Færsluflokkur: Vefurinn

Ohhhh það er svo gaman

Alveg getur maður nú glaðst yfir ótrúlegustu hlutum. En á ég að segja ykkur svolítið? Viljið þið vita það? Ha? Cool

Ok ok, úr því þið setjið svona svakalegan þrýsting á mig þá skal ég segja ykkur. Sko........... einn af aðaleinkennum sjúkdómsins er að maður fitnar mikið um sig miðjan og í andlitinu, svo fær maður alveg afskaplega mikinn bjúg á höndum og fótum. Þegar ég veiktist þá var ég 58 kg og var komin í 74 kg í sumar.

En þá að kjarna málsins..................... í morgun komst ég í gallabuxur sem ég hef ekki geta notað í MARGA mánuði. Einnig gat ég rennt upp stígvélunum ALLA leið (hef bara geta rennt hálfa undanfarna mánuði) og Gunnar minn heittelskaði benti mér á að æðarnar á ristarnar væru aftur farnar að sjást!!!!! W00t

Ég er búin að vera hlæjandi, trallandi, hoppandi og syngjandi síðan ég klæddi mig í morgun. Það stefnir allt í að setningin "í kjólinn fyrir jólin" eigi við mig krúttin mín. Og ekki er ég nú í neinni megrun.

Og Gunnar toppaði svo morguninn þegar hann horfði á þessi læti í mér í morgun og sagði svo við mig "mikið ofboðslega er nú gaman að sjá hana gömlu Tínu mína aftur" HeartInLove

Mér er ekki batnað og á raunar langt í land ennþá.................... en mikið svakalega er nú gaman að vera ég þrátt fyrir allt.

Lífsgleðiknús á línuna.

 

Molinn: Munið að það þarf lítið til að skapa hamingjuríkt líf. - Marcus Aurelius  


Tína........................... douze point.

LOKSINS gleðifréttir.

Þið munið að ég sagði ykkur frá því að ég hefði farið á mótþróaskeið og hætt að taka inn lyfin mín í þeirri viðleitni að neyða kortísól framleiðsluna í gang er það ekki????

Well kæru vinir................................... ÞAÐ TÓKST!!!!! GrinW00tToungeLoL

Ég fór s.s í blóðprufu í gærmorgun og þá kom í ljós að ég væri farin að framleiða. Að vísu í litlu magni......... en HALLÓ framleiðsla er framleiðsla....... ekki satt?

Sérfræðingurinn minn hringdi í mig í dag alveg kampakát með niðurstöðuna og fannst þetta í rauninni stórmerkilegt. Hún sagði að hún myndi ekki mæla með þessari aðferð við neinn en stundum væri bara ekki annað hægt. Jú ég neita því ekki að þessar rúmu 2 vikur hafi verið ansi erfiðar, en ég vissi allan tímann að þetta yrði allt annað en auðvelt. Mergurinn málsins er sá að ÞETTA TÓKST *doingthecrazydance*

Nú á ég að fara á morgun á sjúkrahúsið í bænum þar sem framkvæmd verður svokallað stimulation test og á þá að kanna hvaðan kortisólið kemur og ganga úr skugga um að það sé ekki heilaæxlið sem er farið að framleiða. Ég vona að ég hafi að minnsta kosti skilið þetta rétt.

Mig langaði bara svo óskaplega mikið til að deila þessum æðislegu fréttum með ykkur. Sérstaklega þegar að er gáð að þið hafið staðið með mér í þessu.

HAPPY kossar á línuna


Börnin mín.

Gunnar minn er í svona karlaklúbbi sem samanstendur af eintómum húmoristum og strákarnir eru hver öðrum fyndnari. Á laugardagskvöldinu var þessi hópur með svokallað formannspartý sem er árlegur viðburður og er þá mökum boðið með. Ég fór ekki með að þessu sinni af kunnum ástæðum, þannig að við Kristján vorum bara 2 heima. Við áttum afskaplega rólega og notalega kvöldstund og ég verð að viðurkenna að það er allt of langt síðan við höfum verið svona 2.

Þegar kominn var háttatími (allavega hjá mér) þá fór ég inn á bað til að bursta tennurnar. Ég leit á sjálfa mig í spegli og hrökk þá upp úr mér "úfffff hvað ég er orðin ljót". Kristján sem þá einmitt labbaði framhjá, heyrði þetta, kom inn og tók utan um mig um leið og hann sagði "Nei mamma mín, þú ert sko ekkert ljót.................. þú ert bara orðin gömul" LoLGrinInLove. Sko.......... ef börnum manns tekst ekki að koma manni upp á hærra plan þá veit ég ekki hver gæti það. En ég gat svo sannarlega ekki annað en skellihlegið.

En þá eru hérna smá fréttir af sjómanninum. Naglinn minn hann Leifur varð alveg hrottalega sjóveikur og það nánast strax. Fyrstu nóttina eyddi hann á klósettinu og þá næstu var hann bara í matsalnum. Kojan hans var nefnilega fram í stefni og tók minn maður það ekki í mál að leggja sig þar, þvi öldugangurinn ku víst að vera mestur þar. Hann er nú reyndar allur að koma til. Þeir urðu samt að leita vars í Vestmannaeyjum snemma í gærmorgun og þegar Leifur hringdi aftur í mig í gærkvöldi, þá stefndu þeir að því að fara aftur út um miðnætti.

Leifur veikur

Þessa mynd tók Leifur af sjálfum sér þegar sólarhringur er liðinn af sjómennskunni. Ég vil minna ykkur á að þessi drengur er undir öðrum kringumstæðum afspyrnu fallegur. Hann sendi mér þessa mynd í gær og ég sprakk úr hlátri þegar ég sá hana. Sem betur fer hefur hann mikinn húmor fyrir sjálfum sér og tók bara þátt í vitleysunni þegar ég spurði hvað hann væri tilbúin að borga svo ég birti þessa mynd EKKI á blogginu. Eins og þið sjáið þá er drengurinn með eindæmum nískur Devil. Hehehe nei nei svarið sem ég fékk hljómaði reyndar svona eftir að hann var búin að hlæja slatta "Veistu mamma........ þú skalt bara birta hana og látum hana verða öðrum víti til varnaðar svo þeir fari ekki líka út í þessa vitleysu" ÖÖÖÖÖ ok!!!! Here we go.

Að öllum líkindum kemur hann heim í dag þessi elska en í síðasta lagi á morgun. En mikið svakalega fannst honum fyndið að komast að því þegar hann steig á fast land, að hann væri með sjóriðu á háu stigi. Að vísu fannst honum þetta ekki alveg jafn fyndið þegar dagur var að kvöldi kominn og hann enn eins og ........ já, þið vitið hvað ég meina.

Agnes dóttir mín er í kór Fsu og ætlar kórinn að vera með tónleika í Selfosskirkju í kvöld. Ég er alveg ákveðin í að mæta og er það ekki nema dauðinn sjálfur sem gæti stoppað mig. Tónleikarnir byrja kl 20:30 og er aðgangur ókeypis. Látið endilega sjá ykkur ef þið hafið ekkert annað betra að gera, þið sem það getið. Þessi kór er alveg magnaður og tárast ég alltaf þegar ég heyri hann syngja.

 

Hafið það gott í dag dúllurassarnir mínir. Ég er alveg klár á því að þessi dagur eigi eftir að vera hreint frábær bæði hjá mér og ykkur.

 

Molinn: Börn efast stundum um skynsemi föðurins en aldrei um hjarta móðurinnar. - Adolphe Monod


Hitt og þetta, héðan og þaðan.

Leifur Ingi fékk loksins kallið í gær Grin. Það var hringt í hann rétt fyrir kl 6 í gærkvöldi frá bátnum Arnarberg sem gerir út frá Þorlákshöfn og hann spurður hvort hann vildi fara í einn túr. Hverskonar spurning er þetta eiginlega??? Taskan hans er búin að vera tilbúin í meira en mánuð og var það spenntur maður sem Gunnar keyrði til Þorlákshafnar. Misjafnt er hversu langir túrarnir eru en eru allt upp í 6 daga langir.

Emma vinkona hans Leifs kom hingað í heimsókn með 3 mánaða dóttur sína í gær. Og svo ég grípi nú til orða Jennýjar Önnu þá fékk ég vægt krúttkast við að fá litlu drottninguna í fangið. Eins og þið sjáið þá er þetta alveg gullfalleg stelpa og var Leifi tíðrætt um hversu gott henni fyndist að nudda sig upp við skeggbroddana hans. Hann fékk svo að skipta á henni og taldi það sko ekkert eftir sér þó sú litla hefði verið dugleg við að gera nr 2. Ég var ekkert að skipta mér af þessu þó svo að þetta hafi verið hálfklunnalegt hjá stráknum, enda í fyrsta skipti. Ég fylgdist bara með álengdar og hafði gaman af. Enda var mamman þarna ef hann þyrfti einhverja hjálp. En hreint fékk litla stelpan á bossann og það er jú það sem til var ætlast. Hérna er svo mynd af þeim sem var tekin á símanum hans Leifs.

 Leifur og litla

Gærdagurinn var svo einn af þeim erfiðari sem fólkið mitt í kringum mig hefur upplifað hvað mig varðar held ég. Blóðþrýstingurinn fór niður fyrir öll velsæmismörk (105/45). Þetta er líka í fyrsta skipti sem ég heyri elskuna mína hana Sigurlín blóta. En það gerði hún þegar hún leit við í kaffi og sá mig. Hún sagði mér svo að ég hefði hrætt úr henni líftóruna. Ég skildi ekki alveg þessi læti sem upphófust í kringum mig, því það eina sem ég vildi var að sofa. Mér leið nefnilega ekkert illa. Jújú mér leið hálf furðulega og var frekar máttlaus en mér leið að öðru leyti ekkert voðalega illa. Sigurlín og Gunnar tóku við öllum ráðum og tróð hún upp í mig kortisól og gekk síðan úr skugga um að ég hefði kyngt. Einnig mældi hún reglulega þrýstinginn og lét Gunnar vita. Svo þegar hún varð að fara, þá vakti hún Leif sem tók grafalvarlegur við af henni. Hann mældi reglulega og lét Gunnar vita sem síðan sagði honum hvað hann þyrfti að gera. Mér tókst svo að taka mig saman í andlitinu meðan Emma var hérna, en ég skal fúslega viðurkenna að ég var gjörsamlega búin á því þegar hún fór. Ég er enn mjög lág en samt betri en í gær. Sjáum svo bara til hvað dagurinn ber með sér. Við erum 2x búin að skilja eftir skilaboð (mánudag og í gær) til sérfræðings minns um að hringja en hún hefur ekki enn gert það. Kannski hringir hún í dag. 

En ég vona að ég fari nú að lagast því yndislega tvíbakan mín hún Anna Bella er að keppa á norðurlandamóti í fitness á sunnudaginn og verður það haldið í Háskólabíó. Guð einn veit að ég ætla að gera allt sem í mínu valdi stendur til að komast.

Að lokum vil ég þakka Unni Sólrúnu (dropinn.blog.is) fyrir að semja svona falleg ljóð eins og þetta sem ég fékk sent og deildi með ykkur. Í póstinum stóð að höfundur væri ókunnur en nú er ég búin að fá það leiðrétt og skrifa nafnið hennar undir ljóðið í færslunni. Hún bað um að það yrði gert og finnst mér það meira en sjálfsagt. Enda eiga svona skáld alla athygli skilda. Þakka þér fyrir Unnur.

Góða helgi og innilegt knús á ykkur elsku vinir sem og þeir sem kíkja hérna við en kvitta ekki *hnusss*.

 

Helgarmolinn hljómar svona: Sá sem fremur kýs að brosa en reiðast ber ætíð sigur úr bitum.


Niðurstaða úr rannsókn 1 af 3

Jæja hunanghrúgurnar mínar. Þá er fyrsta rannsóknin búin ef rannsókn skyldi kalla.

Við Gunnar fórum s.s í morgun og leghálsinn var skoðaður. Allt í allt var ég í 3 mínútur þarna inni og var niðurstaðan sú að ekkert væri að. Sem er gott..... þannig séð. Við Gunnar erum bara ekki sannfærð eftir þessa skoðun vegna þess að við fengum engar skýringar á stækkun legsins, blæðingunum eða verkjunum og yfirhöfuð ástæðurnar fyrir því að ég var send í nánari skoðun. Við Gunnar vorum eitthvað alveg furðulega tóm eftir þetta. Ekki misskilja mig......... ég vona svo sannarlega að allt sé í lagi. En þegar maður er búin að vera svona í langan tíma, fer síðan í skoðun og manni er sagt að fara í nánari athugun sem tekur þrefalt styttri tíma en fyrri skoðunin tók, fáum engar skýringar eða neitt......... þá bara líður manni eins og asni.

Eftir þetta ákváðum við að ég myndi fara til minn kvensjúkdómalæknis til margra ára. Hann hringdi svo í mig í dag og sagði ég honum frá málavöxtu og var hann sammála því að ég myndi kíkja til hans. Hann á sónarmyndir frá því í apríl í fyrra og getur þá betur gert samanburð. Fyrst þá verð ég sátt við niðurstöðuna. Það góða við hann er líka að maðurinn talar íslensku þannig að ég skil hvað hann er að segja. Ég fer og hitti hann miðvikudaginn 29 okt.

Hnúturinn í brjóstinu er næst á dagskrá eða 27 október nánar tiltekið. Sjáum hvað setur. Annars líður mér ekkert sérstaklega vel þessa dagana en kortisólskortur er farin að segja alvarlega til sín. Ástæðan er einföld. Ég hætti að taka inn lyfin mín í síðustu viku Blush. Eftir að sérfræðingurinn minn gaf mig svona upp á bátinn þá fór ég hreinlega í mótþróa. Ég sagði við Gunnar að úr því hún væri hætt við að sjokkera nýrnahettuna, þá myndi ég gera þetta sjálf en til þess þyrfti ég að fara erfiðu leiðina og það er með því að hætta að taka inn lyfin. Með því vona ég að nýrnahettan átti sig á því að hún fær ekki lengur utanaðkomandi kortisól og drullist til þess að fara að framleiða þetta sjálf. Ég veit þetta hljómar ekki vel og það er líklega alveg rétt, en eitthvað verð ég að gera. Ég er alltaf með lyfin á mér til öryggis, þannig að núna vona ég bara það besta og bíð eftir að þetta takist.

Annars hitti ég eina yndislega vinkonu (Sammy) á laugardaginn var og fékk að sjá eitthvað sem ég hélt ég myndi aldrei sjá í nútímasamfélagi. En það er teppalagt eldhús!!! Ég er ekki að grínast. Sammy og hennar fjölskylda urða að flytja í þessa íbúð meðan viðgerð eftir jarðskjálftann stendur yfir á þeirra húsi. Hún kallar íbúðina sína Teppaland LoL Að sjá teppalagt eldhús er eitt en að sjá þetta í tiltölulega nýrri íbúð er svo sannarlega annað.

Svo var Dísa Dóra mín elskuleg svo frábær að standa fyrir bloggvinahitting í gær til að stytta mér biðina. Mikið ofboðslega þótti mér nú vænt um þetta framtak hennar. En við hittumst s.s 5 tjellingar á Kaffi Krús og bulluðum út í eitt eins og konum einum er lagið. Þar voru mættar Hrönn, Dísa Dóra, Solla, Ásdís og undirrituð. Þarna var sko mikið gaman og mikið fjör. Ætli það sé ekki þess vegna sem Solla mín segir að ég sé fjörkálfur í athugasemd sinni við síðustu bloggfærslu?????

 

Molinn: Bestu og fegurstu hlutir veraldar er ekki hægt að sjá eða snerta........ heldur finnum við fyrir þeim í hjörtum okkar. Helen Keller.


Kærleikskveðja

Góður vinur minn sendi mér þetta og fann ég mikla þörf á að deila þessu með ykkur.

Ég vakna þennan morgun og vel að hann sé góður
vel að  hann sé yndislegur, myrkur og hljóður
ég vel að kúra um stund og staðnæmast  við það
hve stórkostlegt sé lífið ef fátt amar að.

 Ég ákveð því að velja að vandamálin fá
vistuð séu hjá  mér til þess eins að ljá
tilverunni ennþá fleiri tilbrigði og fleti
ég tek  þeim opnum örmum svo nýtt mér þau ég geti.

Og eftir litla stund ég vel að fara á fætur
faðma  þennan morgun og allar hans rætur
hita mér gott kaffi af kærleik þess ég nýt  
kex smyr með osti í blöðin svo ég lít.

Að endingu ég segi við þig sem þetta lest
þetta er  góður dagur, hafðu það sem best
ég óska þess að hugsanir fallegar þig  finni
ég faðmlag þér sendi og kveð þig að sinni.

Höfundur: Unnur Sólrún


Draumar eru eins og neistar

Lítið rólega í kringum ykkur. Allt sem þið sjáið í dag var einhvern tímann draumur einhvers. Okkar kynslóð hefur notið góðs af draumum svo margra.

Mandela, Einstein, Gandhi, Spielberg, Móðir Teresa, Gates, Disney og listinn gæti haldið áfram endalaust. Allt byrjaði þetta hjá þeim með draumi. Hver getur gleymt öflugustu ræðu allra tíma sem Luther King hélt "I have a dream"? Förum öll aðeins aftur í tímann og sjáum hversu langt við höfum náð síðan King byrjaði að á fyrir þessum raunveruleika.

"Djúpt í hvers manns hjarta, liggur neisti sem kveikir í hugarflugi manns. hugurinn ber mann hálfa leið en hjartað sér um rest. Þú munt finna trúna í eigið sköpunarverk"

Ekki halda að ég sé svona klár sko, en þetta er lausleg þýðing á lagi sem Celine Dion söng - The power of the dream.

Ok kannski sjáið þið ykkur ekki sem Mandela eða Bill Gates. En ef ske kynni að þið væruð ekki búin að fatta það sjálf, að þá innst í okkur öllum leynist draumur. Hann er búin að vera þarna frá því við vorum sköpuð. Því draumarnir eru það sem gefa okkur bæði framtíð og vonir.

Reglulega ættum við að gefa okkur tíma til að ímynda okkur það besta sem gæti orðið. Setjum hversdags áhyggjurnar til hliðar í örlitla stund, enda nægur tími fyrir þær seinna. Vekjum aftur upp löngu gleymd markmið og allt of vel geymdir draumar. Minnum okkur á alla frábæru möguleikana sem lífið hefur upp á að bjóða fyrir okkur. Endurnýjum ákvarðanir okkar svo við getum byrjað að sá.

Eyðum nokkrum gæðastundum með draumum okkar. Þeir eru raunverulegir upp að því marki sem þið leyfið. Upp að því marki sem þið helgið ykkur draumunum og vinnið fyrir þá, verða þeir að veruleika.

Lokaversið í laginu hennar Celin hljómar svona "Það er svo mikill kraftur í okkur öllum, konum, börnum og körlum. Það er á þeirri stundu sem þú telur þig ekki geta meira, sem þú uppgötvar að þú getir það."

Ég held það sé vel þess virði að láta reyna á þetta og láta draumana rætast, því það er ALDREI of seint. En þetta er hugleiðing vikunnar elskurnar mínar. Vonandi kemur hún að einhverju gagni fyrir einhverja. Knús inn í vikuna ykkar.

 

Molinn þessu tengdu er: Allir draumar geta ræst, ef við höfum hugrekkið til að fylgja þeim eftir.- Walt Disney


Lengi getur maður á sig "blómum" bætt

Halló elsku hjartans dúllurassarnir mínir.

Sorry að ég skuli ekki hafa bloggað lengi en það hefur slatta gerst síðustu daga og hef ég þurft bæði tíma og frið til að melta þetta allt saman.

Mamma mín er loksins á batavegi og var hún send aftur í Stykkishólm í gær og er núna á sjúkrhúsinu þar. Ég hef daglega verið hjá henni og fylgst með haukfráum augum. Grey konan............ hún fékk sko engan frið fyrir mér þessi elska. En þar sem þetta er farið af bakinu á mér þá myndaðist pláss fyrir annað Crying

Ég fór í sneiðmyndatöku á heilanum um daginn og fékk ég þær fréttir á föstudaginn var að æxlið hefði stækkað en að enn stæði ekki til að gera neitt í því. Ég skil þetta ekki og skil í rauninni ekki hverju er verið að bíða eftir. En ég verð víst að sætta mig við þetta og halda áfram að halda í voninni og bíða. Einnig tilkynnti Helga sérfræðingurinn minn að hún væri hætt við að sjokkera nýrnahettuna í gang. Ekki skil ég neitt í því heldur og útskýrði hún það ekkert nánar þrátt fyrir ítrekaðar spurningar mínar þar að lútandi.

Svo fór ég í krabbameinsleitarstöðina í dag vegna þess að ég fann hnút í öðru brjóstinu sem og hita og fannst mér því að betra væri að láta athuga það nánar. Það kom þá reyndar í ljós að um stíflaðan mjólkurkirtil væri að ræða og létti mér svakalega við að heyra það. En það var skammgóður vermir því miður. Því læknirinn fann annan hnút (við holhöndina) sem henni leist ekki betur á en svo að hún vill láta kanna það nánar. Fer ég í þá myndatöku 27 okt. Einnig var leghálsinn skoðaður og sýni tekið. Þar kom í ljós að legið er orðið allt frekar mikið stórt og bólgið vinstra megin. Einnig hafði hún áhyggjur af því að það mætti varla koma við legið án þess að úr blæddi fyrir vikið. Þetta vill hún líka láta skoða nánar og verður það gert 15 þessa mánaðar.

Þetta með legið kom mér gjörsamlega í opna skjöldu vegna þess að ég hef ekkert fundið neitt til þar. Jújú blæðingarnar hafa verið í algjöri fokki en ég hélt það væri vegna cushing sjúkdómsins. Og það kom mér hrikalega á óvart hvað ég reyndist finna mikið til vinstra megin við skoðun. Sársaukinn var næstum því brútal.

Ég veit ekki hvernig mér á að líða gagnvart þessu. Ég var búin að búa mig undir að fá athugasemd við annað hvort (svona til að vera viðbúin) en ekki bæði. Svei mér ef ég er ekki bara komin yfir hræðsluna um að eitthvað sé að mér. Það er svo hrikalega margt búið að ganga á að það kemur mér orðið ekkert á óvart lengur. Liggur við að ég segi bara "jájá blessaður komdu bara með þetta, ég er orðin vön og þoli þetta alveg" Margir hafa sagt við mig að það sé ekki lagt meira á mann en maður getur borið og greinilegt að lengi getur maður á sig "blómum" bætt. En þó svo að ég þoli þetta alveg að þá hef ég áhyggjur af mínum nánustu sem verða sífellt hræddari um mig. Elskulegur eiginmaður minn virðist vera í lausu lofti og gat hann heldur ekki sagt mér hvernig sér liði en áhyggjurnar voru augljósar.

En það er víst ekkert annað í stöðunni en halda pollýönnu leiknum áfram og vona það besta þar til og ef annað kemur í ljós.

Lítum nú aðeins á það góða sem hefur gerst hjá mér síðustu daga. Ég komst að því að Hrönn vinkona mín með meiru fer út að labba með hundana sína eldsnemma að morgni. Og úr því ég vakna sjálf alltaf á ókristilegum tíma, þá spurði ég hana hvort ég mætti slást í för með hana ásamt mínum hundum og var það auðsótt mál. Vitiði................... ég hef aldrei sofið eins vel og eftir að ég ætlaði að byrja á þessum göngum með henni. Núna fer ég orðið ekki á fætur fyrr en um kl 9 á morgnana og hef því aldrei farið í þessar göngur með þessari elsku!!! Ætli tilhugsunin ein hafi ekki bara verið svo hrottalega þreytandi? Og svo kynntist ég yndislegri konu í dag. En ég get alltaf bætt við mig vinum. Þessi kona heitir Rannveig og er hún cushing sjúklingur eins og ég. Síðast þegar ég heyrði í sérfræðinginn minn þá bað ég hana að láta þessa konu hafa númerið mitt svo hún gæti haft samband ef hún vildi. Þessi elska gerði það sama dag og hún fékk númerið sem var núna á þriðjudaginn og hittumst við svo heima hjá henni í dag. Það var voðalega gott að hitta konu sem hægt er að bera bækur sínar saman við og ekki skemmir fyrir að hún Rannveig mín hefur alveg yndilega og afslappaða nærveru. Ég hlakka sko mikið til að kynnast henni betur.

En jæja krúttin mín............... ætla að kalla þetta gott í bili og ætla að kíkja aðeins á bloggin ykkar, en ég hef ekki gert það síðan að mamma mín veiktist. Líka er þessi færsla orðin hin þokkalegasta langloka og eru nú takmörk fyrir því hverju er hægt að bjóða ykkur vinum mínum upp á. Þungavigtarknús á ykkur öll.

 

Molinn: Menn verða að fá svolítinn mótbyr, annars hætta þeir að vera manneskjur. Þá setjast þeir bara og láta sér leiðast og vita ekki hvað gleði er. - Gabriel Scott


Ef þið gætuð breytt einhverju í ykkar lífi í dag - hvaða breyting yrði það?

Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Þetta er örugglega ekki í fyrsta skiptið sem þið hugsið ykkar eigið svar við þessari spurningu - en hvað heldur þá aftur af ykkur?

Hafið þið hugsað út í það að það er aðeins EITT sem þið raunverulega þurfið að gera til þess að allt falli í réttar skorður og þið sjáið breytingarnar eiga sér stað? Þetta hljómar kannski of einfalt, en þetta EINA sem þið þurfið að breyta er ..... hugsunarhátturinn.

Kannist þið ekki við að fólk beri líðan sína bókstaflega utan á sér og lítur ýmist "vel" út eða "illa"? Líkaminn er nefnilega þjónn hugans. Við neikvæðar hugsanir, sekkur líkaminn fljótlega niður í veikindi og slappleika, og fólk lítur illa út. En við jákvæðar og glaðar hugsanir klæðist líkaminn nánast ungdóm og fegurð. Fólk hreinlega geislar.

Hræðsluhugsanir hafa verið þekktar fyrir að drepa fólk jafn örugglega og byssukúla. Þó ekki jafn hratt. Fólk sem lifir í hræðslu við sjúkdóma er fólkið sem mun veikjast. Fólk kallar ósjálfrátt á aðstæður sínar með hugsunarhættinum.

"Hvað með fjármála ástandið eins og það er í dag og allt sem er í gangi alls staðar......... ekki kalla ég það yfir mig!" kunnið þið jafnvel að hugsa. Svarið við þessari spurningu er því miður að vissu leyti "jú þið gerið það" . Þið eruð nefnilega bílstjórar eigin hugans og lífs. Þið breytið kannski ekki ástandinu á fjármálamörkuðum og þess háttar, en þið getið ákveðið hvaða áhrif ástandið fái að hafa á ykkar líf og tilveru. Þið ákveðið sjálf hvað fer í taugarnar á ykkur og hvað ekki. Þið ákveðið sjálf hvort þið ætlið að láta eitthvað ákveðið eyðileggja fyrir ykkur. Eins er það þegar einhver fer alveg í ykkar fínustu og fær ykkur til að líða illa, alveg sama hvað. Það eruð þá þið sem hafið ákveðið að veita viðkomandi valdi yfir því að ákveða hvernig ykkur líður. Til þess að breyta þessu verðið þið að hugsa meðvitað. Setjast niður í smástund áður en allt fer í handaskol og segja við ykkur sjálf "Ég ætti ekki annað eftir en að láta hann/hana ráða því hvernig mér líður".

Sjáið t.d í kreppunni mikluí Bandaríkjunum 1934. Þegar Bill Hewlett og David Packard störtuðu í henni miðri, það sem í dag er með stærstu hugbúnaðarfyrirtækjum heims - HP. Þeir hlustuðu ekki á neikvæðisraddir og fjölmiðla og það ættuð þið heldur ekki að gera. Það eina sem við þurfum að hræðast er hræðslan sjálf.

Takið meðvitaða ákvörðun um að utanaðkomandi áhrif og tímabundið ástand fái ekki að eyðileggja ykkar tilveru. Setjið ykkur markmið og náið þeim. Um leið og þið eruð búin að skrifa markmiðið niður þá er ekkert því til fyrirstöðu að þið náið þeim. Þið þurfið ekkert að setja ykkur gommu af markmiðum til að lífið breytist til batnaðar. Hversu mikið myndi lífsgæði ykkar bætast ef þið næðuð þó ekki væri nema eitt lífsmarkmið á næstu 10 árum.

Verum lífsglöð en umfram allt jákvæð. Allt verður svo miklu auðveldara viðureignar þannig. Þó ekki væri nema vegna þess að það dregur hugann burt frá því sem leiðinlegt er. Gefið ykkur tíma til að  sjá hvað allt er fallegt úti í haustlitunum. Látið svona smáatriði ekki framhjá ykkur fara. Ég ætla að minnsta kosti að brosa mikið í dag........ en þið?

Er þetta ekki bara hin ágætasta hugleiðing fyrir vikuna??

 

Molinn í dag sem jafnframt er vert að tileinka sér: Einu takmörkin í lífi þínu eru þau sem þú setur þér sjálfur.

 


You have to do it with a smile.

Meðan við hjónin vorum í Noregi í gsm og netleysi þá eyddi ég miklum tíma í lestur og íhugun. Hrikalega spennandi kunna sumir að hugsa, en ég get með sanni sagt að þarna opnaðist fyrir mér nýr heimur.

Ég tók nefnilega með mér bók sem heitir "Mikael handbókin, þú lifir aftur og aftur". Hún fjallar um sálarferil hvers manns og andlegur þroski. Hún er í rauninni of margbrotin og flókin til að telja upp hér um hvað hún fjallar nákvæmlega, en ég mæli eindregið með henni. Ég er alveg ógurlegur spíritísti í mér og drekk í mig allt sem snýr að andlegum málefnum. En þið þurfið ekki endilega að vera sammála því að líf sé að loknu þessu eða hlynnt andlegum málefnum til að setjast niður í smástund og skoða ykkar innra sjálf. Hver eru þið? Hvað getið þið lært af reynslunni sem þið verðið fyrir? Hver er tilgangurinn með lífinu?  Hvað langar ykkur til að fá út úr þessari jarðvist? Dugir ykkur lífsgæðakapphlaupið eða viljið þið kafa dýpra?

Lestur þessarar bókar fékk mig til að staldra aðeins við og hugsa "Hvers vegna er ég hér og hvað er það sem ég ætla að læra með þessari jarðvíst?" Ég hljóp hratt yfir þau tæplegu 37 ár sem ég hef lifað og komst furðu fljótt að niðurstöðu. Mér er hreinlega ætlað að læra þolinmæði og æðruleysi. Þolinmæði í víðustu merkingu þess orðs. Allt frá því að temja mér þolinmæði í umferðinni til þess að hlutirnir hreinlega gerast á þeim hraða sem þeim er ætlað, og að engin pirringur í veröldinni eða óþolinmæði fái því breytt svo vel sé. Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki þá er það að bíða og að hlutirnir gerist ekki alltaf þegar mér hentar. Og mér gengur bara ansi vel á þolinmæðisbrautinni þó ég segi sjálf frá en á samt slatta eftir í land. En þetta kemur hægt og bítandi.

En þá komum við að æðruleysinu. Af hverju tel ég að mér sé ætlað að temja mér það? Ég ætla nú að forða ykkur frá því að þurfa að lesa um allt sem ég hef upplifað á minni lífsleið en ætla aðeins að renna yfir þetta ár sem blessunarlega er bráðum á enda runnið. Í byrjun ársins fundust æxlin í heilanum og nýrnahettu, og hefur það sem komið er af árinu snúist um baráttuna við þennan sjúkdóm. Í vor lést Gunnhildur amma Gunnars og daginn sem hún var jörðuð þá dó amma mín. Jarðskjálftinn kom svo í maí sem lagði heimilið okkar í rúst aðeins 10 dögum eftir stóra aðgerð sem ég fór í. Í byrjun september mánaðar lést fóstursonur minn. Núna liggur hún móðir mín elskuleg hættulega veik á Landsspítalanum og er mjög tvísýnt um hana. Einnig er gengishrunið að gera rekstur búðarinnar mjög erfitt fyrir, sérstaklega þar sem við flytjum allt inn sjálf.

En þrátt fyrir þetta allt þá erum við hjónin hvergi á því að láta bugast. Sum hjónabönd þola ekki svona álag. En þetta hefur styrkt okkur. Ég hef alla tíð vitað hversu lánsöm ég er með minn eiginmann, ég hef bara fengið staðfestingu á því á þessu ári. Og á hverjum degi styrkist ég í þessari skoðun minni. Þetta hefur allt þjappað fjölskyldunni saman og við vitum að við munum standa þetta allt saman af okkur. Því ekkert getur grandað svona sterka einingu. Það er mín einlæga trú. Og það er ein setning sem gestgjafi okkar Kjell Aage í Noregi segir alltaf þegar á móti blæs eða eitthvað er leiðinlegt sem þarf samt að gera og hún er "You have to do it with a smile" Og vitiði hvað? Þetta er svo rétt hjá honum og einfaldar svo allt saman.

En á ég að segja ykkur svolítið? Ég ætlaði alls ekki að skrifa um þetta þegar ég ákvað að skrifa færslu, heldur ætlaði ég að láta ykkur vita að maðurinn minn elskulegi kom færandi hendi heim í gær með nýja höggþolna tölvu (ég missti nefnilega hina í gólfið þegar ég fékk aðsvif). Þannig að núna er ekkert því til fyrirstöðu að ég fari að hlaða inn myndum af utanlandsreisu okkar hjóna.

Ég ætla því að láta hér staðar numið í dag og sendi ykkur orkuknús inn í daginn ykkar og áður en þið farið að sofa í kvöld þá langar mig að biðja ykkur að gefa ykkur örlitla stund og hugsa hvaða lærdóm þið dragið af þessum degi.

 

 Molinn í dag hljómar svona: Ef þú veist ekki hvert þú stefnir, endar þú örugglega einhvers staðar annars staðar. Laurence J. Peter.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband