Skilningur

bcahadided 

Ég hef undanfarið verið að lesa bókina Kona fer til læknis eftir Ray Kluun. Og ég verð að segja eins og er að hún hefur hjálpað mér mikið þó svo að um skáldskap sé að ræða. Bókin er um eiginmann konu sem fer til læknis og greinist með krabbamein í brjósti sem svo síðar breiðist út, um tilfinningar hans, framhjáhald og baráttu.

"Hvernig getur svona bók hjálpa Tínu?" kunnið þið að spyrja ykkur núna. Jú hún hefur hjálpað mér að skilja hann Gunnar minn örlítið betur. Við sem eigum í veikindabaráttu eigum erfitt og oft á tíðum ansi bágt, satt er það. En fyrst ég er á annað borð að segja ykkur skoðun mína, þá held ég að svona barátta sé makanum sem og aðstandendum erfiðari þó á annan hátt sé. Makinn vill nefnilega oft gleymast í svona og fellur hálfpartinn í skugganum. Sjaldan (ef nokkurn tímann) er hann spurður hvernig honum líði. Meðan barátta sjúklingsins er aðallega líkamleg þá er barátta makans andleg og öllu erfiðari viðureignar, því það er í raun ætlast til þess að hann sé kletturinn sem ekkert bjátar á. Það er jú ekki hann sem finnur til eða er veikur.

T.d á ég það allt of oft til að setja upp leikþátt þegar ég hitti fólk (er orðin ansi góð í því). Set upp "mér líður bara vel" grímu en Gunnar veit betur og skilur ekkert í því af hverju ég geri þetta. Hvernig get ég líka ætlast til þess þegar ég skil það ekki sjálf. Hann er í rauninni sá eini sem veit hvernig mér líður í raun og veru. Hann veit hvernig úr mér er allur vindur eftir svona leikþátt. Sama er þegar ég fer af stað á fullu í að gera og græja og læt sem ég heyri ekki líkamann kvarta hástöfum. Hann reynir að stoppa mig en ég hlusta ekki. Ég er komin í einhvern "ég skal geta þetta" frekju og þrjóskugír.  Síðan er það hann sem neyðist til þess að horfa bjargarlaus á afleiðingarnar.  Það lendir þá á elskunni minni að reyna eftir fremsta megni að bæta líðan mína, þó ég hafi vitað mætavel sjálf hvernig færi og er þá alfarið sjálfri mér að kenna. Það er hann sem lendir í að stappa í mig stálinu þegar mig langar að gefast upp, þó að ekki veitti af að einhver stappaði stálinu í hann.

Hann verður stundum jafnvel reiður við mig fyrir að hafa gert ákveðna hluti vitandi hvernig fer. En þá finnst mér hann skilningssljór og jafnvel vondur við mig. Ekki bað ég um að vera veik! Hvernig vogar hann sér að vera með leiðindi við mig? Sér maðurinn ekki að ég vil ekki vera eins og aumingi, sívælandi og kvartandi? Og svona held ég áfram hálfgerðri píslarvættisframkomu í sjálfselsku minni án þess að leiða hugann í eina sekúndu að honum og hvernig honum líður. Ég get í það minnsta tekið pillu eða eitthvað, en hvað getur hann gert annað en horft á, þegar hann vildi helst af öllu sveifla töfrasprota og "púff" allt er komið í lag? Nákvæmlega EKKERT.

En af hverju er ég að segja ykkur þetta? Jú vegna þess að mig langar að biðja ykkur að sýna aðstandendum smá athygli ef þið þekkið til svona aðstæðna. Ég held að makinn verði allt of oft svakalega einmana í svona ferlum, því það er sjúklingurinn sem fær alla athyglina meðan honum er hálfpartinn ýtt til hliðar, en samt er ætlast til alls af honum. Fyrir alls ekki svo löngu síðan þá sagði ég við Gunnar "mér finnst þú eitthvað svo einn". Hann horfði á mig stutta stund og sagði svo "það er vegna þess að ég er það". Úfff hvað mig langaði þá að eiga svona töfrasprota.

Þessi bók gerði nú engin kraftaverk á frekjunni ég og fékk mig ekki til þess að hætta að láta svona, allavega ekki ennþá, en ég er að vinna í því. Hún aftur á móti fékk mig til að staldra fyrr við, hugsa aðeins um Gunnar og hvað ég er að gera. En til að forðast allan misskilning þá vil ég taka fram að ég er ekki með brjóstakrabbamein og Gunnar er ekki hlaupandi út um allt haldandi framhjá. Bara svo það sé á hreinu.

Til hinna sem eru sjúklingar eins og ég langar mig aðeins að segja eitt. Munum að virða og þakka okkar nánustu fyrir það sem þau gera og ganga í gegnum. Gefum okkur smá tíma til að taka eftir því hvernig þeim líður.

Elskið lífið, ykkur sjálf og náungann. Það er vel þess virði.

 

Moli dagsins er því þessi: Sá er vinur sem í raun reynist.

Gunnar minn: Takk ástin mín......... ég er vegna þín.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.6.2008 kl. 08:24

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Fallegt!

Hrönn Sigurðardóttir, 23.6.2008 kl. 08:54

3 Smámynd: Gunna-Polly

Gunna-Polly, 23.6.2008 kl. 10:18

4 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Góð færsla.

Edda Agnarsdóttir, 23.6.2008 kl. 13:55

5 identicon

Flott færsla og góðar pælingar. Þú ert svaka penni Vonandi gengur málingarvinnan vel...

Marta (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 19:40

6 Smámynd: JEG

Mikið svakalega hittiru naglann á höfuðið núna. Frábær færsla. Um þetta nákvæmlega snýst málið. Hlusta á líkamann og viðurkenna fyrir sjálfum sér að maður er ekki 100% Það er erfitt ójá þekki það. En ef maður viðurkennir ekki fyrir sjálfum sér og ofgerir sér þá kemur það margfalt í bakið á manni. Og ái það er vont.  Manni finnst það low að kvabba á maka og öðrum aðstandendum en sumu verður maður að kyngja.  Ég hef ekki verið veik eða ef svo má segja en þegar ég gekk með mín 2 yngstu þá var ég illa haldin af grindarlosi og það var erfitt að viðurkenna að maður gat ekki gert einföldustu hluti á þessa að fá á baukinn. Og eftir að ég átti yngsata barnið sem er 14mán. þá er ég vart búin að ná mér enn en þó ca 90% En ég verð bara að kyngja þvi og lifa með því. En það er erfitt að vera bóndi og "geta ekki" og "meiga ekki"  

Makar jú verða útundan í öllu svona ferli og þeir sem ekki einmitt fara og leita annað verða enn meira einir. Því að vinir draga sig í hlé og vita ekki hvað - hvernig - hvenær - hvort þeir eigi að tala - knúsa - hringja í mann eða maka og bara vera til staðar.

Eins og þú segjir svo réttilega þá er "Sá er vinur sem í raun reynist"

Já maður á oft ekki marga vini þegar upp er staðið því miður eins og maður telur sig oft ríkan af vinum.

Knús á þig og vona að vikan verði ánæjuleg. Kveðja úr sveitinni.

JEG, 23.6.2008 kl. 21:51

7 Smámynd: Heiða  Þórðar

Takk fyrir yndislegan pistil. Gangi þér sem allra best í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.

Heiða Þórðar, 24.6.2008 kl. 00:12

8 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

 Þú ert nú bara alveg yndisleg.  Jákvæðni og bjartsýni eru góðir förunautar.  Ég óska ykkur öllum velfarnaðar, svo eru molarnir þínir alltaf yndislegir.  Þar er góð speki á ferðinni.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.6.2008 kl. 01:04

9 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Þetta er frábær pistill og vekur mann svo sannarlega til umhugsunar.

Knús á þig og þína,

Sóldís Fjóla

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 24.6.2008 kl. 21:11

10 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

flottur pistill

Hólmdís Hjartardóttir, 25.6.2008 kl. 02:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband