Færsluflokkur: Lífstíll
6.9.2008 | 06:08
Smá update
Helga læknir hringdi í mig í gær, og átti sér stað eftirfarandi samtal:
Helga: Sæl Christine mín. Hvernig ertu í dag?
Ég: Sæl og blessuð Helga. Ég er bara fín.
Helga: Hmmmmmm þú berð þig vel er það ekki?
Ég: Ha? Jújú ég geri það
Skuggaleg þögn í smá stund
Helga: Þú veist þú mátt ekki gera þetta þegar þú talar við lækninn þinn?
BUSTED
Þarna áttaði ég mig á einu. Gæti verið að ég geti sjálfri mér um kennt að Helga "hlusti" ekki á mig? Getur ekki einmitt verið að ég er allt of gjörn á að bera mig svokallað "vel"? Getur verið að ég sé tréhaus og líti alltaf á þetta sem tuð í mér ef ég segi hvað sé að? Hvort sem um lækninn minn eða einhvern annan er að ræða? Svei mér þá ef svarið við öllum þessum spurningum er ekki bara JÁ!!
Hef einmitt tekið eftir því undanfarið að þegar gesti hefur borið að garði og það spyr mig hvernig ég hafi það, þá segi ég alltaf "ég hef það fínt" þótt útlit bendi til annars. En þá stígur elskulegur eiginmaður skref aftur á bak og hristir hausinn framan í gestina
En hvenær veit ég hvort fólki langi virkilega til að heyra um ógleði, niðurgang, verki og svoleiðis? Ég held nefnilega að fólk spyrji oft af kurteisisökum. Okok ég veit að hún Helga mín er ekki að því, en ég er að tala um vini og vandamenn. Hvernig veit ég hvað það er sem fólk hefur áhuga á að vita? Ég meina.......... ef ég segi "æ veistu....... ég hef það skítt" er fólk þá ekki hálfvegis tilneytt til þess að halda þessu samtali áfram? Stundum er það síðan líka þannig að mig langar til að hugsa og tala um eitthvað annað en veikindi mín. Nóg er nú samt að mínu mati. En svo kemur fyrir að sumir verða annaðhvort fúlir eða móðgaðir yfir því að ég segi þeim ekki eins og er. Eins og elskuleg tvíbakan mín sagði um daginn "Þarf ég að lesa bloggið þitt til að komast að því hvernig þér líður?" Hún var virkilega sár út í mig þessi elska.
Niðurstaðan úr beinþéttnimælingunni var alls ekki nógu góð. En lítum samt á björtu hliðarnar shall we............. ég er EKKI komin með beinþynningu
~~~~~~~~~~~~~~~~
Gunnar minn sagði svo við Leif að nú þyrftu þeir að fara að föndra. Þeir þyrftu að fylla lyfjaboxið mitt (ég var nefnilega bara dugleg að nota það fyrstu tvær vikurnar). "Við mætumst svo á hádegi á miðvikudag" sagði Gunnar og var hann þá að vitna í lyfjaboxið. Jesús minn.............. þvílíkar pælingar sem upphófust hjá þeim!!! Leifur komst nefnilega að þeirri niðurstöðu að bæði væri hólfið fyrir hádegisskammtinn á miðvikudeginum of lítið til að þeir gætu báðir verið að setja lyf þar, og svo væri það heldur ekki sanngjarnt gagnvart öðrum þeirra ef bara annar fengi að setja í það hólf, því þá hefði hinn ekki fengið að gera jafn mikið. Ég er ekki að grínast þegar ég segi að þetta ræddu þeir og mögulegar lausnir á því vandamáli í 15-20 mínútur!! Ég get hlegið endalaust að fíflaskapnum í þeim félögum.
Kristján er ekki síður fyndinn. En um daginn fórum við Leifur út að reykja og þegar við komum inn aftur þá er Kristján búin að slökkva á sjónvarpinu og var frekar æstur. Þá segir hann við okkur: "OK ég vil bara vara ykkur við að ef þið viljið kveikja á sjónvarpinu þá skuluð þið sko slökkva á hljóðinu. Það er nefnilega verið að sýna XXX!" Og svo roðnaði hann niður í tær. Við Leifur urðum skiljanlega nokkuð forvitin um efnið og komumst þá að því að verið var að sýna "sexual healing" á Skjá einum
Það segi ég satt að ef hláturinn lengir lífið, þá eiga þeir eftir að sjá til þess að ég verði ódauðleg!!!
Molinn: Ánægður maður er aldrei fátækur - óánægður maður er aldrei ríkur. - Ókunnur höfundur.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 06:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
5.9.2008 | 06:38
Ég setti hnefann í borðið..... eða því sem næst..... ég grét.
Við hjónin fórum af stað í bæinn í gærmorgun og vorum eins og tveir unglingar á leið í próf. Við fórum upphátt yfir allt sem við ætluðum að segja Helgu lækni og hvað við vildum nú fá út úr þessum tíma.
Rútínan byrjaði bara eins og alltaf þar sem ég var vigtuð (léttist um 1,4 kg) og blóðþrystingurinn mældur. Hann var því miður hærri en síðast og var Helga ekki ánægð þá. Það furðulega var að núna var hún ánægð . Við hjónin botnum hvorki upp né niður í þessu. En okkur er víst ekki ætlað að skilja allt. Ef svo væri þá þyrfti ég varla á lækni að halda er það?
Við vorum að minnsta kosti mjöööög ánægð að hitta Helgu aftur, því tíminn sem hún er búin að vera í burtu var allt of langur, þó hún hafi greinilega haft mjög gott af því. Allir þurfa á fríi að halda og það held ég að læknar þurfa enn meir á því að halda til að hlaða batteríin. Hún virtist í það minnsta ánægð að sjá okkur
Ég byrjaði svo að telja ofan í hana allt sem hefði farið úrskeiðis undanfarinn einn og hálfan mánuð. Þetta var svo sannarlega svartur listi, ef frá er talið að í stað þess að sofa ekki neitt, þá kemur fyrir að ég er varla með meðvitund í nokkra sólarhringa. Ég er nú bara einu sinni svona af Guði gerð gott fólk................. það er alltaf annað hvort í ökkla eða eyra hjá mér sjáið þið til
Að fyrstu fannst mér eins og hún ætlaði ekki að hlusta á okkur, því hún virtist samt vera ánægð með þetta allt saman og meðal annars það að ég skyldi hafa lést. Döhhhhhh hver myndi ekki gera það ef hann ældi í 10 daga og borðaði varla? Maður spyr sig. En burt séð frá staðreyndum, þá var hún ánægð með þetta. Hún fór að tala um að bataferillinn væri bara mislangur hjá fólki og svona fram eftir götunum. Og að það sem ég þyrfti væri sálfræðingur til þess að takast á við þunglyndið eftir svona langvarandi veikindi.
Þegar þarna var komið þá gat ég ekki meir. Ég reyndi eins og ég gat að halda aftur af tárunum, en varð að lokum að gefast upp og leyfði þeim bara að brjótast fram. Og það gerðu þau af fullum krafti. Ég fór s.s að hágráta. Minnti sjálfa mig svei mér þá, á hann Leif minn þegar búið var úr pelanum hérna í denn. Það voru einu skiptin sem barnið grét, en þá var líka eins og hann væri að bæta upp fyrir að hafa ekki grátið fyrr.
Það kom eðlilega á alla sem voru þarna inni (það voru líka 2 nemar) nema manninn minn sem skyldi mig svo vel og strauk hann á mér bakið látlaust þar til ég róaðist. En ég sagði Helgu meðan ég grét og var full af hori, að hún hreinlega hlustaði ekki á mig, að mér fyndist ég svikin, hvort að heilaæxlið þyrfti virkilega að framleiða einhver hormón til þess að það teldist ekki vera af hinu góða. Hún varð að viðurkenna að nei, það væri nefnilega ekki tilfellið. Það var eins og hún hefði bara vaknað við þetta. Hún var ekkert nema fölskvalaus samúðin og fór loksins að hlusta. Ég benti henni á að tennurnar væru að losna í mér, sjónsviðið væri að minnka, ég gæti orðið ekki einu sinni gengið skammlaust upp tröppur því vöðvaþreytan væri svo mikil og fleira í þeim dúr. Að allt væri að fara til fjandans þrátt fyrir að ég ætti að vera á svokölluðum batavegi.
Á endanum komumst við að því að það sem hefði verið að hrjá mig undanfarnar vikur væri mikill skortur á kortisóli. Æxlið sem var í nýrnahettunni offramleiddi þetta hormón, en núna s.s skortir mig það, því hin nýrnahettan vill bara undir engum kringumstæðum fara í gang og framleiða þetta. Einnig velti hún fyrir sér hvort heiladingullinn væri að rugla eitthvað (vegna áhrifa frá æxlinu) og væri þess vegna ekki að skipa nýrnahettunni til verka. Svona mikill skortur er því miður ekki betri en offramleiðsla.
Hún reyndi að svindla mér inn í heilasneiðmynd, en það var því miður ekki hægt. Þannig að það sem er núna framundan er að ég á að fara í heilasneiðmynd sem allra fyrst. Einnig á að mynda nýrun sem og kviðarhol og kanna hvort eitthvað hafi jafnvel gerst eftir aðgerðina. Allir lyfjaskammtar voru hækkaðir fyrir utan blóðþrýstingslyfin. Svo á að leggja mig inn um leið og hún fær sitt læknateymi (lok október, byrjun nóv) og það á þá að gera tilraun með að sjokkera nýrnahettuna í gang. Gunnar og Leifur skemmtu sér mikið við kvöldmatarborðið við að reyna að ímynda sér hvernig það væri gert. Ég get sagt ykkur það að fæst af þessu var með viti . Ég emjaði úr hlátri. Þeir eru svo ruglaður að það hálfa væri yfirdrifið. Þetta var s.s niðurstaðan í grófum dráttum. Verst fyrir ykkur hvað ég þurfti að tjá mig mikið áður en ég gat drattast til að segja frá niðurstöðunni . En til hvers að blogga ef maður getur ekki pústað annað slagið ha?
Hún sagði okkur síðan að ástæðan fyrir að læknar væru svona tregir til að hjálpa mér væri sú að þessi sjúkdómur væri svo fjári sjaldgæfur, að fæstir heimilislæknar vita nokkuð um hann og verða jafnvel hræddir þegar kemur að því að þurfa að eiga við svona sjúkling. Hún ætlaði í það minnsta að hringja í minn heimilislækni (Marianne) og koma henni almennilega í þessi mál. Einnig ætlaði hún að sjá til þess að Marianne gæti hringt í sig hvenær sem væri ef þyrfti og taldi nauðsynlegt að þær ynnu saman í þessu.
Síðan datt mér í hug að ástæðan fyrir þessari ánægju hjá Helgu þrátt fyrir allt væri kannski að hún væri að reyna að létta á sálinni hjá mér. Reyna að draga aðeins úr svo mér fyndist þetta ekki alveg jafn erfitt og sæi ljósið framundan. Hún sagði okkur að hún myndi ekki gefast upp og hún ætlaði sér svo sannarlega að sjá um mig þar til öllu væri lokið. Okkur fannst voðalega gott að heyra það.
Hafið góða helgi öll og munið að eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt
Molinn fyrir helgina er: Það er betra að gráta út einu sinni, heldur en að stynja stöðugt. - Málsháttur
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 07:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
3.9.2008 | 18:14
Þá er loksins komið að því.
Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, sérfræðingurinn minn er komin aftur úr fríi og á ég tíma með henni í fyrramálið. Ég verð nú að viðurkenna að mér kvíðir svolítið fyrir . Ég er samt ekki viss um hvers vegna. Ætli það sé ekki helst vegna þess að eftir aðgerðina þá sé eins og Helga hafi misst áhugann. Þó æxlið sé eftir í heiladinglinum og þó svo ég sé oft mjög slæm, þá lét hún (áður en hún fór í frí) eins og hún væri búin að lækna mig, eftir að nýrnahettan með æxlinu var fjarlægt.
Ætli ég sé ekki líka bara orðin langþreytt og geri því of miklar kröfur. Ég skal fúslega viðurkenna að ég varð fyrir hrikalegum vonbrigðum eftir aðgerðina í maí. Einhverra hluta vegna hélt ég að aðgerðin myndi virka eins og töfrasproti, s.s að mér yrði hreinlega batnað eftir hana. Síðan þegar ekkert eða fátt breyttist eftir aðgerðina, þá varð ég meira en lítið svekkt og leið kannski eins og ég hefði verið svikin. Ekkert ólíkt því og þegar við fjölskyldan fórum á Kentucky um daginn og ákvað að prufa nýjan rétt hjá þeim, þegar ég svo fékk matinn þá leit hann alls ekki út eins og myndin sagði til um, ég fékk vitlausa sósu á og svo var ekkert grænmeti á milli eins og myndin sýndi og mér var sagt. Æ þessi samlíking er alveg út í hött, en þið skiljið hvað ég á við .
Einnig er ég þreytt á að tönnlast endalaust á því sama við lækninn og síðan er bara eins og það sé ekki hlustað á mig. Guði sé lof fyrir hann Gunnar minn. Ég veit að hann sættir sig ekki við hvað sem er og mun krefjast svara. Því hann eins og ég er búin að fá nóg af þessu, þó svo að hann láti mig aldrei nokkurn tímann finna það.
Kannast þið við að vera veik og fara til læknis, sem grunar að eitthvað eitt ákveðið sé að, gerir viðkomandi próf, svo kemur í ljós að þetta er ekki það sem hann grunaði. Þá yppir hann bara öxlum og segist ekki vita hvað sé að og þið síðan send heim með frímerki á rassinum. Kannist þið við þetta? Well, þetta er einmitt málið hjá mér. Þó svo að ég sé með þetta æxli í höfðinu og fleira, þá er látið við mig eins og mér ætti að vera batnað og hefur hún meira að segja sagt við mig "ég er búin að lækna þig" þó svo að allt bendi til annars.
En ég ætla nú ekki að vera með neitt svartsýnisraus núna, því það væri nú ekki líkt mér. Ég mun láta ykkur vita hvað kemur út úr þessu. Farið vel með ykkur yndislega fólk, nær og fjær
Molin: Líf án vonar er eins og fugl án vængja. - Ernst Thälmann.
31.8.2008 | 11:00
Slepptu takinu á fortíðinni.
Sagt hefur verið að meirihluti samræðna hjá þeim sem eru fertugir og eldri séu um fortíðina. Stundum er það um "góðu gömlu dagana" og stundum er það af atvikum sem fóru illa, "ef ég hefði aðeins....." sögur, glötuð tækifæri og svoleiðis. En ég hef komist að þeirri niðurstöðu að yngra fólk er engin undantekning þar á.
Að láta syndir okkar og mistök gærdagsins stjórna hugsunum okkar í dag rænir okkur gleði dagsins í dag og framtíðarhamingju. Það veldur því að við missum af tækifærum dagsins í DAG!!!!
Til þess að taka skref fram á við í dag, verður þú að læra að kveðja særindi gærdagsins, harmleika og bagga. Þú getur ekki byggt minnisvarða fortíðarvandamála og ætlast svo til að geta haldið fram á við.
Taktu þér tíma til að gera lista yfir neikvæða atburði fortíðarinnar sem gætu enn haft tangarhald á þér. Fyrir hvern atburð sem þú setur á listann skaltu gera eftirfarandi:
1) Viðurkenndu sársaukann
2) Syrgðu missinn
3) Fyrirgefðu manneskjunni.
4) Fyrirgefðu sjálfri/sjálfum þér!!
5) Taktu meðvitaða ákvörðun um að sleppa takinu á viðkomandi atviki og haltu áfram á þinni braut.
Bestu dagarnir eru svo sannarlega framundan ef þú kemur fram við "mistökin" (eða hvað sem þú kýst að kalla það) sem nauðsynlega reynslu til að læra af. Ef þú skilur að hver reynsla hefur með sér ákveðið magn af visku, getur þú skilið hversu ríkt líf þitt er í rauninni að verða.
Margir ná ekki að upplifa velgengni drauma sinna vegna þess að þeir sleppa ekki tökin á fortíðinni og barma sér yfir því að tækifærið er runnin þeim úr greipum. Þó að eitthvað hafi valdið því að þú gast ekki látið draumana þína rætast á sínum tíma, hvað kemur í veg fyrir að þú gerir það núna? Aldur? Fjárhagur? Börn? Tími? Þetta eru bara afsakanir fyrir að gera ekki hlutina og til að leyfa sér að syrgja glötuð tækifæri. Hættu að hugsa um allt sem mögulega gæti komið upp á, eða finna upp 100 ástæður fyrir því að þú getur ekki látið drauminn rætast. Eins og ég hef sagt við börnin mín frá því þau eru pínulítil, þegar þau hafa staðið frammi fyrir ákvarðanatöku (hversu lítilmótleg sem hún kannski var og er)................ "Annað hvort sturtar þú niður eða ekki!!" Þetta er ekki flóknara en það. Auðvitað gætir þú flækt málin með því að standa fyrir framan dolluna og hugsað um hvort það væri jafnvel ekki betra að fara inn í eldhús ogfylla skál af vatni (eftir að þú ert búin að eyða tíma í að ákveða hvaða skál) og hella því niður í klósettið, en svo er spurning hvort þú þurfir þá ekki að fara margar ferðir með skálina því hún tekur ekki nægilega mikið magn af vatni og hvort það sé þá ekki betra að taka stóran pott já eða kannski fötu frekar.......... Skilurðu hvert ég er að fara með þessu? Það er endalaust hægt að flækja hlutina. Slepptu því að skapa þér mígreni yfir hlutunum og sturtaðu niður! Já eða slepptu því Notaðu síðan tímann sem hefði annars farið í vangaveltur, í annað skemmtilegra og njóttu þess að vera búin að taka meðvitaða ákvörðun.
Þessi kafli er að miklu leyti tileinkaður dóttur minni. Við lágum í rúminu hennar í morgun og vorum á trúnó. Og var þetta meðal annars eitt af því sem við töluðum um. Ég hef oft sagt þetta við hana en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Elska þig Agnes mín.
Molinn er því sérstaklega ætlaður henni. Engin siðfræðikenning getur tekið af mönnum ómakið að taka sínar eigin ákvarðanir. - Páll Skúlason.
Og eitt til þín sem lest þetta................ Mundu að það er engin betri til að elska og sem getur notið þess sem lífið hefur upp á að bjóða en einmitt þú. Aðrir í lífi þínu munu síðan njóta góðs af.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
20.8.2008 | 05:23
Dönsum eins og engin sé að horfa
Við sannfærum okkur sjálf að lífið verði betra eftir að við giftum okkur, eignumst börn, síðan annað barn (til að hafa ofan af fyrir fyrra barnið). Síðan pirrum við okkur yfir því að krakkarnir verði nógu gömul og erum sannfærð að við verðum betur stödd þegar að því kemur. Næst erum við örg yfir því að við þurfum að eiga unglinga, við munum svo sannarlega verða hamingjusöm þegar því skeiði er lokið. Við teljum sjálfum okkur trú um að líf okkar verði fullkomið þegar maki okkar tekur til í sínum málum, þegar við fáum betri bíl, þegar við fáum tækifæri til að fara í gott frí eða þegar við setjumst í helgan stein.
Sannleikurinn er sá að það er ekki og verður aldrei betri tími til að vera hamingjusamur en einmitt núna!! Ef ekki núna..... hvenær þá? Lífið verður alltaf fullt af áskorunum og viðfangsefnum. Það er best að viðurkenna þetta fyrir okkur sjálf strax og ákveða að vera hamingjusöm engu að síður á hverjum einasta degi.
Eitt sinn var sagt við mig "Í langan tíma fannst mér alltaf að líf mitt væri í þann mund að hefjast.... hið raunverulega líf, en alltaf var einhver hindrun í veginum. Eitthvað sem ég þurfti að eignast fyrst, einhver óútkljáð mál, mig vantaði meiri tíma til að sinna hlutunum og alltaf voru einhverjar ógreiddar skuldir. Þá loks gæti ég byrjað að lifa lífinu. Að lokum rann upp fyrir mig ljós. Þessar "hindranir" eru líf mitt." Þetta sjónarhorn hjálpar okkur að sjá að það er engin leið að hamingjunni....... hamingjan ER leiðin.
Varðveittu því og lærðu að meta hvert augnablik sem þú átt. Lærðu að meta það meira vegna þess að þú deildir því með einhverjum sérstökum, nógu sérstökum til að eyða tíma þínum með. Og mundu að tíminn bíður ekki eftir neinum.
Hættu bara að bíða eftir að þú klárir þetta eða hitt fyrst, bíða eftir að þú missir nokkur kíló, eftir að þú náir á þig nokkrum kílóum. Hættu að bíða eftir að þú eignist börn og síðan barnabörn og eftir að börnin flytji að heiman, eftir að þú byrjir að vinna, að þú hættir að vinna, að þú giftist, að þú skiljir, eftir laugardagskvöldinu, sunnudagsmorgninum. Hættu að bíða eftir nýja bílnum, eftir að þú sért búin að borga af nýja bílnum eða húsinu, eftir vetrinum, vorinu, sumrinu, haustinu. Hættu að bíða með að ákveða........... besti tíminn til að vera hamingjusamur er núna.
Hamingjan er ferðalag........... ekki ákvörðunarstaður.
Í dag er tími til að...
.... Vinna eins og þú þurfir ekki á peningnum að halda.
.... elska eins og engin hafi nokkurn tímann sært þig.
.... dansa eins og engin sé að horfa.
Molinn að þessu sinni er því: Ég get hvergi fundið hamingjuna ef ég finn hana ekki hjá sjálfum mér.Edvard Grieg.
Úfffffffffff hvar ég er eitthvað alvarlega þenkjandi þessa dagana.
28.6.2008 | 07:14
Konur kaupa föt fyrir karlinn - helstu mistök
Eins og fram hefur komið, þá eigum við hjónin herrafataverslunina Blaze á Selfossi, og þar sem ég er gjörsamlega andlaus í dag en langaði samt að skrifa e-ð, þá ákvað ég að "stela" þar kafla sem ég skrifaði einhvern tímann á heimasíðu verslunarinnar í "góðum ráðum" og setja hann inn hér. Vonandi hafið þið gaman af þessu.
Ertu orðin þreytt á að tuða í eiginmanninum svo hann versli sér föt sem hann svo sannarlega þarfnast? Ferðu að versla á hann upp á þitt einsdæmi í von og óvon um að hann verðlauni þig einungis með því að neita að ganga í fötunum? Nógu erfitt er nú samt að finna réttu fötin (meira að segja fyrir konur). Þegar verslað er á karlana í þínu lífi, hvort heldur er eiginmaður, kærasti eða sonur, þá bætir mótspyrna þeirra aðeins við vandamálið.
Mistök #1
Að versla á hann án þess að vita hvað hann vantar, og eiga þá á hættu að eiga þá tvennt af því sama og eyða þar með í óþarfa.
Lausn: Hjálpaðu honum að sjá mikilvægi þess að vera með skipulagðan fataskáp. Gefið ykkur tíma til að fara yfir fataskápinn hans áður en þið svo mikið sem íhugið skoðunarleiðangur í verslanir. Ég get lofað því að þið eigið bæði eftir að finna nokkrar flíkur sem hann annað hvort passar ekki lengur í eða hefur ekki lengur smekk fyrir.
Að klikka á því að kanna hvað það er sem honum líkar og líkar ekki við.
Lausn: Falastu eftir áliti hans á því hvað honum líkar og hvað ekki. Hvað hann myndi eða myndi ekki klæðast, og hagaðu síðan vali á fatnaðinum eftir þessum upplýsingum. Sumir karlmenn vilja skera sig út í útliti. Í hans tilfelli hefði hann t.d gaman af því að finna stællega slaufu.
Mistök #3
Að henda sér út í djúpu laugina án þess að kanna vatnið fyrst, sem gerir þig óöruggari og draga úr möguleikunum að fá sem mest fyrir peningana.
Lausn: Láttu þér líða vel í heim karlmannsfatnaðar áður en þú hættir þér í leiðangur með honum. Einföld leið til þess er að skoða nokkrar verslanir ein.
Mistök #4
Að velja liti á hann sem fara þér vel.
Mistök #5
Að gleyma því að þetta sé hans verslunarferð ekki þín.
Lausn: Áður en þið farið út úr húsi, þá skulið þið ræða hvað það er sem þið hyggist ætla að versla, hvar og hversu langan tíma þetta gæti hugsanlega tekið.
Gangi þér vel.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 07:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.6.2008 | 06:35
Mikið gaman - mikið fjör, og lífið heldur áfram.
Tryggingafélagið gerði upp við okkur í fyrradag og hófst þar með hin eina og sanna "enduruppbygging". Við hjónin byrjuðum á því að gera lista yfir því sem lægi á að endurnýja og forgangsraða og af nógu er að taka.
Almáttugur hvað borðstofuhúsgögn eru dýr!! Við ákváðum þess vegna að sörfa bara netið og leita okkur að notuðum húsgögnum í borðstofuna. Þegar ég var orðin rangeygð af tölvunotkun og uppiskroppa með leitarsíður, og hreinlega ekki að nenna þessu, haldið þið ekki að það poppi ekki bara upp þetta fínasta sett. Ég hefði ekki getað orðið glaðari þó að húsgögnin hefðu bara birst hérna í borðstofunni og raðað sér upp sjálf. Oki oki, ég segi það kannski ekki alveg, en ég var ansi nálægt því . Núna er þetta frá og allt hitt eftir.
Siggi svili minn er búin að vera á Dale Carnegie námskeiði og var síðasti tíminn í gærkvöldi. Nemendum var boðið að taka með sér gest í útskriftina, og bauð Siggi mig með sér. Hver einasti nemandi var kallaður upp einn í einu og var sá hin sami beðinn að halda örstutta ræðu um notagildi námskeiðsins, hvað þau hefðu fengið út úr því og framtíðarsýn. Hér á myndinni sjáið þið hann Sigga halda sína ræðu. Margt merkilegt fólk var þarna á ferðinni og var virkilega gaman að heyra hvernig þau hefðu lært að setja sér markmið og fylgja þeim eftir. Ég hef í það minnsta séð stórkostulega breytingu á honum Sigga. Hann er allur miklu jákvæðari og léttari en áður en hann fór á þetta námskeið.
Einn hafði gengið með þann draum í maganum í nokkur ár að búa til ákveðna heimasíðu en alltaf hummað það fram af sér. Hann lét loksins verða af því og má ég til með að benda ykkur á hana www.tilvitnun.is . Ég er ofsalega tilvitnanaglöð kona og skrifa t.d alltaf tilvitnun eða málshátt í hvert einasta jólakort, og það fá engir 2 eins kort. Þannig að ég hef alltaf setið hérna með stafla af bókum í nokkra daga til að finna það sem ég vil skrifa í þessi blessuðu kort. Finnst mér því þessi síða vera enn ein guðs gjöfin (hin var settið) fagna henni gríðarlega og er ég alveg klár á því að ég eigi eftir að nota þessa síðu mikið.
Á meðan fór Gunnar minn með yngsta barninu okkar honum Valdimar í bíó og sáu þeir myndina "The incredible Hulk". Skildist mér á þeim að það hefði bara verið ógó gaman.
Í dag ætla ég svo að halda áfram að versla, sem er ljúfsár skemmtun. Öllu má nefnilega ofgera og þetta er svo svakalega mikið sem þarf að versla maður minn. Ég þarf að hringja í hana Gunnu mína í Gunnubúð (IKEA) og blikka hana smá til að aðstoða mig og flýta fyrir mér. Þannig að ef þú lest þetta elsku vinkona þá áttu s.s von á símtali og eins gott að þú sért ekki í kaffi á meðan
Að lokum er hér moli dagsins: Ekkert er betra en hvatning góðs vinar.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 07:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.6.2008 | 00:30
Selfossflakkari með meiru
Usssssssss ég held svei mér að ég hafi aldrei verið eins dugleg að heimsækja fólk á einum og sama deginum síðan ég flutti hingað á Selfoss fyrir 5 1/2 ári síðan!!
Málið er að í dag ákvað ég að vera suddalega dugleg og taka þvottahúsið (var ekki enn búin að því) í gegn eftir skjálftann. En þar leyndist líka þessi svakalegi stafli af þvotti sem þurfti að þvo. Bæði var óhreinn þvottur þarna fyrir, svo helltist sykur, hveiti og so videre yfir hreina þvottinn (en ekki hvað) og svo gerði ég þau alverstu mistök sem þreytt húsmóðir getur gert........... ég skipaði erfingjunum um daginn að taka til inni hjá sér og þá fyrst fylltist þvottakarfan skal ég segja ykkur. En okeiiii þarna vandaðist málið. Þvottavélin mín er nefnilega ónýt eftir skjálftann. Einnig var bara allt of mikil rigning til að nenna niður að á og þvo upp á gamla mátann, en ég fullvissa ykkur um það að þetta hafði sko ekkert með leti að gera. Ég vil nefnilega meina það að ég skrepp saman í rigningu. Svoleiðis að nú voru góð ráð dýr. En Tína deyr ekki ráðalaus. Ég ákvað s.s að fara í heimsóknir færandi hendi
Fyrst fór ég með þvott til hennar Huldu minnar sem býr hérna á móti. Þaðan fór ég svo (með þvott) og heimsótti elsku mágkonu mína hana Margréti. En á meðan vélin var að þvo hjá henni þá bakaði litli frændi vöfflur ofan í liðið. Ekkert lítið efnilegur strákurinn. Í staðinn hótaði ég þeim því að ég myndi með þessu áframhaldi flytja til þeirra, því síðast þegar ég heimsótti þau, sem var daginn eftir skjálftann, þá fékk ég þessa líka dýrindis máltið. Gæti sko alveg vanist þessu. Skellti svo aftur í aðra vél hjá henni áður en ég fór og fékk svo heimsendingarþjónustu á tauinu seinna um kvöldið. Talandi um service. Þetta, elsku krúslurnar mínar, kalla ég sjálfsbjargarviðleitni.
En ekki var ég samt búin með heimsóknirnar. Það kom nefnilega í ljós að ekki væri hægt að verðmeta skenkinn minn út frá myndinni sem ég setti hérna í annari færslu, því til þess var hann of mikið skemmdur. Þá var 2 erfingjum af 5 skellt í sófann umkringdir myndaalbúmum í leit að mynd þar sem skenkurinn sæist nú almennilega. UREKA við fundum 2!! Þá var fátt annað eftir en að koma þeim yfir í tölvutækt form. En shit....... skanninn eyðilagðist líka. Frúin hljóp þá aftur yfir til hennar Huldu sinnar, fékk svo að blikka son hennar (sem er svona tölvukall) og plataði hann illilega til að skanna þetta nú inn fyrir mig. Og ekki var hann nú lengi að redda þessu.
Núna er ég búin að setja þessar myndir í albúm hér á síðunni og skrifa þessa bloggfærslu. Hinir 2 fyrrnefndu erfingjar voru að spila guitar hero hér við hliðina á mér á full blast og ekki nóg með það, heldur spiluðu þeir sama lagið aftur og aftur og aftur. Það endaði með að ég fór nú aðeins að tuða yfir þessu og líka yfir því hversu hátt stillt þetta nú væri hjá þeim. En þá segir Kristján "þetta er bara svo afslappandi mamma". Ég gat nú ekki annað en furðað mig á þessari fullyrðingu en fékk fljótlega skýringu frá sama spekingnum "mamma mín........ þú ert kona! EF þú værir karl, þá myndir þú skilja þetta" Og þar hafið þið það. Að ég skyldi ekki fatta þetta sjálf
Og þá er komið að mola dagsins: Lífið er þeim fullt af stórum stundum sem kunna að umgangast smáar stundir. Sigrid Undset
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.6.2008 | 07:34
Það finnast bjartar hliðar á ÖLLUM málum.
Meira að segja á jarðskjálftamálum. Jújú stundum neyðumst við kannski til að finna bjánalegan flöt á sumum málum, en þetta verður þá bara í versta falli fyndið en dreifir huganum. Auðvitað missti ég mikið í jarðskjálftanum sem reið hérna yfir í síðustu viku, en meðan að húsið mitt lítur ekki út eins og eftirfarandi mynd, þá dettur mér ekki til hugar að kvarta. Það sluppu allir lifandi og að mínu mati er varla hægt að biðja um meira.
Við hjónin + erfingjar fórum upp í bústað sem við áttum pantaðan á sunnudaginn var og eyddi ég talsverðum tíma í að spekúlera í hvernig ástandið á kofanum yrði þegar við kæmum heim. En svo þegar í kotið var komið þá ákvað ég að setja á mig derhúfu og svo leppa fyrir augunum (svona eins og sett er á hestana svo þeir sjái ekki til hliðar) og vera bara ekkert að pæla í þessu meira. Svo lengi sem húsið er íbúðarhæft og engar sprungur sem ekki er hægt að stinga prjón í gegn þá ætla ég sko ekki að fá mígrenikast yfir þessu. Matsmenn frá viðlagasjóðnum eiga eftir að koma með sína tækni og eru sko miklu færari en ég í að meta hvort það er húsið sem er skakkt eða hvort það er hreinlega bara jafnvægiðskynið hjá okkur sem hefur brenglast.
Þá ákvað Tína að finna jákvæðu punktana!!! Og hefst nú talningin gott fólk.
1) Vegna veikinda minna var ég búin að sækja um tímabundna heimilishjálp. Ég segi tímabundið því ég ætla mér ekki að vera í þessu veseni endalaust. En núna get ég dregið beiðnina til baka þar sem ekkert er eftir til að þrífa!! Hugsið ykkur tímasparnaðinn. Ekkert eftir til að þurrka af. Sem var nú eitt af því leiðinlegra sem ég gerði
2) Hef ekki haft svona mikið skápapláss í eldhúsinu síðan ég hóf búskap fyrir mörgum árum síðan, og svei mér ef ég var ekki fyrst haldin valkvíða yfir því í hvaða skáp ég ætti nú að setja þennan eina disk sem eftir var. Svo skemmtum við okkur bara alveg ágætlega yfir því að finna út hvar hann var nú settur síðast. Að vísu fékk minn elskulegi matarstell í kveðjugjöf frá vinnufélögunum eftir skjálftann mikla. En það er samt enn nóg pláss eftir í skápunum þannig að leikurinn heldur áfram.
3) Eins og síðasta færslan sagði til um að þá gerðum við úr þessu skemmtilegan fjölskylduleik sem kostar okkur ekki krónu. Og það er að giska á hvað skjálftarnir eru stórir sem enn dynja á okkur. Víst er þetta á stundum óþægilegt en oftast virka þessir skjálftar á mann eins og ef kraftakarl hefði slegið mann á bakið og á stundum er maður ekki einu sinni viss um að þetta hafi verið skjálfti. En ef setið er við borð ásamt öðrum þegar svona skjálfti kemur að þá er fyrst spurt hvort einhver hafi verið að hrista borðið. Ef ekki þá fer leikurinn af stað.
4) Ekki skortir fólki lengur umræðuefnið lengur. Hvorki á kaffistofum landsmanna eða heimahúsum.
Maður hefur því í rauninni aðeins um tvennt að velja. Taka á þessu á húmornum eða leggjast í kör og vorkenna sér. Fyrir mitt leyti þá finnst mér fyrri skosturinn miklu, miklu skemmtilegra. Vonandi gerið þið það sama.
Gangið nú um lífið með gleði í hjarta og dassi af kæruleysi. Það skaðar engan og þá allra síst ykkur sjálf. Og bannað að gleyma hversu frábær þið eruð, hver á sinn hátt.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)