Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
12.9.2008 | 05:17
Það borgar sig stundum að hugsa
SKO.................. Þegar Tína er andvaka og fer að hugsa, þá gerast hlutirnir get ég sagt ykkur. Í það minnsta stundum. Við skulum passa upp á hógværðina hérna
En þið kannski munið að ég talaði um í þar síðustu færslu hvort ég væri kannski að nota veikindin sem afsökun fyrir að hafa mig ekki til og svoleiðis? Well, ég tók mig s.s til í gær og málaði mig!!! Jessöríí ég er ekki að grínast. Ég var að fara á kaffihús að hitta nokkrar bloggvinkonur og þar sem þær eru hver annarri fallegri, ákvað ég að það minnsta sem ég gæti gert væri nú að setja á mig andlit. Að vísu kom í ljós við þessa andlitsaðgerð að það væri nú bara fjári langt síðan ég hefði notað þetta stöff sem kallast snyrtidót. Ef við eigum að fara út í einhver smáatriði hérna, þá eru reyndar margir mánuðir síðan. Hef í mesta lagi notað maskara. Ég var t.d búin að gleyma að meikið mitt væri vatnshelt. Þegar ég ætlaði að reyna að þvo mér um hendurnar að þá kristallaðist bara vatnið í lófunum á mér. Þarna stóð ég eins og algjör álfur og var ekki alveg klár á hvað ég ætti að gera. Ekki vildi ég þurrka af höndunum í handklæðið. Það endaði á því að ég hristi hendurnar eins og ég gat og þurrkaði síðan það sem eftir var framan í mig . Ég var orðin eins og klessuverk, en þetta bjargaðist nú fyrir rest. Þetta tókst meira að segja svo vel að hann Kristján minn sagði "mikið ofboðslega ertu nú falleg mamma mín"
Hann Gunnar minn var svo ánægður með þetta að hann sendi mér þennan blómbönd
It seems like I still have my mojo
Og á kortinu stóð......................... "meira svona"
En eins og fyrr sagði þá hitti ég þær Hrönn, Þórdísi (Zordís) og Sollu (Ollasak), og það var mikið spjallað, hlegið og spáð í bolla. Einnig fékk ég þá færi á að kveðja hana Þórdísi áður en hún fer heim til sín aftur. En hún býr á Spáni.
Sigurlín elskuleg vinkona kom svo í heimsókn til mín um kvöldið og var óborganleg. Hún er það reyndar alltaf, en þarna sló hún öll met. Það sem valt ekki upp úr kellingunni!!!
Þóra er síðan með yndislegri stelpum sem ég hef kynnst. En hún kom eins og himnasending til Leifs. Hún hefur reynst honum ómetanleg þessa síðustu daga og er hrein unun að sjá þau tvö. Þegar ég fór að sofa í gærkvöldi, þá sátu þau úti og voru bara að tala saman. Mér fannst sjónin svo krúttleg að ég mátti til með að taka af þeim mynd.
Þegar á heildina er litið þá var þetta nokkuð góður dagur. Hann vakti mig til umhugsunar og vonandi til betri vegar. Spurning hvort svefnleysið sé að fara svona með mig . Ég meina........ spáum aðeins í það........ það er varla að ég hafi sofið svo heitið geti síðan lyfjaskammturinn var hækkaður, og þetta er afraksturinn.
Molinn hljómar þess vegna svona: Fátt er með svo öllu illt að ei boði nokkuð gott. - Man ekki hver.
Farið vel með ykkur í dag og njótið þess sem lífið hefur upp á að bjóða þrátt fyrir allt, eða kannski einmitt vegna þess.
Kram, kreist og knús á línuna.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 05:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
11.9.2008 | 17:48
Kertasíða Sverris
Leifur og ég ákváðum að opna svona kertasíðu til minningar um Sverri Franz, sem eins og logandi kerti, lýsti ávallt upp sitt nánasta umhverfi.
Við hvetjum ykkur til að kveikja á kerti fyrir hann og megir þú njóta Guðs blessunnar fyrir. Slóðina getið þið fundið hér til hliðar í tenglum eða farið á http://www.gratefulness.org/candles/candles.cfm?l=eng&gi=SFG
Molinn: Betra er að tendra eitt ljós en að bölva myrkrinu. - Konfúsíus
11.9.2008 | 06:22
Erfiðleikar
Flestir sem lesa þessar hugleiðingar mínar halda örugglega að ég skrifi þær bara handa öðrum. Sannleikurinn er sá að ég skrifa þær alveg eins fyrir mig. Ég þarf jafn mikið ef ekki meira á þeim að halda og þið sem þetta lesið.
Fyrir nokkrum dögum þurfti ég að horfast í augu við erfiðleika sem fylltu mig miklum kvíða. Við þurfum ansi oft að eiga við einhverja erfiðleika eða vandamál og sum þeirra eru alls ekki ný eða koma neitt óvænt. En þetta er eitt af þeim erfiðleikum sem fá mann til að vilja breiða yfir sig sængina á morgnana.
Einhvern tímann las ég setningu sem ég hef aldrei getað gleymt.... og hún segir manni að það eru engir erfiðleikar til að vera haldin kvíða yfir. Við getum annaðhvort leyst vandamálin eða þá að það er ómögulegt að leysa þau. Minnir mann svolítið á æðruleysisbænina er það ekki?
Eftir að ég veiktist þá hef ég átt ófáar andvökunætur. En mér tókst að finna eitt gott við þær. Það er nefnilega á nóttinni sem maður hefur frið til að hugsa Og nóttin sem er nú senn að líða er engin undantekning þar á. Ég fór að hugsa um það af hverju lífið væri svona erfitt. Og þá laust niður fullt af spurningum................... Getur verið að ég sé að gera þetta allt saman erfiðara en það ætti að vera? Getur verið að ég sé að nota veikindin sem afsökun fyrir ansi mörgu? Afsökun fyrir hverju kunnið þið að spyrja ykkur, ekki satt? Hérna eru nokkur dæmi:
Afsökun til að vera fórnalamb og fá klapp á bakið og athygli fyrir dugnað og hetjuskap
Afsökun til að gera ekki hlutina af því ég er svo slöpp.
Afsökun fyrir því að hafa mig ekki til og vera bara illa útlítandi "það sést hvort eð er að ég er með bauga og..........."
Afsökun til að vera bara niðurdregin af því þetta er allt svo afskaplega erfitt og ósanngjarnt.
Svona mætti lengi telja. Þið hugsið kannski með ykkur núna "Já en hún er svo dugleg og svona". En er ég það? Jú sjálfsagt er ég það líka enda held ég að meðan maður dregur andann þá sé ekki annað hægt. En oft á tíðum hef ég grun um að þetta sé bara sýning sem ég er að halda út á við í stað þess að taka raunverulega á málinu. Ég veit það ekki, en ég gæti sem best trúað því að ansi oft sé það raunin. Og á þetta ekki við um okkur öll að við þörfnumst hvatningar þegar á reynir og gerum það sem þarf til að öðlast það.
Gefum okkur smá tíma og spáum í hvernig við högum okkur þegar vandamál ber að garði. Gefum okkur tíma til að hugsa hvort þetta sé alltaf jafn slæmt og við viljum vera láta. Eða hvort það sé ekki hreinlega komin tími til að taka hausinn út úr rassgatinu og halda áfram að lifa.
Molinn í dag er því bæn sem við höfum flest heyrt ansi oft en gleymum alltaf jafn óðum:
ÆÐRULEYSISBÆNIN.
Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt,
og vit til að greina þar á milli.
Njótið dagsins elskurnar mínar nær og fjær. Og knús frá einni sem á það til að hugsa of mikið
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 07:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
10.9.2008 | 07:26
Allt að róast.
Ég vil byrja á því að þakka öllum sem hafa litið við á þessari síðu og skilið eftir góðar kveðjur við fréttina af honum Sverri mínum.
Fréttir af fráfalli ástvinar eru aldrei auðveldar og tók Leifur fréttunum af fráfalli Sverris afar illa, og ekki laust við að hann hafi fengið vægt taugaáfall, enda 3 dauðsfallið hjá honum á þessu ári. Hann náði nú loks að sofna um síðir og vakti ég alla nóttina ef ske kynni að Leifur vaknaði og þyrfti á mér að halda.
Yndislega vinkona mín hún Sigurlín skellti svo í eina alvöru franska súkkulaðiköku og kom með hana hingað og var hérna lengi mér til aðstoðar. En húsið fylltist brátt af syrgjandi krökkum sem komu alls staðar að. Ein ofan af Akranesi og ein úr höfuðborginni. Öll höfðu þau einhverjar sögur af honum Sverri og var gaman að heyra þær. Sem betur fer grét yfirleitt bara eitt í einu því ég hef víst bara tvo handleggi. Hún Sigurlín mín hringdi síðan í prest sem kom hingað til að tala við krakkana en ég fann fljótt að hann náði bara ekki neinu sambandi og að ég væri betur til þess fallinn að hlusta á þau. Enda sagði Leifur við mig "Mamma........ þú þekkir mig og þá tala ég við þig......ég þekki þennan prest ekki shit". Og þar með var þetta útrætt. En ég vildi bara bjóða þeim upp á þennan möguleika ef þau vildu.
En hér er allt að róast þó sorgin sé enn mikil. Minningarnar um Sverri hrannast upp og ylja mann, því Sverrir var einn af gullmolunum sem prýddi þessa jörð.
Hér eru síðan smá skilaboð til Ara, bróðir Sverris, sem er að engu leyti neitt síðri eða minni maður. Því hann er svo sannarlega einnig einn af gullmolunum: Ari minn........ mundu að hús okkar og faðmur stendur þér alltaf opið og til boða, hvort sem er að nóttu eða degi. Og er það mín von að sjá þig hér fljótlega.
Molinn að þessu sinni er : Sá sem vill losna við alla sorg og söknuð yrði að kaupa það því dýra verði að elska ekkert í heiminum. - Þórunn Sívertsen
Hann Kristján minn var síðan í tölvunni minni og var að skoða hvað ég væri búin að blogga mikið. Þegar hann var búin að fletta í drykklanga stund heyrist í honum "heyrðu hvernig er þetta með þig kona....... hefur þú ekkert annað að gera á daginn?????"
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
9.9.2008 | 00:51
Sverrir Franz.
Fæddur 19 maí 1986 - Látinn 8 september 2008.
Eitt af mínum fósturbörnum er látið. Hann hét Sverrir Franz og voru hann og elstu börnin mín 2 systkinabörn. Hann var ekki fóstursonur minn í bókstaflegri merkingu, heldur átti ég alveg svakalega mikið í honum og var hann mikið hjá okkur hjónum. Hann kallaði okkur múttu og pútta, sem hann reyndar hætti að gera að mestu eftir að hann fullorðnaðist. Þeir eru margir strákarnir sem við hjónin "eigum" svona og var hann Sverrir einn af þeim.
Sverrir Franz var aðeins 22 ára gamall, en hjartað gaf sig um kvöldmatarleytið. Fyrir 2 árum síðan lenti þessi drengur í hjartastoppi kvöldið sem hann hélt upp á tvítugs afmælið sitt. Við tók erfiður tími þar sem honum var haldið sofandi í marga daga og var í framhaldinu komið fyrir í honum hjartastuðtæki. Ekki veit ég af hverju tækið fór ekki í gang eða hvort það hafi gert það en ekki dugað til. En ég hugga mig það að elsku hjartans fóstursonur minn þjáðist ekki.
Oft hringdi Sverrir í mig á laugardögum og án þess að segja hæ eða neitt svoleiðis fyrst þá kom alltaf sama spurningin og eftirfarandi símtal var alltaf eins.
Sverrir: Mútta............. hvaða dagur er í dag?
Ég: Laugardagur.
Sverrir: Og hvaða dagur er laugardagur?
Ég: Nammidagur!!!!
Sverrir: Ég er á leiðinni austur til þín.
Hann vissi hvað mér finnst súrt nammi gott og gerði hann sér þá alltaf ferð á nammibarinn í Hagkaup og keypti handa mér nammi sem hann síðan kom með.
Nú verða nammidagarnir víst ekki fleiri en minningarnar um hann mun ég ávallt eiga. Ég gæti sagt endalausar sögur um hann, uppátæki hans og Leifs og margt fleira, en ég get það ekki núna.
Ekki er langt síðan Magnús langafi hans dó og veit ég fyrir víst að hann hefur tekið vel á móti honum Sverri mínum. Einnig veit ég að ég á eftir að hitta hann aftur, en það er sannfæring mín.
Ég votta foreldrum Sverris, Gunnari og Guðnýju, Völu kærustu hans til margra ára og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð. Vonandi hættir þú ekki að hafa samband við mig elsku hjartans Vala mín og þú veist hvar mig er að finna ef þig vantar öxl eða hvað sem er.
Þó ég sé látinn
Vinir og fjölskylda | Breytt 26.9.2008 kl. 05:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
7.9.2008 | 06:37
Veðmál og lyfjaföndur - blogg á léttari nótunum.
Ég tapaði veðmáli um daginn. Ég vil taka það strax fram að ég veðja aldrei nema vera viss um að vinna!!! Málið var að ég fer venjulegast á fætur í kringum kl 5 á morgnana og í liðinni viku fór ég á fætur venju samkvæmt, nema hvað Leifur var enn vakandi. Hann fór síðan að sofa um kl 7 en átti að fara á fætur kl 11. Ég veðjaði við hann að hann gæti það aldrei. Það endaði með því að við urðum sammála um að ef hann myndi tapa þá þyrfti hann að ryksuga, skúra og þurrka af. En ef ég myndi tapa þá vildi hann fá morgunmatinn í rúmið. Til að gera langa sögu stutta, þá vaknaði drengstaulinn. Gunnar átti ekki til orð til að lýsa hneykslan sinni yfir því að ég skyldi hafa vakið Leif í stað þess að láta hann vakna sjálfur, og þannig tapað veðmálinu. Á móti veit ég að flest allar mömmur sem lesa þetta blogg og örugglega einhverjir feður líka, vita að í rauninni þá tapaði ég ekki og skilja nákvæmlega hvað ég var að gera með þessu veðmáli . Þessi aðferð breytist aldrei..... sama hversu gömul börnin eru.
Í gærmorgun var svo komið að skuldadögum. En ég mátti nú til með að fá eitthvað út úr þessu, þannig að ég færði honum cheeriosskál og lýsi í rúmið Ég vissi sem var að það kæmi svipur á mínum manni við þetta og var því tilbúin með myndavélina. Ég treysti á að hann yrði ekki nógu vel vakandi til að sjá raunverulega morgunverðabakkann sem var á kommóðunni við hliðina á mér.
~~~~~~~~~~~~~~~~~
Þar sem ég þekki karlana mína mjög vel þá vissi ég að talsvert yrði um fíflalæti hjá þeim Gunnari og Leif þegar þeir færu að föndra við lyfjaboxið mitt og var ég sko ekki svikin af því. En myndir segja oft meira en 1000 orð, þannig að hér er smá myndasería svo þið fáið nú að sjá hvað ég þarf að búa við .
Allt gert klárt
Gunnar byrjaður að svindla og kominn með 4 box af 7.
Gengið úr skugga að ekki sé um eitur að ræða.
Búið að jafna og best að byrja.
Sko Leifur.............. þetta er bara ekki rétt hjá þér.
Þú verður að vanda þig strákur. Skilurðu???
Leifur hafði betur og fékk að fylla miðvikudaginn.
Þetta gátum við. Gríðarlega ánægðir ungir menn.
Við gerum þetta svo aftur í næstu viku.
Molinn í dag á svo sannarlega við þessa tvo: Þegar myrkrið umlykur okkur senda hinar eilífu stjörnur okkur birtu sína. - Carlyle
Gunnar og Leifur: Takk fyrir að vera til og gera mér þetta allt saman svo miklu miklu auðveldara Ég elska ykkur báða undur heitt.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 07:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
6.9.2008 | 06:08
Smá update
Helga læknir hringdi í mig í gær, og átti sér stað eftirfarandi samtal:
Helga: Sæl Christine mín. Hvernig ertu í dag?
Ég: Sæl og blessuð Helga. Ég er bara fín.
Helga: Hmmmmmm þú berð þig vel er það ekki?
Ég: Ha? Jújú ég geri það
Skuggaleg þögn í smá stund
Helga: Þú veist þú mátt ekki gera þetta þegar þú talar við lækninn þinn?
BUSTED
Þarna áttaði ég mig á einu. Gæti verið að ég geti sjálfri mér um kennt að Helga "hlusti" ekki á mig? Getur ekki einmitt verið að ég er allt of gjörn á að bera mig svokallað "vel"? Getur verið að ég sé tréhaus og líti alltaf á þetta sem tuð í mér ef ég segi hvað sé að? Hvort sem um lækninn minn eða einhvern annan er að ræða? Svei mér þá ef svarið við öllum þessum spurningum er ekki bara JÁ!!
Hef einmitt tekið eftir því undanfarið að þegar gesti hefur borið að garði og það spyr mig hvernig ég hafi það, þá segi ég alltaf "ég hef það fínt" þótt útlit bendi til annars. En þá stígur elskulegur eiginmaður skref aftur á bak og hristir hausinn framan í gestina
En hvenær veit ég hvort fólki langi virkilega til að heyra um ógleði, niðurgang, verki og svoleiðis? Ég held nefnilega að fólk spyrji oft af kurteisisökum. Okok ég veit að hún Helga mín er ekki að því, en ég er að tala um vini og vandamenn. Hvernig veit ég hvað það er sem fólk hefur áhuga á að vita? Ég meina.......... ef ég segi "æ veistu....... ég hef það skítt" er fólk þá ekki hálfvegis tilneytt til þess að halda þessu samtali áfram? Stundum er það síðan líka þannig að mig langar til að hugsa og tala um eitthvað annað en veikindi mín. Nóg er nú samt að mínu mati. En svo kemur fyrir að sumir verða annaðhvort fúlir eða móðgaðir yfir því að ég segi þeim ekki eins og er. Eins og elskuleg tvíbakan mín sagði um daginn "Þarf ég að lesa bloggið þitt til að komast að því hvernig þér líður?" Hún var virkilega sár út í mig þessi elska.
Niðurstaðan úr beinþéttnimælingunni var alls ekki nógu góð. En lítum samt á björtu hliðarnar shall we............. ég er EKKI komin með beinþynningu
~~~~~~~~~~~~~~~~
Gunnar minn sagði svo við Leif að nú þyrftu þeir að fara að föndra. Þeir þyrftu að fylla lyfjaboxið mitt (ég var nefnilega bara dugleg að nota það fyrstu tvær vikurnar). "Við mætumst svo á hádegi á miðvikudag" sagði Gunnar og var hann þá að vitna í lyfjaboxið. Jesús minn.............. þvílíkar pælingar sem upphófust hjá þeim!!! Leifur komst nefnilega að þeirri niðurstöðu að bæði væri hólfið fyrir hádegisskammtinn á miðvikudeginum of lítið til að þeir gætu báðir verið að setja lyf þar, og svo væri það heldur ekki sanngjarnt gagnvart öðrum þeirra ef bara annar fengi að setja í það hólf, því þá hefði hinn ekki fengið að gera jafn mikið. Ég er ekki að grínast þegar ég segi að þetta ræddu þeir og mögulegar lausnir á því vandamáli í 15-20 mínútur!! Ég get hlegið endalaust að fíflaskapnum í þeim félögum.
Kristján er ekki síður fyndinn. En um daginn fórum við Leifur út að reykja og þegar við komum inn aftur þá er Kristján búin að slökkva á sjónvarpinu og var frekar æstur. Þá segir hann við okkur: "OK ég vil bara vara ykkur við að ef þið viljið kveikja á sjónvarpinu þá skuluð þið sko slökkva á hljóðinu. Það er nefnilega verið að sýna XXX!" Og svo roðnaði hann niður í tær. Við Leifur urðum skiljanlega nokkuð forvitin um efnið og komumst þá að því að verið var að sýna "sexual healing" á Skjá einum
Það segi ég satt að ef hláturinn lengir lífið, þá eiga þeir eftir að sjá til þess að ég verði ódauðleg!!!
Molinn: Ánægður maður er aldrei fátækur - óánægður maður er aldrei ríkur. - Ókunnur höfundur.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 06:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
5.9.2008 | 06:38
Ég setti hnefann í borðið..... eða því sem næst..... ég grét.
Við hjónin fórum af stað í bæinn í gærmorgun og vorum eins og tveir unglingar á leið í próf. Við fórum upphátt yfir allt sem við ætluðum að segja Helgu lækni og hvað við vildum nú fá út úr þessum tíma.
Rútínan byrjaði bara eins og alltaf þar sem ég var vigtuð (léttist um 1,4 kg) og blóðþrystingurinn mældur. Hann var því miður hærri en síðast og var Helga ekki ánægð þá. Það furðulega var að núna var hún ánægð . Við hjónin botnum hvorki upp né niður í þessu. En okkur er víst ekki ætlað að skilja allt. Ef svo væri þá þyrfti ég varla á lækni að halda er það?
Við vorum að minnsta kosti mjöööög ánægð að hitta Helgu aftur, því tíminn sem hún er búin að vera í burtu var allt of langur, þó hún hafi greinilega haft mjög gott af því. Allir þurfa á fríi að halda og það held ég að læknar þurfa enn meir á því að halda til að hlaða batteríin. Hún virtist í það minnsta ánægð að sjá okkur
Ég byrjaði svo að telja ofan í hana allt sem hefði farið úrskeiðis undanfarinn einn og hálfan mánuð. Þetta var svo sannarlega svartur listi, ef frá er talið að í stað þess að sofa ekki neitt, þá kemur fyrir að ég er varla með meðvitund í nokkra sólarhringa. Ég er nú bara einu sinni svona af Guði gerð gott fólk................. það er alltaf annað hvort í ökkla eða eyra hjá mér sjáið þið til
Að fyrstu fannst mér eins og hún ætlaði ekki að hlusta á okkur, því hún virtist samt vera ánægð með þetta allt saman og meðal annars það að ég skyldi hafa lést. Döhhhhhh hver myndi ekki gera það ef hann ældi í 10 daga og borðaði varla? Maður spyr sig. En burt séð frá staðreyndum, þá var hún ánægð með þetta. Hún fór að tala um að bataferillinn væri bara mislangur hjá fólki og svona fram eftir götunum. Og að það sem ég þyrfti væri sálfræðingur til þess að takast á við þunglyndið eftir svona langvarandi veikindi.
Þegar þarna var komið þá gat ég ekki meir. Ég reyndi eins og ég gat að halda aftur af tárunum, en varð að lokum að gefast upp og leyfði þeim bara að brjótast fram. Og það gerðu þau af fullum krafti. Ég fór s.s að hágráta. Minnti sjálfa mig svei mér þá, á hann Leif minn þegar búið var úr pelanum hérna í denn. Það voru einu skiptin sem barnið grét, en þá var líka eins og hann væri að bæta upp fyrir að hafa ekki grátið fyrr.
Það kom eðlilega á alla sem voru þarna inni (það voru líka 2 nemar) nema manninn minn sem skyldi mig svo vel og strauk hann á mér bakið látlaust þar til ég róaðist. En ég sagði Helgu meðan ég grét og var full af hori, að hún hreinlega hlustaði ekki á mig, að mér fyndist ég svikin, hvort að heilaæxlið þyrfti virkilega að framleiða einhver hormón til þess að það teldist ekki vera af hinu góða. Hún varð að viðurkenna að nei, það væri nefnilega ekki tilfellið. Það var eins og hún hefði bara vaknað við þetta. Hún var ekkert nema fölskvalaus samúðin og fór loksins að hlusta. Ég benti henni á að tennurnar væru að losna í mér, sjónsviðið væri að minnka, ég gæti orðið ekki einu sinni gengið skammlaust upp tröppur því vöðvaþreytan væri svo mikil og fleira í þeim dúr. Að allt væri að fara til fjandans þrátt fyrir að ég ætti að vera á svokölluðum batavegi.
Á endanum komumst við að því að það sem hefði verið að hrjá mig undanfarnar vikur væri mikill skortur á kortisóli. Æxlið sem var í nýrnahettunni offramleiddi þetta hormón, en núna s.s skortir mig það, því hin nýrnahettan vill bara undir engum kringumstæðum fara í gang og framleiða þetta. Einnig velti hún fyrir sér hvort heiladingullinn væri að rugla eitthvað (vegna áhrifa frá æxlinu) og væri þess vegna ekki að skipa nýrnahettunni til verka. Svona mikill skortur er því miður ekki betri en offramleiðsla.
Hún reyndi að svindla mér inn í heilasneiðmynd, en það var því miður ekki hægt. Þannig að það sem er núna framundan er að ég á að fara í heilasneiðmynd sem allra fyrst. Einnig á að mynda nýrun sem og kviðarhol og kanna hvort eitthvað hafi jafnvel gerst eftir aðgerðina. Allir lyfjaskammtar voru hækkaðir fyrir utan blóðþrýstingslyfin. Svo á að leggja mig inn um leið og hún fær sitt læknateymi (lok október, byrjun nóv) og það á þá að gera tilraun með að sjokkera nýrnahettuna í gang. Gunnar og Leifur skemmtu sér mikið við kvöldmatarborðið við að reyna að ímynda sér hvernig það væri gert. Ég get sagt ykkur það að fæst af þessu var með viti . Ég emjaði úr hlátri. Þeir eru svo ruglaður að það hálfa væri yfirdrifið. Þetta var s.s niðurstaðan í grófum dráttum. Verst fyrir ykkur hvað ég þurfti að tjá mig mikið áður en ég gat drattast til að segja frá niðurstöðunni . En til hvers að blogga ef maður getur ekki pústað annað slagið ha?
Hún sagði okkur síðan að ástæðan fyrir að læknar væru svona tregir til að hjálpa mér væri sú að þessi sjúkdómur væri svo fjári sjaldgæfur, að fæstir heimilislæknar vita nokkuð um hann og verða jafnvel hræddir þegar kemur að því að þurfa að eiga við svona sjúkling. Hún ætlaði í það minnsta að hringja í minn heimilislækni (Marianne) og koma henni almennilega í þessi mál. Einnig ætlaði hún að sjá til þess að Marianne gæti hringt í sig hvenær sem væri ef þyrfti og taldi nauðsynlegt að þær ynnu saman í þessu.
Síðan datt mér í hug að ástæðan fyrir þessari ánægju hjá Helgu þrátt fyrir allt væri kannski að hún væri að reyna að létta á sálinni hjá mér. Reyna að draga aðeins úr svo mér fyndist þetta ekki alveg jafn erfitt og sæi ljósið framundan. Hún sagði okkur að hún myndi ekki gefast upp og hún ætlaði sér svo sannarlega að sjá um mig þar til öllu væri lokið. Okkur fannst voðalega gott að heyra það.
Hafið góða helgi öll og munið að eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt
Molinn fyrir helgina er: Það er betra að gráta út einu sinni, heldur en að stynja stöðugt. - Málsháttur
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 07:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
3.9.2008 | 18:14
Þá er loksins komið að því.
Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, sérfræðingurinn minn er komin aftur úr fríi og á ég tíma með henni í fyrramálið. Ég verð nú að viðurkenna að mér kvíðir svolítið fyrir . Ég er samt ekki viss um hvers vegna. Ætli það sé ekki helst vegna þess að eftir aðgerðina þá sé eins og Helga hafi misst áhugann. Þó æxlið sé eftir í heiladinglinum og þó svo ég sé oft mjög slæm, þá lét hún (áður en hún fór í frí) eins og hún væri búin að lækna mig, eftir að nýrnahettan með æxlinu var fjarlægt.
Ætli ég sé ekki líka bara orðin langþreytt og geri því of miklar kröfur. Ég skal fúslega viðurkenna að ég varð fyrir hrikalegum vonbrigðum eftir aðgerðina í maí. Einhverra hluta vegna hélt ég að aðgerðin myndi virka eins og töfrasproti, s.s að mér yrði hreinlega batnað eftir hana. Síðan þegar ekkert eða fátt breyttist eftir aðgerðina, þá varð ég meira en lítið svekkt og leið kannski eins og ég hefði verið svikin. Ekkert ólíkt því og þegar við fjölskyldan fórum á Kentucky um daginn og ákvað að prufa nýjan rétt hjá þeim, þegar ég svo fékk matinn þá leit hann alls ekki út eins og myndin sagði til um, ég fékk vitlausa sósu á og svo var ekkert grænmeti á milli eins og myndin sýndi og mér var sagt. Æ þessi samlíking er alveg út í hött, en þið skiljið hvað ég á við .
Einnig er ég þreytt á að tönnlast endalaust á því sama við lækninn og síðan er bara eins og það sé ekki hlustað á mig. Guði sé lof fyrir hann Gunnar minn. Ég veit að hann sættir sig ekki við hvað sem er og mun krefjast svara. Því hann eins og ég er búin að fá nóg af þessu, þó svo að hann láti mig aldrei nokkurn tímann finna það.
Kannast þið við að vera veik og fara til læknis, sem grunar að eitthvað eitt ákveðið sé að, gerir viðkomandi próf, svo kemur í ljós að þetta er ekki það sem hann grunaði. Þá yppir hann bara öxlum og segist ekki vita hvað sé að og þið síðan send heim með frímerki á rassinum. Kannist þið við þetta? Well, þetta er einmitt málið hjá mér. Þó svo að ég sé með þetta æxli í höfðinu og fleira, þá er látið við mig eins og mér ætti að vera batnað og hefur hún meira að segja sagt við mig "ég er búin að lækna þig" þó svo að allt bendi til annars.
En ég ætla nú ekki að vera með neitt svartsýnisraus núna, því það væri nú ekki líkt mér. Ég mun láta ykkur vita hvað kemur út úr þessu. Farið vel með ykkur yndislega fólk, nær og fjær
Molin: Líf án vonar er eins og fugl án vængja. - Ernst Thälmann.
31.8.2008 | 11:00
Slepptu takinu á fortíðinni.
Sagt hefur verið að meirihluti samræðna hjá þeim sem eru fertugir og eldri séu um fortíðina. Stundum er það um "góðu gömlu dagana" og stundum er það af atvikum sem fóru illa, "ef ég hefði aðeins....." sögur, glötuð tækifæri og svoleiðis. En ég hef komist að þeirri niðurstöðu að yngra fólk er engin undantekning þar á.
Að láta syndir okkar og mistök gærdagsins stjórna hugsunum okkar í dag rænir okkur gleði dagsins í dag og framtíðarhamingju. Það veldur því að við missum af tækifærum dagsins í DAG!!!!
Til þess að taka skref fram á við í dag, verður þú að læra að kveðja særindi gærdagsins, harmleika og bagga. Þú getur ekki byggt minnisvarða fortíðarvandamála og ætlast svo til að geta haldið fram á við.
Taktu þér tíma til að gera lista yfir neikvæða atburði fortíðarinnar sem gætu enn haft tangarhald á þér. Fyrir hvern atburð sem þú setur á listann skaltu gera eftirfarandi:
1) Viðurkenndu sársaukann
2) Syrgðu missinn
3) Fyrirgefðu manneskjunni.
4) Fyrirgefðu sjálfri/sjálfum þér!!
5) Taktu meðvitaða ákvörðun um að sleppa takinu á viðkomandi atviki og haltu áfram á þinni braut.
Bestu dagarnir eru svo sannarlega framundan ef þú kemur fram við "mistökin" (eða hvað sem þú kýst að kalla það) sem nauðsynlega reynslu til að læra af. Ef þú skilur að hver reynsla hefur með sér ákveðið magn af visku, getur þú skilið hversu ríkt líf þitt er í rauninni að verða.
Margir ná ekki að upplifa velgengni drauma sinna vegna þess að þeir sleppa ekki tökin á fortíðinni og barma sér yfir því að tækifærið er runnin þeim úr greipum. Þó að eitthvað hafi valdið því að þú gast ekki látið draumana þína rætast á sínum tíma, hvað kemur í veg fyrir að þú gerir það núna? Aldur? Fjárhagur? Börn? Tími? Þetta eru bara afsakanir fyrir að gera ekki hlutina og til að leyfa sér að syrgja glötuð tækifæri. Hættu að hugsa um allt sem mögulega gæti komið upp á, eða finna upp 100 ástæður fyrir því að þú getur ekki látið drauminn rætast. Eins og ég hef sagt við börnin mín frá því þau eru pínulítil, þegar þau hafa staðið frammi fyrir ákvarðanatöku (hversu lítilmótleg sem hún kannski var og er)................ "Annað hvort sturtar þú niður eða ekki!!" Þetta er ekki flóknara en það. Auðvitað gætir þú flækt málin með því að standa fyrir framan dolluna og hugsað um hvort það væri jafnvel ekki betra að fara inn í eldhús ogfylla skál af vatni (eftir að þú ert búin að eyða tíma í að ákveða hvaða skál) og hella því niður í klósettið, en svo er spurning hvort þú þurfir þá ekki að fara margar ferðir með skálina því hún tekur ekki nægilega mikið magn af vatni og hvort það sé þá ekki betra að taka stóran pott já eða kannski fötu frekar.......... Skilurðu hvert ég er að fara með þessu? Það er endalaust hægt að flækja hlutina. Slepptu því að skapa þér mígreni yfir hlutunum og sturtaðu niður! Já eða slepptu því Notaðu síðan tímann sem hefði annars farið í vangaveltur, í annað skemmtilegra og njóttu þess að vera búin að taka meðvitaða ákvörðun.
Þessi kafli er að miklu leyti tileinkaður dóttur minni. Við lágum í rúminu hennar í morgun og vorum á trúnó. Og var þetta meðal annars eitt af því sem við töluðum um. Ég hef oft sagt þetta við hana en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Elska þig Agnes mín.
Molinn er því sérstaklega ætlaður henni. Engin siðfræðikenning getur tekið af mönnum ómakið að taka sínar eigin ákvarðanir. - Páll Skúlason.
Og eitt til þín sem lest þetta................ Mundu að það er engin betri til að elska og sem getur notið þess sem lífið hefur upp á að bjóða en einmitt þú. Aðrir í lífi þínu munu síðan njóta góðs af.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)