Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
28.8.2008 | 07:03
Sá lærir sem lifir.
Ég býst við að sem foreldri þá hættir maður aldrei að læra. Börnin mín voru sem sagt enn einu sinni að kenna mér eitthvað. Og þar sem ég vil gjarnan miðla af reynslu minni, þá langar mig til að deila þessu með ykkur. Who knows............... kannski tekst mér að forða ykkur frá þessu
Ég þori næstum því að veðja að þið séuð orðin geðveikt spennt að vita hvað gerðist. Ekki satt? En ok.... ég skal ekki draga þetta lengur.
Það sem ég lærði var að ef þú ferð að sofa á undan börnunum þínum, þá skaltu sjá til þess að hvorki séu skæri, bartskerar eða rakvélar í seilingarfjarlægð. Leyfið mér að skýra þetta nánar.
Aðfaranótt laugardags fór ég á fætur um miðja nótt eins og ég er gjörn á. Hann Leifur minn (elsta barnið) var enn vakandi og segir við mig að hann hafi tekið sig til fyrr um kvöldið og klippt bróður sinn. Okeiiiiiiiiiiiiiiii. Ég fór ekki að verða hrædd fyrr en hann segir við mig "þetta væri nokkuð flott sko ef þetta hefði verið gert á stofu"
Það var síðan með kvíðahnút í maganum sem ég beið eftir að Kristján færi á fætur. Svo kom karlinn fram. Mikið rosalega var ég fegin að Leifur skyldi vera búin að vara mig við. Guð minn góður!!!! Kristján var s.s kominn með þennan líka fína hanakamb og Leifur hafi snoðað hann stutt á hliðunum en ekki sköllóttann. Núna skemmti ég mér við að reyna að lesa út úr dulmálinu sem leynist í blettaskallanum (þetta er sko blettaskalli í lagi get ég sagt ykkur). Kristján var samt ekki viss hvort honum líkaði nýju klippinguna eða ekki. Þegar ég keyrði hann síðan í vinnuna þá spyr hann mig "mamma........ hvað heldur þú að fólkið segi í vinnunni?" Ég sagði honum blessuðum að hafa ekki áhyggjur af þessu, við myndum láta laga þetta eftir helgina.
Kristján kom svo heim úr vinnunni og skein eins og sól í heiði. Þá hafði drengurinn víst fengið svo mörg hrós fyrir hárið að allur efi var horfinn eins og dögg fyrir sólu. Og honum finnst hann vera ógurlega töff svona. Þess vegna vill hann ekki láta laga þetta . En ég reyni þá bara áfram að athuga hvort ekki sé hægt að finna út myndir eða dulmál úr blettaskallanum á stráknum .
Molinn er svolítið kaldhæðinn að þessu sinni: Ber er hver að baki nema sér bróður eigi. - Brennu-Njáls saga - Kári Sölmundarson.
Smá heilsufréttir.
Ég var svo kvalin í gær að ég sá mig tilneydda til að fara á læknavaktina. Ég hefði allt eins getað sleppt því, en það eina sem ég fékk að heyra var að það væri ekkert hægt að gera fyrir mig þar sem hún vildi ekki grípa fram fyrir hendurnar á sérfræðingnum mínum. Það var sama þó ég reyndi að segja henni að sérfræðingurinn minn væri enn í fríi og því gæti ég ekki náð sambandi við hana. Læknirinn vildi bara ekkert gera og ráðlagði mér að reyna að flýta tímanum sem ég ætti í næstu viku . Með þetta fór ég bara heim, hundsvekkt og enn kvalin. Síðan voru kvalirnar svo svakalegar í nótt að ég gat ekki annað en hringt á næturlækni. Hann sagði mér að koma upp á sjúkrahús, sem ég og gerði. Greyið stóð bara á gati eftir að hafa látið mig gera allskonar leikfimiæfingar, og var engu nær. Sögulokin urðu þau að hann sprautaði mig með morfíni og sendi mig heim aftur. Í augnablikinu er ég s.s því sem næst verkjalaus (allavega miðað við hvernig var fyrir sprauturnar). Stundum skil ég ekkert í mér að vera að eyða tímanum í að fara á vaktina. Svei mér þá. Fyrir utan þetta þá hef ég það bara nokkuð fínt. Ástandið gæti víst alltaf verið verra. Ekki satt?
Hafið það ljúft í dag elskurnar mínar og munið að njóta þess að vera til.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 07:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
20.8.2008 | 05:23
Dönsum eins og engin sé að horfa
Við sannfærum okkur sjálf að lífið verði betra eftir að við giftum okkur, eignumst börn, síðan annað barn (til að hafa ofan af fyrir fyrra barnið). Síðan pirrum við okkur yfir því að krakkarnir verði nógu gömul og erum sannfærð að við verðum betur stödd þegar að því kemur. Næst erum við örg yfir því að við þurfum að eiga unglinga, við munum svo sannarlega verða hamingjusöm þegar því skeiði er lokið. Við teljum sjálfum okkur trú um að líf okkar verði fullkomið þegar maki okkar tekur til í sínum málum, þegar við fáum betri bíl, þegar við fáum tækifæri til að fara í gott frí eða þegar við setjumst í helgan stein.
Sannleikurinn er sá að það er ekki og verður aldrei betri tími til að vera hamingjusamur en einmitt núna!! Ef ekki núna..... hvenær þá? Lífið verður alltaf fullt af áskorunum og viðfangsefnum. Það er best að viðurkenna þetta fyrir okkur sjálf strax og ákveða að vera hamingjusöm engu að síður á hverjum einasta degi.
Eitt sinn var sagt við mig "Í langan tíma fannst mér alltaf að líf mitt væri í þann mund að hefjast.... hið raunverulega líf, en alltaf var einhver hindrun í veginum. Eitthvað sem ég þurfti að eignast fyrst, einhver óútkljáð mál, mig vantaði meiri tíma til að sinna hlutunum og alltaf voru einhverjar ógreiddar skuldir. Þá loks gæti ég byrjað að lifa lífinu. Að lokum rann upp fyrir mig ljós. Þessar "hindranir" eru líf mitt." Þetta sjónarhorn hjálpar okkur að sjá að það er engin leið að hamingjunni....... hamingjan ER leiðin.
Varðveittu því og lærðu að meta hvert augnablik sem þú átt. Lærðu að meta það meira vegna þess að þú deildir því með einhverjum sérstökum, nógu sérstökum til að eyða tíma þínum með. Og mundu að tíminn bíður ekki eftir neinum.
Hættu bara að bíða eftir að þú klárir þetta eða hitt fyrst, bíða eftir að þú missir nokkur kíló, eftir að þú náir á þig nokkrum kílóum. Hættu að bíða eftir að þú eignist börn og síðan barnabörn og eftir að börnin flytji að heiman, eftir að þú byrjir að vinna, að þú hættir að vinna, að þú giftist, að þú skiljir, eftir laugardagskvöldinu, sunnudagsmorgninum. Hættu að bíða eftir nýja bílnum, eftir að þú sért búin að borga af nýja bílnum eða húsinu, eftir vetrinum, vorinu, sumrinu, haustinu. Hættu að bíða með að ákveða........... besti tíminn til að vera hamingjusamur er núna.
Hamingjan er ferðalag........... ekki ákvörðunarstaður.
Í dag er tími til að...
.... Vinna eins og þú þurfir ekki á peningnum að halda.
.... elska eins og engin hafi nokkurn tímann sært þig.
.... dansa eins og engin sé að horfa.
Molinn að þessu sinni er því: Ég get hvergi fundið hamingjuna ef ég finn hana ekki hjá sjálfum mér.Edvard Grieg.
Úfffffffffff hvar ég er eitthvað alvarlega þenkjandi þessa dagana.
17.7.2008 | 08:56
Fréttir
Eins og fram hefur komið þá kom í ljós að heilaæxlið er sem stendur ekki að gera neitt af sér. Af þessum sökum er sérfræðingurinn minn hún Helga búin að ákveða að láta það alveg vera eins og er. Enda er þetta æxli í heiladinglinum og þyrfti þá að fjarlægja heiladingulinn eins og hann leggur sig, og það er bara ekkert grín. Hún er núna að fara í frí, þannig að ef ekkert gerist í millitíðinni þá verður æxlið ekki skoðað aftur fyrr en hún kemur til baka. Annars vil ég nú meina að hún hafi verið svo fegin að finna eitthvað á milli eyrnanna á mér að hún ákvað að láta það vera . Fyrir utan þetta smáatriði þá er það að frétta að nýrnahettan sem eftir er er ekki að fatta að fríið er búið (en hún hætti að starfa meðan hin var í ofvirknikasti) og er bara alls ekki að vakna til lífsins. Þess vegna þurfti að lengja lyfjakjaftæðið. En það verður bara að hafa það. Held ég sé bara almennt seintekin að fatta og líffærin mín eru engin undantekning þar á . Þá er bara að vona að líffærin mín séu eins og ég og kveiki á perunni fyrr en síðar .
Eigið ljúfan dag elskurnar mínar.
Og þá er komið að mola dagsins: Snúðu andlitinu í átt til sólar og þá sérðu ekki skuggana. Helen Keller
5.7.2008 | 07:46
Hann er að ná mér!!
Leifur elsta barnið mitt og Sandra yndislega kærastan hans voru að setja upp hringana . Frumburðurinn er orðinn fullorðinn. Það er svo skrítið að horfa á börnin mín fullorðnast á meðan ég breytist sjálf ekki neitt . Ég var að skoða gamlar myndir af mér frá því börnin mín voru lítil og ég get svarið fyrir það að ég er bara nákvæmlega eins . Mín niðurstaða var s.s sú að þau eru að ná mér meðan ég stend í stað.
Hlutirnir gerast svo hratt. Kristján (yngsta barnið) var að enda við að láta mig vita af því að hann væri byrjaður að fá skegg, þegar Leifur segir mér tíðindin um trúlofunina!
Þau sendu mér þessa mynd í gær og ég verð að viðurkenna að það var hálf furðuleg tilfinning sem greip mig þegar ég horfði á hana og hringana sem þau eru með.
En ég er endalaust stolt af Leif. Hans unglingsár reyndust honum erfið og sannkölluð rússibanareið. En hann tók hausinn út úr rassgatinu og stóð uppréttur á endanum. Hann er sönnun þess að það er alltaf von. Það er ekki síst henni Söndru minni að þakka. Ég held reyndar að hún átti sig ekki alveg á hvernig og hversu góð áhrif hún hefur haft og hefur enn á Leif. Hennar vegna vildi hann verða betri maður, fullorðnast og byrjaði loksins að njóta lífsins. Jú þau eru ung og allt getur enn gerst. En ég hef fulla trú á Leif og Söndru. Þau eru búin að komast að því að samband er annað og meira en rómantík og eintóm hamingja. Að það snúist um gagnkvæma virðingu, samningsumleitanir og málamiðlanir ef vel á að fara. Þau eiga margt eftir ólært, en saman eru þeim allir vegir færir. Svo mikið veit ég.
Til Leifs og Söndru: Innilega til hamingju með þennan áfanga elskurnar mínar. Þið auðgið líf mitt og gerið það svo sannarlega þess virði að lifa því. Það er svo ljúft að fylgjast með ykkur og þið fyllið mig löngun og vilja til að halda áfram að berjast og gefast ekki upp, bara svo ég geti haldið áfram að fylgjast með ykkur. Þið megið treysta því að ég gefst ekki upp . Ég hlakka til að knúsa ykkur aftur.
Molin að þessu sinni er því tileinkaður þeim: Að vera elskaður sjálfs sín vegna er hámark hamingjunnar. Victor Hugo
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
1.7.2008 | 09:09
Afhverju að flækja hlutina?
Þetta minnir mig á sögu af henni Önnu Bellu.
Einu sinni þegar við tvíburasysturnar vorum í barnaskóla, þurftum við að teikna mynd. Þarna sat ég samviskusemin uppmáluð og vandaði mig mikið við að teikna fallega mynd. Á meðan var systir mín skoppandi og hoppandi um allt. Þar til pabbi spurði hana hvort hún ætlaði ekki að fara að mínu dæmi og klára sitt heimanám. Anna hélt nú ekki því hún væri sko lööööngu búin með sína mynd. Pabbi heimtaði auðvitað að fá að sjá myndina, því engin hafði séð til hennar meðan hún teiknaði. Anna lét ekki segja sér þetta tvisvar og kom til baka með blað sem hún hafði málað svart.
Pabbi: Þetta er ekki mynd Anna mín.
Anna: Júbb.................. þetta er nóttin
Það fyndnasta við þetta allt saman var að hún komst upp með þetta!!
Moli dagsins er því: Frelsi er að hlýða þeim lögum sem maður hefur sjálfur sett sér. Rousseau
Fékk einkunn fyrir tveggja blótsyrða ritgerð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.6.2008 | 07:14
Konur kaupa föt fyrir karlinn - helstu mistök
Eins og fram hefur komið, þá eigum við hjónin herrafataverslunina Blaze á Selfossi, og þar sem ég er gjörsamlega andlaus í dag en langaði samt að skrifa e-ð, þá ákvað ég að "stela" þar kafla sem ég skrifaði einhvern tímann á heimasíðu verslunarinnar í "góðum ráðum" og setja hann inn hér. Vonandi hafið þið gaman af þessu.
Ertu orðin þreytt á að tuða í eiginmanninum svo hann versli sér föt sem hann svo sannarlega þarfnast? Ferðu að versla á hann upp á þitt einsdæmi í von og óvon um að hann verðlauni þig einungis með því að neita að ganga í fötunum? Nógu erfitt er nú samt að finna réttu fötin (meira að segja fyrir konur). Þegar verslað er á karlana í þínu lífi, hvort heldur er eiginmaður, kærasti eða sonur, þá bætir mótspyrna þeirra aðeins við vandamálið.
Mistök #1
Að versla á hann án þess að vita hvað hann vantar, og eiga þá á hættu að eiga þá tvennt af því sama og eyða þar með í óþarfa.
Lausn: Hjálpaðu honum að sjá mikilvægi þess að vera með skipulagðan fataskáp. Gefið ykkur tíma til að fara yfir fataskápinn hans áður en þið svo mikið sem íhugið skoðunarleiðangur í verslanir. Ég get lofað því að þið eigið bæði eftir að finna nokkrar flíkur sem hann annað hvort passar ekki lengur í eða hefur ekki lengur smekk fyrir.
Að klikka á því að kanna hvað það er sem honum líkar og líkar ekki við.
Lausn: Falastu eftir áliti hans á því hvað honum líkar og hvað ekki. Hvað hann myndi eða myndi ekki klæðast, og hagaðu síðan vali á fatnaðinum eftir þessum upplýsingum. Sumir karlmenn vilja skera sig út í útliti. Í hans tilfelli hefði hann t.d gaman af því að finna stællega slaufu.
Mistök #3
Að henda sér út í djúpu laugina án þess að kanna vatnið fyrst, sem gerir þig óöruggari og draga úr möguleikunum að fá sem mest fyrir peningana.
Lausn: Láttu þér líða vel í heim karlmannsfatnaðar áður en þú hættir þér í leiðangur með honum. Einföld leið til þess er að skoða nokkrar verslanir ein.
Mistök #4
Að velja liti á hann sem fara þér vel.
Mistök #5
Að gleyma því að þetta sé hans verslunarferð ekki þín.
Lausn: Áður en þið farið út úr húsi, þá skulið þið ræða hvað það er sem þið hyggist ætla að versla, hvar og hversu langan tíma þetta gæti hugsanlega tekið.
Gangi þér vel.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 07:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.6.2008 | 06:56
Fyrirmynd mín hann pabbi og börnin mín
Hann elsku pabbi minn á afmæli í dag. Þessi elska er með þvílíkt jafnaðargeð og er svo rólegur að það hálfa væri allt of mikill hægagangur fyrir mig. Það er stundum talað um að blóðið hreyfist ekki í fólki........... well hjá honum er staðreyndin sú að hann er svo rólegur að blóðið bakkar! Hann reyndar fyllir flokki Tuðilíusa ásamt elskunni minni hann Gunnar. En ég segi þetta kannski bara vegna þess að ég er svo hrikalega ofvirk og mikill tuðari sjálf, að ég yrði líklega bara að deyja úr einsemd ef ég myndi ekki sópa saman fólki í þessum flokki með mér. But who am I to tell . Pabbi minn er búsettur í Stykkishólmi og sé ég hann því allt of sjaldan sem er miður, því hann er með skemmtilegri mönnum sem ég þekki og fróðleiksmoli í gegn, og með hjarta úr hreinu gulli. Til hamingju með daginn elsku pabbi minn
Ég má síðan til með að deila með ykkur smásögu af strákunum mínum Óla og Valda sem mér finnst frekar fyndin. En við fórum í gærkvöldi í bústað til Gunnars míns hins og Huldu vinkonu og á heimleiðinni hljóp einhver fjandans púki í Valda sem ákvað að reyna af fremsta megna að pirra bróður sinn með því að tala endalaust. Því fór af stað sagan endalausa og hef ég aldrei fyrr á ævinni heyrt aðra eins vitleysu (enda skiptu staðreyndir þar engu máli). Meðal annars þá stökk hann upp, upp, upp (orðið endurtekið minnst 20 x) í geiminn og hrapaði þaðan niður í Suðurskautið og svona fram eftir götunum. Óli sat þarna pollrólegur og horfði bara út um gluggann og sagði ekki orð. Greinilega ákveðinn í að láta Valda ekki takast áætlunarverk sitt. Það endaði með því að okkur hjónunum þótti orðið nóg um (eftir 20 mín langa "sögu") og stoppuðum söguna. En þá heyrist eftirfarandi:
Valdi: Þetta var reyndar leiðinleg saga, en góð fyrir litla krakka þar sem þau myndu bara sofna úr leiðindum.
Óli: Ó nei góði minn, ég get nefnilega sagt þér það að þau væru lööööngu búin að drepa þig!!
En þessar elskur eru svo sannarlega með hjarta úr gulli líka. Þannig var nefnilega um daginn að ég var að setja í þvottavél, sem er ekki í frásögu færandi, nema hvað þegar ég er að fara að stinga buxum af Valda í vélina þá finn ég farsímann hans í vasanum. Ég kallaði á hann og sagði honum að hann yrði nú að fara í gegnum vasana áður en hann setti fötin sín í körfuna. Síðan sagði ég börnunum að ef ég fyndi pening í vösunum hjá þeim við þvottaiðju mína að þá myndi ég hirða þá og setja í sparibaukinn sem ég er með inn í þvottahúsi, og fyrir þann pening myndi ég á endanum kaupa eitthvað fallegt handa mér. Þá heyrist í Valda eftir að hafa fengið að sjá baukinn minn "þá er víst best að fara að skilja einhverjar krónur eftir í vösunum" og var Kristján honum innilega sammála með það. Er hægt að biðja um meira þegar maður á svona börn?
Eigið þið ljúfan dag elskurnar mínar.
Ekki get ég svo klikkað á mola dagsins! En hann er að þessu sinni svohljóðandi: Ást verður til að fegra athafnir fjölskyldunnar.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 07:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.6.2008 | 07:04
Skilningur
Ég hef undanfarið verið að lesa bókina Kona fer til læknis eftir Ray Kluun. Og ég verð að segja eins og er að hún hefur hjálpað mér mikið þó svo að um skáldskap sé að ræða. Bókin er um eiginmann konu sem fer til læknis og greinist með krabbamein í brjósti sem svo síðar breiðist út, um tilfinningar hans, framhjáhald og baráttu.
"Hvernig getur svona bók hjálpa Tínu?" kunnið þið að spyrja ykkur núna. Jú hún hefur hjálpað mér að skilja hann Gunnar minn örlítið betur. Við sem eigum í veikindabaráttu eigum erfitt og oft á tíðum ansi bágt, satt er það. En fyrst ég er á annað borð að segja ykkur skoðun mína, þá held ég að svona barátta sé makanum sem og aðstandendum erfiðari þó á annan hátt sé. Makinn vill nefnilega oft gleymast í svona og fellur hálfpartinn í skugganum. Sjaldan (ef nokkurn tímann) er hann spurður hvernig honum líði. Meðan barátta sjúklingsins er aðallega líkamleg þá er barátta makans andleg og öllu erfiðari viðureignar, því það er í raun ætlast til þess að hann sé kletturinn sem ekkert bjátar á. Það er jú ekki hann sem finnur til eða er veikur.
T.d á ég það allt of oft til að setja upp leikþátt þegar ég hitti fólk (er orðin ansi góð í því). Set upp "mér líður bara vel" grímu en Gunnar veit betur og skilur ekkert í því af hverju ég geri þetta. Hvernig get ég líka ætlast til þess þegar ég skil það ekki sjálf. Hann er í rauninni sá eini sem veit hvernig mér líður í raun og veru. Hann veit hvernig úr mér er allur vindur eftir svona leikþátt. Sama er þegar ég fer af stað á fullu í að gera og græja og læt sem ég heyri ekki líkamann kvarta hástöfum. Hann reynir að stoppa mig en ég hlusta ekki. Ég er komin í einhvern "ég skal geta þetta" frekju og þrjóskugír. Síðan er það hann sem neyðist til þess að horfa bjargarlaus á afleiðingarnar. Það lendir þá á elskunni minni að reyna eftir fremsta megni að bæta líðan mína, þó ég hafi vitað mætavel sjálf hvernig færi og er þá alfarið sjálfri mér að kenna. Það er hann sem lendir í að stappa í mig stálinu þegar mig langar að gefast upp, þó að ekki veitti af að einhver stappaði stálinu í hann.
Hann verður stundum jafnvel reiður við mig fyrir að hafa gert ákveðna hluti vitandi hvernig fer. En þá finnst mér hann skilningssljór og jafnvel vondur við mig. Ekki bað ég um að vera veik! Hvernig vogar hann sér að vera með leiðindi við mig? Sér maðurinn ekki að ég vil ekki vera eins og aumingi, sívælandi og kvartandi? Og svona held ég áfram hálfgerðri píslarvættisframkomu í sjálfselsku minni án þess að leiða hugann í eina sekúndu að honum og hvernig honum líður. Ég get í það minnsta tekið pillu eða eitthvað, en hvað getur hann gert annað en horft á, þegar hann vildi helst af öllu sveifla töfrasprota og "púff" allt er komið í lag? Nákvæmlega EKKERT.
En af hverju er ég að segja ykkur þetta? Jú vegna þess að mig langar að biðja ykkur að sýna aðstandendum smá athygli ef þið þekkið til svona aðstæðna. Ég held að makinn verði allt of oft svakalega einmana í svona ferlum, því það er sjúklingurinn sem fær alla athyglina meðan honum er hálfpartinn ýtt til hliðar, en samt er ætlast til alls af honum. Fyrir alls ekki svo löngu síðan þá sagði ég við Gunnar "mér finnst þú eitthvað svo einn". Hann horfði á mig stutta stund og sagði svo "það er vegna þess að ég er það". Úfff hvað mig langaði þá að eiga svona töfrasprota.
Þessi bók gerði nú engin kraftaverk á frekjunni ég og fékk mig ekki til þess að hætta að láta svona, allavega ekki ennþá, en ég er að vinna í því. Hún aftur á móti fékk mig til að staldra fyrr við, hugsa aðeins um Gunnar og hvað ég er að gera. En til að forðast allan misskilning þá vil ég taka fram að ég er ekki með brjóstakrabbamein og Gunnar er ekki hlaupandi út um allt haldandi framhjá. Bara svo það sé á hreinu.
Til hinna sem eru sjúklingar eins og ég langar mig aðeins að segja eitt. Munum að virða og þakka okkar nánustu fyrir það sem þau gera og ganga í gegnum. Gefum okkur smá tíma til að taka eftir því hvernig þeim líður.
Elskið lífið, ykkur sjálf og náungann. Það er vel þess virði.
Moli dagsins er því þessi: Sá er vinur sem í raun reynist.
Gunnar minn: Takk ástin mín......... ég er vegna þín.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 07:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
21.6.2008 | 06:19
Móðir?
Hér sit ég og hugsa um börnin mín 5 og hugsa um það hvað í ósköpunum fær foreldri til að meiða barnið sitt, Hvað þá viljandi og á svo hrottalegan hátt. Það vona ég að þessi drengur og hin börnin sem svona er ástatt um, fái góða hjálp og jafni sig á sálinni. Nú þegar heyrist of mikið af svona fréttum um misnotkun á börnum, við getum rétt ímyndað okkur hversu margar sögur við heyrum ekki af. Notum tækifærið og knúsum okkar eigin börn aðeins meira. Aldrei hægt að gera of mikið af því held ég.
Hér er svo moli dagsins: Gerðu ætíð það sem rétt er. Það gleður einhvern og verður öllum hinum undrunarefni.
Móðir misþyrmdi fimm ára syni sínum skelfilega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.6.2008 | 08:06
Hverjar eru líkurnar?
Ég er þessa vikurnar í lyfjameðferð og uppgötvaði mér til mikillar hrellingar í gær að af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þá var ég búin með þau lyf sem reynast mér lífsnauðsynleg og væri ekki einu sinni með lyf fyrir kvöldið. Ég hringdi að sjálfsögðu í ofboði suður svo hægt væri að bjarga þessu. Vandamálið er að þetta er ekki lyf sem þú bara stekkur út í apótek og kaupir. Þetta er svokallað undanþágulyf og bara lyfseðillinn er A4 blað í þríriti, og verður Tryggingastofnun (ef ég man rétt) að samþykkja þetta og svona fram eftir götunum. Vegna einhverra mistaka hafði ég s.s ekki fengið nóg af þeim. Skil ekki enn hvernig þetta gat gerst og afhverju ég fattaði þetta ekki fyrr. Þessi lyf eru einnig ófáanleg á sjúkrahúsinu hér á Selfossi.
En þá komum við að kjarna málsins. Ég er með 2 sérfræðinga, 1 skurðlækni og 1 heimilislækni á mínum snærum, ef svo má að orði komast, OG ÞAU ERU ÖLL Í FRÍI Á SAMA TÍMA !! Hverjar eru líkurnar á að svoleiðis gerist? Fúslega skal ég viðurkenna að ég panikeraði , en sko bara smá, ég tók ekki dramadrottninguna á þetta, bara svo það sé á hreinu. Málið er að án þessara lyfja þá er, tja......... segjum þetta bara pent og rétt.......fjandinn laus og ég spítalamatur med det samme. Nú voru góð ráð dýr.
Það fór því allur dagurinn í þetta hjá mér. Með dyggilegri aðstoð lyfjafræðings hér á Selfossi (en mig minnir að hann heiti Aðalsteinn) þá tókst að bjarga þessu korteri fyrir lokun. Grínlaust. Ég þurfti að fara hérna á læknavaktina þar sem ég beið í tæpa 2 tíma eftir að komast að, en á meðan var lyfjafræðingurinn búin að hringja á undan mér í vaktlækni og finna leið til að komast "framhjá" öllu þessu undanþágurugli til bráðabirgða. En þetta bjargaðist og það er fyrir öllu. Við þetta var bara úr mér allur vindur og ég eins og sprungin blaðra á eftir. En allt er gott sem endar vel. Við skulum sko alls ekki gera lítið úr því.
Mér varð s.s ekki mikið úr verki í gær á heimilinu og gerði næsta lítið annað en þetta. En það stendur nú til bóta í dag. Það er að vísu farið að draga talsvert úr orkunni hjá mér, en bætist því meira í hjá hinum. Þrællinn hans Sigga komst því miður ekki, en Siggi og Marta komu í drullugallanum og til í slaginn eins og fyrri daginn þessar elskur. Við byrjuðum frekar seint í gærkvöldi og gerðum þess vegna ekki mikið. Við hjónin ætlum að reyna að vera svolítið dugleg í dag. Ég vil nefnilega klára þetta í síðasta lagi á morgun, vegna þess að á fimmtudagsmorgun munu 2 hörkuduglegar konur frá heimilishjálpinni koma og þrífa, og finnst mér það frekar ömurlegt ef ég get í fyrsta lagi ekki nýtt mér þetta vegna þess að það er enn allt í framkvæmdarúst, eða vegna þess að það á allt eftir að fara í rúst aftur þegar þær eru farnar.
Annars er ég búin að setja inn nýtt albúm undir myndirnar af framkvæmdunum. Endilega fylgist þið með þar ef þið viljið. Reyni að muna eftir því að taka svona "fyrir og eftir" myndir.
Utanlandsfarinn minn er að koma heim á eftir og ég er bara að bíða eftir að geta sótt hann. Jú víst var nú gott að fá smá frí frá honum, en betra finnst mér að fá hann heim. Ég hlakka bæði til og kvíði að heyra allar sögurnar sem hann á eftir að segja mér. Hann getur nefnilega verið eins og útvarpsstöð þegar hann byrjar að tala þessi elska, s.s óstöðvandi. Alveg eins og systir hans.
Hér er svo moli dagsins hunangshrúgurnar mínar og gleðilegan 17 Júní .
Hver sem þú ert og hvar sem þú ert, þú hefur alltaf rangt fyrir þér ef þú ert dónalegur.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 08:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)