Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Mikið gaman - mikið fjör, og lífið heldur áfram.

Tryggingafélagið gerði upp við okkur í fyrradag og hófst þar með hin eina og sanna "enduruppbygging". Við hjónin byrjuðum á því að gera lista yfir því sem lægi á að endurnýja og forgangsraða og af nógu er að taka.

Almáttugur hvað borðstofuhúsgögn eru dýr!! Við ákváðum þess vegna að sörfa bara netið og leita okkur að notuðum húsgögnum í borðstofuna. Þegar ég var orðin rangeygð af tölvunotkun og uppiskroppa með leitarsíður, og hreinlega ekki að nenna þessu, haldið þið ekki að það poppi ekki bara upp þetta fínasta sett. Ég hefði ekki getað orðið glaðari þó að húsgögnin hefðu bara birst hérna í borðstofunni og raðað sér upp sjálf. Oki oki, ég segi það kannski ekki alveg, en ég var ansi nálægt því Cool. Núna er þetta frá og allt hitt eftir.

 

Siggi_3Siggi svili minn er búin að vera á Dale Carnegie námskeiði og var síðasti tíminn í gærkvöldi. Nemendum var boðið að taka með sér gest í útskriftina, og bauð Siggi mig með sér. Hver einasti nemandi var kallaður upp einn í einu og var sá hin sami beðinn að halda örstutta ræðu um notagildi námskeiðsins, hvað þau hefðu fengið út úr því og framtíðarsýn. Hér á myndinni sjáið þið hann Sigga halda sína ræðu. Margt merkilegt fólk var þarna á ferðinni og var virkilega gaman að heyra hvernig þau hefðu lært að setja sér markmið og fylgja þeim eftir. Ég hef í það minnsta séð stórkostulega breytingu á honum Sigga. Hann er allur miklu jákvæðari og léttari en áður en hann fór á þetta námskeið.

 

 

Einn hafði gengið með þann draum í maganum í nokkur ár að búa til ákveðna heimasíðu en alltaf hummað það fram af sér. Hann lét loksins verða af því og má ég til með að benda ykkur á hana www.tilvitnun.is . Ég er ofsalega tilvitnanaglöð kona og skrifa t.d alltaf tilvitnun eða málshátt í hvert einasta jólakort, og það fá engir 2 eins kort. Þannig að ég hef alltaf setið hérna með stafla af bókum í nokkra daga til að finna það sem ég vil skrifa í þessi blessuðu kort. Finnst mér því þessi síða vera enn ein guðs gjöfin (hin var settið) fagna henni gríðarlega og er ég alveg klár á því að ég eigi eftir að nota þessa síðu mikið.

Á meðan fór Gunnar minn með yngsta barninu okkar honum Valdimar í bíó og sáu þeir myndina "The incredible Hulk". Skildist mér á þeim að það hefði bara verið ógó gaman.

Í dag ætla ég svo að halda áfram að versla, sem er ljúfsár skemmtun. Öllu má nefnilega ofgera og þetta er svo svakalega mikið sem þarf að versla maður minn. Ég þarf að hringja í hana Gunnu mína í Gunnubúð (IKEA) og blikka hana smá til að aðstoða mig og flýta fyrir mér. Þannig að ef þú lest þetta elsku vinkona þá áttu s.s von á símtali og eins gott að þú sért ekki í kaffi á meðan Police

Að lokum er hér moli dagsins: Ekkert er betra en hvatning góðs vinar.


Utanlandsfarinn minn

Hann Kristján minn fór kokhraustur og stoltur í sinni fyrstu ferð einn til útlanda. Þegar ég segi einn þá á ég við að hann ferðaðist einn, en fór til að hitta uppáhalds frænku sína hana systur mína. Eftir að eiginmaðurinn fór af stað með hann út á völl, þá vissi ég að ég yrði ekki í rónni fyrr en ég væri búin að fá símtal um að hann væri lentur í fanginu á Önnu. Ég gat bara ekki beðið eftir að heyra í honum.

Ég þurfti nú samt ekki að bíða lengi. Fljótlega hringdi nefnilega gemsinn hjá mér og var það Kristján að hringja. "SHIT" hugsaði ég með mér. Það er bara allt komið strax til fjandans. Ekkert smá svartsýn. En nei nei, það var sko ekkert vandamál á ferð, því um leið og ég svara segir hann "halló elsku mamma mín...... ég er hérna staddur í fríhöfninni...... hvað viltu nú að ég kaupi handa þér?" Greinilega veraldarvanur heimshornaflakkari þar á ferð!

Mér létti svo mikið að ég skellihló bara og langaði mikið að segja "karton af sígarettum og kippu af bjór takk". En lét það nú vera. Ég bað hann að bíða með að versla nokkuð þar til hann væri kominn til Spánar. Hjartagullið mitt er nefnilega þannig af guði gerður (já og mér og pabba hans) að hann langar alltaf að gleðja alla í kringum sig, og er snöggur að eyða peningum sínum í allskonar gjafir fyrir fólkið sitt, en gleymir svo sjálfum sér þar til hann allt í einu áttar sig á að hann á ekkert eftir til að eyða í sjálfum sér.

En til að gera langa ferðasögu stutta þá fann hann frænku sína þegar hann var kominn út og allt gekk að óskum. Ég á örugglega eftir að fá nánari ferðalýsingu þegar hann kemur heim aftur.

Hann hringdi síðan í mig í gærkvöldi þegar hann átti að fara að sofa og var með heimþrá þessi elska. Ég spurði hann þá hvort hann skemmti sér ekki vel. Ekkert lítið sem hann móðgaðist við þá spurningu "maður getur nú saknað mömmu sinnar þó maður skemmti sér! Svo langaði mig bara að heyra röddina þína" Whistling

"En þetta er skrítið land mamma mín, hér er nefnilega ekki hægt að drekka vatnið því það er ógeð vont og svo er sundlaugin skítköld. Hafa þeir aldrei heyrt um heita potta????"

En hann var annars voðalega spenntur fyrir deginum í dag því hann er að fara á einhvern markað núna í morgunsárið, sem systir mín segir að sé algjört æði. En ef ég skildi hann rétt þá er hann líka að fara að keppa í Gocart (veit ekkert hvernig þetta er skrifað) við hann Arnþór sem er maður systur minnar. "Sko mamma....... Arnþór sagðist vera miklu betri en ég í þessu, en hann getur ekki bara sagt svona án þess að sanna það. Og ég ætla sko að vinna hann". Það verður fróðlegt að vita hvernig þessi viðureign fer.

Sonur Arnþórs er 4 ára trítill sem heitir Henrý Máni, og er Kristján stundum að passa hann. Í íbúðinni við hliðina á þeirri sem Anna systir er í, búa þessa stundina 2 systur á aldri við mig og á önnur þeirra 5 ára son. Systir mín og Arnþór þekkja þær stöllur orðið nokkuð vel og fara gjarnan í heimsókn yfir til þeirra. Kristján gerði sér lítið fyrir og fór til systranna og spurði þær hvort hann ætti ekki að gera þeim greiða. "tja.... það fer auðvitað eftir greiðanum" sagði önnur konan. "Sko á ég ekki bara að passa litla strákinn fyrir ykkur? Ég er hvort eð er að passa þennan" og nikkaði í áttina að Henrý Mána. Að lokum spurði Kristján "á svo ekki að skella sér í laugina stelpur?" LoL.

Svo tók hann eftir því að önnur konan sat þarna berbrjósta í sólbaði, horfði á hana í smástund og sagði svo "þú ert ekkert spéhrædd er það!" Og var þetta staðhæfing frekar en spurning Grin 

Ég hlakka mikið til að heyra frá honum aftur og bíð ég spennt eftir að fá mynd af stráknum mínum, sem ég mun setja hingað inn við fyrsta tækifæri. Ég sakna hans sárt og finnst bæði skrítið og erfitt að hafa hann ekki hérna hjá mér. En mikið svakalega vona ég að hann skemmti sér nú vel þarna úti, því það er akkúrat það sem hann þarf núna og á innilega skilið.

Hér er svo moli dagsins elskurnar mínar "Gerðu það sem þú getur, með því sem þú hefur, þar sem þú ert"  Theodore Roosevelt


Tveir afmælisstrákar.

Elskulegur eiginmaður minn á afmæli í dag og er því orðinn fullra 34 vetra. Út af öllu sem hefur gengið á undanfarið, þá hef ég ekki komist í að undirbúa eða gera neitt fyrir þetta tilefni Frown. En við skulum líta á björtu hliðarnar gott fólk (en þið munið að það er alltaf hægt)....... hann verður 34 ára í heilt ár. Þannig að ég hef enn tíma til að finna upp á einhverju. Þessi drengur er traustari en nokkur klettur, samviskusamur úr hófi fram, fyndinn, tuðari af guðs náð (við köllum hann stundum Tuðilíus) en umfram allt er hann besti eiginmaður sem nokkur kona getur óskað sér. Auðvitað er hann langt frá því að vera fullkominn, guði sé lof fyrir það. Það held ég að fullkomið fólk hljóti að vera leiðinlegt.

Kannist þið við það að langa stundum að segja einhverjum nákomnum hversu "innilega" vænt ykkur þykir um viðkomandi en finna samt ekki nægilega sterk orð, sérstaklega án þess að það hljómi eins og klisja? Þannig er ansi oft komið fyrir mér þegar ég horfi á eiginmann minn og það sterkasta sem ég gat fundið og komst næst því að lýsa mínum tilfinningum, var að ég er yfirmáta stolt yfir því að Gunnar er maðurinn sem ég fæ að deila skugga með.

En eins og fyrirsögnin gefur til kynna þá eru afmælisstrákarnir 2. Hinn strákurinn átti afmæli 3 júní. Það vill svo til að hitt ammlisbarnið heitir LÍKA Gunnar og býr hér á móti okkur, en til aðgreiningar þá kalla ég hann "Gunnar minn hinn". Hann er maðurinn hennar Huldu vinkonu minnar og besti nágranni sem hægt er að óska sér. Alltaf sérlega bóngóður og allur af vilja gerður til að aðstoða mann ef það er í hans valdi, létta manni lundina og ávallt áhugasamur um manns hagi. Gunnarnir 2, eru tveir af sama meiði. Einu atriðin sem aðskilur þá tvo eru nokkur ár + 1 vika, og útlitið. Þegar þeir tveir fara af stað í gríninu þá er fátt sem getur bjargað manni frá sárum magaverkjum daginn eftir. Það sem þeim getur dottið í hug (og þá sérstaklega Gunnar minn hinn) og veltur upp úr þeim, er oft á tíðum með hreinum ólíkindum. Þeir eru miklir veiðifélagar, fótbolta og formúluáhugamenn. Það eina sem þeir eru reyndar sammála um þegar kemur að áhugamálunum er veiðin. En það er stundum bara því skemmtilegra að hlusta á þá 2 þrasa um hin áhugamálin sín LoL.

Tveir af sama meiði

Gunnar minn til vinstri og Gunnar minn hinn til hægri, í einni veiðiferðinni. Do I need to say more people???

 (Þar sem ég var auðvitað búin að knúsa Gunna minn hinn á hans afmælisdegi þá er eftirfarandi kveðja eingöngu ætluð Gunnari mínum. (hinn væri nefnilega vís með að snúa út úr þessu sjáið þið til)
Til hamingju með afmælið ástin mín.
P.s Bíð spennt eftir að utanlandsfarinn minn (sjá síðustu færslu) vakni svo ég geti nú fengið að heyra aðeins í honum, en ég sakna hans gríðarlega sárt. Ferðin gekk framúrskarandi vel hjá stráknum mínum. Ég mun svo segja ykkur betur frá því þegar ég er búin að heyra í honum.
Kramkveðjur í bili

 


Verða börnin okkar ekki alltaf "litlu" börnin okkar?

ÖSSSSSSS ég held að ég sé að gera "litla" barnið mitt vitlaust þessa stundina. Held hann sé alvarlega að íhuga að setja inn smáauglýsingu í öllum blöðum landsins sem myndi hljóma einhvern veginn svona "Óska eftir því að vera tekinn til ættleiðingar á gott heimili gegn því að vera sóttur. Taugaveiklaðar mömmur vinsamlegast afþakkaðar!"

UtanlandsfarinnÁstæðan fyrir öllum þessum látum, er að strákurinn minn hann Kristján er að fara í fyrsta skipti einn til útlanda í dag. Hann er nánar tiltekið að fara til Spánar til tvíburasystur minnar og verður hjá henni í viku. Þannig að ég er búin að vera með endalausa fyrirlestra um hvað hann eigi að gera, hvenær og hvernig. Síðan fylgir fast á eftir hverju hann eigi að varast í hinum stórvarhugaverða heimi, og svona tuða ég nú endalaust. En hann er nú ósköp þolinmóður við mig þessi elska og held ég að hann sé farinn að dauðvorkenna mér frekar en hitt. Elskulegi eiginmaðurinn minn ætlar að kanna í innritunarröðinni hvort hann finni ekki þar einhverja góðviljaða konu/fjölskyldu sem getur haft auga með honum. Ég efa að það verði mikið mál. Allavega þætti mér alveg sjálfsagt að gera það ef ég yrði spurð, en það er auðvitað ekki víst að allir hugsi þannig. Eins og þið sjáið á myndinni þá er hann ekkert svo lítill lengur enda orðinn 15 ára. En hann er og verður SAMT alltaf litla barnið mitt. 

Síðan bættist við nýr fjölskyldumeðlimur á heimilið í gær. Hún heitir Lukka og er 8 vikna gömul tík. LukkaFyrir eigum við eina labrador tík og einn kött. Mín skoðun er bara sú að aldrei er til nóg af börnum eða dýrum. Einnig er ég búin að bæta við myndum af strákunum mínum síðan úr sumarbústaðarferðinni, en það voru bara 2 erfingjar af 5 sem komu þangað með okkur. Svo eru líka nokkrar myndir af tíkunum Sif og Lukku.

 

 

 

Hér er síðan moli dagsins hungangshrúgurnar mínar: Allt sem þarf til að finnast hamingjan vera hér og nú er einlægt og nægjusamt hjarta.

 

 


Selfossflakkari með meiru

Usssssssss ég held svei mér að ég hafi aldrei verið eins dugleg að heimsækja fólk á einum og sama deginum síðan ég flutti hingað á Selfoss fyrir 5 1/2 ári síðan!!

Málið er að í dag ákvað ég að vera suddalega dugleg og taka þvottahúsið (var ekki enn búin að því) í gegn eftir skjálftann. En þar leyndist líka þessi svakalegi stafli af þvotti sem þurfti að þvo. Bæði var óhreinn þvottur þarna fyrir, svo helltist sykur, hveiti og so videre yfir hreina þvottinn (en ekki hvað) og svo gerði ég þau alverstu mistök sem þreytt húsmóðir getur gert........... ég skipaði erfingjunum um daginn að taka til inni hjá sér Errm og þá fyrst fylltist þvottakarfan skal ég segja ykkur. En okeiiii þarna vandaðist málið. Þvottavélin mín er nefnilega ónýt eftir skjálftann. Einnig var bara allt of mikil rigning til að nenna niður að á og þvo upp á gamla mátann, en ég fullvissa ykkur um það að þetta hafði sko ekkert með leti að gera. Ég vil nefnilega meina það að ég skrepp saman í rigningu. Svoleiðis að nú voru góð ráð dýr. En Tína deyr ekki ráðalaus. Ég ákvað s.s að fara í heimsóknir færandi hendi Grin

Fyrst fór ég með þvott til hennar Huldu minnar sem býr hérna á móti. Þaðan fór ég svo (með þvott) og heimsótti elsku mágkonu mína hana Margréti. En á meðan vélin var að þvo hjá henni þá bakaði litli frændi vöfflur ofan í liðið. Ekkert lítið efnilegur strákurinn. Í staðinn hótaði ég þeim því að ég myndi með þessu áframhaldi flytja til þeirra, því síðast þegar ég heimsótti þau, sem var daginn eftir skjálftann, þá fékk ég þessa líka dýrindis máltið. Gæti sko alveg vanist þessu. Skellti svo aftur í aðra vél hjá henni áður en ég fór og fékk svo heimsendingarþjónustu á tauinu seinna um kvöldið. Talandi um service. Þetta, elsku krúslurnar mínar, kalla ég sjálfsbjargarviðleitni.

En ekki var ég samt búin með heimsóknirnar. Það kom nefnilega í ljós að ekki væri hægt að verðmeta skenkinn minn út frá myndinni sem ég setti hérna í annari færslu, því til þess var hann of mikið skemmdur. Þá var 2 erfingjum af 5 skellt í sófann umkringdir myndaalbúmum í leit að mynd þar sem skenkurinn sæist nú almennilega. UREKA við fundum 2!! Þá var fátt annað eftir en að koma þeim yfir í tölvutækt form. En shit....... skanninn eyðilagðist líka. Frúin hljóp þá aftur yfir til hennar Huldu sinnar, fékk svo að blikka son hennar (sem er svona tölvukall) og plataði hann illilega til að skanna þetta nú inn fyrir mig. Og ekki var hann nú lengi að redda þessu.

Núna er ég búin að setja þessar myndir í albúm hér á síðunni og skrifa þessa bloggfærslu. Hinir 2 fyrrnefndu erfingjar voru að spila guitar hero hér við hliðina á mér á full blast og ekki nóg með það, heldur spiluðu þeir sama lagið aftur og aftur og aftur. Það endaði með að ég fór nú aðeins að tuða yfir þessu og líka yfir því hversu hátt stillt þetta nú væri hjá þeim. En þá segir Kristján "þetta er bara svo afslappandi mamma". Ég gat nú ekki annað en furðað mig á þessari fullyrðingu en fékk fljótlega skýringu frá sama spekingnum "mamma mín........ þú ert kona! EF þú værir karl, þá myndir þú skilja þetta" Og þar hafið þið það. Að ég skyldi ekki fatta þetta sjálf Pinch

Og þá er komið að mola dagsins: Lífið er þeim fullt af stórum stundum sem kunna að umgangast smáar stundir. Sigrid Undset   

 


Það finnast bjartar hliðar á ÖLLUM málum.

Meira að segja á jarðskjálftamálum. Jújú stundum neyðumst við kannski til að finna bjánalegan flöt á sumum málum, en þetta verður þá bara í versta falli fyndið en dreifir huganum. Auðvitað missti ég mikið í jarðskjálftanum sem reið hérna yfir í síðustu viku, en meðan að húsið mitt lítur ekki út eins og eftirfarandi mynd, þá dettur mér ekki til hugar að kvarta. Það sluppu allir lifandi og að mínu mati er varla hægt að biðja um meira.

Hrunið hús

Við hjónin + erfingjar fórum upp í bústað sem við áttum pantaðan á sunnudaginn var og eyddi ég talsverðum tíma í að spekúlera í hvernig ástandið á kofanum yrði þegar við kæmum heim. En svo þegar í kotið var komið þá ákvað ég að setja á mig derhúfu og svo leppa fyrir augunum (svona eins og sett er á hestana svo þeir sjái ekki til hliðar) og vera bara ekkert að pæla í þessu meira. Svo lengi sem húsið er íbúðarhæft og engar sprungur sem ekki er hægt að stinga prjón í gegn þá ætla ég sko ekki að fá mígrenikast yfir þessu. Matsmenn frá viðlagasjóðnum eiga eftir að koma með sína tækni og eru sko miklu færari en ég í að meta hvort það er húsið sem er skakkt eða hvort það er hreinlega bara jafnvægiðskynið hjá okkur sem hefur brenglast.

Þá ákvað Tína að finna jákvæðu punktana!!! Og hefst nú talningin gott fólk.

1) Vegna veikinda minna var ég búin að sækja um tímabundna heimilishjálp. Ég segi tímabundið því ég ætla mér ekki að vera í þessu veseni endalaust. En núna get ég dregið beiðnina til baka þar sem ekkert er eftir til að þrífa!! Hugsið ykkur tímasparnaðinn. Ekkert eftir til að þurrka af. Sem var nú eitt af því leiðinlegra sem ég gerði

2) Hef ekki haft svona mikið skápapláss í eldhúsinu síðan ég hóf búskap fyrir mörgum árum síðan, og svei mér ef ég var ekki fyrst haldin valkvíða yfir því í hvaða skáp ég ætti nú að setja þennan eina disk sem eftir var. Svo skemmtum við okkur bara alveg ágætlega yfir því að finna út hvar hann var nú settur síðast. Að vísu fékk minn elskulegi matarstell í kveðjugjöf frá vinnufélögunum eftir skjálftann mikla. En það er samt enn nóg pláss eftir í skápunum þannig að leikurinn heldur áfram.

3) Eins og síðasta færslan sagði til um að þá gerðum við úr þessu skemmtilegan fjölskylduleik sem kostar okkur ekki krónu. Og það er að giska á hvað skjálftarnir eru stórir sem enn dynja á okkur. Víst er þetta á stundum óþægilegt en oftast virka þessir skjálftar á mann eins og ef kraftakarl hefði slegið mann á bakið og á stundum er maður ekki einu sinni viss um að þetta hafi verið skjálfti. En ef setið er við borð ásamt öðrum þegar svona skjálfti kemur að þá er fyrst spurt hvort einhver hafi verið að hrista borðið. Ef ekki þá fer leikurinn af stað.  

4) Ekki skortir fólki lengur umræðuefnið lengur. Hvorki á kaffistofum landsmanna eða heimahúsum.

 Maður hefur því í rauninni aðeins um tvennt að velja. Taka á þessu á húmornum eða leggjast í kör og vorkenna sér. Fyrir mitt leyti þá finnst mér fyrri skosturinn miklu, miklu skemmtilegra. Vonandi gerið þið það sama.    

 Gangið nú um lífið með gleði í hjarta og dassi af kæruleysi. Það skaðar engan og þá allra síst ykkur sjálf. Og bannað að gleyma hversu frábær þið eruð, hver á sinn hátt. 

 


Fjársjóðirnir mínir.

Ég fann loksins út í gær (alveg óvart samt) hvar ég gæti sett inn upplýsingar um mig og þeirra sem skipta mig mestu máli. Án þeirra væri líf mitt ansi grátt og leiðinlegt. Þetta er kannski svolítið langur lestur (enda á ég mörg börn) en ég hvet ykkur samt eindregið til þess að lesa um þessa fjársjóði mína (þið getið þá bara gert þetta í skömmtumWink). Þið klikkið bara á myndina af ísbirninum hér til hliðar og þá getið þið lesið þetta.

En það eru svo margir sem í kringum mig eru sem í raun og sanni verðskulda pláss þarna líka, en þá yrði þetta bara svo svakalega langt að það myndi ekki nokkur heilvita maður nenna að lesa þetta. Systkini eiginmanns minns eru 6 og eru öll upp til hópa hjartahlýtt og yndislegt fólk og eru makar þeirra engir eftirbátar þeirra. Engin fjölskylda hefur tekið mér jafnvel og hún. Fátt finnst mér yndislegra en að faðma hana elsku Guðrúnu tengdamóður mína, því hlýjan og væntumþykkja sem frá faðmlaginu stafar verður aldrei með orðum lýst. Ég hef átt við mikil veikindi að stríða undanfarna mánuði (og á enn) og þegar ég hef verið við það að bugast undan þeim þá hefur öxl Sigurðar svila mins (fyrir utan öxl Gunna minns að sjálfsögðu) verið öxlin sem mér hefur þótt best að gráta við. Og hún Kolla mín sem starfar hjá okkur hjónunum hefur svo sannarlega reynst okkur sending frá æðri máttarvöldum, því bæði er hún yndisleg vinkona en líka alveg einstakur starfskraftur. Það að geta leyft sér að vera veikur án þess að þurfa að hafa áhyggjur af búðinni er ekki sjálfgefið. Án ofantaldra hefðum við elskulegur eiginmaður minn (sem einnig hefur staðið sig eins og hetja í þessu öllu saman) ekki getað og gætum ekki gengið í gegnum þetta. Því segi ég Takk öll fyrir að vera hluti af mínu lífi Heart

Njótið nú dagsins sykurpúðarnir mínir eins og morgundagurinn væri ekki til.


Að taka til eða ekki. Það er spurningin

"Jæja Tína mín....... það þýðir ekkert að hanga bara og horfa á draslið" hugsaði ég með mér í morgun. En svo ákvað ég að fá mér fyrst kaffi og skoða fréttirnar á mbl. Og þegar ég sá í þessari frétt að það mætti gera ráð fyrir áframhaldandi eftirskjálftum þá ákvað ég að ég ætlaði barasta að hanga áfram og horfa á draslið. Ef þið viljið þá getið þið farið á færsluna mína hér fyrir neðan þar sem ég gef upp slóð að myndaalbúmi og skoðað "eftirskjálftamyndir". Það eru nú takmörk fyrir því hversu oft maður nennir að gera sömu vorhreingerninguna get ég sagt ykkur. En ég vil taka fram að ég er einmitt búsett á Selfossi.


mbl.is Meginskjálftinn var 6,3 stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn einn bloggarinn (jarðskjálftaáhrif?)

Hvort sem þið trúið því eða ekki, þá er ég ein af þeim sem vakna alltaf sjálfviljug fyrir allar aldir. Gildir þá einu hvort það er virkur dagur eða helgi. Maður er náttúrulega langt frá því að vera normal!

Stundum líða margir klukkutímar áður en nokkur annar vaknar hér á þessu heimili. Hef ég því gert það að háfgerðri rútinu að fara svokallaðan bloggrúnt. Úfffff hvað mig langaði nú oft að tjá mína skoðun eða bara kvitta, en gerði bara aldrei neitt í því.

En þá gerðust undur og stórmerki. Eins og þið vitið þá skók móðir jörð Selfossbæinn allrækilega og greinilegt að fleira hristist en húsið hjá mér (s.s hausinn á mér) en ég er búsett á Selfossi. Tína ákvað s.s að prufa að stofna bloggsíðu. Svo verðum við bara að sjá hversu vel mér gengur að halda henni við Whistling

Ef þið viljið og hafið áhuga á þá getið þið skoða FULLT af eftirskjálftamyndum sem ég tók af heimilinu hér http://blaze.is/Albúm/tabid/742/Default.aspx . En þarna eru 2 albúm með myndum. Maðurinn sem ég deili skugga með (Gunnar eiginmaðurinn), Leifur elsti sonur minn (19), tengdadóttir og ég vorum fram á rauða nótt að gera bara gangfært um húsið. Daginn eftir kom elskuleg tengdamóðir mín, Jónína mágkona og dóttir mín (18) og tóku til við að þrífa með látum sameiginlega rýmið í húsinu.  Kann ég þeim sko bestu og endalausar þakkir fyrir það. Sérstaklega þar sem ég var að koma úr stórri aðgerð og það eina sem ég gat gert var að horfa á. Síðan horfði maður inn í hin herbergin í smá stund............ og lokaði svo bara hurðinni. Einhvernveginn á maður bara von á fleiri skjálftum og nennir því ekki að eiga við þetta sem stendur. Fyrstu viðbrögð yngsta sonar minns (15) eftir skjálftann þegar hann var búin að ganga úr skugga um að það væri allt í lagi með alla voru "Og ég sem þreif hérna í gær!!!". Og var sko langt frá því að vera sáttur. Ætla ég því alveg að sleppa því að tuða yfir því að hann eigi að taka til inni hjá sér.

En það er alltaf hægt að finna fyndnar og skemmtilegar hliðar á öllum aðstæðum og má ég til með að deila einni með ykkur.

Hann Gunnar minn var að hætta í sinni vinnu daginn eftir stóra skjálftann, og var hann kvaddur með virktum af vinnufélögum sínum. Þau voru sko ekki í neinum vandræðum með að finna viðeigandi kveðjugjöf get ég sagt ykkur. En þau gáfu honum honum 2 kassa af 20 stk matarstellum og límstiftiLoL. Svo urðu miklar umræður og pælingar um hvort Gunnar ætti að taka upp báða kassana strax eða bara annan og eiga hinn til vara. Hann gæti allavega límt saman brotin aftur ef út í það væri farið.

En nú ætla ég að hætta þessu blaðri í bili og kanna hvort ég finni fleiri sprungur í húsinu. En þessa dagana þá er það nýjasta áhugamálið mitt.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband