég er stundum allt of myndaglöð
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.9.2008 kl. 02:05
Það er svo hollt og gott að vera sjálfrýninn og byggja sig þannig upp. Jákvæðnin er það besta sem við notum í lífinu og gerir lífið svo miklu auðveldara!
Eitt sinn las ég bók um sálina og þá sjúkdóma sem "við" veljum okkur. Þar var því líst að sjúkdómurinn slípaði til sálartetrið en nóg um það! Gerum hlutina í gleði því það verður allt mun auðveldara hvort sem við erum að kljást við erfiðleika eða þrautir eða bara hvað sem er!
Knús á þig sæta!
www.zordis.com, 27.9.2008 kl. 11:45
Hæ elsku besta mín, veit nú ekki hvort þú kemst yfir að lesa þetta allt en það virðist að ég sé yfirleitt ein af síðustu til að kvitta hjá þér. Viltu endilega knúsa mömmu þína frá mér og ég vona svo innilega að henni batni. Sá færsluna þína í gær í vinnunni en get ekki sent athugasemdir þaðan...svo í dag spilaði ég aðeins padel og er að reyna að slappa af áður en ég fer í homma steggjapartý sem hlýtur að verða geðveikt. En þessar bækur eru mjög fróðlegar og sú sem ég las um daginn var Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn....ég er eftir öllum mætti að reyna að fara svolítið eftir henni því það er svo margt rétt í þessu. Eins og að við stjórnum sjálf algörlega góðum og slæmum hugsunum og líður náttúrulega eftir því...úff en þetta er ekki eins auðvelt í verki hahaha. Elska þig dúllan mín, naut þess virkilega að fá að sjá þig nokkrum sinnum í sumar. KNÚS
Guðrún Helga Gísladóttir, 27.9.2008 kl. 16:04
Tína, takk fyrir þennan pistil. Það er greinilegt að margt er ólært hjá mér, þetta með brosið er ansi fljótt að gleymast, það er svolítill drungi þessa daganna og hef ekki bloggað mikið undanfarið en það þarf heldur ekkert að vera blogga alltaf, mér finnst samt gott að eiga ykkur að, bloggfélagana og kíki inn af og til með drunganum en kannski fer að létta til, það hefur verið svoæeiðis í dag og í gær.
Knús á þig fallega kona.
Edda Agnarsdóttir, 28.9.2008 kl. 09:52
hæhæ sæta. vildi bara láta þig vita að við erum að lesa hjá þér þó ekki alltaf sé kvittað og að við erum búin að blogga. OK, LOKSINS og ég er að setja inn myndir fyrir þig og þig og alla hina
kv Grétar og Maríanna
Grétar og Maríanna (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 09:54
Hrönn Sigurðardóttir, 28.9.2008 kl. 21:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.