Færsluflokkur: Bloggar
6.12.2008 | 09:16
Stress
Á einu námskeiði rétti kennarinn fram vatnsglasi og spurði nemendurna hversu þungt það væri. Svörin sem bárust voru allt frá bilinu 20 til 500gr. Þá sagði kennarinn "Nákvæm þyngd skiptir nákvæmlega engu máli. Það sem skiptir máli er hversu lengi þú heldur á glasinu. Það er ekkert þungt ef þú heldur á því í smástund. Ef þú heldur á því í klukkutíma þá eru líkur til þess að þig fari að verkja í handlegginn. Ef þú heldur á því í heilan dag þá þarf örugglega að kalla á sjúkrabíl. Í hverju tilfelli fyrir sig er þyngdin sú sama, en því lengur sem þú heldur á því, því þyngra verður það".
Sama á við um okkar vandamál. Því lengur sem vandamál ná að þjaka okkur, því þyngri verður byrðin. Ef við erum alltaf að bera þau þá er staðreyndin sú að fyrr en síðar kiknum við undan álaginu og getum þá ekki haldið áfram. Alveg eins og með vatnsglasið. Við verðum að leggja það frá okkur í smástund og hvílast áður en við tökum það upp aftur. Endurnærð getum við haldið áfram með okkar mál.
Þess vegna er það að áður en farið er heim að kvöldi dags, leggið þá vandamálin og áhyggjurnar frá ykkur. Ekki fara með það heim. Þið getið tekið þau upp aftur á morgun. Hvaða vandamál eða áhyggjur sem kann að þjaka ykkur núna, leggið þau frá ykkur í örlitla stund ef þið getið. Og takið þau ekki upp aftur fyrr en þið eruð endurnærð.
Hérna eru nokkur góð ráð til að takast við vandamál, stress, áhyggjur og svartsýni.
Hafið orð ykkar ávallt sæt, ef svo skyldi fara að þið þyrftuð að éta þau ofan í ykkur.
Lesið alltaf eitthvað sem fær ykkur til að líta vel út ef þið deyið á miðri leið.
Keyrið varlega........ það eru ekki eingöngu bílarnir sem geta verið afturkallaðir til framleiðenda.
Ef þið getið ekki verið almennileg..... sjáið þá sóma ykkar í því að vera óljós.
Ef þið lánið einhverjum 1000 kr og sjáið viðkomandi svo aldrei aftur. Þá er það sennilega þess virði.
Það er alveg möguleiki á því að ykkar eina hlutverk á jörðinni sé að vera almennilegt við annað fólk.
Hverjum er ekki sama þó þið kunnið ekki að dansa. Standið bara upp og dansið.
Úr því að er árisulli ormurinn sem er étinn af fugli............. sofið þá út.
Það er seinni músin sem fær ostinn.
Afmælisdagar eru góðir........ því fleiri sem þið eigið, því lengur hafið þið lifað.
Þið gætuð vel verið eina manneskjan í heiminum, en getið líka verið allur heimurinn í augum einnar manneskju.
Sum mistök eru bara of skemmtileg til að gera þau bara einu sinni.
Við getum lært mikið af vaxlita kassa. Sumir litir eru beittir, sumir fallegir og aðrir ekki. Sumir litir hafa skrítinn nöfn og allt eru þetta mismunandi litir sem verða að vera í sama kassanum.
Úr því við erum nú einu sinni á þessari jörð.................... því þá ekki að njóta þess? Misjafnlega hefur okkur verið úthlutað en við ættum að læra af því frekar en að fara í fýlu yfir því. Samgleðjumst innilega þeim sem eru hamingjusöm og tökum þátt í þeirra gleði. Huggum þau sem minna mega sín og verum til staðar fyrir þau. En umfram allt skulum við þakka Guði fyrir að vera til og þökkum jafnvel fyrir þær byrðar sem stundum eru lagðar á okkur. Það er sagt að ekki sé lagt meira á mann en maður getur borið. Ef mikið er lagt á okkur, þá hlýtur almættið að hafa mikið trú á okkur ekki satt.
Læt þetta duga í bili elskurnar. En ég stillti vekjaraklukkuna mína með það í huga að hafa smá tíma fyrir örblogg. Nú verð ég víst að drífa mig að hafa mig til fyrir vinnuna. Munið að ég hugsa reglulega til ykkar.
Molinn er síðan að sjálfsögðu tengdur færslunni, en hann er: Þær hafa reynst okkur kostnaðarsamar raunirnar sem aldrei hafa orðið. - Thomas Jefferson
P.s Konukvöldið var algjört flopp. En það komu aðeins 2. Gengur bara betur næst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
28.11.2008 | 23:28
Konukvöld í Blaze 3 Des og fréttayfirlit
Nú jólafata innkaupin
við ætlum þér að létta.
Þú finnur föt á herrann þinn,
stærð og sniðið rétta.
Kíktu inná kvennakvöld
kona, stúlka, hnáta.
Gleðin verður þar við völd
og strákar til að máta.
Að velja föt er vandans list
en voðalega gaman.
Þú kíkir inn til okkar fyrst
við reddum þessu saman.
Ég er búin að ganga með þessa hugmynd í maganum í 2 ár og ætla loksins að hrinda henni í framkvæmd. Miðvikudagskvöldið næstkomandi verðum við með konukvöld í Blaze. Eins og nafnið gefur til kynna þá er þetta eingöngu ætlað konum. Við munum bjóða upp á léttar veitingar og verða þarna strákar af flestum stærðum og gerðum í nærfötum og sloppum. Konurnar geta svo komið, fundið manninn sem passar best vaxtalega séð við þann sem þær vilja versla á, og mátar hann þá þau föt sem þær hafa áhuga á að versla. Þetta er opið öllum konum og verður frá kl 20-22. Þetta verður sko bara truflað gaman.
Af mér er það annars að frétta að ég er farin að vinna aftur og það meira en ég ætlaði í rauninni að gera. Staðan er bara þannig að Kolla sem hjá okkur starfar á von á tvíburum og er hún orðin ansi þreytt þessi elska. Nú er hún komin niður í 50% vinnu og tek ég svo við af henni þegar hún er farin heim. Gunnar er að vísu enn þarna og í fullu starfi. Ég verð reyndar að viðurkenna að orkan er töluvert minni en ég vonaðist til. Kannski ekki alveg að undra eftir allt sem hefur gengið á og gengur enn á. Að vísu er komin ung kona að hálfu leyti til liðs við okkur sem heitir Rebekka og lofar hún ansi góðu. En eins og staðan er í dag þá getum við ekki leyft okkur að ráða hana í staðin fyrir Kollu. Ekki eins og er.
Sérfræðingurinn minn hringdi í mig í dag. Hún reyndar mundi ekki afhverju hún ætlaði að hringja og varð ég að minna hana á það. Til að gera langa sögu stutta....... þið sem lesið reglulega bullið í mér, munið kannski eftir því að ég fór á mótþróaskeið og gerði mínar eigin ráðstafanir við að sjokkera nýrnahettuna mína í gang og tókst það. Vandamálið er að mjög líklegt er að æxlið í heiladinglinum hafi við þetta líka hrokkið í gang með framleiðslu á kortisóli. Ákveðið var því að gera þvagsöfnun í 2 sólarhringa til að fá úr því skorið. Það eru núna liðnar 2 vikur síðan ég skilaði þessu af mér. Ég komst svo að því í dag að það er ekki búið að gera rannsóknina þar sem ákveðið efni sem til þarf er ekki til. Einnig safna þær nokkrum sýnum áður en svona próf er gert. Núna er sérfræðingurinn minn farin í frí og kemur ekki aftur fyrr en 22 des. Þannig að ég verð víst bara að bíða þar til þá. Af þessum sökum hef ég ekkert verið á netinu. Ég er bara búin á því þegar ég kem heim. En ég mun nota helgina og fara hring um bloggin ykkar og lesa hvað á daga ykkar hefur drifið síðan síðast.
Mér líður mjög svipað og á sama tíma í fyrra, þegar veikindin byrjuðu að herja á mig en ég var ekki búin að fá greiningu, nema hvað ég hef töluvert minni orku núna en þá. Ég væri að ljúga ef ég segðist ekki vera pínu hrædd og þokkalega þreytt og leið. En eins og þið eruð búin að komast að þá er ég með gríðarlega sterkt bakland og veit að ég er svo sannarlega ekki ein. Bænin hjálpar mér líka mikið og hafa veikindin styrkt mig í minni trú á almættið og æðri mátt. Svo mikið er víst að einhversstaðar fæ ég þetta auka þrek sem ég þarf og tel ég hana koma ofan frá.
En eins og maðurinn minn elskulegi segir........................ þá erum við á leiðinni upp...... ekki niður.
Molinn er því að einhverju leyti tengdur þessari færslu og það sem ég reyni að fremsta megni að halda mér við: Leyndarmál ánægjunnar er að njóta þess, sem við höfum og svæfa löngunina eftir því sem við við ráðum ekki við.
Njótið nú helgarinnar elskurnar mínar og vonandi gleymið þið mér ekki alveg strax þó lítið fari fyrir mér á næstu vikum. Dýrka ykkur öll og bið Guð að geyma ykkur.
Knús á ykkur öll
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
23.11.2008 | 11:07
Fréttir af mér.
Það er vægt til orða tekið að mikið sé orðið að gera hjá mér. Eða kannski er ég að ýkja og finnst það bara mikið miðað við hvernig heilsan er. Hef samt sama sem ekkert komist í tölvuna fyrr en núna.
Á laugardaginn fyrir viku, var ég að vinna í búðinni og eitthvað að vesenast á lagernum, þegar bjallan tilkynnir komu viðskiptavinar. Þegar ég var loksins komin upp tröppurnar (á frekar erfitt með þær) stendur maður þarna og er mikið að skoða útstillingargluggann okkar. "Sérðu eitthvað fallegt þarna?" spurði ég, "nei" segir hann þá. Ég þóttist voðalega hneyksluð og spurði því hvað hann meinti eiginlega. Þá segir hann mér það að hann sé að skoða gluggann með það í huga að setja eins og eitt stk Harley Davidson hjól þarna!! Hann væri með það úti í bílnum. Ég get sagt ykkur það gott fólk að það er erfitt að gera mig kjaftstopp en þessi maður fór létt með það. Það kom svo í ljós að Gunnar hafði hitt hann daginn áður og þetta var niðurstaðan. Ef einhver hefur áhuga þá skilst mér að þetta hjól sé til sölu. Aðeins búið að keyra það 200 km.
Hann Gunnar minn heldur áfram að vinna úr sér geðheilsuna því álagið á honum er gríðarlegt. Fjármálaástandið er ekki að gera okkur hlutina auðvelda en við neitum að gefast upp og berjumst áfram. Það versta er að Gunnar vinnur á við 4 og reyni ég því af veikum mætti (að mér finnst) að draga aðeins úr álaginu á honum. Kveikt var á jólaljósunum í bænum á fimmtudagskvöldið og var nóg að gera við að undirbúa þann gjörning. Kolla sem hjá okkur vinnur skreytti gluggann eins og henni einni er lagið. Enda hefur glugginn okkar ávallt vakið mikla athygli og á hún algjörlega heiðurinn að því. Á miðvikudagskvöldið tóku svo vinkonur mínar þær Sammý og Sigurlín sér saman og kláruðu að skreyta búðina að innan svo ég myndi ekki gera það. Enda hótaði Sigurlín mér því að vefja um mig jólaseríu og binda mig fasta með henni ef ég yrði ekki stillt . Ég fékk þó að sitja og fylgjast með þeim og skemmti mér konunglega þetta kvöld. Sammý gerði svo þessa geggjuðu jólaljósaslaufu sem þið getið séð á hjólið. Ég bara verð að segja að búðin hefur aldrei eða sjaldan verið eins flott og hún er núna.
Sigurlín er einhver sú allra óeigingjarnasta vinkona sem ég hef eignast, ef mig vantar hjálp eða eitthvað og hún er kannski upptekin við annað, þá hliðrar hún bara til og hagræðir svo hún geti orðið að liði. Þetta gerði hún t.d svo hún gæti unnið í búðinni á fimmtudagskvöldið (en þá var opið til 22) svo ég þyrfti ekki að gera eins mikið. Að vísu henti eða dró hún mig bókstaflega út úr búðinni kl 21 og skipaði mér að fara heim. Sammý er ég rétt að kynnast en samt veit ég að hún er af nákvæmlega sama meiði og Sigurlín. Ég hef alltaf vitað hversu góða vini og stórmerkilega fjölskyldu ég á, en staðreyndin er engu að síður sú að þau halda áfram að koma mér endalaust á óvart með styrk sínum og hjartagæsku.
Við fengum trúbadorinn Skuggabaldur til að spila í búðinni á fimmtudagskvöldið. Við gerðum þetta í fyrra og hefur það vakið mikla lukku. Leifur minn kom austur til að hjálpa og tók hann þarna nokkur lög. Ég verð svo að segja að drengurinn er alveg fjári góður. En ég átta mig alltaf betur og betur á því hversu vel mér tókst þegar ég bjó hann til . Myndin er ekki alveg í fókus en þið sjáið hann nú samt ekki satt?
Af heilsunni er það að frétta að ég átti að fá að vita á fimmtudaginn hvort stefnan væri á Gautaborg fljótlega, En þann daginn var alltaf að líða yfir mig, þannig að það ástand fékk alla athyglina. Ég fór í nálastungu daginn áður og ég held að það sé orsökin eða þá að athyglisþörfin hafi bara verið orðin yfirdrifin. Enda bað ég börnin mín sem og vini að tala vinsamlegast meira við mig, svo ég þyrfti ekki að fara þessa leið. Í fyrsta skipti sem þetta gerðist þennan daginn þá gerðum við Gunnar grín að þessu og ég sagði honum að ég hefði hreinlega kiknað í hnjánum þegar ég sá hann að ég kolféll. En svo gerðist þetta aftur og þá var þetta ekki alveg eins fyndið. Svo var þetta nú komið allt saman í lag um kvöldið.
Ætli það sé ekki best að stoppa núna enda orðið þokkalega langt. Ég gæti nefnilega haldið lengi áfram þar sem um heila viku er að ræða. Núna ætla ég að fara í smá bloggrúnt og kíkja á hvað drifið hefur á ykkar daga.
Molinn að þessu sinni er: Vertu glaður og þú munt eignast sálarró. Njóttu lífsins og þú munt finna gleðina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
14.11.2008 | 16:01
Vita skaltu: Þú berð ábyrgð á eigin líðan.
Efasemdir, kvíði og áhyggjur eru óálitlegir skuggar undirheima sjálfsins og á ekki að trufla þann sem klifrar upp í friðsæld sálarinnar. Sorg mun einnig ætíð víkja fyrir þann sem skilur hvað lög innra sjálfsins fela í sér.
Mig langar aðeins að ræða um mátt tveggja tilfinninga..... nefnilega jákvæðni og neikvæðni.
Ég hef hingað til neitað að dragast inn í neikvæðni þjóðarinnar, og mun halda áfram að gera það. Það er nefnilega engin og ekkert sem fær ráðið því hvernig mér líður. Ég hef ekki stjórn á ástandinu í landinu eins og það er, en ég get haft stjórn á sjálfri mér. Með jákvæðninni get ég haft áhrif, bæði inn og út á við. Neikvæðni og reiði hefur aldrei og mun aldrei leiða af sér góða hluti eða vellíðan. Neikvæðni er best til þess fallið að brjóta niður og það aflar sér í besta falli slatta af "já"bræðrum.
Ekki vil ég draga úr ástandinu eða gera lítið úr áhyggjum manna. Mér líst bara ekki á hvaða áhrif þessi neikvæðni hefur á sálir manna. Neikvæðni fylgja nefnilega ýmis viðbrögð og byrjar yfirleitt eins. Það hefst með vonbrigðum, síðan reiði og svo kemur þunglyndi og uppgjöf. Þess vegna hef ég hér eina spurningu fyrir ykkur sem mig langar að biðja ykkur að hugleiða og svara ykkur sjálf einlæglega..... hafið þið einhvern tímann heillast af reiðri manneskju? Hefur reið manneskja nokkurn tímann vakið með ykkur löngun sem fær ykkur til að hugsa "Mig langar að gera ALLT fyrir þessa persónu"?
Með þessu er ég ekki að segja að þið eigið að taka hlutina þegjandi og hljóðalaust, heldur er ég að segja að það er ekki hvað þið segið sem skiptir máli, heldur hvernig. Ég hef oft spurt fólk að því hvort það viti hvernig það eigi að fá öskrandi manneskju til að hlusta. Vitið þið hvernig er farið að því? Kannski þið vitið það nú þegar en til vonar og vara læt ég það flakka hér........ þið hvíslið. Það eina sem hlýst af því að öskra á móti á manneskju sem öskrar er að það öskrar aðeins hærra til að yfirgnæfa ykkur. Með því að hvísla þá komið þið andstæðingnum á óvart og ósjálfrátt lækkar viðkomandi tóninn og þið hafið náð að róa manneskjunni nægilega mikið til að hún í það minnsta muni eftir því að anda.
Jákvæðni og trú í sálinni eru líka öflugt, en ég held mér sé alveg óhætt að segja að afleiðingarnar af þeim tilfinningum séu uppbyggilegri á allan hátt. Þessum tilfinningum fylgir nefnilega "ég get og ég skal" orku. Krafturinn verður meiri og hugsunin skýrari. Og það er alltaf tekið mark á og hlustað á manneskju sem býr yfir ró og gleði í sálinni. Á hana er að minnsta kosti hlustað.
Leyfið ekki neikvæðum tilfinningum að koma inn á heimilið ykkar. Heimilið er ykkar gríðarstaður og þar á að ríkja gleði. Látið reiðina ekki ná stjórn á sál ykkar, því sálin inniheldur vellíðan og innri orka. Slökkvið á sjónvarpinu, tölvunni og allt sem getur truflað. Setjið góða tónlist í spilarann, tónlist sem fær ykkur til að líða vel og kveikið á kerti. Gefið ykkur stundarkorn til að ná aftur stjórninni á eigin líðan. Það eru bara þið sem getið það. Þið þurfið ekki að vera trúuð til að biðja. Almættið er eins og nafnið gefur til kynna mjög öflugur kraftur. Biðjið almættið um hjálp við að öðlast ró í sálinni. Ef þið eruð ekki trúuð þá er ekkert sem bannar að þið talið við ykkar innra sjálf. Hugleiðið og leyfið ykkur að slaka á...... þó ekki væri nema í 15 mínútur.
Burt séð frá öllu að þá er eitt sem er alveg víst, en það er að það sem verður....... verður. Hvort sem þið eruð reið eða glöð. Viljið þið virkilega eyða lífinu í reiði?
Að lokum langar mig að biðja ykkur um að prufa svolítið ef neikvæðu tilfinningarnar hafa alveg tekið stjórnina af ykkur. Í hvert sinn sem neikvæð hugsun kemur niður í huga ykkar, þá vil ég biðja ykkur um að finna eitt jákvætt til að hugsa um á móti. Það mun sannanlega draga aðeins úr vanlíðaninni og kvíðanum.
Eigið ljúfa helgi gott fólk og munið þennan mola: Með tíma og þolinmæði vinnst meira en með afli og ofsa. - La Fontaine
Guð geymi ykkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
12.11.2008 | 14:27
Viðhorf.
Kona ein vaknaði að morgni,
leit í spegilinn,
og sá að hún var aðeins með þrjú hár á höfðinu.
'Jæja" hugsaði hún, ætli ég hafi ekki hárið greitt aftur í dag.'
Sem hún og gerði og átti fínan dag.
Næsta dag vaknaði hún,
leit í spegilinn
og sá að hún var aðeins með tvö hár á höfðinu.
'H-M-M,' hugsaði hún,
'Ætli ég skipti ekki bara í miðju í dag.'
Sem hún og gerði og átti frábæran dag.
Næsta dag vaknaði hún,
leit í spegilinn og sá
að það var aðeins eitt hár á höfðinu.
'Jæja,' sagði hún, ætli ég verði ekki með
hárið í tagli í dag.'
Sem hún og gerði og átti skemmtilegan dag.
Næsta dag vaknar hún,
lítur í spegilinn og sér
að það var ekki stingandi strá á höfðinu.
'YAY!' hrópaði hún.
'Ég þarf ekki að hafa áhyggjur af hárgreiðslu í dag!'
Allt snýst þetta um viðhorf.
Lífið snýst ekki um að bíða eftir að storminn lægi...
það snýst um að dansa í rigningunni. Og þetta á við allt sem snýr að okkur. Hvort sem er álit okkar á okkur sjálfum, ástandinu eða hverju sem er.
Njótið dagsins elskurnar.............. lífið er svo fallegt þrátt fyrir allt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
11.11.2008 | 07:56
Blogghittingur #2
Seinni blogghittingurinn var í gærkvöldi og er alltaf gaman að hitta fólkið og spjalla. Þetta var nú öllu rólegra en fyrri hittingur en ekki síður skemmtilegur.
Á svæðið mættu Sammý vinkona mín og dóttir hennar Rebekka, Eiríkur (garpur), Einar, Ásdís og svo Hrönn en án hennar vil ég helst ekki vera. Það er bara þannig Því miður varð hún Edda mín að boða forföll, en ég vil þakka henni fyrir að hafa látið mig vita að hún kæmist ekki. Afskaplega hvimleitt þegar fólk segist ætla að koma en lætur síðan hvorki heyra í sér né sjá.
Ekki var stemning í hópnum fyrir Kaffi Krús, enda fór mjög vel um okkur þarna í búðinni og var mikið spjallað og hlegið þar. Enda afburða skemmtilegur hópur þarna saman kominn. Svo hef ég grun um að kakóið sem ég kom með hafi bara verið svona hrikalega gott. Ég er í það minnsta búin að telja sjálfri mér trú um það.
Það er alltaf gaman þegar hópur kemur svona saman og gerir eitthvað sem það er ekki vant. Og ég viðurkenni það alveg að eitt af því skemmtilegra sem ég geri þarna í búðinni er að taka á móti svona hópi á kvöldin. Ástæðan fyrir því er að stemningin í fólkinu er miklu skemmtilegri. Sérstaklega á það við um hóp af körlum. Því þeir stríða hvor öðrum villt og galið og er alltaf mjög skemmtilegt að fylgjast með þeim. Þeir eru ekki að taka þetta neitt of hátíðlega en eru skemmtilegir og afslappir og þeim finnst sko ekkert leiðinlegt að koma svona konulausir (með fullri virðingu fyrir konunum). Ég hef í það minnsta ekki enn lent í að taka á móti leiðinlegum hópi 7-9-13.
En hérna eru örfáar myndir frá því í gærkvöldi og hinar getið þið séð í myndaalbúminu.
Ásdísi leist vel á þessa.
Einar sáttur með sitt kakó
Það fór bara vel um Eirík (Garpur)
Sammý fyrir miðju og Rebekka dóttir hennar.
Þakka ykkur öllum mikið vel fyrir komuna. En ég hef endalaust gaman af því að hitta ykkur og vona ég bara að ég fái að gera það sem oftast. Ef einhverjir hafa áhuga á að koma svona að kvöldi til í verslunina Blaze á Selfossi og eiga skemmtilega kvöldstund í góðra vina hópi, þá mana ég ykkur til að hafa samband annað hvort beint við verslunina eða við mig. Þið getið þá bara sent mér póst á christinedevolder@msn.com . Þetta kostar ekki neitt en er virkilega skemmtilegt þó svo að sumum kunni að finnast það frekar ótrúlegt.
Ekki má ég svo klikka á molanum: Við getum eytt tímanum í að bölva myrkrinu eða við getum einfaldlega kveikt á kerti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
9.11.2008 | 11:24
Blogghittingur #1
Þá er fyrsti hittingurinn búin. Ég segi fyrir mína parta að ég skemmti mér mjög vel. Að vísu var fámennt (komu bara 4 af 9) en góðmennt. Þau sem komu voru Hrönn, Jóna Kolbrún (Huxa), Tobbi (Landi) og Solla (Ollasak).
Við hittumst í Blaze en þaðan lá leiðin í brugghúsið í Ölvisholti. Bjarni mágur og Siggi svili minn tóku á móti okkur og leiddu okkur inn í allann sannleikann um framleiðsluna og söguna á bak við bjórana Skjálfta og Móra. Bæði var þetta fróðlegt en líka mjög skemmtilegt þar sem þetta tvíeyki er með skemmtilegri mönnum sem ég þekki. Ég klikkaði þarna að vísu á smáatriði með því að gleyma að taka með mér myndavélina en Jóna tók myndir hægri vinstri og ætla ég að fá nokkrar hjá henni. Bæti þeim inn í þegar þær berast.
Þegar forvitninni var svalað þá fórum við og sóttum hana Hrönn og fórum aftur upp í búð. Tobbi sagðist svo sannarlega hafa fundið þarna sína búð og varð alveg veikur fyrir einum frakka sem hann sá þarna. Einnig fann Hrönn sér kall þarna og fannst henni hann með eindæmum þægilegur og rólegur, sem var bara kostur að hennar mati.
Eftir það lá leiðin á Kaffi Krús og tómir magar fengu þar ærlega fyllingu. Við eyddum dágóðum tíma þar í át og spjall og skemmtum okkur mjög vel. Kvöldinu lauk um hálf tíu og bind ég miklar vonir við að fólk hafi farið frá mér satt og ánægt með kvöldið.
Að lokum langar að mig að biðja þá sem hafa skráð sig eða tilkynnt komu sína á mánudagskvöldið að vera svo væn að láta mig vita ef það ætlar ekki að koma. Svo sjáið þið hérna nokkrar myndir en þið getið síðan séð fleiri í myndaalbúminu. Ég hlakka mikið til að sjá ykkur sem ætlið að koma annað kvöld en ég endurtek.......... í guðana bænum tilkynnið forföll.
Ég þakka ykkur kærlega fyrir mig og gladdi það mig mikið að hitta ykkur. Vonandi verður nú ekki mikil bið á því að ég hitti ykkur næst.
Molinn: Húmor táknar ekki afsal neinnar alvöru. - Tómas Guðmundsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
7.11.2008 | 09:50
Þá er komið að því.
Á morgun gerist það.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir er í símaskránni ef einhverjum vantar far austur og vill vera með (búin að skrifa hjá mér númerið og alles). En hún tekur það fram að það er reykt í hennar bíl. Það er ekki skyldumæting kl akkúrat 16:30. En við leggjum af stað upp í brugghús um 10 mínútur í fimm. Fram að þeim tíma þá verður spjallað, skoðað og hlegið.
Ekki er of seint að tilkynna komu. Þið hafið gott af því að breyta aðeins til og skella ykkur austur. Því fleiri því skemmtilegra og endilega talið með ykkur gesti.
Ekki þurfið þið heldur að hafa kvittað hér til að fá að koma. Eina skilyrðið er viljinn til að gera sér glaðan dag.
Mætingin er við Herraverslunina Blaze á Selfossi. Búðin okkar er hrikalega vel merkt. En þar sem bankarnir eiga alla athyglina, þá ætla ég að nota þá til að vísa til vegar. Kaupþing og Sparisjóðurinn eru beint á móti okkur og Glitnir er við hliðina. Ykkar einlæga verður sjálf á staðnum til að taka á móti ykkur.
Ég hlakka til að sjá ykkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.11.2008 | 09:20
Koma svooooooooo
Ég vil taka það fram að það er engin skylda að versla!!!!!!!!
Ef ykkur langar í eitthvað úr búðinni þá er það vel. Ef ekki þá er það líka í fínu lagi. Aðalatriðið er að hittast og gera sér dagamun. Sýna sig og sjá aðra sem og að breyta aðeins til. Enga leti gott fólk. En ég lofa ykkur því að þetta á eftir að vera þrælgaman.
Ferðin í brugghúsið kostar 500 kr á mann og borgar verslunin 500 á móti.
Þið hafið engu að tapa en ALLT að vinna. Lítum aðeins upp úr neikvæðu fréttunum og gefum okkur leyfi til að skemmta okkur aðeins. Ég mana ykkur til þess að koma og takið einhvern með ykkur sem ekki veitti af að skemmta sér örlítið.
Ef þið vitið ekki hvað ég er að tala um, þá vinsamlegast lesið siðasta blogg. Og engar afsakanir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
30.10.2008 | 09:52
Niðurstöður og smá auglýsing
Jæjaaaaaaaaa elsku hjartans dúllurassarnir mínir og hinar hrúgurnar. Þá er ég búin að flagga túttunum framan í lækni og glenna mig við annan. Niðurstöðurnar á báðum stöðunum var glæsileg og í rauninni óskiljanlegt hvers vegna ég var send áfram. Kannski til að minna mig rétt sem snöggvast á að ég er enn meðal lifenda????? Kannski til að minna mig á að þrátt fyrir allt þá gæti staðan verið verri en hún er. Þess vegna er ég í það minnsta ánægð yfir að vera einungis með heila-æxli en ekkert annað. Þannig að það er allt gott að frétta af mér.
Eins og ég tek fram í fyrirsögninni þá langar mig að auglýsa hérna smávegis. Því ekki hef ég hugmynd um hver það er sem kíkir hérna inn fyrir utan þá sem eru svo æðislegir að kvitta. Ekki misskilja mig............. mér finnst þið hin alveg hreint frábær líka. Ég veit bara ekki hver þið eruð.
Þið vitið orðið flest að við við hjónin eigum landsins flottustu herraverslunina þótt víðar væri leitað. Jájá ég veit, ég er líka hógvær og hjartalítillát. En burt séð frá því þá er þetta engu að síður staðreynd og erum við núna byrjuð að undirbúa jólin. Erum við þess vegna að fara af stað með kynningarátak á gjafabréfum verslunarinnar til einstaklinga og fyrirtækja auk þeirrar þjónustu sem boðið er upp í á kringum útfærslur, frágang, pökkun og fl. Einnig bjóðum við fyrirtækjum að keyra þetta úr fyrir þá. Það eru nánast engin takmörk fyrir því sem við erum tilbúin að gera fyrir okkar viðskiptavini. Ef þið viljið sjá bréfið sem við erum að senda út þessa dagana þá getið þið gert það með því að ýta hér
Fyrirtækið okkar heitir G.C. Einarsson ehf. Vissuð þið t.d að við værum með meira en herraverslun? Alveg datt mér það í hug að svo væri ekki. Enda ekki að undra þar sem við höfum ekki látið bera neitt sérlega mikið á því. En við erum s.s líka með umboð fyrir Jameson jakkafatamerkið og erum með fullan lager af fötum. Einnig erum við með sölu á vinnufatnaði. Þessi vinnufatnaður er að vísu hugsaður fyrir fyrirtæki eins og Kjörís, matvinnslufyrirtæki ýmiskonar, lækna, snyrtifræðinga og svoleiðis. Þess vegna bið ég ykkur um að forvitnast hjá okkur ef þetta er eitthvað sem ykkur vantar. Aldrei að vita nema við getum komið ykkur á óvart með því sem við höfum upp á að bjóða. Hér eru svo upplýsingar um símanúmer og fleira.
Svo var ég að velta fyrir mér hvernig ykkur litist á að hafa búðina opna eitthvert kvöldið fyrir ykkur sem þetta lesið. Þá myndum við bjóða upp á léttar veitingar og einhver skemmtileg tilboð. Tala nú ekki um hversu gaman gæti orðið að hittast. Hvernig litist ykkur á það? Endilega látið mig vita hérna í athugasemdakerfinu svo ég sjái hvort áhugi sé á þessu. Sum ykkar kynnuð að hugsa að þetta sé svo langt að fara og svoleiðis bull. En þið vitið alveg eins og ég að þetta er í rauninni enga stund farið. Svo geta sumir sameinast í bíl. Engar afsakanir lengur gott fólk. Við gætum þess vegna byrjað á því að fá okkur eitthvað gott að borða á hótelinu og myndi ég þá fá geggjað gott verð í svoleiðis fyrir okkur. Þetta gæti orðið hálfgerð árshátíð bloggara Ég segi nú bara svona en það gæti verið margt vitlausara. Látið endilega fylgja með hvort þið hefðuð meiri áhuga á. Með mat, eða án.
Vinsamlegast takið fram hvort þið hafið áhuga á þessu og þá hvort þið viljið borða á hótelinu eða ekki. Þið sem eruð EKKI vön að kvitta eru hjartanlega velkomin líka. Þó ekki væri nema til að sýna ykkur og sjá aðra. En það væri óneitanlega betra ef þið mynduð samt láta vita hvort þið hafið áhuga á að gera ykkur glaðan dag. Það væri þess vegna hægt að gera eitthvað meira úr þessu.
Jæja, ætla að láta þetta gott heita og lofa ykkur uppbyggilegra bloggi næst.
Molarnir eru að þessu sinni tveir. Bæði vegna þess að ég tala um tvennt hérna og svo líka vegna þess að ég var haldin valkvíða
Líf okkar getur ekki verið fullkomið án vina. - Dante.
Bíddu ekki eftir hentugu augnabliki, búðu það til sjálfur. - ókunnur höfundur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)