Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
30.3.2009 | 11:11
Upplifun barna
Veikindi eru alltaf erfið en maður tekur á þeim eins og öðru. Sumir segja að maður sé alveg svakalega duglegur, en það er nú ekki eins og maður hafi eitthvað val. Lífið heldur áfram hvernig sem manni líður og er þá ekki um neitt annað að ræða en að halda áfram. En það er eitt sem maður stendur ráðþrota fyrir en það er hvernig börn manns upplifa þetta ástand.
Kristján minn (16 ára) fór í fermingaveislu hjá bróður sínum í gær (samfeðra) sem var í bænum. Ég ákvað að fara ekki því ég kúgast orðið svo mikið að ég forðast að vera í margmenni. Mínir nánustu vita af þessu og láta sem ekkert sé þegar ég byrja. En ég vil ekki bjóða ókunnugum upp á þetta.
Þegar Kristján kom svo heim í gærkvöldi þá sagði hann að margir hefðu spurt eftir mér og hvers vegna ég hefði ekki komið. Skýring hans var þessi "Mamma er orðin svo SVAKALEGA veik að pabbi neyðist til þess að vinna heima svo hann sé hjá henni". Guð minn almáttugur........... gott ef fólk heldur ekki bara að ég sé dauðvona eftir svona yfirlýsingu.
Fyrst hugsaði ég sem svo að það væru nú naumast ýkjurnar í stráknum. En er það svo? Það er nóg að ég kúgist einu sinni og þá segir hann "shit hvað þetta var kreepí". Og nú hefur hann þurft að horfa upp á mig vera svo slæma að hann fer allur í kleinu og vanlíðan hans, yfir að geta ekkert gert, fer alveg með hann. Í hans augum er ég nær dauða en lífi. Í hans augum er ég alveg svakalega veik. Í síðustu viku spurði hann mig hvort það væri eitthvað sem ég væri að leyna honum varðandi mín veikindi.
Ég veit ekki af hverju ég er að minnast á þetta hérna, en ég veit ekki hvað ég get gert til að auðvelda honum þetta. Ég reyni af fremsta megni að leyna honum því hversu slæm ég er en ég veit hann skynjar annað. Það liggur við að mér finnist meira þreytandi að fela fyrir honum, heldur en að takast á við verkina og veikindin. Hversu óhamingjusöm eru börnin þegar þau búast sífellt við hinu versta? Hvernig get ég dregið úr þessari hræðslu hjá stráknum? Ekki get ég falið það fyrir honum þegar ég byrja að kúgast, því það er ekkert sem varar mig við að ég sé að byrja. Ég get falið fyrir honum þegar ég er mjög slæm af verkjum en ekki hinu.
Æ ég er bara orðin svo þreytt, bæði á sál og líkama og ég er ráðþrota og líklega á einhverju sjálfsvorkunnarskeiði. Börn ættu ekki að þurfa að alast upp við svona. Þau hafa ekki þroskann til að vinna úr svona. Það er varla að maður hafi það sjálfur. Ég reyni að lifa eins eðlilegu lífi og mér er frekast unnt en þreytan er orðin mikil.
Farið vel með ykkur og megi Guð vera með ykkur, hvað sem þið takið ykkur fyrir hendur.
Molinn: Guð leggur á okkur birgðarnar en hann gaf okkur líka bakið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
24.3.2009 | 09:03
Hamingjan
Hamingja er réttur hvers og eins. Samt eru svo margir óhamingjusamir. Af hverju er það? Veit fólk ekki hvað hamingja er eða hvernig hún er fengin? Því miður er það í okkar eðli að vilja kenna öðrum eða öðru um. Makanum, vinnunni, heilsunni, ríkisstjórninni og svona mætti lengi telja án þess að telja okkur sjálf upp.
Sumir skilja, aðrir segja upp vinnunni eða flytja landshorna á milli í þeirri viðleitni að finna hamingjuna. En í stað þess að finna hana, finnur fólk önnur vandamál. Staðreyndin er nefnilega sú að okkar líðan er að finna innan í okkur sjálf. Við erum sjálf bílstjórar í eigin lífi. Við verðum sjálf að ákveða hvernig við sjáum lífið. Er glasið hálf fullt eða hálf tómt?
Jú víst eru tímarnir erfiðir núna en ég sé þau jafnframt sem tækifæri. Tækifæri til hreinsunar. Núna er rétti tíminn til að taka til hjá sér. Rétti tíminn til að setjast niður og ákveða hvert við ætlum og til að finna út hvað það er sem raunverulega skiptir máli.
Misjafnir eru erfiðleikarnir sem settir eru á okkar leið. En í stað þess að sjá þetta sem vandamál þá ættum við að gefa okkur smá stund til að horfa framan í vandamálið og hugsa með okkur "Ok......... hvaða lærdóm get ég dregið af þessu úr því ég varð endilega að lenda í þessu?" Ekki aðeins verður léttara að taka á því heldur eru minni líkur til þess að þetta tiltekna vandamál komi upp aftur, vegna þess að EF það kemur aftur að þá kunnum við að taka rétt á því og erum því ekki að mikla þetta eins mikið fyrir okkur. Við verðum að treysta því að við erum á réttum stað hverju sinni. Á réttum stað til að draga úr þann lærdóm sem við þurfum til að ná þeim andlega þroska sem okkur er ætlað í það skipti.
Hættum að vera óhamingjusöm. Veitum okkur frelsi og finnum hamingjuna sem okkur er ætluð. Hræðumst ekki breytingar, þær færa með sér yndisleg tækifæri til að breyta okkar lífi til framtíðar. Mig langar í það minnsta að vera hamingjusöm og er það þrátt fyrir allt.
Ert þú hamingjusöm/samur??
Molinn snýst því að sjálfsögðu um hamingjuna: Flest fólk er eins hamingjusamt og það ákveður sjálft að vera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
13.3.2009 | 10:42
Queen tónleikar
Hún móðir mín kom til mín á Selfoss á sunnudaginn var, þar sem við höfðum boðið henni með okkur á Queen tónleikana sem voru í gær. Dóttir mín og tengdasonur syngja í kór FSU. Við fórum 4, Mamma, Gunnar, Tengdamamma og ég. Mikið svakalega var þetta gaman. Ég missti af tónleikunum í fyrra sökum veikinda og var því enn ákveðnari en ella að fara á þá núna.
Þessi viðburður var merkilegur að fleira en einu leyti. Þetta var nefnilega í fyrsta skipti sem ég geri eitthvað svona með mömmu og líka með tengdamóður mína.
Ingó Idol hitaði upp fyrir tónleikunum og var svo skemmtilegur að það var hrikalega leiðinlegt að horfa á eftir stráknum af sviðinu. En svo tóku kórinn, Eiríkur Hauks, Hera Björk og Magni við. Þetta var einu orði sagt ÆÐISLEGT.
Ég læt hér fylgja með nokkrar myndir sem teknar voru í gærkvöldi.
Tengdamamma og Gunnar. Gunnar tók myndina og skildi hún ekkert í því hvað hann væri eiginlega að gera.
Eiríkur Hauks á sviði með kórnum.
Viðar tengdasonur minn til vinstri og Gummi bróðir hans.
Að lokum eru hérna Mamma og ég.
Ég ætlaði svo að skoða niðurstöðurnar úr könnuninni, en þá var hún bara horfin!! Að minnsta kosti var niðurstaðan síðast þegar ég gáði, að síðan væri bara fín eins og hún hefur verið.
Hugmyndin er að hún Mamma mín verði hérna hjá mér til 25 mars, og því veit ég ekki hversu mikið ég verði á netinu. Leyfi ykkur samt að fylgjast með.
Eigið ljúfa helgi öll sem eitt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
5.3.2009 | 14:34
Könnun
Að þessu sinni verður engin hugleiðing. Þess í stað langar mig að biðja ykkur um að hjálpa mér við að gera þessa síðu betri með því að svara þessari könnun sem er hér til hliðar. Hún verður þarna í viku og mun ég í framhaldinu birta niðurstöðurnar. Sumir eru nefnilega farnir að hafa orð á því að ég sé helst til þung í mínum bloggfærslum upp á síðkastið.
Að lokum óska ég ykkur góðrar helgar og hafið þið það sem allra best.
Munið svo að: Dagur án hláturs er glataður dagur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
2.3.2009 | 12:58
Hættum að dæma aðra
Það er mikið um stríð í heiminum vegna þess að stór hluti manna líkar ekki það sem nágranninn gerir. Ein þjóð þolir ekki hvað önnur gerir, trúarbragðahópar telja sína trú vera hina einu sönnu og vilja neyða sínar skoðanir upp á aðra o.s.frv. Metingur er í hávegum hafður og flest okkar teljum við okkur betri en einhver annar.
Við megum ekki gleyma því að öll búum við yfir frjálsum vilja og ber okkur að virða það að aðrir búa yfir því sama. Við erum ekki í þessum heimi til þess að vera eins og allir aðrir. Hvert okkar hefur sitt hlutverk í þessu lífi sem og takmark.
Mörg okkar erum stöðnuð í lífinu. Það er ekki fyrr en við hættum að eyða orku í að dæma aðra, gagnrýna aðra og að pæla í líferni annarra sem við komumst áfram á okkar þroskaleið, en alls ekki fyrr en þá.
Staðreyndin er sú að oftast er það þannig að það sem við gagnrýnum mest í fari annarra eru gallar sem við búum yfir sjálf. Ekki fræðilegur að við viðurkennum það, en ef við gefum okkur smátíma og hugsum þetta aðeins, þá er ég hrædd um að þetta sé sannleikanum samkvæmt. Fólk er sett á okkar leið af ástæðu. Hvort sem þetta eru vinir okkar eða ekki. Allir sem við mætum kenna okkur eitthvað. Ýmist verða þau fyrirmyndir eða sýna okkur hvernig við viljum ekki vera.
Við getum og megum ekki dæma fólk út frá því hvernig við erum sjálf. Því að með því segjumst við í raun vera betri en sá dæmdi. Í stað þess að einblína á ókosti annarra og sök, væri okkur nær að skoða hvaða lærdóm við getum dregið af viðkomanda. Notum síðan orkuna sem við hefðum annars notað í að dæma og virkjum það frekar í að læra.
Sannleikurinn er að meðan við einblínum á galla annarra, að þá komumst við hjá því að sjá hvernig við sjálf erum í raun og veru. Hafið þið spáð í að það fólk sem þið gagnrýnið mest hugsi kannski það sama um ykkur, en lætur það samt afskiptalaust, á meðan að þið kvartið og mótmælið þeirra lífi?
Lífið í ljósi...................... það er svo fallegt. Guð geymi ykkur öll.
Molinn: Vertu ætíð ögn góðviljaðri en nauðsynlegt er. - James M Barrie.
P.s Ekki halda að ég sé svona góð manneskja og hugsi alltaf svona. Ég er sjálf að læra þetta og á það svo sannarlega til að dæma aðra. En ég geri mitt besta til að breyta því og langar bara einlæglega að deila með ykkur mínum skoðunum og þið ráðið svo hvort þið tileinkið ykkur eitthvað af þessum hugrenningum mínum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)