Færsluflokkur: Vefurinn

Misnotkun á aðstöðu.

Það hlaut að koma að því að ég myndi misnota mér bloggið!!! En þar sem þó nokkuð margir eru farnir að líta á þessar hugrenningar mínar þá langar mig að prufa svolítið. Og ég skammast mín ekkert fyrir það.

Eins og flestir er kannski búnir að komast að þá er því miður aftur komin upp sú staða í þjóðfélaginu að það er varla vinnu að fá nema í gegnum klíkuskap. Ég vonaði innilega að börnin mín þyrftu ekki að kynnast þessa stöðu, en kannski hafa þau bara gott af því að finna að það er ekki allt auðvelt. Þau eru alin upp í velmegun þar sem hægt var að skipta um vinnu ef hitt var ekki alveg nógu gott og svo framvegis.

En þá að misnotkuninni................................. Honum Leifi mínum langar afskaplega mikið að komast á sjó og hefur leitað víða en því miður hefur árangurinn orðið enginn. Ef einhver sem les þetta veit um pláss fyrir hann eða þekkir einhvern sem vantar mann, þá yrði ég svo afskaplega þakklát og gott betur en það ef hann/hún myndi láta mig vita. Hægt er þá að senda mér tölvupóst á christinedevolder@msn.com . Eins og fyrr segir hefur hann verið ansi iðinn við að leita sjálfur en ekkert gengið. Það sem helst hefur staðið honum fyrir þrifum er að hann hefur enga reynslu, en hvernig í ósköpunum á hann að öðlast hana ef hann fær hvergi tækifæri??? Langar mig því að kanna hvort þessi leið sé líklegri til árangurs.

Hér eru svo nokkrar upplýsingar um manninn.

Leifur er að verða tvítugur, hörkuduglegur sem kallar ekki allt ömmu sína. Hann er búin að skrá sig á byrjendanámskeiði, en það er víst skilyrði til að komast á sjóinn. Eins og ég var búin að taka fram að þá hefur hann enga reynslu en ofgnótt af áhuga sem og vilja. Hann er búsettur hérna hjá okkur hjónum á Selfossi en setur það ekki fyrir sér að þurfa t.d að fara til Eyja til að komast á sjóinn. Áhuginn er svo mikill hjá honum að sjógallinn og allt sem hann þyrfti að hafa með sér er löngu orðið klárt og taskan tilbúin ef kallið kemur. Hann getur s.s byrjað hvenær sem er. Þess vegna í dag ef því er að skipta. En ef ykkur vantar einn duglegan í dag þá mæli ég með því að hringt verði í búðina okkar Blaze, þar sem ávallt einhver er við símann. Síminn þar er 482-4824 eða þið getið sent póst á blaze@blaze.is og yrði hann þá strax látinn vita og viðeigandi ráðstafanir gerðar til að hann komist þá strax um borð.

Nú vona ég bara inn að innstu hjartarótum að þessi leið skili árangri, en ég kemst víst ekki að því nema prufa hana. Einnig langar mig að þakka fyrirfram fyrir okkur þó svo þetta skili engu. Tilraunin er þess virði.

Hjartans knús inn í daginn hjá ykkur öllum.

 

Molinn í dag hlýtur því að tengjast það sem ég er að gera með þessari færslu ekki satt: Af góðum hug koma góð verk.

 


Taktu ábyrgðina

Hvað segið þið gott fólk............... finnst ykkur ekki alveg vera kominn tími á nýja speki hjá mér? Ef svo, haldið áfram að lesa, en ef ekki........ well þá mæli ég með því að þið haldið áfram að lesa. Aldrei að vita nema það sé smá vit í þessu Cool.

Eitt af stóru veikleikum þjóðfélagsins í dag, er viðhorf okkar til fórnalambshlutverksins. Margir telja sig vera fórnalamb utanaðkomandi aðstæðna. "Ég þurfti að láta lýsa mig gjaldþrota vegna fyrrverandi maka..", "Ef fyrirtækið sem ég vann hjá hefði ekki sagt mér upp..", Ef þessi bílstjóri hefði ekki snögghemlað fyrir framan mig..".

Þegar við erum fórnalömb atburða, eða verur utanaðkomandi ástands, þá höfum við ekkert vald. Við höfum þá gefið atburði lífsins valdið. Því lengur sem við gefum atburðina vald, því verri verða aðstæðurnar.

Spekingur að nafni James Allen, sem ég hef miklar mætur á, skrifaði í bók sem hann gaf út (Above life's turmoil) "Þú ímyndar þér aðstæður þínar vera aðskilda frá sjálfum þér, en þau eru innilega skyld þínum hugsunarheimi. Ekkert gerist án fullnægjandi orsaka."

Til að ná stjórn á ástandinu verðum við fyrst að viðurkenna okkar eigin ábyrgð á því hvers vegna við erum þar sem við erum. Þetta reyndist mér hvað erfiðast af því að "fórnalambið" í okkur öllum vill alls ekki taka þessa ábyrgð.

Þegar við tökum ábyrgðina verðum við síðan að ná stjórn á hugsunarhættinum. Og já, því verður ekki neitað að oft getur það reynst ansi erfitt. Það virðist nefnilega vera í okkar eðli að hugsa fyrst á neikvæðan hátt. En þetta er einungis vegna þess að við höfum vanið okkur á það. Og eins og er með allt sem snýr að vana, þá er hægt að skipta því út fyrir vana þess að hugsa rétt.

Emmet Fox sagði einhverju sinni "Þú ert ekki hamingjusamur af því þér líður vel. Þér líður vel af því þú ert hamingjusamur. Þú ert ekki þunglyndur vegna þess að vandamál komu upp, vandamálin komu vegna þess að þú varst þunglyndur" Þið getið breytt hugsunarhættinum og tilfinningunum, og þá breytast utanaðkomandi aðstæður í samræmi við það.

 

Og þetta held ég að sé þess virði að leiða hugann að þessa vikuna. Hafið það alveg truflaðslega gott í dag og ef eitthvað leiðinlegt kemur upp sem þarf að gera....................... gerið það þá með bros á vör.

 

Molinn í dag er því í takt við pistilinn: Við berum ekki aðeins ábyrgð á þvi sem við gerum heldur einnig á því sem við látum ógert. - Moliére

 

 


Það finnast bjartar hliðar á ÖLLUM málum.

Meira að segja á jarðskjálftamálum. Jújú stundum neyðumst við kannski til að finna bjánalegan flöt á sumum málum, en þetta verður þá bara í versta falli fyndið en dreifir huganum. Auðvitað missti ég mikið í jarðskjálftanum sem reið hérna yfir í síðustu viku, en meðan að húsið mitt lítur ekki út eins og eftirfarandi mynd, þá dettur mér ekki til hugar að kvarta. Það sluppu allir lifandi og að mínu mati er varla hægt að biðja um meira.

Hrunið hús

Við hjónin + erfingjar fórum upp í bústað sem við áttum pantaðan á sunnudaginn var og eyddi ég talsverðum tíma í að spekúlera í hvernig ástandið á kofanum yrði þegar við kæmum heim. En svo þegar í kotið var komið þá ákvað ég að setja á mig derhúfu og svo leppa fyrir augunum (svona eins og sett er á hestana svo þeir sjái ekki til hliðar) og vera bara ekkert að pæla í þessu meira. Svo lengi sem húsið er íbúðarhæft og engar sprungur sem ekki er hægt að stinga prjón í gegn þá ætla ég sko ekki að fá mígrenikast yfir þessu. Matsmenn frá viðlagasjóðnum eiga eftir að koma með sína tækni og eru sko miklu færari en ég í að meta hvort það er húsið sem er skakkt eða hvort það er hreinlega bara jafnvægiðskynið hjá okkur sem hefur brenglast.

Þá ákvað Tína að finna jákvæðu punktana!!! Og hefst nú talningin gott fólk.

1) Vegna veikinda minna var ég búin að sækja um tímabundna heimilishjálp. Ég segi tímabundið því ég ætla mér ekki að vera í þessu veseni endalaust. En núna get ég dregið beiðnina til baka þar sem ekkert er eftir til að þrífa!! Hugsið ykkur tímasparnaðinn. Ekkert eftir til að þurrka af. Sem var nú eitt af því leiðinlegra sem ég gerði

2) Hef ekki haft svona mikið skápapláss í eldhúsinu síðan ég hóf búskap fyrir mörgum árum síðan, og svei mér ef ég var ekki fyrst haldin valkvíða yfir því í hvaða skáp ég ætti nú að setja þennan eina disk sem eftir var. Svo skemmtum við okkur bara alveg ágætlega yfir því að finna út hvar hann var nú settur síðast. Að vísu fékk minn elskulegi matarstell í kveðjugjöf frá vinnufélögunum eftir skjálftann mikla. En það er samt enn nóg pláss eftir í skápunum þannig að leikurinn heldur áfram.

3) Eins og síðasta færslan sagði til um að þá gerðum við úr þessu skemmtilegan fjölskylduleik sem kostar okkur ekki krónu. Og það er að giska á hvað skjálftarnir eru stórir sem enn dynja á okkur. Víst er þetta á stundum óþægilegt en oftast virka þessir skjálftar á mann eins og ef kraftakarl hefði slegið mann á bakið og á stundum er maður ekki einu sinni viss um að þetta hafi verið skjálfti. En ef setið er við borð ásamt öðrum þegar svona skjálfti kemur að þá er fyrst spurt hvort einhver hafi verið að hrista borðið. Ef ekki þá fer leikurinn af stað.  

4) Ekki skortir fólki lengur umræðuefnið lengur. Hvorki á kaffistofum landsmanna eða heimahúsum.

 Maður hefur því í rauninni aðeins um tvennt að velja. Taka á þessu á húmornum eða leggjast í kör og vorkenna sér. Fyrir mitt leyti þá finnst mér fyrri skosturinn miklu, miklu skemmtilegra. Vonandi gerið þið það sama.    

 Gangið nú um lífið með gleði í hjarta og dassi af kæruleysi. Það skaðar engan og þá allra síst ykkur sjálf. Og bannað að gleyma hversu frábær þið eruð, hver á sinn hátt. 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband