Verða börnin okkar ekki alltaf "litlu" börnin okkar?

ÖSSSSSSS ég held að ég sé að gera "litla" barnið mitt vitlaust þessa stundina. Held hann sé alvarlega að íhuga að setja inn smáauglýsingu í öllum blöðum landsins sem myndi hljóma einhvern veginn svona "Óska eftir því að vera tekinn til ættleiðingar á gott heimili gegn því að vera sóttur. Taugaveiklaðar mömmur vinsamlegast afþakkaðar!"

UtanlandsfarinnÁstæðan fyrir öllum þessum látum, er að strákurinn minn hann Kristján er að fara í fyrsta skipti einn til útlanda í dag. Hann er nánar tiltekið að fara til Spánar til tvíburasystur minnar og verður hjá henni í viku. Þannig að ég er búin að vera með endalausa fyrirlestra um hvað hann eigi að gera, hvenær og hvernig. Síðan fylgir fast á eftir hverju hann eigi að varast í hinum stórvarhugaverða heimi, og svona tuða ég nú endalaust. En hann er nú ósköp þolinmóður við mig þessi elska og held ég að hann sé farinn að dauðvorkenna mér frekar en hitt. Elskulegi eiginmaðurinn minn ætlar að kanna í innritunarröðinni hvort hann finni ekki þar einhverja góðviljaða konu/fjölskyldu sem getur haft auga með honum. Ég efa að það verði mikið mál. Allavega þætti mér alveg sjálfsagt að gera það ef ég yrði spurð, en það er auðvitað ekki víst að allir hugsi þannig. Eins og þið sjáið á myndinni þá er hann ekkert svo lítill lengur enda orðinn 15 ára. En hann er og verður SAMT alltaf litla barnið mitt. 

Síðan bættist við nýr fjölskyldumeðlimur á heimilið í gær. Hún heitir Lukka og er 8 vikna gömul tík. LukkaFyrir eigum við eina labrador tík og einn kött. Mín skoðun er bara sú að aldrei er til nóg af börnum eða dýrum. Einnig er ég búin að bæta við myndum af strákunum mínum síðan úr sumarbústaðarferðinni, en það voru bara 2 erfingjar af 5 sem komu þangað með okkur. Svo eru líka nokkrar myndir af tíkunum Sif og Lukku.

 

 

 

Hér er síðan moli dagsins hungangshrúgurnar mínar: Allt sem þarf til að finnast hamingjan vera hér og nú er einlægt og nægjusamt hjarta.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hólmdís Hjartardóttir, 9.6.2008 kl. 08:56

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Tína mín, það sem við erum ekki búin að kenna þeim þegar þau fara eitthvað frá okkur, náum við ekki að kenna þeim með lexíum á nokkrum dögum. þú veist þetta er eitt samfellt uppeldi og þau vita hvað er rétt, nú þarf hann bara að fá að sanna sig, en ég skil þig vel.  Til hamingju með börnin og dýrin, já og flotta kallinn þinn, góður strákur þar á ferð

Ásdís Sigurðardóttir, 9.6.2008 kl. 14:28

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Það er alveg sama hversu gömul þau verða þetta batnar ekkert, allavega ekki hjá mér.  Hvolpurinn ykkar er æðisleg dúlla Ég er bara með einn hund, en kettirnir okkar eru núna 5

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.6.2008 kl. 01:24

4 Smámynd: Tína

Ásdís: Rétt er það með börnin og lexíurnar......... en það má alltaf reyna . En ég er stolt af þeim öllum. Og Ó já kallinn minn er sko allt í senn, flottur, góður, traustur og stundum svolítið erfiður........ s.s TOPPEINTAK.

Jóna: Í vetur átti hver erfingi (nema heimasætan) sitt gæludýr. Það voru s.s hérna 2 hundar og 2 kettir. Annar kötturinn fékk krabbamein og svo var keyrt yfir tíkina hans Kristjáns (utanlandsfarann) í janúar og varð hann vitni að því. Það varð á móti til þess að hann ætlaði aldrei að jafna sig á fráfalli hennar. Við hjónin vorum búin að ákveða að bæta ekki við fleiri dýrum, en sáum að í þessu tilfelli, þá væri önnur tík sennilega rétta meðalið. Vonandi var það rétt. Spurning hvort það fari þá ekki að bætast við köttur líka?

Tína, 10.6.2008 kl. 05:29

5 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Er hann Kristján virkilega orðin 15 ára. Vaaáá....hvað tíminn líður.

Það er bannað að  hafa dýr í mínu húsi, annars held ég að ég myndi fá mér hund eða kött. Ég átti einu sinni kött sem hét Bangsi og hann var hreint út sagt ótrúlegur.

Kv. Sóldís Fjóla 

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 10.6.2008 kl. 08:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband