Síðasta færslan

Já þið skiljið þetta rétt. Þetta er í síðasta skipti sem ég blogga. Ég hef bara enga orku í þetta lengur eins og þið hafið sjálfsagt tekið eftir. En ég get ekki hætt án þess að kveðja fyrst og koma með loka pælingu sem vert er að hafa í huga í daglega lífinu.

Það er búið að vera ansi mikið að gera hjá mér síðustu 2 vikurnar. Leifur minn kom í heimsókn með konuna sína hana Ernu og dóttir hennar, en hún heitir Þóra. Hún reyndar gengur undir nafninu "Skotta" hjá mér og held ég að henni líki það nú ágætlega, enda spurði hún mig um daginn "ammaaaa áttu nokkuð fleiri skottur?". Mér líkar ömmu hlutverkið mjög vel og svei mér ef ég er ekki bara ágætis amma. Heilsan er því langt frá því að vera góð og eins og áður sagði þá er þreytan orðin ansi mikil. Þannig að ég get ekki beitt mér eins og ég svo gjarnan vildi.

Leifur og Erna eru búin að taka þá ákvörðun að búa hér á Selfossi og eru nú að leita sér að vinnu og húsnæði en eru hérna hjá okkur þar til þá. Einnig eru yngstu strákarnir okkar, þeir Óli og Valdi (synir Gunnars) búnir að vera hjá okkur í páskafríinu en fara aftur heim til sín í dag. 

En að hafa allt þetta fólk í kringum mig hefur fengið mig til að hugsa um hvaða minningar um mig ég skilji eftir til þeirra. 

Kannist þið við að hafa lesið minningargreinar og velt því fyrir ykkur hvernig viðkomandi var í augum vina og ættingja? Hafið þið hugsað út í hvernig og hvort það verði skrifað um ykkur þegar þið farið? Munu margir sakna ykkar? Hefur ykkur tekist að marka djúp spor í lífi einhvers? Hafið þið látið framhjá ykkur fara, tækifæri til að kynnast nánum ættingja eða vini almennilega? 

Mér þykir undurvænt um hann bróður minn og erum við í góðu sambandi. Hann er að verða 43 ára en ég er 37. Samt sem áður er það svo að við töluðum í fyrsta skipti í morgun um okkar langanir. Einnig las hann bloggið mitt í fyrsta sinn í morgun og komst að því að ég væri nú bara alveg ágætis penni. Hvernig mun hann t.d minnast mín sem systur? Reyndist ég honum góð systir eða gekk ég bara að honum gefnum án þess að huga að því að hann væri svo miklu meira en bara bróðir minn?

Ég held ég hafi sagt þetta við öll börnin mín en þori samt ekki að staðhæfa, en ég hef alveg örugglega sagt þetta við hann Kristján minn, að hann skuli ætíð haga lífinu með það í huga hvernig hann vilji láta minnast sín en vera samt sjálfum sér samkvæmur. 

Staðreyndin er sú að innst inni erum við öll alveg ógurlega sjálfhverf og viljum vera hrókur alls fagnaðar, viljum að fólk telji okkur vera æðisleg, yndisleg, frábær, ómissandi hjá einhverjum, skemmtilegust og allt það. Kannski viljum við ekki vera þekkt fyrir að vera þetta allt saman sem ég var að telja hér upp, en alveg örugglega eitthvað af þessu. Öll viljum við að fólk hugsi jákvætt til okkar. Við könnumst öll við að lifna öll við þegar við fáum hrós eða þegar um okkur er talað á jákvæðan hátt. Því jákvæð athygli er á bið stærstu orkubombu sem fáanleg er.

Spurningin er því þessi: Hvernig haldið þið að fólk muni minnast ykkar? Myndum við vera betri við náungann og jafnvel jákvæðari almennt ef við hefðum þessa spurningu að leiðarljósi? Eru þið sátt við ykkur sjálf? Elskið þið ykkur sjálf eða eru þið allt of hörð við ykkur? Myndu þið vilja breyta einhverju ef þið vissuð að þið mynduð kveðja þennan heim á morgun? Ef svo er............ gerið það þá...... það er enn tími. Ok ok þetta voru nokkrar spurningar en það er bara í góðu lagi

 

Að lokum vil ég þakka fyrir alla vináttu og hlýhug sem þið hafið sýnt mér frá því ég byrjaði að blogga. Mörgu yndislegu fólki hef ég kynnst hérna og góðar stundir hef ég haft hér á blogginu. En nú er komið að leiðarlokum hjá mér og bið ég almáttugum Guði að geyma ykkur og vernda alla tíð.

 

Bless bless

 

Munið svo þennan sannleik sem William Shakespeare sagði: Eitt augnablik getur bæði drepið kærleikann og lífgað hann. 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Indriðason

*RISARISARISASTORLOPAPEYSUKNÚSAFFULLUMKRAFTIENÞOEKKIOFFASTKNUSKNUSKNUS*

Einar Indriðason, 13.4.2009 kl. 09:28

2 Smámynd: Sigrún Óskars

Elsku Tína. Það hefur alltaf verið gott að lesa færslurnar þínar - alltaf einhver sannleikur í þeim og svo molinn sem toppar allt. Ég á eftir að sakna þín helling héðan. Oft hugsa ég til þín - þótt ég hafi aldrei hitt þig - mér finnst þú svo hugrökk og dugleg kona með stórt hjarta.

En ég skil vel að þú hættir að blogga - sérstaklega þegar þú hefur ekki orku til þess lengur.  Megi Guð fylgja þér alla tíð og ég held áfram að hugsa til þín. Ég held líka áfram að senda þér knús og kærleik austur yfir heiðar - bara í huganum.

En núna sendi ég þér á blogginu stórt knús og mikinn kærleik austur yfir heiðar með golunni og megi sólin ylja þér og lýsa upp tilveru þína.  

Takk fyrir að hafa verið bloggvinkona mín Tína  

Sigrún Óskars, 13.4.2009 kl. 09:41

3 Smámynd: JEG

Mín elskulega Tína.  Alltaf jafn stórmerkilegar pælingar sem þú skellir fram og færð mann sannarlega til að hugsa.  Og einmitt eitt af því sem mér fyrst kom í hug er þessi fullkomnunarveröld sem allir virðast lifa í.  Enginn má skera sig úr og vera bara normal.  Kröfur um að vera svona og hinsegin eru að drepa allt sem lífið gengur út á.  Hamingju og ást.  Og vona ég svo sannarlega að fólk sjái  það einn daginn að maður er ekkert verri þó maður sé ekki búinn að lifa hátt og fljúga langt.  Takk fyrir að vera "vinkona mín"

Heljarinnar-risa-knús úr sveitinni og vona að ég eigi eftir að geta knúsað þig í alvöru ...ekki bara sent þér svona tölvuknús.  Farðu vel með þig. 

JEG, 13.4.2009 kl. 10:34

4 identicon

Elsku Tína mín!

Ég skal alveg segja það, að hjartað í mér hefur alltaf hoppað þegar ég hef rekið augun í það, að þú hefur verið að setja fram nýja færslu á blogginu þínu. Þá hef ég alltaf hugsað með mér hvaða skemmtilegu eða djúpu pælingar þú hefur verið að setja fram á bloggið, í það og það skiptið.

Og ég segi eins og hún Sigrún hérna að framan, að ég hugsa oft til þín, þótt ég hafi aldrei hitt þig (hefði verið gaman að hitta þig þarna í fyrra, en ég af einhverjum ástæðum fann ekki tíma til þess) Kannski á ég eftir að láta verða af því, að renna á Selfoss og kíkja á þig, næst þegar við verðum uppi á landi.

Ég get vel skilið að þú hættir að blogga, þó að ég viðurkenni það alveg að ég eigi eftir að sakna þín "helíum" mikið á blogginu.

Ég bið góðan Guð að vaka yfir þér og fólkinu þínu og gefa ykkur styrk og kraft. Mun hugsa til þín og sendi þér kærleik og kraftmikið knús, hérna rétt yfir hafið.

Takk fyrir bloggvináttuna, Tína mín, mér þykir vænt um þig!

Kær kveðja

Ásdís Emilía Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 10:44

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég á eftir að sakna þín hérna á blogginu.  Ég óska þér, Gunnari, börnum og barnabarni velfarnaðar og gæfu. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 13.4.2009 kl. 11:07

6 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Kannski geturðu komið með eina setningu á dag? Eða ætlar þú að vera áfram á trýninu?

Jú ég hef hugsað um spurningar þínar örugglega margoft, en nú er ég sátt og hef enga þörf fyrir að láta minnast mín í greinarskrifum, en það hafði ég þörf fyrir þegar ég var á þinum aldri. Man eftir að hafa tekið loforð af einni vinkonu minni að skrifa um mig minningargrein ef ég félli frá, en núna brosi ég við þessa tilhugsun. Samt er þetta ekki í minni hendi þetta er aðallega fyrir þá sem eftir eru.

Auðvitað er þetta alltaf svolítið einkennilegt þegar bloggarar kveðja hér formlega, ég viðurkenni það að mér finnst það ekki gott, ég hef ekki kvatt bloggið og finnst gott að laumast inn af og til, en líklega er það vegna þess að ég er ekki skipulagssöm.

Ég kveð þig til baka með söknuði að hafa ekki möguleika á þínum skrifum, það er satt hjá bróður þínum, þú ert góður og lipur penni, kannski áttu eitthvað til að gefa út? Það er skemmtilegt fyrir alla að eiga.

Kæra Tína, þú hefur gefið mér mikið með skrifum þínum, það er hlýjan og leiftrunin sem fylgir því að lesa bloggið þitt og það er ekki lítið.

Takk fyrir mig

Edda Agnarsdóttir, 13.4.2009 kl. 13:44

7 Smámynd: Ragnheiður

Hjartans kveðja til þín Tína mín.

Innilegt þakklæti fyrir viskuna sem ég hef notið hérna..

Knús á ykkur öll

Ragnheiður , 13.4.2009 kl. 15:15

8 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mér þykir innilega vænt um þig Tína mín og ég mun sakna fallegu huvekjanna þinna.

Við sjáumst vonandi á Feisinu.

Jenný Anna Baldursdóttir, 13.4.2009 kl. 23:28

9 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Sigrún Jónsdóttir, 14.4.2009 kl. 11:38

10 Smámynd: Guðrún Helga Gísladóttir

Elsku Tína mín, færslan þín í dag höfðar ansi mikið til mín.  Eins og þú veist féll manneskja mjög nákomin mér frá fyrir mánuði síðan, ég get ekki komið mér í að skrifa um hann.  Það er svo margt sem ég gæti sagt en finnst það aldrei nógu gott, hef hugsað mér að senda það til morgunblaðsins sem hefði verið næsti afmælisdagurinn hans, þá get ég hugsað það vel og velt því fyrir mér fram olg tilbaka.  Hef hugsað svo mikið til hans pabba míns undanfarið.  En það er leiðinlegt að þú sért að yfirgefa okkur hérna á blogginu á eftir að sakna þín mikið, þínir yndislegu molar og góðu ráð. Farðu vel með þig og þína og verðum í bandi á feisinu eða á msn!!! Knús í klessu, verð svo á Íslandi í ágúst.

Guðrún Helga Gísladóttir, 14.4.2009 kl. 20:40

11 identicon

Hæ, ég las yfir allt bloggið þitt. Rakst á það fyrir algjöra tilviljun.

Skrítið að það gerist daginn sem þú hættir að blogga.

En mig langar ótrúlega mikið vita eitt. Hvert er framhaldið af þessum veikindum?

Hvað verður gert og hvað hefur komið í ljós upp á síðkastið?

Það er rosalega gott fyrir alla að lesa svona raunarsögu og ég óska þér alls hins besta.

Það væri áhugavert að fá stutt svar ef þú treystir þér í að kommenta.

Stelpa-Ókunnugur lesandi (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 02:34

12 Smámynd: Tína

Þakka ykkur öllum fyrir fallegar kveðjur. En að beiðni ókunnugu stelpunnar þá ætla ég að setja inn hérna smá update.

Í raun er lítið að frétta fyrir utan að ég hef farið stöðugt versnandi en læknarnir standa á gati með hvers vegna ég kúgast svona. Er reyndar að bíða eftir niðurstöðum úr segulómun (vonandi í dag). Ef ekkert kemur út úr því þá er ég hætt þessu rannsóknarbulli. Sorry en ég bara nenni þessu ekki. Það verður bara það sem verða vill. Heilaæxlið er enn á sínum stað og fylgst með því með blóðprufum á 3ja mánaða fresti. Hann Gunnar minn bað reyndar um að það væri myndað í leiðinni þegar ég fór í segulómunina en æxlið hefur ekki verið myndað frá því í haust. Fór í sneiðmynd um daginn og það eina sem kom í ljós þar var að það væri kalkeraður aðskotahlutur í nefholinu, en það á víst ekki að spá meira í því. Og svo var heiladingullinn í efri stærðarmörkum. Segulómunin mun segja nákvæmlega hvað það þýðir. Hvort æxlið sé farið að stækka eða hvort það er bara eins og þegar það var myndað síðast. Í stórum dráttum þá eru þetta nýjustu fréttirnar. 

Ég vil samt taka það fram að ég er ekki það orkulaus að ég liggi í rúminu í allann dag. Enda nóg að gera á mínum bæ. Ég fer bara og legg mig reglulega og ekki er ég að dauða komin. Ég er bara alveg svakalega þreytt.

Guð geymi ykkur öll og takk fyrir að spyrja Ókunnuga stelpa.

Tína, 15.4.2009 kl. 06:32

13 Smámynd: www.zordis.com

Kærleikskveðjur til þín elskuleg. Sparaðu orkuna þína og hlúðu að þér og þínum.

Þú spyrð og spyrð kona :-) Ég trúi á líf eftir líf og líf í lífi! Ég trúi því að lífið gangi betur ef við sættum okkur við hlutina og tökum á þeim með bros á vör sem þó reynist erfitt á köflum.

Í nótt dreymdi mig hann afa minn sem er farin í annan heim. Svona okkar á milli þá kom hann í heimsókn en það er svo skrítið að hann dó á þessum tíma fyrir mörgum árum! Hann sýndi mér svolítið sem styrkir mig í fegurð þess að líf sálarinnar heldur áfram og ljósið okkar sloknar aldrei.

Ljós til þín fallega kona!

www.zordis.com, 15.4.2009 kl. 13:54

14 identicon

Takk fyrir að svara :) Ég skil þig vel að vera uppgefin andlega eftir þessar hremmingar. Vonandi kemuru með update aftur. Ekki gefast upp, þegar þú vinnur þetta stríð þá áttu eftir að þakka fyrir það!!! Mæli samt með að þú biðjir um einhverskonar "gleðipillur" því lang flestir sem ég þekki sem hafa lent í svona eru farnir að fá þannig. Þetta er bara ekki á fólk leggjandi eins og þú hefur lýst þessu.

Gangi þér vel!

ókunnuga stelpan :) (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 14:47

15 identicon

Elsku einstaka hjartagull, Bloggið þitt hefur veitt mér styrk og kraft í að horfa alltaf í það jákvæða, þakka enn betur fyrir það sem ég hef og get, halda sterkt í vonina og trúna ! Að lesa yfir bloggið þitt er einstakt enda þrátt fyrir að hafa hitt þig bara einu sinni og aðallega kynnst þér í gegnum netheiminn að þá er nokkuð augljóst að þú er engri lík ! þú ert fyrirmynd sem ég veit að allir sem þig þekkja og lesa bloggið þitt líta upp til og munu gera um ókomna tíð. þú skilur eftir stórt spor í bloggheiminum sem og allt staðar þar sem þú kemur og snertir við hjörtum. Ég er nokkuð viss um að fólk muni halda áfram að koma hingað og lesa yfir gamlar færslur. Það er endalaust hægt að lesa yfir færslurnar þínar enda eru þær svo fullar af visku og jákvæðar, og eru góðar áminningar.

Ég vona að ég fái fljótt heilsu til að koma og heimsækja þig yfir heiðina, og vonandi fyrr en seinna ! en þanngað til höfum við msn til að spjalla saman...

í lokin langar mig að senda þér tvö hugbrot sem eru til þín:

Hugrekki - þú hefur hugrekki til að horfast í augu við eigið sjálf og styrk til að vera samkvæmur sjálfum þér og fylgja eftir því sem þú veist að er rétt.

Örlæti - Þú ert eins og sólin sem gefur og gleður aðra án þess að búast við endurgjaldi. Með kærleiksríkum hugsunum, orðum, og athöfnum hjálparðu öðrum að upplifa frið og kærleika og uppskerð í staðinn sanna lífsfyllingu.

Takk fyrir að vera þú mín einstaka

Kristín (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 10:13

16 Smámynd: Gunna-Polly

ástarkveðjur frá Sundafrúnni ,þú mátt alveg slá á þráðinn við tækifæri elskan , love :)

Gunna-Polly, 18.4.2009 kl. 22:59

17 Smámynd: Heimir Tómasson

Takk fyrir þessar fallegu færslur Tína mín. Ég lít ekki eins oft inn og ég ætti en ég geri það þó oftar hjá þér en flestum öðrum bloggurum.

Knúsaðu Gunnar frá mér, ég kem í heimsókn næst þegar ég er á landinu.

Guð blessi þig elsku vina.

Heimir Tómasson, 20.4.2009 kl. 17:15

18 Smámynd: Solla Guðjóns

Þetta er mannbætandi spurnig.Allt sem þú segir hér er svo rétt og satt.

Ég vona innilega að þér líði eins og best verður á kosið elsku litla Tína min :)

Solla Guðjóns, 20.4.2009 kl. 22:55

19 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Elsku Tína mín, góð færsla hjá þér. Hef ekki verið hér inni lengi. Mun halda áfram að fylgjast með þér hér í bænum okkar litla.  Gangi þér og þínum allt sem best.  Kærleikskveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 21.4.2009 kl. 18:21

20 Smámynd: Inga María

Hollt fyrir alla að lesa og tileinka sér þína speki....við viljum öll gera okkar besta og skilja eftir minningar hjá okkar nánustu, góðar og hlýjar minningar sem vert er að muna og minnast.   Við erum öll góð...innst við beinin og fæðumst þannig en langt er í þetta góða hjá mörgum og það að skilja að við erum ekki öll eins og því ekki hægt að koma eins fram við alla.  Hugsa oft til þín mín kæra...koma tímar og koma ráð,

Inga María, 22.4.2009 kl. 20:38

21 identicon

Gangi þér vel gamla vinkona - knús og kossar til ykkar allra

Rakel Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 13:32

22 Smámynd: Tiger

  Yndislega Tína! Þín verður hér minnst fyrir jákvæðni og dugnað - orku, ljúfleika og yndisleika ...

Það er mjög sárt að geta ekki tekið af þér sársauka og vanlíðan - og maður verður alltaf svo lítill þegar maður heyrir af vinum sínum í veikindum. Þvílíkt óréttlæti stundum að það hálfa væri hellingur.

Vonast alltaf eftir kraftaverki - og trúi á þau! Bið fyrir þér elsku vinkona og segi bara takk fyrir allt það fallega og yndislega sem hérna hefur flogið frá þér til okkar! Farðu vel með þig og vertu ekki að hafa áhyggjur af allt og öllu - safe your strength!

Ljúfar kveðjur - ljós og kærleikur til þín elsku Tína mín!

Tiger, 7.5.2009 kl. 17:48

23 identicon

Hæ Tína. Kolbeinn hér. Mjög leitt að heyra af veikindum þínum. Vona að þér gangi allt í haginn þrátt fyrir veikindin.

Kær kveðja, Kolbeinn

Kolbeinn Karl Kristinsson (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 02:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband