Það finnast bjartar hliðar á ÖLLUM málum.

Meira að segja á jarðskjálftamálum. Jújú stundum neyðumst við kannski til að finna bjánalegan flöt á sumum málum, en þetta verður þá bara í versta falli fyndið en dreifir huganum. Auðvitað missti ég mikið í jarðskjálftanum sem reið hérna yfir í síðustu viku, en meðan að húsið mitt lítur ekki út eins og eftirfarandi mynd, þá dettur mér ekki til hugar að kvarta. Það sluppu allir lifandi og að mínu mati er varla hægt að biðja um meira.

Hrunið hús

Við hjónin + erfingjar fórum upp í bústað sem við áttum pantaðan á sunnudaginn var og eyddi ég talsverðum tíma í að spekúlera í hvernig ástandið á kofanum yrði þegar við kæmum heim. En svo þegar í kotið var komið þá ákvað ég að setja á mig derhúfu og svo leppa fyrir augunum (svona eins og sett er á hestana svo þeir sjái ekki til hliðar) og vera bara ekkert að pæla í þessu meira. Svo lengi sem húsið er íbúðarhæft og engar sprungur sem ekki er hægt að stinga prjón í gegn þá ætla ég sko ekki að fá mígrenikast yfir þessu. Matsmenn frá viðlagasjóðnum eiga eftir að koma með sína tækni og eru sko miklu færari en ég í að meta hvort það er húsið sem er skakkt eða hvort það er hreinlega bara jafnvægiðskynið hjá okkur sem hefur brenglast.

Þá ákvað Tína að finna jákvæðu punktana!!! Og hefst nú talningin gott fólk.

1) Vegna veikinda minna var ég búin að sækja um tímabundna heimilishjálp. Ég segi tímabundið því ég ætla mér ekki að vera í þessu veseni endalaust. En núna get ég dregið beiðnina til baka þar sem ekkert er eftir til að þrífa!! Hugsið ykkur tímasparnaðinn. Ekkert eftir til að þurrka af. Sem var nú eitt af því leiðinlegra sem ég gerði

2) Hef ekki haft svona mikið skápapláss í eldhúsinu síðan ég hóf búskap fyrir mörgum árum síðan, og svei mér ef ég var ekki fyrst haldin valkvíða yfir því í hvaða skáp ég ætti nú að setja þennan eina disk sem eftir var. Svo skemmtum við okkur bara alveg ágætlega yfir því að finna út hvar hann var nú settur síðast. Að vísu fékk minn elskulegi matarstell í kveðjugjöf frá vinnufélögunum eftir skjálftann mikla. En það er samt enn nóg pláss eftir í skápunum þannig að leikurinn heldur áfram.

3) Eins og síðasta færslan sagði til um að þá gerðum við úr þessu skemmtilegan fjölskylduleik sem kostar okkur ekki krónu. Og það er að giska á hvað skjálftarnir eru stórir sem enn dynja á okkur. Víst er þetta á stundum óþægilegt en oftast virka þessir skjálftar á mann eins og ef kraftakarl hefði slegið mann á bakið og á stundum er maður ekki einu sinni viss um að þetta hafi verið skjálfti. En ef setið er við borð ásamt öðrum þegar svona skjálfti kemur að þá er fyrst spurt hvort einhver hafi verið að hrista borðið. Ef ekki þá fer leikurinn af stað.  

4) Ekki skortir fólki lengur umræðuefnið lengur. Hvorki á kaffistofum landsmanna eða heimahúsum.

 Maður hefur því í rauninni aðeins um tvennt að velja. Taka á þessu á húmornum eða leggjast í kör og vorkenna sér. Fyrir mitt leyti þá finnst mér fyrri skosturinn miklu, miklu skemmtilegra. Vonandi gerið þið það sama.    

 Gangið nú um lífið með gleði í hjarta og dassi af kæruleysi. Það skaðar engan og þá allra síst ykkur sjálf. Og bannað að gleyma hversu frábær þið eruð, hver á sinn hátt. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Þetta er auðvitað rétta viðhorfið. Til hamingju með það. Að allir sleppi heilir, það er mikilvægast.

Takk fyrir bónorðið

Jóna Á. Gísladóttir, 7.6.2008 kl. 15:24

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

það er gott að lesa bloggið þitt jákvæða kona

Hólmdís Hjartardóttir, 7.6.2008 kl. 16:26

3 Smámynd: Tiger

  Ójá, með sól í hjarta getur maður ætíð séð tíma bjarta.

Karlinn skoðaði afganginn af skennkinum - en bað mig um að nálgast mynd af honum eins og hann leit út áður ef hægt væri. Spurning um hvort þú eigir einhverjar myndir af honum áður en skjálftinn varð? Hann sagði mér að það væri erfitt að fara eftir þessari mynd því það vantaði stóran hluta til að fara eftir - og ef þú vilt fá sanngjarnt/rétt mat þá verður skápurinn að sjást eins og hann var - eða fá mann til að koma og skoða hann og meta hann á staðnum. Svo, ef þú átt mynd af honum heilum skaltu endilega pósta henni hingað inn því þá get ég tekið hana og sýnt karlinum. En, ég tek ekkert fyrir þetta .. don´t even try!

Knús á þig skottið mitt og gott að heyra að það er tekið á því með léttu nótunum - enda ætíð heillavænlegast að reyna ætíð að sjá björtu hliðarnar á öllu.

Tiger, 7.6.2008 kl. 18:01

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sé að þú hefur fengið hjálp í sambandi við skenkinn Tína mín.  Já, jákvæðni er nauðsynlegt, við fengum tryggingamann í dag og hann fór yfir það sem skemmdist inni, það er sko miklu, miklu minna en hjá þér. Ég sé ekki eftir neinu, bara glöð að vera í heilu lagi.  Mér finnst að þú eigir að þiggja heimilishjálp, ég fæ aðstoð á tveggja vikna fresti og það munar svo miklu fyrir mig að hún tekur gólfin og allt sem ég þarf að beygja mig við og svo náttl. baðherbergið, við þrjóskuðumst við lengi en erum núna mjög sátt að fá þessa hjálp.  Hlakka til að hitta þig á förnum vegi, vonandi fljótlega.  Knús á ykkur öll

Ásdís Sigurðardóttir, 7.6.2008 kl. 19:12

5 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hooooorfðu á björtu hliðarnar...............

Segðu mér svo ekki að þú sért ekki að syngja afganginn af laglínunni

Hrönn Sigurðardóttir, 7.6.2008 kl. 22:02

6 Smámynd: Tína

Búkolla, Hólmdís og Jóna: Knús á ykkur fyrir innlitið og takk Jóna fyrir að samþykkja mig sem vin. Þín blogg voru það sem vöktu upphaflega hjá mér áhuga á að blogga sjálf.

Tigercopper minn eini og sanni: Mér tókst að búa til albúm hérna á síðunni (er sko að verða ansi sleip í þessu dóti) og þar eru myndir sem þú getur vonandi notað. Annars er ég eiginlega í djúpum. Hvar er annars þessi maður staðsettur á landinu ef myndirnar duga ekki? Varðandi borgun snúðurinn minn........ að þá virði ég það fullkomlega við þig ef þú vilt enga borgun EN það er hægt að launa á margan hátt og væri það mér einstakur heiður þó ég fengi ekki nema að knúsa þig í hel og þakka þér persónulega. 

Ásdís mín elskuleg: Nei veistu... varðandi heimilishjálpina að þá ákvað ég að gera þetta bara sjálf þó ég sé lengur að því. Skiptir mig máli að finna að ég geti enn gert hlutina. Nú svo ef einhverjir dagar eru erfiðari þá á ég nú nóg af börnum til að þræla út!! Enda hef ég alltaf sagt þeim að það standi í fæðingarvottorðinu að ég megi misnota þau . Ég held svei mér að hann Kristján minn trúi því hehehe. Það er kannski þess vegna sem hann er duglegastur barnanna?!?!

Hrönn: Ég fer með heilu aríurnar hérna sko. Það er bara svo gaman að vera til.

Tína, 7.6.2008 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband