2.6.2008 | 12:25
Húsið mitt eins og veðrið á Íslandi
Einu sinni heyrði ég sagt við ferðamann sem staddur var hér á landi "Ef þér líkar ekki veðrið, þá skaltu bara skella þér inn, fá þér kaffi og með því og veðrið verður pottþétt búið að breytast þegar þú ferð út aftur!". Ekki flókin fræði það og nokkuð til í því.
Eins og fyrirsögnin bendir til að þá er ástandið á húsinu mínu á Selfossi svipað. Ég labba hring og tek myndir........... sest niður, fæ mér kaffi, kíki á netið og svona dúllerí......... fer svo annan hring um húsið vopnuð mikið notaðri myndavél, og hvað finn ég? Jább, allt rétt hjá þér! Nefnilega ný sprunga eða þá að þær sem ég var þó búin að finna hafa stækkað.
Magnað samt hvernig lífið einhvern veginn heldur bara áfram sinn vanagang þrátt fyrir allt sem er í gangi í kringum okkur og þrátt fyrir þá fullvissu að fleiri skjálftar eigi eftir að koma. Ég ákvað s.s í gær að nú væri búið að stara nóg á allt draslið og nú yrði sko tekið til. Skipaði svo erfingjunum öllum að drífa sig nú inn til sín og taka til og gera það eins og þau ættu von á sjálfum forsetanum í heimsókn. Þau horfðu nú á mig með hálfgerðri vorkunn í augnaráðinu, hristu svo bara hausinn og fóru svo inn að taka til. Þau breyttust nú ekki mikið við skjálftann þessar elskur þegar kemur að tiltekt. Þetta var bara gert upp á gamla góða mátann (eins og við eflaust mörg hver gerðum á þessum aldri) og öllu sópað ýmist inn í skáp eða undir rúm. Forsetinn á ekkert með að kíkja á þessa staði hvort eð er!!
Eftir rassíuna heima, var bara skellt í lás og rokið upp í bústað sem við áttum pantaðan við Apavatn. Og ég verð að segja eins og er að einni spurningu skýtur ansi oft upp kollinum núna en hún er þessi "hvernig verður ástandið heima þegar við förum aftur?"
Ég er búin að setja tengla hér til hliðar þar sem hægt er að fara beint inn á myndaalbúmin til að sjá skemmdirnar. Skil samt ekki hvað við hjónin erum eitthvað ósköp róleg yfir þessu öllu. Ætli værukærðin sé bara hluti af áfallinu? Og þó....... það eina sem skipti máli er óskemmt, en það eru fjölskylda, vinirnir og fólkið allt. Og ég má heldur ekki gleyma að þakka forsjóninni fyrir að ekki fór verr hjá okkur en þetta.
Kram á línuna og farið vel með ykkur í dag.
Gríðarlegt verkefni framundan við að lagfæra hús og mannvirki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
jújú við erfingjarnir verðum að halda í rútínuna
Agnes Maria (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 22:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.