11.6.2008 | 06:50
Utanlandsfarinn minn
Hann Kristján minn fór kokhraustur og stoltur í sinni fyrstu ferð einn til útlanda. Þegar ég segi einn þá á ég við að hann ferðaðist einn, en fór til að hitta uppáhalds frænku sína hana systur mína. Eftir að eiginmaðurinn fór af stað með hann út á völl, þá vissi ég að ég yrði ekki í rónni fyrr en ég væri búin að fá símtal um að hann væri lentur í fanginu á Önnu. Ég gat bara ekki beðið eftir að heyra í honum.
Ég þurfti nú samt ekki að bíða lengi. Fljótlega hringdi nefnilega gemsinn hjá mér og var það Kristján að hringja. "SHIT" hugsaði ég með mér. Það er bara allt komið strax til fjandans. Ekkert smá svartsýn. En nei nei, það var sko ekkert vandamál á ferð, því um leið og ég svara segir hann "halló elsku mamma mín...... ég er hérna staddur í fríhöfninni...... hvað viltu nú að ég kaupi handa þér?" Greinilega veraldarvanur heimshornaflakkari þar á ferð!
Mér létti svo mikið að ég skellihló bara og langaði mikið að segja "karton af sígarettum og kippu af bjór takk". En lét það nú vera. Ég bað hann að bíða með að versla nokkuð þar til hann væri kominn til Spánar. Hjartagullið mitt er nefnilega þannig af guði gerður (já og mér og pabba hans) að hann langar alltaf að gleðja alla í kringum sig, og er snöggur að eyða peningum sínum í allskonar gjafir fyrir fólkið sitt, en gleymir svo sjálfum sér þar til hann allt í einu áttar sig á að hann á ekkert eftir til að eyða í sjálfum sér.
En til að gera langa ferðasögu stutta þá fann hann frænku sína þegar hann var kominn út og allt gekk að óskum. Ég á örugglega eftir að fá nánari ferðalýsingu þegar hann kemur heim aftur.
Hann hringdi síðan í mig í gærkvöldi þegar hann átti að fara að sofa og var með heimþrá þessi elska. Ég spurði hann þá hvort hann skemmti sér ekki vel. Ekkert lítið sem hann móðgaðist við þá spurningu "maður getur nú saknað mömmu sinnar þó maður skemmti sér! Svo langaði mig bara að heyra röddina þína"
"En þetta er skrítið land mamma mín, hér er nefnilega ekki hægt að drekka vatnið því það er ógeð vont og svo er sundlaugin skítköld. Hafa þeir aldrei heyrt um heita potta????"
En hann var annars voðalega spenntur fyrir deginum í dag því hann er að fara á einhvern markað núna í morgunsárið, sem systir mín segir að sé algjört æði. En ef ég skildi hann rétt þá er hann líka að fara að keppa í Gocart (veit ekkert hvernig þetta er skrifað) við hann Arnþór sem er maður systur minnar. "Sko mamma....... Arnþór sagðist vera miklu betri en ég í þessu, en hann getur ekki bara sagt svona án þess að sanna það. Og ég ætla sko að vinna hann". Það verður fróðlegt að vita hvernig þessi viðureign fer.
Sonur Arnþórs er 4 ára trítill sem heitir Henrý Máni, og er Kristján stundum að passa hann. Í íbúðinni við hliðina á þeirri sem Anna systir er í, búa þessa stundina 2 systur á aldri við mig og á önnur þeirra 5 ára son. Systir mín og Arnþór þekkja þær stöllur orðið nokkuð vel og fara gjarnan í heimsókn yfir til þeirra. Kristján gerði sér lítið fyrir og fór til systranna og spurði þær hvort hann ætti ekki að gera þeim greiða. "tja.... það fer auðvitað eftir greiðanum" sagði önnur konan. "Sko á ég ekki bara að passa litla strákinn fyrir ykkur? Ég er hvort eð er að passa þennan" og nikkaði í áttina að Henrý Mána. Að lokum spurði Kristján "á svo ekki að skella sér í laugina stelpur?" .
Svo tók hann eftir því að önnur konan sat þarna berbrjósta í sólbaði, horfði á hana í smástund og sagði svo "þú ert ekkert spéhrædd er það!" Og var þetta staðhæfing frekar en spurning
Ég hlakka mikið til að heyra frá honum aftur og bíð ég spennt eftir að fá mynd af stráknum mínum, sem ég mun setja hingað inn við fyrsta tækifæri. Ég sakna hans sárt og finnst bæði skrítið og erfitt að hafa hann ekki hérna hjá mér. En mikið svakalega vona ég að hann skemmti sér nú vel þarna úti, því það er akkúrat það sem hann þarf núna og á innilega skilið.
Hér er svo moli dagsins elskurnar mínar "Gerðu það sem þú getur, með því sem þú hefur, þar sem þú ert" Theodore Roosevelt
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 07:57 | Facebook
Athugasemdir
Þau hafa nú gott af að fara aðeins frá mömmu!!
Hólmdís Hjartardóttir, 11.6.2008 kl. 09:48
Satt segirðu Hólmdís mín. Naflastrengurinn verður víst einhvern tímann að slitna!! En þó maður sé búin að slíta 2 naflastrengi þá virðist sá síðasti vera einhverra hluta vegna vera ööööörlítið seigari
Tína, 11.6.2008 kl. 10:11
Jámm þetta er örugglega erfið lífsreynsla en þar sem mín fara alltaf ein öðru hvoru er ég víst löngu búin að tapa þessu stressi. En þetta er eðlilegt og eins og Hólmdís segir þá var orðið tímabært allavegana að lengja á honum naflastrengnum. Ég get ímyndað mér svipinn á konunni sem hann sonur þinn sagði þessa staðhæfingu við hahahha. knús í klessu gellan mín
Guðrún Helga Gísladóttir, 11.6.2008 kl. 13:41
já sæll!! lilli bró farinn í eldri kantinn í kvennamálonum...?...hann hlítur að spjarasig á þvi sviði miða við þetta blogg og miða við hvernig hann er...við sandra byðjum að heilsa honum og segðonum að kaupa eikkað flott handa mér:).....
ps til krissa að muna að verjur eru af hinu góða
Leibbi (sá elsti) (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 21:58
Mér finnst alltaf eins og það vanti eitthvað í mitt líf, þegar eitthver af börnunum mínum eru í útlöndum, frumburðurinn minn var í 1 ár í Ameríku þegar hún var 19 ára sem Au-Pair. Ég saknaði hennar alveg hræðilega og hringdi ég í hana vikulega og töluðum við saman lengi, lengi, ég fékk hræðilega háa símareikninga þegar hún var þar. Núna á ég tvær stelpur í Tælandi og finnst mér það hræðilegt, þær eru svo langt í burtu frá mér.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.6.2008 kl. 01:10
Hann hljómar sannarlega eins og sannur gullmoli þessi drengur. Hugsar fyrst um aðra og svo um sjálfan sig - göfugt og fallegt hjarta sem fylgir þannig hugsun. Þú ert greinilega heppin með afleggjarana þína - og þeir heppnir að hafa þig. Vona að allt gangi honum ljómandi vel í haginn á Spáni, þrátt fyrir að hann komist ekki í heita pottinn. Knús í þína átt og eigðu ljúfa nótt framundan.
Tiger, 13.6.2008 kl. 02:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.