Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
28.7.2008 | 10:29
Allt á fullu allsstaðar
Kletturinn minn hann Gunnar er farinn til Danmerkur að undirbúa sölusýningu á næstu vorlínu Jameson jakkafatanna. Hann kemur til baka á fimmtudaginn en fer svo aftur 6 dögum síðar til að vinna á þessari sýningu.
Mikið óskaplega sakna ég hans . Heimilið er hreinlega ekki heimili þegar hann vantar. Tíminn eitthvað svo endalaust lengi að líða. En ég hugga mig við það að hann fær vonandi aðeins að hvíla sig í þessari ferð. Guð einn veit að hann þarf á hvíldinni að halda. Ekki veit ég á hvaða orkuforða þessi maður hefur gengið. Samhliða vinnunni í búðinni hefur hann unnið sem verktaki hjá Símanum, en hann er sérfræðingur á reikningakerfi Símanns. Svo þegar heim er komið heldur símavinnan áfram sem og að sinna mér. Enda er hann úrvinda þessi elska. En ekki kvartar hann !! Ónei, síður en svo.
Meðan hann er í útlöndum þá er ég að sinna búðinni. Ykkur er sko meira en lítið velkomið að kíkja og fá ykkur kaffisopa. Alltaf heitt á könnunni. Elsti sonur minn hann Leifur ætlar síðan að koma austur seinni partinn í dag og vera hérna með mér í búðinni. Því ef ég á að segja alveg eins og er að þá treysti ég mér ekki til að vera hérna ein þessa daga sem Gunnar er í burtu. Þess vegna verður voðalega gott að hafa hann sem öryggisventil ef svo má að orði komast.
Mýslan mín hún Agnes María heldur síðan í þriggja vikna ferð til Frakklands á morgun ásamt tengdaforeldrum og kærastanum. Hún er svo spennt þessi elska að hún heldur ekki vatni.
Að lokum er það að frétta að Kristján minn 15 ára er kominn í fyrsta sinn í alvöru vinnu. Hann er farinn að vinna á kassa í Nóatúni og er þvílíkt stoltur af sjálfum sér. Enda má hann alveg vera það. Stelpurnar sem eru yfir þarna í Nóatúni sögðu mér að aldrei hefðu þær fyrirhitt manneskju sem væri svona hamingjusamur yfir því að fá þarna vinnu. En svo sögðu þær mér eins og í trúnaði að hann myndi nú jafna sig á því. Á laugardaginn var hann að vinna í 10 1/2 tíma, sem mér finnst allt of langt. En ég ætla ekki að fara að skipta mér af því nema þetta gangi hreinlega út í öfgar. Ég vil ekki vera svona mamma sem er með nefið ofan í allt sem börnin gera. En að sjálfsögðu mun ég gæta hagsmuna hans ef svo ber undir. En þegar ég svo sótti hann í vinnuna um kvöldið, þá settist hann alveg úrvinda inn í bil, horfði lengi á mig og sagði svo "Veistu mamma........ nú skil ég ykkur pabba svo vel!!!" En það var ánægður ungur fullorðinn maður sem sat þarna hjá mér í bílnum.
Farið vel með ykkur elskurnar mínar. Og endilega skiljið eftir ykkur spor hérna í athugasemdarkerfinu. Alltaf gaman að sjá hverjir hafa litið við.
En þá að mola dagsins: Hvort þú kemst áfram eða þér mistekst er ekki eins mikilvægt og að gera sitt besta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
26.7.2008 | 11:23
Kínversk speki
Gömul kínversk kona átti tvo leirpotta sem hún hengdi á sitthvorn endann á langri stöng sem hún bar á öxlum sínum. Á hverju degi sótti hún vatn langa leið í uppsprettu fjarri heimilinu. Annar potturinn var sprunginn eftir endilöngu og var því aðeins hálffullur þegar heim kom. Hinn potturinn var fullkominn og skilaði sér alltaf fullur af vatni eftir þessa löngu leið heim að húsinu.
Svona gekk þetta í tvö ár, daglega gekk gamla konan með pottana að uppsprettunni og daglega kom hún heim með aðeins einn og hálfan pott af vatni.
Auðvitað var fullkomni potturinn ánægður með sína frammistöðu en sprungni potturinn skammaðist sín og leið mjög illa þar sem frammistaða hans var aðeins til hálfs við það sem hann var skapaður til að gera.
Eftir tveggja ára vinnu talaði hann til konunnar við uppsprettuna. "Ég skammast mín fyrir frammistöðu mína, vegna sprungunnar á hlið minni lekur helmingurinn af vatninu burt á leiðinni heim. Þú ættir að henda mér og fá þér nýjan pott."
Gamla konan brosti, "Hefur þú tekið eftir að þín hlið við götuna er blómum skreytt á meðan engin blóm vaxa hinum megin götunnar? Það er vegna þess að ég hef alltaf vitað af þessum galla þínum að ég sáði fræjum á þinni hlið götunnar og á hverjum degi þegar við göngum heim vökvar þú blómin mín. Ég hef um árabil getað týnt þessi fallegu blóm og skreytt heimili mitt með þeim. Af því þú ert eins og þú ert þá hef ég fengið að njóta fegurðar blómanna."
Það er eins með okkur manneskjurnar, ENGINN er gallalaus. En það eru gallarnir og sprungurnar sem gera hvern og einn einstakann. Þess vegna er svo spennandi að kynnast og eyða ævinni saman. Við þurfum bara að læra að taka hverri manneskju eins og hún er og sjá jákvæðu hliðarnar hjá hvort öðru
Moli dagsins: Allir hafa eitthvað til að bera, þú þarft bara að uppgötva það
Annars er það að frétta af mér að ég hef það alveg ágætt. Dagarnir eru misgóðir en þegar á heildina er litið þá er ég bara nokkuð góð. Takk öll fyrir hlýjar kveðjur og takk fyrir að vera til. Þið eruð yndisleg og kveðjurnar frá ykkur gefa mér ótrúlegan styrk. Hefði aldrei trúað því að óreyndu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.7.2008 | 08:56
Fréttir
Eins og fram hefur komið þá kom í ljós að heilaæxlið er sem stendur ekki að gera neitt af sér. Af þessum sökum er sérfræðingurinn minn hún Helga búin að ákveða að láta það alveg vera eins og er. Enda er þetta æxli í heiladinglinum og þyrfti þá að fjarlægja heiladingulinn eins og hann leggur sig, og það er bara ekkert grín. Hún er núna að fara í frí, þannig að ef ekkert gerist í millitíðinni þá verður æxlið ekki skoðað aftur fyrr en hún kemur til baka. Annars vil ég nú meina að hún hafi verið svo fegin að finna eitthvað á milli eyrnanna á mér að hún ákvað að láta það vera . Fyrir utan þetta smáatriði þá er það að frétta að nýrnahettan sem eftir er er ekki að fatta að fríið er búið (en hún hætti að starfa meðan hin var í ofvirknikasti) og er bara alls ekki að vakna til lífsins. Þess vegna þurfti að lengja lyfjakjaftæðið. En það verður bara að hafa það. Held ég sé bara almennt seintekin að fatta og líffærin mín eru engin undantekning þar á . Þá er bara að vona að líffærin mín séu eins og ég og kveiki á perunni fyrr en síðar .
Eigið ljúfan dag elskurnar mínar.
Og þá er komið að mola dagsins: Snúðu andlitinu í átt til sólar og þá sérðu ekki skuggana. Helen Keller
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
15.7.2008 | 07:42
Lögmál lífsins
"Svo sem þú sáir, munt þú og upp skera". Ill orð þín og gjörðir bitna á sjálfum þér, og sama er um góðverk þín. Lögmál lífsins eru réttlát. Lífið á að nota til að þroskast. Biturleika á að breyta í umburðarlyndi, hatri í kærleika og órétti í réttlæti. Lögmál lífsins eru rökrétt. Þau bregðast ekki þótt sá sem á við mótlæti að stríða spyrji ætíð: Af hverju gekk einmitt mér svona illa? En einmitt sá hinn sami þarfnaðist þess lærdóms sem mótlætið gaf honum.
Tilgangur mótlætisins í lífinu er að örva andlegan þroska. Þegar við til dæmis verðum fyrir barðinu á sjúkdómum eða dauða, er ekki auðvelt að vera þakklátur, þótt einnig þetta leiði til blessunar og andlegs þroska. Með tímanum breytist missir í ávinning.
Óréttlæti og andstreymi vekja gjarnan biturð hjá okkur. Það er ekki auðvelt að vera auðmjúkur og þakklátur og reyna einnig að sjá jákvæðar hliðar á ólánsstundum. Það er svo miklu auðveldara að skella skuldinni á aðra, á forlögin, á umhverfið, á lífskjörin og samfélagið, en að leita ástæðunnar í neikvæðri afstöðu sjálfs sín, röngum hugsunarhætti og brestunum í eigin lífsvenjum.
Auðvelt er að dæma aðra og krefjast þess að þeir bæti sig. Mun erfiðara er að viðurkenna eigin smámunasemi og reyna að breyta eigin afstöðu. Okkur ber að sýna þeim þolinmæði sem eru á annarri skoðun en við. Við verðum að viðurkenna að þeir eigi rétt á öðrum lífsvenjum, öðrum hugsanagangi og framkomu.
Hver og einn hefur sinn kross að bera. Fyrir utanaðkomandi er ekki alltaf auðvelt að sjá erfiðleika annars. Við getum hjálpað hver öðrum með því að tala saman, deila gleði og sorgum, og haldast í hendur þegar orð brestur. Hvers vegna eigum við svona erfitt með að snerta aðra, nálgast þá og gefa þeim áþreifanlega hlýju og traust, veita þeim stuðning og aðstoð í erfiðleikum þeirra? Næst þegar þú hittir einhvern skalt þú taka í hönd hans og halda henni stundarkorn. Ef gert af einlægni þá gefur þessi snerting svo mikið.
Við eigum að vera þakklát hverjum nýjum degi. Samt erum við svo oft óánægð og uppgefin. Við lifum fyrir morgundaginn, kvíðum framtíðinni og skiljum ekki að það sem við eigum er bara hér og nú. Þessi stund ber okkur að njóta út í ystu æsar. Það á ekki að hafa of miklar áhyggjur af fyrirfram af framtíðinni og ekki heldur að syrgja um of það sem liðið er." Dauðinn er ekki til.
Að muna að ég er langt frá því að vera ein um að eiga erfitt og að allt snúist ekki bara um mig, hefur hjálpað mér að takast á við minn sjúkdómsskratta og rifið mig á lappir á þeim stundum sem mig langaði helst ekki til þess.
Eins og ég hef áður sagt: Njótum lífsins meðan við getum, það er of stutt til að eyða því í sorg og sút.
Moli dagsins að þessu sinni er því: Minnumst fortíðarinnar og hlökkum til framtíðarinnar, en gerum það besta úr því sem við höfum nú. Moi (Tína)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.7.2008 | 09:23
Manni verður illt!!
Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég skrifa ansi oft vitlaust. EN þegar það eru svona margar villur í ekki lengri grein en þetta í íslenskum fjölmiðli, þá hreinlega blöskrar mér. Ég velti því oft fyrir mér hvort fréttamenn notist við þýðingarvélar þegar kemur að því að þýða erlendar fréttir.
Mín afsökun er að ég er útlendingur. Hvaða afsökun hafa þeir?
Assad: Stríð yrði dýrkeypt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.7.2008 | 10:36
Bakslag og bloggleysi
Mér hafa borist til eyrna spurningar og jafnvel kvartanir yfir bloggleysi hjá mér og hver ástæðan gæti verið. Því miður er það ekki af fúsum vilja en þannig er að ég fór í stóra aðgerð um miðjan maí og allt gekk vel þar til fyrir 3 vikum síðan að mér fór aftur að versna. Síðasta vika hefur síðan verið mér mjög erfið og hef ég bara getað verið í tölvunni í örlitla stund í einu en aldrei nógu lengi til að geta lesið blogg bloggvina minna, kvittað eða skrifað neitt sjálf. En ég hugsa mikið til ykkar og vona að ég geti farið að kíkja á bloggin hjá ykkur fljótlega. Þetta sem ég er að skrifa hér tekur mig langan tíma, þar sem ég þarf reglulega að taka hlé á skrifunum. En ég er öll að koma til og hef oft verið verri en ég er núna. Þannig að það er sko bara bjart framundan .
Ég er með sjúkdóm sem heitir Cushing (getið googlað það ef þið viljið). Í maí var tekin hjá mér nýrnahetta, en þar var stórt hormónaframleiðandi æxli. Einnig er ég með æxli við heilann eða í heildadingli nánar tiltekið. Góðu fréttirnar eru að við hjónin fengum að vita í gær að sem stendur er það æxli ekki að gera neitt af sér (7-9-13). Engin skýring er enn komin á hvað veldur bakslaginu, en við tökum einn dag fyrir í einu og þökkum bara fyrir hann.
Ég vil alls ekki fá neina vorkunn eða neitt svoleiðis. Ástæðan fyrir því að ég er að segja frá þessu, þrátt fyrir að vera búin að ákveða áður að gera það ekki, er að þegar fólk fær ekki að vita hvað er í gangi, afhverju maður sé hættur að vinna og afhverju maður líti svona illa út, þá fer það að geta í eyðurnar og er það manni sjaldnast í vil. Sem betur fer eru þessar raddir í miklum minnihluta. En eins og gengur og gerist eru það því miður neikvæðu raddirnar sem eru hvað háværastar. Ég þakka bara Guði og almættinu fyrir hann Gunna minn, en hann kemur með mér í hverja einustu rannsókn, hverja læknisskoðun og stendur fastar við hlið mér en klettur. Það eru ekki allir svona heppnir. Einnig á ég öflugt stuðningsnet í fjölskyldu minni og vinum. Þannig að mér dettur ekki til hugar að kvarta.
Margir af vinum mínum létu sig hverfa þegar ég veiktist. Ekki gerðu þau það af mannvonsku, heldur vegna þess að þau hreinlega vita ekki hvernig þau eiga að haga sér í kringum sjúkling. Staðreyndin er sú að það á ekkert að koma eitthvað öðruvísi fram við okkur en áður. Mér er það hrein lífsnauðsyn að finna að ég er enn lifandi og venjuleg manneskja. Á móti kemur að ég eignaðist nýja vini og varð jafnframt nánari þeim eldri. Elskuleg systir mín hún Anna ætlaði í bíó með vinkonu sinni í gær þegar hún ákvað allt í einu að hún gæti allt eins farið í bíó hér á Selfossi og draga mig með (en hún býr í bænum). Til að gera langa sögu stutta þá var ég dregin í bíó á Mamma Mía (hrikalega góð mynd) og skemmti mér konunglega. Þetta var ekki auðvelt en mikið svakalega hafði ég gott og gaman af þessu og þessi bíóferð var hrein næring fyrir sálina. Kann ég systur minni og vinkonu hennar hinar bestu þakkir fyrir þessa tilbreytni. Dýrka þig í ræmur elsku systa .
En hafið ekki áhyggjur þó ég bloggi ekki um tíma, því ég kem aftur....................... ég kem ALLTAF aftur
Kram og knús á línuna gott fólk. Njótið helgarinnar og það sem lífið hefur upp á að bjóða.
Moli dagsins er að þessu sinni tengdur þessari færslu: Ef þú vilt vita hverjir vinir þínir eru, þá skaltu gera þér upp veikindi. Kínverskur málsháttur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
5.7.2008 | 07:46
Hann er að ná mér!!
Leifur elsta barnið mitt og Sandra yndislega kærastan hans voru að setja upp hringana . Frumburðurinn er orðinn fullorðinn. Það er svo skrítið að horfa á börnin mín fullorðnast á meðan ég breytist sjálf ekki neitt . Ég var að skoða gamlar myndir af mér frá því börnin mín voru lítil og ég get svarið fyrir það að ég er bara nákvæmlega eins . Mín niðurstaða var s.s sú að þau eru að ná mér meðan ég stend í stað.
Hlutirnir gerast svo hratt. Kristján (yngsta barnið) var að enda við að láta mig vita af því að hann væri byrjaður að fá skegg, þegar Leifur segir mér tíðindin um trúlofunina!
Þau sendu mér þessa mynd í gær og ég verð að viðurkenna að það var hálf furðuleg tilfinning sem greip mig þegar ég horfði á hana og hringana sem þau eru með.
En ég er endalaust stolt af Leif. Hans unglingsár reyndust honum erfið og sannkölluð rússibanareið. En hann tók hausinn út úr rassgatinu og stóð uppréttur á endanum. Hann er sönnun þess að það er alltaf von. Það er ekki síst henni Söndru minni að þakka. Ég held reyndar að hún átti sig ekki alveg á hvernig og hversu góð áhrif hún hefur haft og hefur enn á Leif. Hennar vegna vildi hann verða betri maður, fullorðnast og byrjaði loksins að njóta lífsins. Jú þau eru ung og allt getur enn gerst. En ég hef fulla trú á Leif og Söndru. Þau eru búin að komast að því að samband er annað og meira en rómantík og eintóm hamingja. Að það snúist um gagnkvæma virðingu, samningsumleitanir og málamiðlanir ef vel á að fara. Þau eiga margt eftir ólært, en saman eru þeim allir vegir færir. Svo mikið veit ég.
Til Leifs og Söndru: Innilega til hamingju með þennan áfanga elskurnar mínar. Þið auðgið líf mitt og gerið það svo sannarlega þess virði að lifa því. Það er svo ljúft að fylgjast með ykkur og þið fyllið mig löngun og vilja til að halda áfram að berjast og gefast ekki upp, bara svo ég geti haldið áfram að fylgjast með ykkur. Þið megið treysta því að ég gefst ekki upp . Ég hlakka til að knúsa ykkur aftur.
Molin að þessu sinni er því tileinkaður þeim: Að vera elskaður sjálfs sín vegna er hámark hamingjunnar. Victor Hugo
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
2.7.2008 | 11:14
Örlítill Tuðilíus í mér. En hvað finnst ykkur?
Ég: Já góðan daginn, mig langar að kanna möguleikana á því að kaupa mér sjúkdóma- og líftryggingu.
Tryggingafélagið: Það er alveg sjálfsagt. Við bjóðum hérna upp á svona og hinsegin tryggingapakka o.s.frv.
Ég: Ég vil samt taka það strax fram að ég er með meðfæddan nýrnasjúkdóm, en hef ekkert á móti því að taka "nýrnabilunina" og öllu því tengdu út úr pakkanum.
Tryggingafélagið: Þú meinar......... þá lítur þetta ekki vel út. Því miður getur þú ekki fengið þessar tryggingar hjá okkur vegna þessa.
Ég: Ok. Ég skil þetta kannski með sjúkdómatrygginguna, en hvað með líftryggingu þá?
Tryggingafélagið: Nei því miður getur þú hvorki fengið sjúkdóma- né líftryggingu, en þetta er bara stefnan hjá okkur þegar um arfgenga sjúkdóma er að ræða.
Niðurstaða: Ég get hvergi fengið líftryggingu því ég gæti mögulega dáið !!! Mamma er með þennan sama sjúkdóm og er orðin 64 ára og hvergi sjáanleg merki um að hún sé um það bil að fara yfir móðuna miklu. Tel mig því eiga mörg ár eftir.
Þetta er ekki ný saga og heldur ekki einstök eða orðrétt, enda senda þeir fyrst sölumann sem lætur mann fylla út heilt pappírsflóð, hafa svo samband við heimilislækni manns og fá persónulegar upplýsingar þar (sem þú að vísu hefur gefið samþykki fyrir annars hefðir þú ekki komist lengra) og svo færðu svarið. Ég byrjaði að sækjast eftir því að fá svona tryggingar áður en ég greindist með þennan sjúkdóm (það var nefnilega alls ekki víst ég myndi fá hann). En þá fékk ég neitun vegna þess að móðir mín elskuleg er með nýrnasjúkdóm.
Ég hef heyrt allt of margar sögur af fólki sem hefur fengið neitun á þeim forsendum að einhver í fjölskyldunni hafi verið/sé með sykursýki eða offituvandamál og so videre. Hvaða fjölskylda hefur EKKI einhverja sjúkrasögu? Þarna finnst mér að verið sé að mismuna fólki. Hvernig eigum við að geta tryggt afkomu barna okkar ef við skyldum nú lenda í slysi eða miklum veikindum? S.s lenda í einhverju ófyrirséðu.
Jú okkur er bent á viðbótarsparnað. Það er nefnilega það. Við hjónin eigum og rekum herrafataverslun, en þar hef ég starfað sem venjulegur launamaður (með viðbótarsparnað). Þegar við stofnuðum fyrirtækið fyrir 2 árum þá pössuðum við okkur á því að vera tryggð í bak og fyrir. En svo lendi ég í miklum veikindum (nýrnasjúkdómnum óviðkomandi) og hef ekki getað unnið síðan í febrúar. Fyrirtækið okkar er ekki það stórt að það geti staðið undir aukalaunum fyrir einhvern sem ekki vinnur þar (þar með datt viðbótarsparnaðurinn niður), þannig að ég hafði samband við tryggingafélagið mitt þar sem ég var viss um að við hefðum tryggt okkur þannig að ég ætti að fá sjúkradagpeninga. Jújú, þetta var rétt munað hjá mér, við vorum tryggð að því tilskildu að um slys væri að ræða í frítíma. S.s ekki veikindi !! Shit ég gleymdi að lesa smáa letrið .
Ég skil vel að þessi tryggingafélög vilji ekki tryggja þá sem þegar eru veikir eða að þeir setji svokallað álag á þá sem eru í áhættuhópi. En að neita fólki alfarið á ofantöldum forsendum finnst mér bara ekki rétt. Kannski er ég bara að tuða en mér þætti gaman að heyra hvað ykkur finnst um þetta.
Þá er þessari tuðfærslu lokið og komið að mola dagsins: Öll dýr eru jöfn en sum dýr eru jafnari en önnur. George Orwell
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.7.2008 | 09:09
Afhverju að flækja hlutina?
Þetta minnir mig á sögu af henni Önnu Bellu.
Einu sinni þegar við tvíburasysturnar vorum í barnaskóla, þurftum við að teikna mynd. Þarna sat ég samviskusemin uppmáluð og vandaði mig mikið við að teikna fallega mynd. Á meðan var systir mín skoppandi og hoppandi um allt. Þar til pabbi spurði hana hvort hún ætlaði ekki að fara að mínu dæmi og klára sitt heimanám. Anna hélt nú ekki því hún væri sko lööööngu búin með sína mynd. Pabbi heimtaði auðvitað að fá að sjá myndina, því engin hafði séð til hennar meðan hún teiknaði. Anna lét ekki segja sér þetta tvisvar og kom til baka með blað sem hún hafði málað svart.
Pabbi: Þetta er ekki mynd Anna mín.
Anna: Júbb.................. þetta er nóttin
Það fyndnasta við þetta allt saman var að hún komst upp með þetta!!
Moli dagsins er því: Frelsi er að hlýða þeim lögum sem maður hefur sjálfur sett sér. Rousseau
Fékk einkunn fyrir tveggja blótsyrða ritgerð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |