Færsluflokkur: Bloggar
21.6.2008 | 06:19
Móðir?
Hér sit ég og hugsa um börnin mín 5 og hugsa um það hvað í ósköpunum fær foreldri til að meiða barnið sitt, Hvað þá viljandi og á svo hrottalegan hátt. Það vona ég að þessi drengur og hin börnin sem svona er ástatt um, fái góða hjálp og jafni sig á sálinni. Nú þegar heyrist of mikið af svona fréttum um misnotkun á börnum, við getum rétt ímyndað okkur hversu margar sögur við heyrum ekki af. Notum tækifærið og knúsum okkar eigin börn aðeins meira. Aldrei hægt að gera of mikið af því held ég.
Hér er svo moli dagsins: Gerðu ætíð það sem rétt er. Það gleður einhvern og verður öllum hinum undrunarefni.
![]() |
Móðir misþyrmdi fimm ára syni sínum skelfilega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.6.2008 | 07:00
Koma svooooooooooo
EF þú hefur ekki hugmynd um hvað þú ætlar að gera um helgina, þá veit ég um eitt sem getur haldið þér og þínum uppteknum í smá tíma á laugardaginn í það minnsta
Við hjónin eigum Herraverslunina Blaze á Selfossi og erum jafnframt styrktaraðilar Knattspyrnudeildar Umf. Selfoss. Þessi deild er búin að gera svakalega góða hluti og langar okkur því að blása til leiks og styrkja þá enn betur með hjálp frá ykkur.
Laugardagurinn 21. júní verður bæði skemmtilegur og sérstakur í Blaze að því leyti að 20% af sölu dagsins mun renna beint til knattspyrnudeildar Umf. Selfoss. Þú verslar fatnað eða gjafabréf eins og venjulega, en um leið ert þú að styrkja íþróttastarfið svo um munar. Þetta finnst okkur skemmtileg leið til að sýna stuðning í verki og sýna deildinni á Selfossi hversu sterkt bakland hún hefur. Verslunin verður opin kl. 10-18 og heitt á könnunni. Láttu þetta endilega berast áfram.
Þú getur líka styrkt önnur góð málefni á jafn einfaldan máta og skemmt þér meira að segja þokkalega í leiðinni með okkar aðstoð ef þú vilt, en þú getur lesið meira um það hér . Að gefnu tilefni vil ég samt taka fram að þó þetta sé herraverslun þá geta konur líka nýtt sér þetta.
Hér er svo moli dagsins rúsínurnar mínar: Engin gleði jafnast á við það að starfa öðrum til heilla.
Gangið svo glöð inn í helgina með sól í hjarta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.6.2008 | 07:26
Þakklæti frá litlu frekjunni
Mig langar að þakka öllum sem hafa aðstoðað mig undanfarið við allt sem mér hefur dottið í hug að vilja gera, og þá sérstaklega honum Sigga Þór. Hans hjálp og þolinmæði hafa verið og eru mér ómetanleg.
Einn af mínum verstu göllum gæti verið sá hvernig allt á að gerast núna en ekki seinna þegar ákvörðun hefur verið tekin. Get ég orðið pirruð og beinlínis leiðinleg ef hlutirnir gerast ekki nógu hratt. En ég reyni að bæta mig á því sviði þó það gangi nú ekki alltaf vel.
Við Gunnar höfum sjaldnast farið á sama hraða. Meðan ég er svona "núna" manneskja, þá er hann meira "ekkert liggur á" maður. Þetta hefur orðið til þess að hlutirnir gerast oftast hjá okkur þá á réttum hraða því við endum yfirleitt á því að fara milliveginn.
Þessa dagana hefur litla frekjan ég haft yfirhöndina hvað varðar vinnuhraða. Ég vildi klára hlutina sem fyrst og engar refjar. Ég gat bara einhvern veginn ekki beðið eftir því að lífið kæmist aftur í fastar skorður og héldi áfram sinn vanagang eftir allt sem á undan er gengið. Mér fannst að eina leiðin til þess að ná því og ná að slaka á, væri s.s að klára þessar "make over" framkvæmdir sem við höfðum ráðist í. Ég hafði 1000 ástæður og rök fyrir því af hverju þetta ætti að klárast sem allra allra fyrst. Því miður bitnaði þetta á þeim sem voru að rétta mér hjálparhönd. Kom út eins og ég væri vanþakklátt ofdekrað barn ef þetta gekk ekki nógu vel. Fyrir það skammast ég mín. Þegar hin vildu slaka aðeins á, þá hélt ég bara áfram í stað þess að slaka örlítið á. Þetta gerði það að verkum að hinir höfðu móral yfir því að setjast niður. Það er ekki fyrr en núna þegar ég slaka á og er orðin örþreytt sem ég fatta hvernig framkoma mín var. Það er reyndar ekki allt búið enn, en ég ætla að hlusta á manninn minn og aðra í kringum mig og slaka aðeins á. Jafnframt að gefa þá öðrum svigrúm til að anda.
Kolla mín fór með mig til Reykjavíkur í gær, þar sem ég gat þá verslað gardínur, lampaskerma og fleira dót í stað þess sem eyðilagðist í skjálftanum. Þessi elska þekkir mig orðið ansi vel og vissi að ég myndi fara í það strax um kvöldið að sauma þessar gardínur og að ég myndi ekki hætta fyrr en ég væri búin. Þess vegna bauðst hún til þess að koma og hjálpa mér við þetta. Þannig yrði þetta fyrr búið.
Eftir kvöldmatinn mætti Siggi vinur minn aftur, tilbúin í að halda áfram að mála. Leifur minn og Sandra tengdadóttir mín birtust líka allt í einu. Og það er óhætt að segja að allt hafi farið á fullt. Gunnar minn og Siggi héldu áfram að mála. Kolla, Sandra, Agnes dóttir mín og ég fórum að vinna í gardínunum. Sandra og Agnes klipptu efnið til, ég saumaði, Kolla setti hjólin á og svo setti Leifur gardínurnar upp. Þetta var eins og verksmiðja hérna, enda skotgekk þetta.
Ég tók nokkrar myndir til að sýna ykkur. Þið getið séð þær í "myndaalbúmunum". En mikið leið mér samt vel að labba hérna um húsið eftir að við vorum búin að taka til! En ég lofa að klára rest hægt og rólega, á réttum hraða og frekjulaust.
Hér er svo moli dagsins: Nú, þegar hann er liðinn, hvað gerðir þú í gærdag sem er þess vert að minnast á?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.6.2008 | 08:06
Hverjar eru líkurnar?
Ég er þessa vikurnar í lyfjameðferð og uppgötvaði mér til mikillar hrellingar í gær að af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þá var ég búin með þau lyf sem reynast mér lífsnauðsynleg og væri ekki einu sinni með lyf fyrir kvöldið. Ég hringdi að sjálfsögðu í ofboði suður svo hægt væri að bjarga þessu. Vandamálið er að þetta er ekki lyf sem þú bara stekkur út í apótek og kaupir. Þetta er svokallað undanþágulyf og bara lyfseðillinn er A4 blað í þríriti, og verður Tryggingastofnun (ef ég man rétt) að samþykkja þetta og svona fram eftir götunum. Vegna einhverra mistaka hafði ég s.s ekki fengið nóg af þeim. Skil ekki enn hvernig þetta gat gerst og afhverju ég fattaði þetta ekki fyrr. Þessi lyf eru einnig ófáanleg á sjúkrahúsinu hér á Selfossi.
En þá komum við að kjarna málsins. Ég er með 2 sérfræðinga, 1 skurðlækni og 1 heimilislækni á mínum snærum, ef svo má að orði komast, OG ÞAU ERU ÖLL Í FRÍI Á SAMA TÍMA !! Hverjar eru líkurnar á að svoleiðis gerist? Fúslega skal ég viðurkenna að ég panikeraði , en sko bara smá, ég tók ekki dramadrottninguna á þetta, bara svo það sé á hreinu. Málið er að án þessara lyfja þá er, tja......... segjum þetta bara pent og rétt.......fjandinn laus og ég spítalamatur med det samme. Nú voru góð ráð dýr.
Það fór því allur dagurinn í þetta hjá mér. Með dyggilegri aðstoð lyfjafræðings hér á Selfossi (en mig minnir að hann heiti Aðalsteinn) þá tókst að bjarga þessu korteri fyrir lokun. Grínlaust. Ég þurfti að fara hérna á læknavaktina þar sem ég beið í tæpa 2 tíma eftir að komast að, en á meðan var lyfjafræðingurinn búin að hringja á undan mér í vaktlækni og finna leið til að komast "framhjá" öllu þessu undanþágurugli til bráðabirgða. En þetta bjargaðist og það er fyrir öllu. Við þetta var bara úr mér allur vindur og ég eins og sprungin blaðra á eftir. En allt er gott sem endar vel. Við skulum sko alls ekki gera lítið úr því.
Mér varð s.s ekki mikið úr verki í gær á heimilinu og gerði næsta lítið annað en þetta. En það stendur nú til bóta í dag. Það er að vísu farið að draga talsvert úr orkunni hjá mér, en bætist því meira í hjá hinum. Þrællinn hans Sigga komst því miður ekki, en Siggi og Marta komu í drullugallanum og til í slaginn eins og fyrri daginn þessar elskur. Við byrjuðum frekar seint í gærkvöldi og gerðum þess vegna ekki mikið. Við hjónin ætlum að reyna að vera svolítið dugleg í dag. Ég vil nefnilega klára þetta í síðasta lagi á morgun, vegna þess að á fimmtudagsmorgun munu 2 hörkuduglegar konur frá heimilishjálpinni koma og þrífa, og finnst mér það frekar ömurlegt ef ég get í fyrsta lagi ekki nýtt mér þetta vegna þess að það er enn allt í framkvæmdarúst, eða vegna þess að það á allt eftir að fara í rúst aftur þegar þær eru farnar.
Annars er ég búin að setja inn nýtt albúm undir myndirnar af framkvæmdunum. Endilega fylgist þið með þar ef þið viljið. Reyni að muna eftir því að taka svona "fyrir og eftir" myndir.
Utanlandsfarinn minn er að koma heim á eftir og ég er bara að bíða eftir að geta sótt hann. Jú víst var nú gott að fá smá frí frá honum, en betra finnst mér að fá hann heim. Ég hlakka bæði til og kvíði að heyra allar sögurnar sem hann á eftir að segja mér. Hann getur nefnilega verið eins og útvarpsstöð þegar hann byrjar að tala þessi elska, s.s óstöðvandi. Alveg eins og systir hans.
Hér er svo moli dagsins hunangshrúgurnar mínar og gleðilegan 17 Júní .
Hver sem þú ert og hvar sem þú ert, þú hefur alltaf rangt fyrir þér ef þú ert dónalegur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.6.2008 | 07:16
Brjáluð helgi.
Ef þetta er ekki ekki búið að vera einhver bilaðasta helgi ever, þá hef ég ekki glóru um hvað bilað er. En það er alveg magnað hvernig ein smá framkvæmd getur undið upp á sig á alveg hroðalegan hátt, svo vægt sé til orða tekið. En í guðanna bænum ekki misskilja mig. Ég er endalaust þakklát og glöð yfir þessu, en guð hjálpi mér hvað ég verð fegin þegar þetta er búið!
Á LAUGARDAGINN var björgunarsveitin (Gunnar minn hinn og Siggi Þór) kallaðir út til að hjálpa frúnni (mig) við að nálgast sófasettið sem við hjónin versluðum okkur. Eiginmaðurinn þurfti að vinna til 4 en húsgagnaverslunin lokaði 12. Ég hvorki gat né vildi (best að kalla hlutina réttum nöfnum) vera sófalaus fram yfir helgi. En þetta var sko ekkert mál frekar en fyrri daginn að fá þessa 2 gullmola í þesskonar björgunaraðgerðir. Sófasettið er frekar mikið um sig og fylgdu því miklar pælingar hvernig ætti að koma því inn. Í fljótu bragði leit nefnilega ekki út fyrir að gert væri ráð fyrir því þegar þetta hús var byggt að inn yrðu sett húsgögn fyrir fullorðna eða að sófaframleiðandinn gerði aldrei ráð fyrir að þetta sett yrði selt og færi INN í venjulegt heimahús. Á myndinni sjáið þið spekingana tvo við áætlanagerð. En inn komst það. Þeir eru nú þekktir fyrir flest annað en að gefast upp þessar elskur.
Í síðustu færslu talaði ég um hvernig við Siggi Þór fórum á flug með hvernig þyrfti að mála og svona............ well til að gera langa sögu stutta að þá erum við nánast búin að mála allt húsið upp á nýtt að innan. Hann Siggi vinur minn lét nefnilega ekki sitja við orðin tóm heldur fór hann í Húsasmiðjuna, keypti pensla, málningu og tilbehör og svo var bara byrjað!! Áður en ég vissi af þá var ég farin að pússa hurðir og karma. Og þetta er svikalaust með því leiðinlegra sem ég hef gert um ævina . Við gerðum samt ekkert svakalega mikið þann daginn því okkur hjónum og erfingjum var boðið í mat til Gunnars og Huldu vinafólk okkar. Gunnar minn hinn grillaði hrygg á teini og ég verð bara að viðurkenna að þetta er einhver albesti hryggur sem ég hef smakkað og þyki ég nú nokkuð liðtæk í eldhúsinu gott fólk.
Á SUNNUDAGINN fékk ég svo sms frá Sigga Þór kl 10 um að hann væri sko aldeilis klár í slaginn um leið og ég væri það (hverskonar spurning var þetta eiginlega ?). Hann vildi s.s ólmur halda áfram. Vorum við að tala um ofvirkni í síðustu færslu people? Ég var þá reyndar búin að pússa 2 hurðir af 10 og að byrjuð á þeirri 3 þegar þetta var. Hann var þá ekki lengi að koma sér á staðinn og síðan var haldið áfram sleitulaust til kl 22. Svei mér ef það er ekki bara í fyrsta skipti sem ég þakka fyrir að reykja! Það voru nefnilega einu pásurnar sem við tókum okkur. Ég tók þetta reyndar á verkjalyfjum en áfram skyldi haldið. Staðreyndin er nefnilega sú að það er alls ekki að ég sé ofvirk, heldur einfaldlega staðreynd að ég lið fyrir það að eiga hlutina eftir. Það er svo oft sem byrjað er á einhverju, síðan stoppað í það sem á að heita "nokkra daga" sem enda í nokkur ár og eru síðan aldrei kláruð. Marta kærastan hans Sigga Þórs kom síðan og kíkti á okkur, hvarf aftur, og var síðan mætt í vinnufötunum þessi elska og byrjuð að mála líka. Henni fannst alveg kolómögulegt að sitja bara og horfa. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hitti hana, en ég fékk strax mjög notalega tilfinningu og leið vel í kringum hana. Gunnar minn fór svo í bæinn að sækja borðstofusettið sem við keyptum okkur og sit ég núna við það.
Siggi svili minn fór síðan til Svíþjóðar aðfaranótt sunnudagsins og er farinn að vinna þar. Ef ég skil þetta rétt, þá verður hann þar í 3 vikur, kemur heim í viku, út aftur og svona koll af kolli. Ég sakna þess mest að hafa ekki náð að kveðja hann almennilega sökum anna, bæði hjá mér og svo hjá honum. Það voru auðvitað margir sem vildu kveðja hann. En þarna braut ég eina af mínum aðal reglum, en það er að gefa sér tíma til að kveðja. Eitt af því mikilvægasta í samskiptum við fólk í mínum huga, er að kveðja alltaf og gera það almennilega. Þú veist ekki nema þetta sé í síðasta skipti. Ég á í það minnsta eftir að sakna hans mikið, en ég veit hann var spenntur að takast á við þetta nýja verkefni, en spennunni fylgdi jafnframt mikill tregi yfir því að fara frá Margréti konu sinni og börnum sem eru fólkið sem hann metur hvað mest.
Í dag ætla ég svo að taka það rólega (get eiginlega ekki annað) og búa mig svo undir átök kvöldsins, því Siggi Þór ætlar að mæta hérna aftur en með þræl með sér og það á bara að klára dæmið. Sem betur fer eru hérna fullt af veggjum með sprungum sem við getum þá ekki málað yfir því að matsmennirnir frá viðlagasjóðnum eiga eftir að koma og meta þær skemmdir. Minnkar vinnuna óneitanlega.... í bili. Siggi sá nefnilega hvað öll þessi uppbygging gerði fyrir sálina mína og færðist því allur í aukana. Ætli það endi ekki bara á því að það eina sem verður eins og fyrir skjálftann verði húsgrunnurinn????? Maður spyr sig.
Hér er svo moli dagsins: Það er fáránlegt að skipta fólki í gott og slæmt. Fólk er annað hvort heillandi eða leiðinlegt.
Knús á línuna inn í daginn gott fólk.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.6.2008 | 07:25
Ég er ekkert ofvirk....... það eru bara hinir sem eru hægir!!
Ég er því miður búin að komast að því að mér er bara ekki viðbjargandi. Ég er eins og versta gelgja á mótþróaskeiði . Það er stöðugt verið að segja við mig "Tína...... nú verður þú að slappa af, þú mátt ekki lyfta neinu, þú verður að láta aðra gera þetta, ekki ofreyna þig" og svona gæti ég haldið endalaust áfram. Fólk hefur varla sleppt orðinu, þegar ég er farin af stað. Svo fylgir þessum skipunum alltaf sama setningin "draslið/skíturinn fer ekki neitt". En það er einmitt málið gott fólk. Þessi fjandi fer ekki af sjálfu sér. Ef svo væri, þá skyldi ég alveg slappa af. Þannig að ég geri þetta bara sjálf, þó ég sé lengur að því. Ekki þar fyrir utan að það er ekki nokkur fræðilegur möguleiki á því að ég nenni bara að hanga dag eftir dag og gera ekki neitt. Það er nefnilega frekar leiðinlegt til lengdar sjáið þið til.
Ein hliðarverkun veikinda minna er að beinin í mér eyðileggjast. Þannig að læknirinn sagði við mig að ef það er sól úti, þó ekki væri nema smá glæta, þá skyldi ég koma mér út. Þetta ku víst að vera gott fyrir beinin. Okeiiiii ekkert að því. En svo var ég farin að vera eins og sólþurrkaður tómatur að framan, þannig að ég ákvað að jafna litinn út (svo það verði nú gott báðum megin) og besta leiðin til þess væri að vinna í garðinum. Svoleiðis að mín fór í gær að klóra upp mosann og grasið sem er á milli hellnanna hér á stéttinni fyrir utan. Og er núna brennd á bakinu. Þetta er allt að koma sko
Vaka, sem er yndisleg kona frá félagsþjónustunni, hringdi svo í mig í gær til að láta mig vita að það ætti að senda mér 2 hörkuduglegar konur næstkomandi fimmtudag, til að hjálpa mér við þrifin hérna og taka ærlegan skurk á heimilið. Ég spurði hana þá hvort ég gæti beðið þær að taka eldhúsinnréttinguna fyrir mig, þar sem enn væri fullt af glerbrotum að finna í skúffunum og víðar. Þessi elska sagði að það væri ekki venjan en vegna aðstæðna þá yrði það gert. Nema hvað nú þarf ég að hringja í hana og láta hana vita að ég sé eiginlega búin að þessu. Málið var að eftir símtalið, þá gat ég ekki á heilli mér setið við tilhugsunina um öll glerbrotin, að ég ákvað að byrja í það minnsta á þessu. Ég vissi svo ekki af mér fyrr en ég var búin. En getið þið sagt mér eitt? Hvernig í ósköpunum stendur á því að skúffurnar minnka á milli þess sem þær eru tæmdar, þrifnar og fylltar aftur?????? Ég get svarið fyrir það að ég ætlaði ALDREI að koma eldhúsáhöldunum fyrir aftur.
Ég hitti síðan Sigga Þór vin okkar, og það var alveg honum líkt að bjóða fram aðstoð sína. "Sko Tína...... við gerum þetta svona...... ég kem með kerruna og þú reddar króknum og svo hespum við þessu bara af!". Þetta er svo dæmigert og lýsandi fyrir þennan dreng. Það á ekkert að slóra við hlutina............ bara gera þetta og engar refjar. Þannig að hann kom í gærkvöldi og hjálpaði Gunnari mínum að bera út stóru húsgögnin sem eyðilögðust. Þeir tóku svo skurk í bílskúrnum og fóru á haugana. Og áður en ég vissi af þá vorum við Siggi farin að tala um að úr því við værum nú á annað borð að umbylta heimilinu (því þetta er ekkert annað en það), hvort við ættum ekki bara að mála veggina líka, lakka svo hurðirnar því þær eru svo ljótar á litinn. Og svona var haldið endalaust áfram. Og ef ég þekki Sigga rétt, þá verður þetta gert áður en nokkur getur sagt AMEN!
Utanlandsfarinn minn hringdi svo í mig í gær og sagði mér frá því hvernig hann hefði sjálfur farið út í búð að versla og bara reddað málunum. En svo hefur hann einnig ofsalegar áhyggjur af henni systur minni elskulegu, sem er orðin sárlasin með bronkitís og læti. En hann fullvissaði mig um það að hann ætlaði að sinna henni. Hann fór svo í Gocart með Arnþóri og Henrý Mána í gær, en þeir síðarnefndu unnu hann. Það skal tekið fram að Kristján hafði sko 150 afsakanir og ástæður á reiðum höndum fyrir því af hverju hann tapaði. Þannig að ef ég síðan skildi hann rétt, þá verður einvígi á milli hans og Arnþórs í þessu aftur í dag. Kristján þvílíkt dýrkar Arnþór og sagði við Önnu systir "veistu Anna, að hann Arnþór er alveg ofsalega skemmtilegur. Ég skil alveg að þú skulir elska hann"
Og þá er komið að mola dagsins: Dagurinn í gær er liðinn. Morgundagurinn er óvænt ánægja. Dagurinn í dag er gjöf.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.6.2008 | 06:35
Mikið gaman - mikið fjör, og lífið heldur áfram.
Tryggingafélagið gerði upp við okkur í fyrradag og hófst þar með hin eina og sanna "enduruppbygging". Við hjónin byrjuðum á því að gera lista yfir því sem lægi á að endurnýja og forgangsraða og af nógu er að taka.
Almáttugur hvað borðstofuhúsgögn eru dýr!! Við ákváðum þess vegna að sörfa bara netið og leita okkur að notuðum húsgögnum í borðstofuna. Þegar ég var orðin rangeygð af tölvunotkun og uppiskroppa með leitarsíður, og hreinlega ekki að nenna þessu, haldið þið ekki að það poppi ekki bara upp þetta fínasta sett. Ég hefði ekki getað orðið glaðari þó að húsgögnin hefðu bara birst hérna í borðstofunni og raðað sér upp sjálf. Oki oki, ég segi það kannski ekki alveg, en ég var ansi nálægt því . Núna er þetta frá og allt hitt eftir.
Siggi svili minn er búin að vera á Dale Carnegie námskeiði og var síðasti tíminn í gærkvöldi. Nemendum var boðið að taka með sér gest í útskriftina, og bauð Siggi mig með sér. Hver einasti nemandi var kallaður upp einn í einu og var sá hin sami beðinn að halda örstutta ræðu um notagildi námskeiðsins, hvað þau hefðu fengið út úr því og framtíðarsýn. Hér á myndinni sjáið þið hann Sigga halda sína ræðu. Margt merkilegt fólk var þarna á ferðinni og var virkilega gaman að heyra hvernig þau hefðu lært að setja sér markmið og fylgja þeim eftir. Ég hef í það minnsta séð stórkostulega breytingu á honum Sigga. Hann er allur miklu jákvæðari og léttari en áður en hann fór á þetta námskeið.
Einn hafði gengið með þann draum í maganum í nokkur ár að búa til ákveðna heimasíðu en alltaf hummað það fram af sér. Hann lét loksins verða af því og má ég til með að benda ykkur á hana www.tilvitnun.is . Ég er ofsalega tilvitnanaglöð kona og skrifa t.d alltaf tilvitnun eða málshátt í hvert einasta jólakort, og það fá engir 2 eins kort. Þannig að ég hef alltaf setið hérna með stafla af bókum í nokkra daga til að finna það sem ég vil skrifa í þessi blessuðu kort. Finnst mér því þessi síða vera enn ein guðs gjöfin (hin var settið) fagna henni gríðarlega og er ég alveg klár á því að ég eigi eftir að nota þessa síðu mikið.
Á meðan fór Gunnar minn með yngsta barninu okkar honum Valdimar í bíó og sáu þeir myndina "The incredible Hulk". Skildist mér á þeim að það hefði bara verið ógó gaman.
Í dag ætla ég svo að halda áfram að versla, sem er ljúfsár skemmtun. Öllu má nefnilega ofgera og þetta er svo svakalega mikið sem þarf að versla maður minn. Ég þarf að hringja í hana Gunnu mína í Gunnubúð (IKEA) og blikka hana smá til að aðstoða mig og flýta fyrir mér. Þannig að ef þú lest þetta elsku vinkona þá áttu s.s von á símtali og eins gott að þú sért ekki í kaffi á meðan
Að lokum er hér moli dagsins: Ekkert er betra en hvatning góðs vinar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.6.2008 | 20:37
Óheppni eða karma? Pæling
Í þessari færslu vil ég byrja á því að þakka öllum nær og fjær fyrir veitta aðstoð og sýndan hlýhug, sérstaklega okkur til handa sem búsett erum á skjálftasvæðinu. Óteljandi eru þeir sem lögðu allt sitt í að létta öðrum lífið og töldu margir ekki eftir sér að gera það myrkrana á milli og létu sig sjálf sitja á hakanum á meðan, þrátt fyrir að hafa jafnvel orðið sjálf fyrir tjóni.
Þið sem eruð farin að lesa bloggið hjá mér, eru líklega búin að fatta það að ég tek oft á málum með því að slá þeim upp í grín. En stundum gerast of margir hlutir á stuttum tíma og manni fallast hreinlega hendur og hvorki veit hvað segja eða gera skal. Og þess vegna fer maður að velta spurningunni fyrir sér hvort um hreina óheppni sé að ræða eða karma.
Ég hef átt við mjög slæm veikindi að stríða það sem af er ári og fór í stóran uppskurð 2 vikum fyrir stóra skjálftann. Ég ætla nú ekki að fara að tíunda hér um þessi veikindi að öðru leyti en að ég á því miður enn langt í land í átt að bata. EN hálfnað er verk þá hafið er. Ég hugga mig við það .
Skjálftinn stóri reið svo yfir eins og landsmenn vita og misstum við hrikalega mikið, en sem betur fer var ekkert af þessu ómetanlegt. Margir fóru því miður verr út úr þessu en við. En það sem ég furða mig á eru óliðlegheitinsem maður hefur mætt. Fyrst var það antiksalinn, en þessi elska gjörsamlega tapaði sér fyrirvaralaust þegar ég var að falast eftir verðmati á antiksetti, vegna þess að vegna okkar hérna fyrir austan þá hefði hún núna engan tíma til að sinna sínum viðskiptavinum og var virkilega foj yfir því. Og komst ég hvorki lönd né strönd á þeim bæ.
Svo var það elsku matsmaðurinn sem kom til mín í gær!! Fólk hefur talað mikið um það hversu almennilegir þessir matsmenn séu og skilningsríkir og þar fram eftir götunum. Það gerði það að verkum að ég andaði léttar og beið róleg eftir því að röðin kæmi að okkur og á meðan ákvað ég að gera það sem í mínu valdi stæði til að létta þeim lífið. Ég lagði á mig margra klukkutíma vinnu við að skrá niður og finna út verð á hlutunum sem við eigum að fá bætt. Að sjálfsögðu er til þess ætlast og lágmark að fólk geri það og skrái í það minnsta niður hlutina, þó ekki væri nema það. Nema að ég vil meina að ég hafi lagt á mig meira en ég hefði þurft. Málið var að ég taldi að þar sem þessar elskur væru að standa í þvílíku brjálæði þessa vikurnar þá væri lágmark að gera þetta almennilega. En í því sambandi sýndi hún Hulda vinkona mín og nágranni mér gott fordæmi. Ég setti þetta allt saman skilmerkilega í excel skjal, hringdi um allar trissur til að fá verð, flokkaði þetta allt saman niður á herbergin og svona mætti lengi telja. Svo fékk hann disk með öllum tjónamyndunum á sem meðlæti. Það fyrsta sem hann spurði eftir að inn var komið var "er ekki hægt að gera bara við þetta?"og benti á antik borðstofuskenkinn (en þið getið séð myndir af því hvernig hann fór undir "tenglar"). öööööö sýnist þér það? spurði ég, en hann varð að viðurkenna að það væri að sjálfsögðu út í hött. Ekki þurfti hann að stoppa neitt lengi hjá mér þar sem ég hafði gengið þannig frá hlutunum að þess þurfti ekki.
En ekki er öll sagan sögð. Málið var að á sumum hlutum vissi ég ekki verðið, samanber borðstofusettið eða stóru bókahilluna/hillusamstæðuna. Einnig hélt ég að tryggingafélög væru bara með standart tjónaverð fyrir þvottavélar og þessháttar heimilistæki. Jæja ekki kvartaði hann nú mikið yfir því og sagðist ætla bara að kanna málið og finna út úr þessu, og var í rauninni hinn almennilegasti. Svo komst ég að því í morgun hjá henni Lindu minni sem vinnur hjá mínu tryggingafélagi hér á Selfossi, að svoleiðis virkaði þetta ekki, þar sem verðmunur á svona tækjum og búnaði gæti munað jafnvel um tugi þúsunda og væri þess vegna leitast eftir því að finna verð á öðru sambærilegu og fyrir var. Þetta meikaði algjörlega sens í mínum huga. Fór ég þess vegna heim og ákvað nú að bretta upp ermar og klára þetta sem eftir var af listanum, hringjandi aftur um allt til að fá verð. Þar fóru nokkrir klukkutímar sem ég taldi engan veginn eftir mér. Síðan hringi ég voða ánægð í matsmanninn til að láta hann vita að ég hefði klárað þetta (var eins og stoltur smákrakki) og spurði hvort hann vildi ekki að ég sendi honum uppfærða listann. Áður mér brá, en þarna vissi ég ekki hvort ég hefði bara misst af einhverju eða hvað. Maðurinn var svo fúll og að mínu mati með attitude. Nei hann vildi sko ekki fá þennan lista "byrjaðu bara að telja þetta upp".Jújú allt í fína hugsaði ég og byrja að telja upp, en svo segi ég við hann að þetta séu nú þó nokkrir hlutir og hvort hann sé nú alveg öruggur á því að ég eigi ekki bara að senda þetta á hann. Þá dæsti hann og samþykkti loks að ég gerði það, því hann myndi hvort eð er senda þetta beint frá sér. En ég var því miður (hans vegna og mín) ekki alveg búin með spurningarnar, því svo spurði ég hann hvernig og hvað yrði gert varðandi hillusamstæðuna sem væri mikið skemmt. Þá sagði hann "það er bara ekki okkar stefna að borga fyrir svona hluti, heldur látum við bara gera við þetta!". Þarna var mér allri lokið Hann var greinilega orðinn ansi pirraður greyið. Ég skil vel og átta mig á því að þessir matsaðilar séu bæði þreyttir, gott ef ekki útkeyrðir og pirraðir. En almáttugur............ það er ég líka! Kannski hljómaði þetta allt saman verr en raun var. Kannski er ég að gera of mikið úr þessu og er að láta einhverja viðkvæmni hlaupa með mig í gönur. En þarna gat ég bara ekki meira. Enda sagði ég þeim hjá tryggingafélaginu að mín vegna væri það í lagi að gera við þetta, en þeir mættu Í þá koma og tæma út úr samstæðunni, fara með hana til Reykjavíkur, setja í viðgerð, koma með hana til baka og raða í hana aftur, því ég ætlaði EKKI að gera það. Nú væri ég búin að fá nóg.
Jæja gott fólk.......... nú er ég rækilega búin að pústa frá mér. Ef einhver hefur nennt að lesa allt þetta raus þá skil ég ekkert í ykkur en þakka fyrir mig, því það var alveg svakalega gott að koma þessu frá mér, I must say.
Elsku hjartans Tigercopper minn: Ég setti 180 þús á settið og verð svo bara að vona að þeir hjá tryggingafélaginu leiðrétti það ef það reynist vera of lágt. En eins og fyrr segir í þessari færslu, að þá er ég bara búin að fá nóg og vil bara klára þetta. Þakka þér enn of aftur fyrir ómetanlega hjálp vinur minn.
En ég lofa ykkur því að gera þetta ekki að vana, þ.e.a.s að væla og kvarta svona.
Knús á línuna krúslurnar mínar og farið vel með ykkur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.6.2008 | 07:11
Tveir afmælisstrákar.
Elskulegur eiginmaður minn á afmæli í dag og er því orðinn fullra 34 vetra. Út af öllu sem hefur gengið á undanfarið, þá hef ég ekki komist í að undirbúa eða gera neitt fyrir þetta tilefni . En við skulum líta á björtu hliðarnar gott fólk (en þið munið að það er alltaf hægt)....... hann verður 34 ára í heilt ár. Þannig að ég hef enn tíma til að finna upp á einhverju. Þessi drengur er traustari en nokkur klettur, samviskusamur úr hófi fram, fyndinn, tuðari af guðs náð (við köllum hann stundum Tuðilíus) en umfram allt er hann besti eiginmaður sem nokkur kona getur óskað sér. Auðvitað er hann langt frá því að vera fullkominn, guði sé lof fyrir það. Það held ég að fullkomið fólk hljóti að vera leiðinlegt.
Kannist þið við það að langa stundum að segja einhverjum nákomnum hversu "innilega" vænt ykkur þykir um viðkomandi en finna samt ekki nægilega sterk orð, sérstaklega án þess að það hljómi eins og klisja? Þannig er ansi oft komið fyrir mér þegar ég horfi á eiginmann minn og það sterkasta sem ég gat fundið og komst næst því að lýsa mínum tilfinningum, var að ég er yfirmáta stolt yfir því að Gunnar er maðurinn sem ég fæ að deila skugga með.
En eins og fyrirsögnin gefur til kynna þá eru afmælisstrákarnir 2. Hinn strákurinn átti afmæli 3 júní. Það vill svo til að hitt ammlisbarnið heitir LÍKA Gunnar og býr hér á móti okkur, en til aðgreiningar þá kalla ég hann "Gunnar minn hinn". Hann er maðurinn hennar Huldu vinkonu minnar og besti nágranni sem hægt er að óska sér. Alltaf sérlega bóngóður og allur af vilja gerður til að aðstoða mann ef það er í hans valdi, létta manni lundina og ávallt áhugasamur um manns hagi. Gunnarnir 2, eru tveir af sama meiði. Einu atriðin sem aðskilur þá tvo eru nokkur ár + 1 vika, og útlitið. Þegar þeir tveir fara af stað í gríninu þá er fátt sem getur bjargað manni frá sárum magaverkjum daginn eftir. Það sem þeim getur dottið í hug (og þá sérstaklega Gunnar minn hinn) og veltur upp úr þeim, er oft á tíðum með hreinum ólíkindum. Þeir eru miklir veiðifélagar, fótbolta og formúluáhugamenn. Það eina sem þeir eru reyndar sammála um þegar kemur að áhugamálunum er veiðin. En það er stundum bara því skemmtilegra að hlusta á þá 2 þrasa um hin áhugamálin sín .
Gunnar minn til vinstri og Gunnar minn hinn til hægri, í einni veiðiferðinni. Do I need to say more people???
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
9.6.2008 | 08:39
Verða börnin okkar ekki alltaf "litlu" börnin okkar?
ÖSSSSSSS ég held að ég sé að gera "litla" barnið mitt vitlaust þessa stundina. Held hann sé alvarlega að íhuga að setja inn smáauglýsingu í öllum blöðum landsins sem myndi hljóma einhvern veginn svona "Óska eftir því að vera tekinn til ættleiðingar á gott heimili gegn því að vera sóttur. Taugaveiklaðar mömmur vinsamlegast afþakkaðar!"
Ástæðan fyrir öllum þessum látum, er að strákurinn minn hann Kristján er að fara í fyrsta skipti einn til útlanda í dag. Hann er nánar tiltekið að fara til Spánar til tvíburasystur minnar og verður hjá henni í viku. Þannig að ég er búin að vera með endalausa fyrirlestra um hvað hann eigi að gera, hvenær og hvernig. Síðan fylgir fast á eftir hverju hann eigi að varast í hinum stórvarhugaverða heimi, og svona tuða ég nú endalaust. En hann er nú ósköp þolinmóður við mig þessi elska og held ég að hann sé farinn að dauðvorkenna mér frekar en hitt. Elskulegi eiginmaðurinn minn ætlar að kanna í innritunarröðinni hvort hann finni ekki þar einhverja góðviljaða konu/fjölskyldu sem getur haft auga með honum. Ég efa að það verði mikið mál. Allavega þætti mér alveg sjálfsagt að gera það ef ég yrði spurð, en það er auðvitað ekki víst að allir hugsi þannig. Eins og þið sjáið á myndinni þá er hann ekkert svo lítill lengur enda orðinn 15 ára. En hann er og verður SAMT alltaf litla barnið mitt.
Síðan bættist við nýr fjölskyldumeðlimur á heimilið í gær. Hún heitir Lukka og er 8 vikna gömul tík. Fyrir eigum við eina labrador tík og einn kött. Mín skoðun er bara sú að aldrei er til nóg af börnum eða dýrum. Einnig er ég búin að bæta við myndum af strákunum mínum síðan úr sumarbústaðarferðinni, en það voru bara 2 erfingjar af 5 sem komu þangað með okkur. Svo eru líka nokkrar myndir af tíkunum Sif og Lukku.
Hér er síðan moli dagsins hungangshrúgurnar mínar: Allt sem þarf til að finnast hamingjan vera hér og nú er einlægt og nægjusamt hjarta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)