Færsluflokkur: Hugleiðingar
13.4.2009 | 09:18
Síðasta færslan
Já þið skiljið þetta rétt. Þetta er í síðasta skipti sem ég blogga. Ég hef bara enga orku í þetta lengur eins og þið hafið sjálfsagt tekið eftir. En ég get ekki hætt án þess að kveðja fyrst og koma með loka pælingu sem vert er að hafa í huga í daglega lífinu.
Það er búið að vera ansi mikið að gera hjá mér síðustu 2 vikurnar. Leifur minn kom í heimsókn með konuna sína hana Ernu og dóttir hennar, en hún heitir Þóra. Hún reyndar gengur undir nafninu "Skotta" hjá mér og held ég að henni líki það nú ágætlega, enda spurði hún mig um daginn "ammaaaa áttu nokkuð fleiri skottur?". Mér líkar ömmu hlutverkið mjög vel og svei mér ef ég er ekki bara ágætis amma. Heilsan er því langt frá því að vera góð og eins og áður sagði þá er þreytan orðin ansi mikil. Þannig að ég get ekki beitt mér eins og ég svo gjarnan vildi.
Leifur og Erna eru búin að taka þá ákvörðun að búa hér á Selfossi og eru nú að leita sér að vinnu og húsnæði en eru hérna hjá okkur þar til þá. Einnig eru yngstu strákarnir okkar, þeir Óli og Valdi (synir Gunnars) búnir að vera hjá okkur í páskafríinu en fara aftur heim til sín í dag.
En að hafa allt þetta fólk í kringum mig hefur fengið mig til að hugsa um hvaða minningar um mig ég skilji eftir til þeirra.
Kannist þið við að hafa lesið minningargreinar og velt því fyrir ykkur hvernig viðkomandi var í augum vina og ættingja? Hafið þið hugsað út í hvernig og hvort það verði skrifað um ykkur þegar þið farið? Munu margir sakna ykkar? Hefur ykkur tekist að marka djúp spor í lífi einhvers? Hafið þið látið framhjá ykkur fara, tækifæri til að kynnast nánum ættingja eða vini almennilega?
Mér þykir undurvænt um hann bróður minn og erum við í góðu sambandi. Hann er að verða 43 ára en ég er 37. Samt sem áður er það svo að við töluðum í fyrsta skipti í morgun um okkar langanir. Einnig las hann bloggið mitt í fyrsta sinn í morgun og komst að því að ég væri nú bara alveg ágætis penni. Hvernig mun hann t.d minnast mín sem systur? Reyndist ég honum góð systir eða gekk ég bara að honum gefnum án þess að huga að því að hann væri svo miklu meira en bara bróðir minn?
Ég held ég hafi sagt þetta við öll börnin mín en þori samt ekki að staðhæfa, en ég hef alveg örugglega sagt þetta við hann Kristján minn, að hann skuli ætíð haga lífinu með það í huga hvernig hann vilji láta minnast sín en vera samt sjálfum sér samkvæmur.
Staðreyndin er sú að innst inni erum við öll alveg ógurlega sjálfhverf og viljum vera hrókur alls fagnaðar, viljum að fólk telji okkur vera æðisleg, yndisleg, frábær, ómissandi hjá einhverjum, skemmtilegust og allt það. Kannski viljum við ekki vera þekkt fyrir að vera þetta allt saman sem ég var að telja hér upp, en alveg örugglega eitthvað af þessu. Öll viljum við að fólk hugsi jákvætt til okkar. Við könnumst öll við að lifna öll við þegar við fáum hrós eða þegar um okkur er talað á jákvæðan hátt. Því jákvæð athygli er á bið stærstu orkubombu sem fáanleg er.
Spurningin er því þessi: Hvernig haldið þið að fólk muni minnast ykkar? Myndum við vera betri við náungann og jafnvel jákvæðari almennt ef við hefðum þessa spurningu að leiðarljósi? Eru þið sátt við ykkur sjálf? Elskið þið ykkur sjálf eða eru þið allt of hörð við ykkur? Myndu þið vilja breyta einhverju ef þið vissuð að þið mynduð kveðja þennan heim á morgun? Ef svo er............ gerið það þá...... það er enn tími. Ok ok þetta voru nokkrar spurningar en það er bara í góðu lagi
Að lokum vil ég þakka fyrir alla vináttu og hlýhug sem þið hafið sýnt mér frá því ég byrjaði að blogga. Mörgu yndislegu fólki hef ég kynnst hérna og góðar stundir hef ég haft hér á blogginu. En nú er komið að leiðarlokum hjá mér og bið ég almáttugum Guði að geyma ykkur og vernda alla tíð.
Bless bless
Munið svo þennan sannleik sem William Shakespeare sagði: Eitt augnablik getur bæði drepið kærleikann og lífgað hann.
Hugleiðingar | Breytt 16.4.2009 kl. 07:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
24.3.2009 | 09:03
Hamingjan
Hamingja er réttur hvers og eins. Samt eru svo margir óhamingjusamir. Af hverju er það? Veit fólk ekki hvað hamingja er eða hvernig hún er fengin? Því miður er það í okkar eðli að vilja kenna öðrum eða öðru um. Makanum, vinnunni, heilsunni, ríkisstjórninni og svona mætti lengi telja án þess að telja okkur sjálf upp.
Sumir skilja, aðrir segja upp vinnunni eða flytja landshorna á milli í þeirri viðleitni að finna hamingjuna. En í stað þess að finna hana, finnur fólk önnur vandamál. Staðreyndin er nefnilega sú að okkar líðan er að finna innan í okkur sjálf. Við erum sjálf bílstjórar í eigin lífi. Við verðum sjálf að ákveða hvernig við sjáum lífið. Er glasið hálf fullt eða hálf tómt?
Jú víst eru tímarnir erfiðir núna en ég sé þau jafnframt sem tækifæri. Tækifæri til hreinsunar. Núna er rétti tíminn til að taka til hjá sér. Rétti tíminn til að setjast niður og ákveða hvert við ætlum og til að finna út hvað það er sem raunverulega skiptir máli.
Misjafnir eru erfiðleikarnir sem settir eru á okkar leið. En í stað þess að sjá þetta sem vandamál þá ættum við að gefa okkur smá stund til að horfa framan í vandamálið og hugsa með okkur "Ok......... hvaða lærdóm get ég dregið af þessu úr því ég varð endilega að lenda í þessu?" Ekki aðeins verður léttara að taka á því heldur eru minni líkur til þess að þetta tiltekna vandamál komi upp aftur, vegna þess að EF það kemur aftur að þá kunnum við að taka rétt á því og erum því ekki að mikla þetta eins mikið fyrir okkur. Við verðum að treysta því að við erum á réttum stað hverju sinni. Á réttum stað til að draga úr þann lærdóm sem við þurfum til að ná þeim andlega þroska sem okkur er ætlað í það skipti.
Hættum að vera óhamingjusöm. Veitum okkur frelsi og finnum hamingjuna sem okkur er ætluð. Hræðumst ekki breytingar, þær færa með sér yndisleg tækifæri til að breyta okkar lífi til framtíðar. Mig langar í það minnsta að vera hamingjusöm og er það þrátt fyrir allt.
Ert þú hamingjusöm/samur??
Molinn snýst því að sjálfsögðu um hamingjuna: Flest fólk er eins hamingjusamt og það ákveður sjálft að vera.
2.3.2009 | 12:58
Hættum að dæma aðra
Það er mikið um stríð í heiminum vegna þess að stór hluti manna líkar ekki það sem nágranninn gerir. Ein þjóð þolir ekki hvað önnur gerir, trúarbragðahópar telja sína trú vera hina einu sönnu og vilja neyða sínar skoðanir upp á aðra o.s.frv. Metingur er í hávegum hafður og flest okkar teljum við okkur betri en einhver annar.
Við megum ekki gleyma því að öll búum við yfir frjálsum vilja og ber okkur að virða það að aðrir búa yfir því sama. Við erum ekki í þessum heimi til þess að vera eins og allir aðrir. Hvert okkar hefur sitt hlutverk í þessu lífi sem og takmark.
Mörg okkar erum stöðnuð í lífinu. Það er ekki fyrr en við hættum að eyða orku í að dæma aðra, gagnrýna aðra og að pæla í líferni annarra sem við komumst áfram á okkar þroskaleið, en alls ekki fyrr en þá.
Staðreyndin er sú að oftast er það þannig að það sem við gagnrýnum mest í fari annarra eru gallar sem við búum yfir sjálf. Ekki fræðilegur að við viðurkennum það, en ef við gefum okkur smátíma og hugsum þetta aðeins, þá er ég hrædd um að þetta sé sannleikanum samkvæmt. Fólk er sett á okkar leið af ástæðu. Hvort sem þetta eru vinir okkar eða ekki. Allir sem við mætum kenna okkur eitthvað. Ýmist verða þau fyrirmyndir eða sýna okkur hvernig við viljum ekki vera.
Við getum og megum ekki dæma fólk út frá því hvernig við erum sjálf. Því að með því segjumst við í raun vera betri en sá dæmdi. Í stað þess að einblína á ókosti annarra og sök, væri okkur nær að skoða hvaða lærdóm við getum dregið af viðkomanda. Notum síðan orkuna sem við hefðum annars notað í að dæma og virkjum það frekar í að læra.
Sannleikurinn er að meðan við einblínum á galla annarra, að þá komumst við hjá því að sjá hvernig við sjálf erum í raun og veru. Hafið þið spáð í að það fólk sem þið gagnrýnið mest hugsi kannski það sama um ykkur, en lætur það samt afskiptalaust, á meðan að þið kvartið og mótmælið þeirra lífi?
Lífið í ljósi...................... það er svo fallegt. Guð geymi ykkur öll.
Molinn: Vertu ætíð ögn góðviljaðri en nauðsynlegt er. - James M Barrie.
P.s Ekki halda að ég sé svona góð manneskja og hugsi alltaf svona. Ég er sjálf að læra þetta og á það svo sannarlega til að dæma aðra. En ég geri mitt besta til að breyta því og langar bara einlæglega að deila með ykkur mínum skoðunum og þið ráðið svo hvort þið tileinkið ykkur eitthvað af þessum hugrenningum mínum.
Hugleiðingar | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
26.2.2009 | 15:57
Enn ein pælingin
Kannast þú við að fara allt í einu að hugsa um eitthvað sem þú hefur gert einhverjum eða sagt sem var kannski miður fallegt? Það kemur ansi oft fyrir mig nú til dags og fer ég þá ósjálfrátt að gretta mig og hjartað í mér herpist við tilhugsunina. Um leið spyr ég sjálfa mig "hvað varstu að hugsa þá og hver var nákvæmlega tilgangurinn með þessu?"
Helst langar mig þá að hlaupa af stað og biðja viðkomandi fyrirgefningar á gjörðum mínum og/eða orðum. En hver væri hugsunin á bak við? Væri ég að þessu til að hinum líði betur eða til að friða sjálfa mig og mína samvisku?
Sannleikurinn skal sagður hér og er ég hrædd um að hið siðarnefnda væri rétta ástæðan. Jújú ég get svo sem talið sjálfri mér trú um að ég væri að þessu til að hinum líði betur og væri það sjálfsagt líka viljinn með því, en við vitum öll að það væri ekki allskostar rétt. Sennilegast er viðkomandi búin að jafna sig á særindunum að því marki að þetta hefur engin áhrif á hið daglega líf.
En hvað get ég þá gert þegar samviskan bankar upp á vegna liðinna atburða? Mín skoðun er að tvennt verði að koma til. Það fyrsta er að iðrast einlæglega og hitt er að læra af reynslunni. Staðreyndin er sú að annað má sín lítils ef hitt fylgir ekki. Ég tel heldur ekki nóg að segja mér sjálfri mér að þetta ætli ég aldrei að gera aftur. Því eftir stendur að ég særði einhvern og verð ég að bæta fyrir það. Mitt mat er að best sé að vera einhversstaðar ein með sjálfri mér og gefa mér svo tíma til að setja mig spor þess sem fyrir varð, helst þar til ég skynja sársaukann sem ég olli með framferði mínu. Þetta held ég að sé eina leiðin til að iðrast einlæglega og læra af reynslunni.
Ansi oft bregst ég við aðstæðum án þess að hugsa. T.d get ég nefnt eitt af því sem ég þoli ekki, en það er léleg þjónusta. En hver þykist ég vera? Er ég svona óskaplega sjálfhverf og merkileg að mér sé gjörsamlega fyrirmunað að gefa gaum að því að kannski líður afgreiðslumanninum ekki vel á sálinni, í hjartanu eða líkamlega? Ætla ég virkilega að vera sú sem bætir á vanlíðan viðkomanda? Dóttir mín vinnur við afgreiðslu og hefur það ansi oft komið fyrir að hún kemur eyðilögð heim vegna framkomu viðskiptavina. Hún hefur sagt mér að stundum sé hún bara búin að fá nóg af ömurlegri framkomu manna að þegar svo kemur einn almennilegur þá sé það henni nánast um megn að vera almennileg á móti.
Lítum okkur nær og tökum aðeins til hjá okkur og okkar framkomu. Ég veit ekki með ykkur en svo sannarlega langar mig ekki til að vera manneskjan sem eyðileggur daginn fyrir öðrum. Þess vegna ætla ég að æfa mig í að setja mig í spor annarra.
Það býr kærleikur og samkennd í okkur öllum. Dreifum því í kringum okkur. Brosum meira, því meðan við brosum er erfitt að hnussa, agnúast út í aðra, hvæsa eða vera með leiðindi.
Guð geymi ykkur öll, fangið ljósið sem býr innra með ykkur og látið það lýsa upp ykkar tilveru.
Molinn: Það skiptir ekki mestu að bæta árum við líf sitt, heldur hitt, að bæta lífi við ár sín. - Alexis Carrel
16.2.2009 | 13:56
Hugleiðing
Meðan ég sat og hlustaði á þetta lag með lokuð augu, varð mér hugsað til ykkar vina minna nær og fjær, sem standa hjarta mínu næst. Þetta lag fyllti hjarta mitt af kærleik og sendi ég það allt upp til himna fyrir ykkur og langar mig því að deila þessu með ykkur. Hlustið á það og hugsið til allra sem standa hjarta ykkar nær um leið og þið finnið hvernig sál ykkar og hjarta fyllist af hlýju.
Jafnframt er hér smá hugleiðing sem vert er að hafa í huga. Vinkona mín sendi mér þetta.
Lag af ryki verndar viðinn undir því..... Húsið verður heimilislegra þegar þú getur skrifað "Ég elska þig" í rykið á húsgögnunum. Ég var vön að eyða endalausum tíma í þrif um hverja helgi til þess að vera viss um að allt væri fullkomið ef að einhver skyldi koma óvænt í heimsókn. Að lokum uppgötvaði ég að það kom engin í heimsókn því það voru allir úti að skemmta sér ! !
Jæja.......... en þegar fólk kemur í heimsókn, þá þarf ég ekki að útskýra ástandið á heimilinu. Þeir hafa meiri áhuga á að heyra um þá hluti sem ég hef verið að gera á meðan ég var úti á lífinu að skemmta mér.
Ef þú hefur ekki uppgötvað þetta ennþá, þá skaltu fara eftir þessu heilræði: Lífið er stutt............... njóttu þess ! ! ! !
Þurrkaðu af ef þú verður, en þá verður ekki mikill tími til; að synda í ám og klifa fjöll, hlusta á tónlist og lesa bækur. Fagna með vinum og lifa lífinu.
Þurrkaðu af ef þú verður..... en væri ekki betra að mála mynd eða skrifa bréf, baka smákökur eða kökur og sleikja sleifina, eða sá fræi? Hugleiddi muninn á því sem þú vilt eða þarft.
Þurrkaðu af ef þú verður..... en heimurinn bíður eftir þér þarna úti, með sólskinið í augum þínum, vindinn í hárinu, flögrandi snjókornum eða fíngerðum úða.
Þessi dagur kemur ekki aftur og þegar þú ferð - og þú verður að fara, þá munt þú sjálf/sjálfur skapa meira ryk
Það er ekki það sem þú safnar, heldur það sem þú sáir sem segir til um það hvernig lífi þú hefur lifað.
Molinn er tileinkaður lífinu. Nýttu sem best það sem er á þínu valdi, taktu öðru bara eins og það kemur fyrir.
Hugleiðingar | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
25.1.2009 | 16:13
"Er þetta það síðasta sem þú vilt segja við hann/hana?"
Börnin mín hafa að sjálfsögðu eins og systkina er siður, rifist heiftarlega. Oft ef ég varð vitni að látunum og sá eitt barnanna rjúka burt, þá spurði ég "er þetta það síðasta sem þú vilt segja við hann/hana?". Þessi spurning varð oftast til þess að málin róuðust.
Ofanskráð spurning gerir þér fært að virka út frá hjartanu hvernig svo sem einhver manneskja hagar sér. Þú verður ástríkur, þolinmóður, gjöfull og hlýr. Ef einhver hefur gert eitthvað á hlut þinn, hugsaðu þér næst þegar fundum ykkar ber saman að síðasta stund manneskjunnar sem í hlut á sé runninn upp. Þú munt komast að raun um að þú nálgast hana á allt annan hátt. Þér gengi betur að sleppa taki á sársaukanum ef þú vissir að þetta væri hennar síðasti dagur í tölu lifenda á jörðinni. Þegar þú sérð hana næst skaltu ímynda þér að þetta sé í síðasta skiptið sem þíð sjáist. Taktu þá eftir að þú ferð jafnvel að sjá yndislega þætti í fari hennar. Þú gætir jafnvel komið auga á að hún hafði engan ásetning um að særa þig heldur brást aðeins við í samræmi við eigin sársauka. Kannski gerðir þú jafnvel eitthvað sem var svo dropinn sem fyllti mælinn.
Sjáðu fyrir þér hvernig þú kæmir fram við suma sem þú þekkir, ef þú vissir að þú hefðir aðeins þetta eina tækifæri til að vera í samvistum við þá. Þessi færsla gæti fengið þig til að hugsa um einhvern sem farinn er, sem þér tókst ekki að fyrirgefa áður. Ef svo er þá geturðu komið fyrirgefningu á framfæri í gegnum sál þína og hún mun ná til þeirra sem um ræðir.
Jafnvel þó þú ákveðir að reyna að temja þér þennan hugsunarhátt, þá getur það vel átt sér stað að þú getir ekki haldið þig á því stigi mjög lengi. Ef einhver hefur valdið þér sársauka eða vonbrigðum, þá skaltu ekki ætla þér að eyða með henni mörgum tímum þegar þú hittir hana næst. Sjáðu til þess að fundur ykkar verði fremur stuttur og í samræmu við þann tíma sem þú telur þig vissan um að geta haldið þessi nýju atriði í heiðri. Gefðu þér tíma til að tileinka þér þessa aðferð. Þú munt svo komast að því að það verður auðveldara með æfingunni, að halda æðra sjónarhorni gagnvart fólki. Loks gerirðu þetta á eðlilegan, áreynslulausan hátt. Smátt og smátt muntu uppgötva nýjan, elskuríkari og háleitari þig. Mundu aðeins að æfingin skapar meistarann .
----------------------------------------------------------------------
Annars er ég að fara í húsmæðraorlof í fyrramálið og verð í 5 daga. Við Gunnar ákváðum að það væri skemmtilegra að kalla spítalavistina því nafni. Það gerði það að verkum að mér er nánast farið að hlakka til að fara í "frí". Ótrúlegt hvað stundum er hægt að blekkja hugann. En.................. svo lengi sem það virkar, þá sé ég ekkert að því að gera þetta.
Knús á ykkur öll og munum svo að elska náungann ALLTAF.
Vikumolinn: Snúðu neikvæðum hugsunum í jákvæðar og sjáðu hvernig það breytir deginum.
30.12.2008 | 22:32
Upside....... down
Í þessum skrifuðum orðum veit ég ekkert hvernig mér líður eða hvernig mér eigi að líða. Ekki gat árið nefnilega leyft sér að klárast áfallalaust hjá mér. Þess vegna ákvað ég að setjast við tölvuna og blogga (allra meina bót er mér sagt). Kannski verð ég einhverju nær á eftir. Hver veit?
Í dag tók ég nokkur skref aftur á bak að mínu mati, heilsufarslega séð. Málið er þannig vaxið að ég hef lengi kvartað við sérfræðinginn minn undan verkjum og vanlíðan, en eins og þið kannski (sum ykkar) munið að þá var ekki hlustað á mig. Ýmist hefur verið að líða yfir mig í tíma og ótíma eða ég ansi nálægt því. Hárið er allt að detta af svo eitthvað sé nefnt. Alltaf talaði sérfræðingurinn minn um að mér væri batnað en að það tæki tíma að verða almennileg aftur.
22 des kom sérfræðingurinn minn aftur úr fríi og hringdi hún í mig til að heyra hvernig ég hefði það. Eftir samtalið spurði hún hvort ég gæti komið morguninn eftir í rannsókn og svarið sem hún fékk var "fyrr frýs í helvíti". Á Þorláksmessu er brjálað að gera í búðinni og ekki séns ég hefði tíma til að fara í bæinn. Niðurstaðan varð sú að ég færi strax eftir jól eða í gær nánar tiltekið. Sama prófið var gert í gær og þegar kom í ljós að ég væri sjálf farin að framleiða kortisól aftur og það vel.
Ég fékk svo símtal í morgun frá ritara sérfræðingsins, þar sem við hjónin vorum beðin um að koma strax í dag kl 13:30. Þið getið ímyndað ykkur hvernig okkur leið. Ekki ætla ég að gera lítið úr hræðslunni sem bærði á sér. Bæði héldum við að nú væri heilaæxlið farin að gera einhvern óskunda og við blasti farmiði til Svíþjóðar. Ég hringdi strax í Sigurlínu bestu vinkonu mína og fékk hana til að koma og róa mig niður. Einnig fór ég til Sammýar vinkonu minnar og bað hana að fara með eins og eina bæn fyrir mig því ég væri hrædd. Ekki stóð á styrk vinkvenna minna. Og er ég virkilega rík að eiga þær að.
Ekki vissum við hverju við mættum búast við þegar við hittum sérfræðinginn. Hún byrjaði á að eyða miklum tíma í að útskýra og að mér fannst að réttlæta, hvers vegna hún hefði ekki hlustað á mig síðustu mánuði og verið svona hrikalega loðin í svörum. Einnig sagðist hún hafa viljað sjá með eigin augum hvernig ég líti út í dag og að ég væri ekki að ýkja með hárið. Við ókyrrðumst talsvert því ekki kom hún sér að efninu. En loksins kom það. Niðurstaðan úr rannsókninni í gær var mjög neikvæð. S.s ég framleiði sama sem ekkert kortisól sjálf. Ekki gat hún svarað því hvers vegna niðurstaðan hefði verið svona góð síðast en ekki núna og ekki veit hún hvað er í gangi. Það hvort heilaæxlið er að gera eitthvað af sér kemur í ljós í næstu viku. Núna er ég komin aftur á byrjunarreit og þarf aftur að taka inn lyfin í 3 vikur og hitti hana næst 22 janúar. Þá verður frekari meðferð og framhald ákveðin.
Ég er mjög glöð að vita að ég var ekki að búa mér til þessa vanlíðan síðustu vikurnar og mánuði eins og hún hélt. Og ég er mjög glöð yfir því að hún sé búin að viðurkenna það. Enda hvæsti minn heittelskaði svolítið á hana og var ég mjög ánægð með það. En ég veit ekki hvernig mér líður með þessi skref til baka. Ég er þreytt á sálinni, það er það eina sem ég veit. Og ég er ekki frá því að vonleysi sé farin að segja til sín. Ég nenni þessu ekki lengur. Ég sagði við Sigurlínu á sunnudagskvöldið að niðurstaðan yrði ekki eins góð og síðast en ég bjóst ekki við svona stóru stökki.
Ég var tiltölulega nýbúin að sætta mig við hármissinn. Er núna með knallstutt hár. Þannig að ég get ýft því og þá ber minna á því í bili. Næsta skref verður að raka það allt af. Núna er ég eins og kvikmyndastjörnurnar................... ég vakna nákvæmlega eins og þegar ég fer að sofa!!! Svo þarf ég ekki að hafa áhyggjur af áramótagreiðslunni + töluverðan hársápusparnað. Nú verð ég að sætta mig við nýju fréttirnar og veit ég geri það............. á endanum. Þarf bara smá tíma.
Eins og ég hef áður sagt, að þá hlýtur Guð að hafa mikið álit á okkur hjónum fyrst hann telur okkur geta borið þetta endalaust.
Í stað þess að skrifa minn venjubundna mola þá langar mig að skrifa hérna örstutta bæn.
Guð. Hjálpaðu mér að viðurkenna alla þá króka sem leið mín liggur um. Hjálpaðu mér að höndla hið góða og það miður góða, sem á vegi mínum liggur.
Ég sendi ykkur öllum kveðju ljóss og kærleika. Þar til næst.
10.12.2008 | 23:23
Nefndu 4 atriði
Góð vinkona, vandvirk, ósérhlífin og óþolinmóð.
Ég las einhversstaðar þessa setningu "Ef þú bara vissir hversu fáir nenna í raun og veru að hugsa mikið, ef þá nokkuð um þín mál, þá hefðir þú minni áhyggjur af áliti manna"
Spáið í því hvað það er mikið til í þessu!! Við eyðum svo oft tíma í að hugsa um hvað öðrum finnist að við steingleymum að velta fyrir okkur hvað okkur finnst um okkur sjálf. Samt eru ansi margir sem munu segja að þeim sé sko skítsama um hvað öðrum finnst. En innst inni held ég að flestir átti sig á að þessi staðhæfing sé ekki alveg eins sönn og viðkomandi vill vera láta. Auðvitað er okkur ekki sama. Og satt að segja þá á okkur heldur ekki að standa á sama. Við þurfum bara að breyta þessu aðeins.
Leyfið mér að útskýra þetta aðeins nánar. Málið er að við hugsum að mínu mati of mikið um hvað öðrum finnist um hvað við erum að gera, hvernig við erum klædd, hvað við kaupum, hvaða áhugamál við höfum og svo framvegis. Þegar við ættum í raun að hugsa um hvernig við viljum láta minnast okkar eftir að við förum yfir landamærin. Ég er handviss um að sá hugsunarháttur fengi okkur til að hugsa aðeins meira áður en við framkvæmum, segjum eða gerum.
Einnig er það of algengt að við hugsum okkur niður. Hvað á ég við með því? Ég á við að þegar við rennum yfir okkur sem manneskju með kostum og göllum, þá séum við of gjörn á að einblína á gallana. Við viljum helst ekki segja of mikið frá okkar kostum, því aðrir gætu tekið því sem mont eða eitthvað svoleiðis.
Ég hugsaði um þetta í gær þegar ég var komin í rúmið, og var þá að velta fyrir mér hvaða 4 atriði myndu best lýsa mér. Aldrei hefði ég getað trúað því hvað þetta er í raun erfitt. Fyrst komu gallarnir ósjálfrátt upp, og voru sko snöggir upp á yfirborðið. Þá píndi ég mig til að finna eitthvað gott við mig. Ég strikaði yfir í huganum í það minnsta 100 sinnum. Af því mér fannst ég þá vera of góð með mig og ýmislegt í þá veru. Svo ákvað ég að hætta þessari vitleysu því það heyrði hvort eð er engin í mér þar sem ég var að hugsa þetta. Þá gat ég alveg talið nokkur atriði. Þá fór ég að velta fyrir mér af hverju í ósköpunum ég gæti ekki sagt þetta um sjálfa mig? Var þetta eitthvað feimnismál? Er endilega dyggð falin í hógværðinni? Er bara ekki allt í lagi að ég hafi til að bera kosti nákvæmlega eins og allir aðrir?
Ég hélt það nú!!! Og hér efst í færslunni birtast mín 4 atriði sem mér finnst lýsa mér best. Og nú kemur tilgangurinn með þessari færslu. Mig langar að biðja ykkur um að gera það sama. Ég myndi gjarnan vilja heyra hvaða 4 atriði lýsa ykkur best. Ég veit minnst um 1 gott atriði við hvert ykkar sem hérna kvittið reglulega og samt þekki ég mörg ykkar lítið sem ekkert. Flest ykkar eigið ykkar einkenni hér á blogginu sem segir margt um ykkur. Og ég hef verið svo lánsöm að hitta ekki enn á neinn sem ég get ekki sagt eitthvað gott um.
Ég mana ykkur til að gera þetta og sum ykkar mun jafnvel finnast þetta erfiðara en þið tölduð. Takið eftir hvernig hugurinn fer af stað um leið og þið byrjið. Hversu gagnrýnin þið verðið jafnvel áður en þið sendið. Alveg hreint ótrúlegt hvað við erum oft óvægin við okkur sjálf. En vitiði............... þegar upp er staðið er ég sjálf mjög ánægð með að deila með ykkur þeim kostum sem ég tel mig búa yfir sem og galla. En það er eitt sem mig langar alveg sérstaklega að biðja ykkur um...... og það er að minnst 3 atriði séu kostur en ekki galli
Að lokum er hinn vanabundni moli: Hefur hver til síns ágætis nokkuð. - Brennu-Njáls saga. - Gunnar á Hlíðarenda.
Farið vel með ykkur og munið að mér finnst þið ÆÐI.
Hugleiðingar | Breytt s.d. kl. 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
6.12.2008 | 09:16
Stress
Á einu námskeiði rétti kennarinn fram vatnsglasi og spurði nemendurna hversu þungt það væri. Svörin sem bárust voru allt frá bilinu 20 til 500gr. Þá sagði kennarinn "Nákvæm þyngd skiptir nákvæmlega engu máli. Það sem skiptir máli er hversu lengi þú heldur á glasinu. Það er ekkert þungt ef þú heldur á því í smástund. Ef þú heldur á því í klukkutíma þá eru líkur til þess að þig fari að verkja í handlegginn. Ef þú heldur á því í heilan dag þá þarf örugglega að kalla á sjúkrabíl. Í hverju tilfelli fyrir sig er þyngdin sú sama, en því lengur sem þú heldur á því, því þyngra verður það".
Sama á við um okkar vandamál. Því lengur sem vandamál ná að þjaka okkur, því þyngri verður byrðin. Ef við erum alltaf að bera þau þá er staðreyndin sú að fyrr en síðar kiknum við undan álaginu og getum þá ekki haldið áfram. Alveg eins og með vatnsglasið. Við verðum að leggja það frá okkur í smástund og hvílast áður en við tökum það upp aftur. Endurnærð getum við haldið áfram með okkar mál.
Þess vegna er það að áður en farið er heim að kvöldi dags, leggið þá vandamálin og áhyggjurnar frá ykkur. Ekki fara með það heim. Þið getið tekið þau upp aftur á morgun. Hvaða vandamál eða áhyggjur sem kann að þjaka ykkur núna, leggið þau frá ykkur í örlitla stund ef þið getið. Og takið þau ekki upp aftur fyrr en þið eruð endurnærð.
Hérna eru nokkur góð ráð til að takast við vandamál, stress, áhyggjur og svartsýni.
Hafið orð ykkar ávallt sæt, ef svo skyldi fara að þið þyrftuð að éta þau ofan í ykkur.
Lesið alltaf eitthvað sem fær ykkur til að líta vel út ef þið deyið á miðri leið.
Keyrið varlega........ það eru ekki eingöngu bílarnir sem geta verið afturkallaðir til framleiðenda.
Ef þið getið ekki verið almennileg..... sjáið þá sóma ykkar í því að vera óljós.
Ef þið lánið einhverjum 1000 kr og sjáið viðkomandi svo aldrei aftur. Þá er það sennilega þess virði.
Það er alveg möguleiki á því að ykkar eina hlutverk á jörðinni sé að vera almennilegt við annað fólk.
Hverjum er ekki sama þó þið kunnið ekki að dansa. Standið bara upp og dansið.
Úr því að er árisulli ormurinn sem er étinn af fugli............. sofið þá út.
Það er seinni músin sem fær ostinn.
Afmælisdagar eru góðir........ því fleiri sem þið eigið, því lengur hafið þið lifað.
Þið gætuð vel verið eina manneskjan í heiminum, en getið líka verið allur heimurinn í augum einnar manneskju.
Sum mistök eru bara of skemmtileg til að gera þau bara einu sinni.
Við getum lært mikið af vaxlita kassa. Sumir litir eru beittir, sumir fallegir og aðrir ekki. Sumir litir hafa skrítinn nöfn og allt eru þetta mismunandi litir sem verða að vera í sama kassanum.
Úr því við erum nú einu sinni á þessari jörð.................... því þá ekki að njóta þess? Misjafnlega hefur okkur verið úthlutað en við ættum að læra af því frekar en að fara í fýlu yfir því. Samgleðjumst innilega þeim sem eru hamingjusöm og tökum þátt í þeirra gleði. Huggum þau sem minna mega sín og verum til staðar fyrir þau. En umfram allt skulum við þakka Guði fyrir að vera til og þökkum jafnvel fyrir þær byrðar sem stundum eru lagðar á okkur. Það er sagt að ekki sé lagt meira á mann en maður getur borið. Ef mikið er lagt á okkur, þá hlýtur almættið að hafa mikið trú á okkur ekki satt.
Læt þetta duga í bili elskurnar. En ég stillti vekjaraklukkuna mína með það í huga að hafa smá tíma fyrir örblogg. Nú verð ég víst að drífa mig að hafa mig til fyrir vinnuna. Munið að ég hugsa reglulega til ykkar.
Molinn er síðan að sjálfsögðu tengdur færslunni, en hann er: Þær hafa reynst okkur kostnaðarsamar raunirnar sem aldrei hafa orðið. - Thomas Jefferson
P.s Konukvöldið var algjört flopp. En það komu aðeins 2. Gengur bara betur næst.