Færsluflokkur: Bloggar
9.6.2008 | 07:29
Maður þarf sko ekki lengur vekjaraklukku hér á Selfossi

![]() |
Skjálftar við Hveragerði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.6.2008 | 00:30
Selfossflakkari með meiru
Usssssssss ég held svei mér að ég hafi aldrei verið eins dugleg að heimsækja fólk á einum og sama deginum síðan ég flutti hingað á Selfoss fyrir 5 1/2 ári síðan!!
Málið er að í dag ákvað ég að vera suddalega dugleg og taka þvottahúsið (var ekki enn búin að því) í gegn eftir skjálftann. En þar leyndist líka þessi svakalegi stafli af þvotti sem þurfti að þvo. Bæði var óhreinn þvottur þarna fyrir, svo helltist sykur, hveiti og so videre yfir hreina þvottinn (en ekki hvað) og svo gerði ég þau alverstu mistök sem þreytt húsmóðir getur gert........... ég skipaði erfingjunum um daginn að taka til inni hjá sér og þá fyrst fylltist þvottakarfan skal ég segja ykkur. En okeiiii þarna vandaðist málið. Þvottavélin mín er nefnilega ónýt eftir skjálftann. Einnig var bara allt of mikil rigning til að nenna niður að á og þvo upp á gamla mátann, en ég fullvissa ykkur um það að þetta hafði sko ekkert með leti að gera. Ég vil nefnilega meina það að ég skrepp saman í rigningu. Svoleiðis að nú voru góð ráð dýr. En Tína deyr ekki ráðalaus. Ég ákvað s.s að fara í heimsóknir færandi hendi
Fyrst fór ég með þvott til hennar Huldu minnar sem býr hérna á móti. Þaðan fór ég svo (með þvott) og heimsótti elsku mágkonu mína hana Margréti. En á meðan vélin var að þvo hjá henni þá bakaði litli frændi vöfflur ofan í liðið. Ekkert lítið efnilegur strákurinn. Í staðinn hótaði ég þeim því að ég myndi með þessu áframhaldi flytja til þeirra, því síðast þegar ég heimsótti þau, sem var daginn eftir skjálftann, þá fékk ég þessa líka dýrindis máltið. Gæti sko alveg vanist þessu. Skellti svo aftur í aðra vél hjá henni áður en ég fór og fékk svo heimsendingarþjónustu á tauinu seinna um kvöldið. Talandi um service. Þetta, elsku krúslurnar mínar, kalla ég sjálfsbjargarviðleitni.
En ekki var ég samt búin með heimsóknirnar. Það kom nefnilega í ljós að ekki væri hægt að verðmeta skenkinn minn út frá myndinni sem ég setti hérna í annari færslu, því til þess var hann of mikið skemmdur. Þá var 2 erfingjum af 5 skellt í sófann umkringdir myndaalbúmum í leit að mynd þar sem skenkurinn sæist nú almennilega. UREKA við fundum 2!! Þá var fátt annað eftir en að koma þeim yfir í tölvutækt form. En shit....... skanninn eyðilagðist líka. Frúin hljóp þá aftur yfir til hennar Huldu sinnar, fékk svo að blikka son hennar (sem er svona tölvukall) og plataði hann illilega til að skanna þetta nú inn fyrir mig. Og ekki var hann nú lengi að redda þessu.
Núna er ég búin að setja þessar myndir í albúm hér á síðunni og skrifa þessa bloggfærslu. Hinir 2 fyrrnefndu erfingjar voru að spila guitar hero hér við hliðina á mér á full blast og ekki nóg með það, heldur spiluðu þeir sama lagið aftur og aftur og aftur. Það endaði með að ég fór nú aðeins að tuða yfir þessu og líka yfir því hversu hátt stillt þetta nú væri hjá þeim. En þá segir Kristján "þetta er bara svo afslappandi mamma". Ég gat nú ekki annað en furðað mig á þessari fullyrðingu en fékk fljótlega skýringu frá sama spekingnum "mamma mín........ þú ert kona! EF þú værir karl, þá myndir þú skilja þetta" Og þar hafið þið það. Að ég skyldi ekki fatta þetta sjálf
Og þá er komið að mola dagsins: Lífið er þeim fullt af stórum stundum sem kunna að umgangast smáar stundir. Sigrid Undset
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.6.2008 | 07:34
Það finnast bjartar hliðar á ÖLLUM málum.
Meira að segja á jarðskjálftamálum. Jújú stundum neyðumst við kannski til að finna bjánalegan flöt á sumum málum, en þetta verður þá bara í versta falli fyndið en dreifir huganum. Auðvitað missti ég mikið í jarðskjálftanum sem reið hérna yfir í síðustu viku, en meðan að húsið mitt lítur ekki út eins og eftirfarandi mynd, þá dettur mér ekki til hugar að kvarta. Það sluppu allir lifandi og að mínu mati er varla hægt að biðja um meira.
Við hjónin + erfingjar fórum upp í bústað sem við áttum pantaðan á sunnudaginn var og eyddi ég talsverðum tíma í að spekúlera í hvernig ástandið á kofanum yrði þegar við kæmum heim. En svo þegar í kotið var komið þá ákvað ég að setja á mig derhúfu og svo leppa fyrir augunum (svona eins og sett er á hestana svo þeir sjái ekki til hliðar) og vera bara ekkert að pæla í þessu meira. Svo lengi sem húsið er íbúðarhæft og engar sprungur sem ekki er hægt að stinga prjón í gegn þá ætla ég sko ekki að fá mígrenikast yfir þessu. Matsmenn frá viðlagasjóðnum eiga eftir að koma með sína tækni og eru sko miklu færari en ég í að meta hvort það er húsið sem er skakkt eða hvort það er hreinlega bara jafnvægiðskynið hjá okkur sem hefur brenglast.
Þá ákvað Tína að finna jákvæðu punktana!!! Og hefst nú talningin gott fólk.
1) Vegna veikinda minna var ég búin að sækja um tímabundna heimilishjálp. Ég segi tímabundið því ég ætla mér ekki að vera í þessu veseni endalaust. En núna get ég dregið beiðnina til baka þar sem ekkert er eftir til að þrífa!! Hugsið ykkur tímasparnaðinn. Ekkert eftir til að þurrka af. Sem var nú eitt af því leiðinlegra sem ég gerði
2) Hef ekki haft svona mikið skápapláss í eldhúsinu síðan ég hóf búskap fyrir mörgum árum síðan, og svei mér ef ég var ekki fyrst haldin valkvíða yfir því í hvaða skáp ég ætti nú að setja þennan eina disk sem eftir var. Svo skemmtum við okkur bara alveg ágætlega yfir því að finna út hvar hann var nú settur síðast. Að vísu fékk minn elskulegi matarstell í kveðjugjöf frá vinnufélögunum eftir skjálftann mikla. En það er samt enn nóg pláss eftir í skápunum þannig að leikurinn heldur áfram.
3) Eins og síðasta færslan sagði til um að þá gerðum við úr þessu skemmtilegan fjölskylduleik sem kostar okkur ekki krónu. Og það er að giska á hvað skjálftarnir eru stórir sem enn dynja á okkur. Víst er þetta á stundum óþægilegt en oftast virka þessir skjálftar á mann eins og ef kraftakarl hefði slegið mann á bakið og á stundum er maður ekki einu sinni viss um að þetta hafi verið skjálfti. En ef setið er við borð ásamt öðrum þegar svona skjálfti kemur að þá er fyrst spurt hvort einhver hafi verið að hrista borðið. Ef ekki þá fer leikurinn af stað.
4) Ekki skortir fólki lengur umræðuefnið lengur. Hvorki á kaffistofum landsmanna eða heimahúsum.
Maður hefur því í rauninni aðeins um tvennt að velja. Taka á þessu á húmornum eða leggjast í kör og vorkenna sér. Fyrir mitt leyti þá finnst mér fyrri skosturinn miklu, miklu skemmtilegra. Vonandi gerið þið það sama.
Gangið nú um lífið með gleði í hjarta og dassi af kæruleysi. Það skaðar engan og þá allra síst ykkur sjálf. Og bannað að gleyma hversu frábær þið eruð, hver á sinn hátt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.6.2008 | 00:31
Annað augað vísar í austur en hitt í vestur
Sko.................... þið megið ekki vera neitt voðalega hrædd eða áhyggjufull, en ég er ekki að grínast þegar ég segi ykkur að ég lít út eins og á myndinni hérna! Og meira að segja textinn sem á myndinni er passar fullkomlega við ástandið. Ástæðan er að ég er búin að vera bókstaflega í ALLAN dag að gera svokallaða tjónaskýrslu fyrir þessar elskur sem ég er enn að bíða eftir frá tryggingafélaginu. Mín ákvað s.s að vanda til verka og gera þetta almennilega. Ekkert slor á þessum bæ get ég sagt ykkur. Hlýt á fá + í kladdann fyrir viðleitni í það minnsta. Ég er búin að sitja hérna fyrir framan tölvuna og skrásetja í excel (ógó flott) allt sem ég missti. Ég var nú löngu búin að finna út að ég hefði misst mikið en HALLÓ!! Hefði helst þurft eins og 2 aukahendur (sem mér finnst persónulega ekki sérlega gróf krafa ef þið spyrjið mig) 2 hendur á lyklaborðið, ein fyrir símann og svo hina fyrir kaffið sem ég drakk ótæpilega í þeirri viðleitni að halda mér vakandi yfir þessu. En nú er ég búin elskurnar mínar, eða í það minnsta með það sem ég gat. Mér skilst að þessar rúsinur hjá tryggingafélaginu séu með stöðluð verð fyrir ísskápa, þvottavélar og þess háttar og ætla ég glöð að láta þeim eftir að finna út úr því.
Þetta bloggstand á mér er strax búið að gefa mér mikið og alveg merkilegt hvað þetta gerir hjartanu mikið gott að fá smá útrás hérna. Ætli það sé ekki aðallega vegna þess að ég hef ofboðslega mikla þörf fyrir að tala, en þar sem ég á slatta mikið af börnum að þá kemst ég aldrei að? Pæling. Einnig vil ég grípa tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir að gefa ykkur tíma til að kíkja á þetta bull hjá mér og ekki finnst mér leiðinlegt þegar ég sé kommenta birtast frá ykkur líka.
En sérstakar þakkir og hjartans knús fær hann Tigercopper . Þar held ég að sé maður með hreinræktað hjarta úr gulli á ferð. Ef þú lest þetta hunangshrúgan mín, þá eru skilaboð til þín í kommentakerfinu mínu við síðustu færslu. Þú kannski kíkir á það?
Af skjálftamálum er það að frétta að það kom einn þungur í gær og svo annar núna í kvöld. Það er varla að ég geti sagt að við kippum okkur nokkuð upp við það lengur og fara þá yfirleitt eftirfarandi samtöl af stað.
Einhver 1: Fannstu þennan?
Einhver 2: Játs....... ég held að þessi hafi verið allavega 2,5
Einhver 1: Nauts! Hann var sko minnst 3
Og þá er hlaupið af stað í tölvuna og richter kvarðinn á veður.is kannaður að undangengnu veðmáli.
Það er helst tíkin okkar hún Sif sem hefur eitthvað bilast við öll þessi læti undanfarið. Ég held nefnilega að hún haldi núna að hún sé belja . Síðan stóri skjálftinn var í síðustu viku, þá neitar hún að borða inni, úti skal maturinn vera. Sama er með vatnið. Þetta væri svo sem ekki í frásögu færandi ef hún myndi nú hundskast til að borða matinn sinn sem er settur út fyrir hana eins og hún sé drottning götunnar, en NEI það eina sem hún borðar er gras
. Sumir eru bara hreinlega furðulegri en aðrir.
Gullmoli dagsins er síðan að hver dagur og hver stund er sigur í sjálfu sér. Notum því tímann vel.
Knús á ykkur krúttin mín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.6.2008 | 22:47
Eldspýtnastokkur í yfirstærð.
Mikið hrottalega er ég svakalega og alveg hriiiiiiikalega klár!!! Já og svo er ég svo hógvær og hjartalítillát líka eins og bersýnilega sést hér. En mér tókst s.s sjálf að setja myndina inn. Ég veit ég ætlaði að biðja eiginmanninn um að redda þessu fyrir mig þegar hann færi á fætur en það kom bara einhver fjárans mótþrói upp hjá mér og ég hreinlega VARÐ að gera þetta sjálf og voila.
Hér er s.s skenkurinn góði sem ég tala um í síðustu færslu. Ég veit þetta er dauður hlutur.................. en mikið svakalega sé ég eftir skápnum. Þið getið stækkað myndina með því að klikka á hana beint. Miðjuhurðirnar 2 voru með steindar rúður (svona eins og franskir gluggar). En ég hef grun um að hangi nú þarna saman af gömlum vana og viljanum einum saman. Ef þið getið gefið mér einhverjar upplýsingar um hugsanlegt verð þá getið þið annað hvort kommentað hér eða sent mér póst á christinedevolder@msn.com . Nú þið sem skiljið ekki bofs í því sem ég er að tuða hérna, verðið eiginlega að lesa síðustu bloggfærsluna mína og þið getið treyst á það að þetta mun allt meika sens eftir það.
Kram á línuna á meðan
Bloggar | Breytt 6.6.2008 kl. 06:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.6.2008 | 10:06
HJÁLP........... einhver????
Nú stend ég frammi fyrir þeirri vinnu að verðmeta tjónið sem við hjónin urðum fyrir í skjálftanum í síðustu viku. Ég get sko sagt ykkur það að þetta er engu minna verk en tiltektin sem fylgdi þessum ósköpum. Sé mig í anda hringjandi í fólk og segja "hurruuuuuuuuuuu........ manstu eftir því að þú gafst okkur hriiikalega fallegan kökudisk í brúðkaupsgjöf? Sko.....Ekki vill svo vel til að þú munir hvað hann kostaði ?"
En snúum okkur að hjálpinni sem mig vantar. Veit einhver um antiksala (núverandi eða fyrrverandi) sem gæti verðmetið fyrir mig antikskáp sem lítur núna út eins og eldspýtnastokkur í yfirstærð? Helst einhvern sem ekki fríkar út yfir því hversu mörg símtöl hún/hann er að fá með beiðnum þar að lútandi? Lenti nefnilega í því í gær að hringja í svoleiðis verslun og talaði þar við konu sem hreinlega missti sig yfir álaginu vegna þess að út af öllu þessu veseni að þá hefði hún núna engan tíma til að sinna sínum viðskiptavinum, núna væri hún sko búin að fá nóg og að hún tæki 3000 kr fyrir hvert mat. Svona lét kerlingaranginn móðan mása að því er virtist endalaust. Ég varð svo orðlaus (og það er ekki auðvelt að gera mig orðlausa) að ég hreinlega stamaði og varð gjörsamlega miður mín. Ætli ég hafi ekki bara verið dropinn sem fyllti mælinn hjá þessari elsku. Ég í það minnsta vona að dagurinn í dag verði betri hjá henni en hann augljóslega var í gær.
Ég er að sjálfsögðu fús að borga fyrir svona mat, enda borga tryggingarnar fyrir þetta . En þetta þarf víst að fara þannig fram að viðkomandi antiksali þarf að kvitta aftan á myndina þar sem hann/hún tekur einnig fram verðið. Ég yrði líka þakklát þó ég fengi ekki nema hugmynd um hvers virði þessi stokkur á sterum er, svona rétt á meðan þessi elska sem ég talaði við í gær róar sig niður svo ég geti fengið þennan stimpil hjá henni. En ég get þá gert einskonar kostnaðarplan í millitíðinni.
Ef þið ekki vitið um neinn slíkan, þá yrði ég ofsalega hamingjusöm kona ef þið gætuð bent bloggvinum ykkar (ég á nefnilega ekki svo marga enn sem komið er) á þessa færslu mína og þá hlýtur einhver á endanum að þekkja einhvern. Eða er það ekki?
Hugmyndin var að setja mynd af skápnum hér við þessa færslu en þetta er bara ekki að takast eins og er. But believe you me............. ég gefst ekki upp. Þegar svona gerist þá bíð ég bara salíróleg þar til minn elskulegi vaknar og læt hann gera þetta fyrir mig. SVO sniðugt á Íslandi . Myndin mun s.s (vonandi) koma inn hérna seinna í dag. Í millitíðinni er hægt að sjá þennan skenk hérna http://blaze.is/Albúm/tabid/742/AlbumID/1504-258/Default.aspx á bls 8.
Munið svo að bros er eins og faraldur................... smitast hrikalega hratt. Gerum því meira af því. Ekki veitir af.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.6.2008 | 06:45
Fjársjóðirnir mínir.
Ég fann loksins út í gær (alveg óvart samt) hvar ég gæti sett inn upplýsingar um mig og þeirra sem skipta mig mestu máli. Án þeirra væri líf mitt ansi grátt og leiðinlegt. Þetta er kannski svolítið langur lestur (enda á ég mörg börn) en ég hvet ykkur samt eindregið til þess að lesa um þessa fjársjóði mína (þið getið þá bara gert þetta í skömmtum). Þið klikkið bara á myndina af ísbirninum hér til hliðar og þá getið þið lesið þetta.
En það eru svo margir sem í kringum mig eru sem í raun og sanni verðskulda pláss þarna líka, en þá yrði þetta bara svo svakalega langt að það myndi ekki nokkur heilvita maður nenna að lesa þetta. Systkini eiginmanns minns eru 6 og eru öll upp til hópa hjartahlýtt og yndislegt fólk og eru makar þeirra engir eftirbátar þeirra. Engin fjölskylda hefur tekið mér jafnvel og hún. Fátt finnst mér yndislegra en að faðma hana elsku Guðrúnu tengdamóður mína, því hlýjan og væntumþykkja sem frá faðmlaginu stafar verður aldrei með orðum lýst. Ég hef átt við mikil veikindi að stríða undanfarna mánuði (og á enn) og þegar ég hef verið við það að bugast undan þeim þá hefur öxl Sigurðar svila mins (fyrir utan öxl Gunna minns að sjálfsögðu) verið öxlin sem mér hefur þótt best að gráta við. Og hún Kolla mín sem starfar hjá okkur hjónunum hefur svo sannarlega reynst okkur sending frá æðri máttarvöldum, því bæði er hún yndisleg vinkona en líka alveg einstakur starfskraftur. Það að geta leyft sér að vera veikur án þess að þurfa að hafa áhyggjur af búðinni er ekki sjálfgefið. Án ofantaldra hefðum við elskulegur eiginmaður minn (sem einnig hefur staðið sig eins og hetja í þessu öllu saman) ekki getað og gætum ekki gengið í gegnum þetta. Því segi ég Takk öll fyrir að vera hluti af mínu lífi
Njótið nú dagsins sykurpúðarnir mínir eins og morgundagurinn væri ekki til.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.6.2008 | 08:05
Bíddu........ átti þetta ekki að vera nánast búið?
Hér er smá beiðni lögð fram í fyllstu einlægni til þessara jarðfræðinga sem tjá sig um framhaldið í fjölmiðlum: Vinsamlegast samræmið ykkar skoðunum og sleppið því að draga úr frekar en hitt. Eins og þið sjáið í síðustu færslunni hjá mér þá snöggreiddist ég eftir að hafa hlustað á hádegisfréttirnar en svo ákvað ég að taka nú hausinn út úr rassgatinu og sleppa þessari skapvonsku og trúa bara því besta. En hvað gerðist svo nokkrum tímum seinna? Eftir þann skjálfta þá gat ég hreinlega ekki meir, settist bara niður og grét út í eitt. Var reyndar ekki viss um afhverju ég væri að gráta........ ég bara grét.
Lögreglan talar um að ekki hafi borist neinar tilkynningar um frekari skemmdir sem er gott að heyra. Persónulega hef ég ekki enn þorað heim (en ég bý á Selfossi eins og áður hefur komið fram) til að kanna hvort eitthvað meira hafi skemmst. Að vísu held ég að ég gæti ómögulega sagt til um það hvaða skemmdir eru eftir hvaða skjálfta. Svona ef ég á að vera fullkomlega honest
Eftir skjálftann á fimmtudaginn þá virtist eingöngu innbúið hafa eyðilagst. Á föstudaginn sá ég að sprunga hefði myndast í gólfið eftir endilöngu húsinu. Á laugardaginn var ég farin að sjá enn meiri sprungur um alla veggi sem stækkuðu að því er virtist endalaust. En svo var mér allri lokið á sunnudaginn þegar ég tók eftir því að panelklætt loftið í forstofunni var farið að gliðna ískyggilega. Hef ekki farið heim síðan þannig að ég veit ekki hvernig ástandið er þar núna. Vonum bara það besta. Svo er maður ofan á allt annað að heyra sögur um bíræfna þjófa sem ganga um ruplandi og rænandi! Hvað er eiginlega að fólki??
Ég veit ég lofaði í síðustu færslu að vera hressari í skapinu næst þegar ég bloggaði. But my Mojo verður bara að bíða betri tíma people.
Guð geymi ykkur öll og þökkum í það minnsta fyrir að fólk hefur sloppið óskaddað hingað til.
![]() |
Snarpur kippur á Hellisheiði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.6.2008 | 13:34
Hverju á maður að trúa?
Svei mér ef það fari ekki bara best á því að maður hætti að fylgjast með þessum fréttum um mögulega jarðskjálfta/eftirskjálfta hérna heima. Mér finnst eins og þessir spekingar tali út og suður. Sumir segja að það eigi alveg örugglega eftir að koma fleiri stórir á bilinu 4-5, en svo segja aðrir að þetta sé nú allt að verða búið og í mesta lagi von á eftirskjálftum af stærðinni 2-2,5! Hvort er rétt???
Eitt get ég sagt ykkur...................... svona fréttaflutningur fer meira í skapið á mér en tilhugsunin um hvernig húsið mitt og fleira fór við stóra skjálftann.
Á maður að fara eða vera? Á maður að taka til eða ekki? Ofan á áfallið sem hlaust af þessu bætist við nagandi óvissa. Og sú tilfinning er engu betri. Ég átta mig alveg á því að ekki er hægt að segja með vissu hvað framundan er þegar kemur að jarðhræringum, en getur þetta fólk sem flokkast sem sérfræðingar á þessu sviði ekki í það minnsta verið sammála um hvað þau ætla að segja fólki?
Ef þið vitið eitthvað meira en ég þá hvet ég ykkur endilega til að commenta hérna og deila því með mér. Því ég er að fríka út á þessu. Kannski er sjokkið bara rétt að koma fram hjá mér núna.
Lofa ykkur að vera betri í skapinu í næstu færslu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.6.2008 | 12:25
Húsið mitt eins og veðrið á Íslandi
Einu sinni heyrði ég sagt við ferðamann sem staddur var hér á landi "Ef þér líkar ekki veðrið, þá skaltu bara skella þér inn, fá þér kaffi og með því og veðrið verður pottþétt búið að breytast þegar þú ferð út aftur!". Ekki flókin fræði það og nokkuð til í því.
Eins og fyrirsögnin bendir til að þá er ástandið á húsinu mínu á Selfossi svipað. Ég labba hring og tek myndir........... sest niður, fæ mér kaffi, kíki á netið og svona dúllerí......... fer svo annan hring um húsið vopnuð mikið notaðri myndavél, og hvað finn ég? Jább, allt rétt hjá þér! Nefnilega ný sprunga eða þá að þær sem ég var þó búin að finna hafa stækkað.
Magnað samt hvernig lífið einhvern veginn heldur bara áfram sinn vanagang þrátt fyrir allt sem er í gangi í kringum okkur og þrátt fyrir þá fullvissu að fleiri skjálftar eigi eftir að koma. Ég ákvað s.s í gær að nú væri búið að stara nóg á allt draslið og nú yrði sko tekið til. Skipaði svo erfingjunum öllum að drífa sig nú inn til sín og taka til og gera það eins og þau ættu von á sjálfum forsetanum í heimsókn. Þau horfðu nú á mig með hálfgerðri vorkunn í augnaráðinu, hristu svo bara hausinn og fóru svo inn að taka til. Þau breyttust nú ekki mikið við skjálftann þessar elskur þegar kemur að tiltekt. Þetta var bara gert upp á gamla góða mátann (eins og við eflaust mörg hver gerðum á þessum aldri) og öllu sópað ýmist inn í skáp eða undir rúm. Forsetinn á ekkert með að kíkja á þessa staði hvort eð er!!
Eftir rassíuna heima, var bara skellt í lás og rokið upp í bústað sem við áttum pantaðan við Apavatn. Og ég verð að segja eins og er að einni spurningu skýtur ansi oft upp kollinum núna en hún er þessi "hvernig verður ástandið heima þegar við förum aftur?"
Ég er búin að setja tengla hér til hliðar þar sem hægt er að fara beint inn á myndaalbúmin til að sjá skemmdirnar. Skil samt ekki hvað við hjónin erum eitthvað ósköp róleg yfir þessu öllu. Ætli værukærðin sé bara hluti af áfallinu? Og þó....... það eina sem skipti máli er óskemmt, en það eru fjölskylda, vinirnir og fólkið allt. Og ég má heldur ekki gleyma að þakka forsjóninni fyrir að ekki fór verr hjá okkur en þetta.
Kram á línuna og farið vel með ykkur í dag.
![]() |
Gríðarlegt verkefni framundan við að lagfæra hús og mannvirki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)