Færsluflokkur: Bloggar

Lögmál lífsins

"Svo sem þú sáir, munt þú og upp skera". Ill orð þín og gjörðir bitna á sjálfum þér, og sama er um góðverk þín. Lögmál lífsins eru réttlát. Lífið á að nota til að þroskast. Biturleika á að breyta í umburðarlyndi, hatri í kærleika og órétti í réttlæti. Lögmál lífsins eru rökrétt. Þau bregðast ekki þótt sá sem á við mótlæti að stríða spyrji ætíð: Af hverju gekk einmitt mér svona illa? En einmitt sá hinn sami þarfnaðist þess lærdóms sem mótlætið gaf honum.

Tilgangur mótlætisins í lífinu er að örva andlegan þroska. Þegar við til dæmis verðum fyrir barðinu á sjúkdómum eða dauða, er ekki auðvelt að vera þakklátur, þótt einnig þetta leiði til blessunar og andlegs þroska. Með tímanum breytist missir í ávinning.

Óréttlæti og andstreymi vekja gjarnan biturð hjá okkur. Það er ekki auðvelt að vera auðmjúkur og þakklátur og reyna einnig að sjá jákvæðar hliðar á ólánsstundum. Það er svo miklu auðveldara að skella skuldinni á aðra, á forlögin, á umhverfið, á lífskjörin og samfélagið, en að leita ástæðunnar í neikvæðri afstöðu sjálfs sín, röngum hugsunarhætti og brestunum í eigin lífsvenjum.

Auðvelt er að dæma aðra og krefjast þess að þeir bæti sig. Mun erfiðara er að viðurkenna eigin smámunasemi og reyna að breyta eigin afstöðu. Okkur ber að sýna þeim þolinmæði sem eru á annarri skoðun en við. Við verðum að viðurkenna að þeir eigi rétt á öðrum lífsvenjum, öðrum hugsanagangi og framkomu.

Hver og einn hefur sinn kross að bera. Fyrir utanaðkomandi er ekki alltaf auðvelt að sjá erfiðleika annars. Við getum hjálpað hver öðrum með því að tala saman, deila gleði og sorgum, og haldast í hendur þegar orð brestur. Hvers vegna eigum við svona erfitt með að snerta aðra, nálgast þá og gefa þeim áþreifanlega hlýju og traust, veita þeim stuðning og aðstoð í erfiðleikum þeirra? Næst þegar þú hittir einhvern skalt þú taka í hönd hans og halda henni stundarkorn. Ef gert af einlægni þá gefur þessi snerting svo mikið.

Við eigum að vera þakklát hverjum nýjum degi. Samt erum við svo oft óánægð og uppgefin. Við lifum fyrir morgundaginn, kvíðum framtíðinni og skiljum ekki að það sem við eigum er bara hér og nú. Þessi stund ber okkur að njóta út í ystu æsar. Það á ekki að hafa of miklar áhyggjur af fyrirfram af framtíðinni og ekki heldur að syrgja um of það sem liðið er." Dauðinn er ekki til.

Að muna að ég er langt frá því að vera ein um að eiga erfitt og að allt snúist ekki bara um mig, hefur hjálpað mér að takast á við minn sjúkdómsskratta og rifið mig á lappir á þeim stundum sem mig langaði helst ekki til þess.

Eins og ég hef áður sagt: Njótum lífsins meðan við getum, það er of stutt til að eyða því í sorg og sút.

Moli dagsins að þessu sinni er því: Minnumst fortíðarinnar og hlökkum til framtíðarinnar, en gerum það besta úr því sem við höfum nú. Moi Grin (Tína)


Manni verður illt!!

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég skrifa ansi oft vitlaust. EN þegar það eru svona margar villur í ekki lengri grein en þetta í íslenskum fjölmiðli, þá hreinlega blöskrar mér. Ég velti því oft fyrir mér hvort fréttamenn notist við þýðingarvélar þegar kemur að því að þýða erlendar fréttir.

Mín afsökun er að ég er útlendingur. Hvaða afsökun hafa þeir?


mbl.is Assad: Stríð yrði dýrkeypt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bakslag og bloggleysi

Mér hafa borist til eyrna spurningar og jafnvel kvartanir yfir bloggleysi hjá mér og hver ástæðan gæti verið. Því miður er það ekki af fúsum vilja en þannig er að ég fór í stóra aðgerð um miðjan maí og allt gekk vel þar til fyrir 3 vikum síðan að mér fór aftur að versna. Síðasta vika hefur síðan verið mér mjög erfið og hef ég bara getað verið í tölvunni í örlitla stund í einu en aldrei nógu lengi til að geta lesið blogg bloggvina minna, kvittað eða skrifað neitt sjálf. En ég hugsa mikið til ykkar og vona að ég geti farið að kíkja á bloggin hjá ykkur fljótlega. Þetta sem ég er að skrifa hér tekur mig langan tíma, þar sem ég þarf reglulega að taka hlé á skrifunum. En ég er öll að koma til og hef oft verið verri en ég er núna. Þannig að það er sko bara bjart framundan Wink.

Ég er með sjúkdóm sem heitir Cushing (getið googlað það ef þið viljið). Í maí var tekin hjá mér nýrnahetta, en þar var stórt hormónaframleiðandi æxli. Einnig er ég með æxli við heilann eða í heildadingli nánar tiltekið. Góðu fréttirnar eru að við hjónin fengum að vita í gær að sem stendur er það æxli ekki að gera neitt af sér (7-9-13). Engin skýring er enn komin á hvað veldur bakslaginu, en við tökum einn dag fyrir í einu og þökkum bara fyrir hann.

Ég vil alls ekki fá neina vorkunn eða neitt svoleiðis. Ástæðan fyrir því að ég er að segja frá þessu, þrátt fyrir að vera búin að ákveða áður að gera það ekki, er að þegar fólk fær ekki að vita hvað er í gangi, afhverju maður sé hættur að vinna og afhverju maður líti svona illa út, þá fer það að geta í eyðurnar og er það manni sjaldnast í vil. Sem betur fer eru þessar raddir í miklum minnihluta. En eins og gengur og gerist eru það því miður neikvæðu raddirnar sem eru hvað háværastar. Ég þakka bara Guði og almættinu fyrir hann Gunna minn, en hann kemur með mér í hverja einustu rannsókn, hverja læknisskoðun og stendur fastar við hlið mér en klettur. Það eru ekki allir svona heppnir. Einnig á ég öflugt stuðningsnet í fjölskyldu minni og vinum. Þannig að mér dettur ekki til hugar að kvarta.

Margir af vinum mínum létu sig hverfa þegar ég veiktist. Ekki gerðu þau það af mannvonsku, heldur vegna þess að þau hreinlega vita ekki hvernig þau eiga að haga sér í kringum sjúkling. Staðreyndin er sú að það á ekkert að koma eitthvað öðruvísi fram við okkur en áður. Mér er það hrein lífsnauðsyn að finna að ég er enn lifandi og venjuleg manneskja. Á móti kemur að ég eignaðist nýja vini og varð jafnframt nánari þeim eldri. Elskuleg systir mín hún Anna ætlaði í bíó með vinkonu sinni í gær þegar hún ákvað allt í einu að hún gæti allt eins farið í bíó hér á Selfossi og draga mig með (en hún býr í bænum). Til að gera langa sögu stutta þá var ég dregin í bíó á Mamma Mía (hrikalega góð mynd) og skemmti mér konunglega. Þetta var ekki auðvelt en mikið svakalega hafði ég gott og gaman af þessu og þessi bíóferð var hrein næring fyrir sálina. Kann ég systur minni og vinkonu hennar hinar bestu þakkir fyrir þessa tilbreytni. Dýrka þig í ræmur elsku systa Heart.

En hafið ekki áhyggjur þó ég bloggi ekki um tíma, því ég kem aftur....................... ég kem ALLTAF aftur Devil

Kram og knús á línuna gott fólk. Njótið helgarinnar og það sem lífið hefur upp á að bjóða.

Moli dagsins er að þessu sinni tengdur þessari færslu: Ef þú vilt vita hverjir vinir þínir eru, þá skaltu gera þér upp veikindi.  Kínverskur málsháttur.

 


Hann er að ná mér!!

Leifur elsta barnið mitt og Sandra yndislega kærastan hans voru að setja upp hringana Grin. SandraFrumburðurinn er orðinn fullorðinn. Það er svo skrítið að horfa á börnin mín fullorðnast á meðan ég breytist sjálf ekki neitt Wink. Ég var að skoða gamlar myndir af mér frá því börnin mín voru lítil og ég get svarið fyrir það að ég er bara nákvæmlega eins Whistling . Mín niðurstaða var s.s sú að þau eru að ná mér meðan ég stend í stað.

Hlutirnir gerast svo hratt. Kristján (yngsta barnið) var að enda við að láta mig vita af því að hann væri byrjaður að fá skegg, þegar Leifur segir mér tíðindin um trúlofunina!

Þau sendu mér þessa mynd í gær og ég verð að viðurkenna að það var hálf furðuleg tilfinning sem greip mig þegar ég horfði á hana og hringana sem þau eru með.

En ég er endalaust stolt af Leif. Hans unglingsár reyndust honum erfið og sannkölluð rússibanareið. En hann tók hausinn út úr rassgatinu og stóð uppréttur á endanum. Hann er sönnun þess að það er alltaf von. Það er ekki síst henni Söndru minni að þakka. Ég held reyndar að hún átti sig ekki alveg á hvernig og hversu góð áhrif hún hefur haft og hefur enn á Leif. Hennar vegna vildi hann verða betri maður, fullorðnast og byrjaði loksins að njóta lífsins. Jú þau eru ung og allt getur enn gerst. En ég hef fulla trú á Leif og Söndru. Þau eru búin að komast að því að samband er annað og meira en rómantík og eintóm hamingja. Að það snúist um gagnkvæma virðingu, samningsumleitanir og málamiðlanir ef vel á að fara. Þau eiga margt eftir ólært, en saman eru þeim allir vegir færir. Svo mikið veit ég.

Til Leifs og Söndru: Innilega til hamingju með þennan áfanga elskurnar mínar. Þið auðgið líf mitt og gerið það svo sannarlega þess virði að lifa því. Það er svo ljúft að fylgjast með ykkur og þið fyllið mig löngun og vilja til að halda áfram að berjast og gefast ekki upp, bara svo ég geti haldið áfram að fylgjast með ykkur. Þið megið treysta því að ég gefst ekki upp W00t. Ég hlakka til að knúsa ykkur aftur.

Molin að þessu sinni er því tileinkaður þeim: Að vera elskaður sjálfs sín vegna er hámark hamingjunnar. Victor Hugo


Örlítill Tuðilíus í mér. En hvað finnst ykkur?

Ég: Já góðan daginn, mig langar að kanna möguleikana á því að kaupa mér sjúkdóma- og líftryggingu.

Tryggingafélagið: Það er alveg sjálfsagt. Við bjóðum hérna upp á svona og hinsegin tryggingapakka o.s.frv.

Ég: Ég vil samt taka það strax fram að ég er með meðfæddan nýrnasjúkdóm, en hef ekkert á móti því að taka "nýrnabilunina" og öllu því tengdu út úr pakkanum.

Tryggingafélagið: Þú meinar......... þá lítur þetta ekki vel út. Því miður getur þú ekki fengið þessar tryggingar hjá okkur vegna þessa.

Ég: Ok. Ég skil þetta kannski með sjúkdómatrygginguna, en hvað með líftryggingu þá?

Tryggingafélagið: Nei því miður getur þú hvorki fengið sjúkdóma- né líftryggingu, en þetta er bara stefnan hjá okkur þegar um arfgenga sjúkdóma er að ræða.

Niðurstaða: Ég get hvergi fengið líftryggingu því ég gæti mögulega dáið Devil!!! Mamma er með þennan sama sjúkdóm og er orðin 64 ára og hvergi sjáanleg merki um að hún sé um það bil að fara yfir móðuna miklu. Tel mig því eiga mörg ár eftir.

Þetta er ekki ný saga og heldur ekki einstök eða orðrétt, enda senda þeir fyrst sölumann sem lætur mann fylla út heilt pappírsflóð, hafa svo samband við heimilislækni manns og fá persónulegar upplýsingar þar (sem þú að vísu hefur gefið samþykki fyrir annars hefðir þú ekki komist lengra) og svo færðu svarið. Ég byrjaði að sækjast eftir því að fá svona tryggingar áður en ég greindist með þennan sjúkdóm (það var nefnilega alls ekki víst ég myndi fá hann). En þá fékk ég neitun vegna þess að móðir mín elskuleg er með nýrnasjúkdóm.

Ég hef heyrt allt of margar sögur af fólki sem hefur fengið neitun á þeim forsendum að einhver í fjölskyldunni hafi verið/sé með sykursýki eða offituvandamál og so videre. Hvaða fjölskylda hefur EKKI einhverja sjúkrasögu? Þarna finnst mér að verið sé að mismuna fólki. Hvernig eigum við að geta tryggt afkomu barna okkar ef við skyldum nú lenda í slysi eða miklum veikindum? S.s lenda í einhverju ófyrirséðu.

Jú okkur er bent á viðbótarsparnað. Það er nefnilega það. Við hjónin eigum og rekum herrafataverslun, en þar hef ég starfað sem venjulegur launamaður (með viðbótarsparnað). Þegar við stofnuðum fyrirtækið fyrir 2 árum þá pössuðum við okkur á því að vera tryggð í bak og fyrir. En svo lendi ég í miklum veikindum (nýrnasjúkdómnum óviðkomandi) og hef ekki getað unnið síðan í febrúar. Fyrirtækið okkar er ekki það stórt að það geti staðið undir aukalaunum fyrir einhvern sem ekki vinnur þar (þar með datt viðbótarsparnaðurinn niður), þannig að ég hafði samband við tryggingafélagið mitt þar sem ég var viss um að við hefðum tryggt okkur þannig að ég ætti að fá sjúkradagpeninga. Jújú, þetta var rétt munað hjá mér, við vorum tryggð að því tilskildu að um slys væri að ræða í frítíma. S.s ekki veikindi !! Shit ég gleymdi að lesa smáa letrið Pinch.

Ég skil vel að þessi tryggingafélög vilji ekki tryggja þá sem þegar eru veikir eða að þeir setji svokallað álag á þá sem eru í áhættuhópi. En að neita fólki alfarið á ofantöldum forsendum finnst mér bara ekki rétt. Kannski er ég bara að tuða en mér þætti gaman að heyra hvað ykkur finnst um þetta.

Þá er þessari tuðfærslu lokið og komið að mola dagsins: Öll dýr eru jöfn en sum dýr eru jafnari en önnur. George Orwell


Þetta stemmir allt saman.

Fallega tvíburasystir mín hún Anna Bella er ekki væntanleg til baka frá Spáni fyrr en á Anna Bellamiðvikudaginn. Þannig að ég spái bjartviðri þar til þá. Hún er búin að vera allt of lengi úti þessi elska (5 vikur nánar tiltekið) og fyrir utan stöku rigningaskúrum, þá hefur verið hér glaðasólskin upp á hvern dag þennan tíma sem hún hefur verið fjarverandi.

Þökk sé nútímavæðingu og internetsins, þá hef ég getað talað við þessa elsku upp á hvern dag, og hef ég verið iðin við að monta mig af veðrinu hér á klakanum. Þess vegna væri það nú alveg týpískt að góðviðrisdögunum myndi ljúka daginn sem hún kemur heim! Bara svona til að ég hætti að vera með kjaftinn í hánorður.

Ég myndi að vísu skipta hvenær sem er á sólinni og það að fá hana systir mína til baka. Reyndar myndi ég skipta á hverju sem er fyrir hana ef út í það er farið. Höfum aldrei verið aðskildar svona lengi þrátt fyrir að vera orðnar þetta gamlar. Og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég er bara alls ekki að fíla hennar fjarveru! Það er bara ekki flóknara en það. Ég veit ég hljóma voðalega eigingjörn en það er líka allt í lagi. Ég vil bara að hún fari að drulla sér heim og það strax.

Nú ætla ég að halda áfram að telja niður þar til hún kemur.

Moli dagsins er því tileinkaður tvíbökunni minni: Þegar þú ert of lengi fjarverandi fer ég í gamla garðjakkann þinn og sit umvafin þér. Pam Brown


mbl.is Áfram bjart vestantil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur kaupa föt fyrir karlinn - helstu mistök

Eins og fram hefur komið, þá eigum við hjónin herrafataverslunina Blaze á Selfossi, og þar sem ég er gjörsamlega andlaus í dag en langaði samt að skrifa e-ð, þá ákvað ég að "stela" þar kafla sem ég skrifaði einhvern tímann á heimasíðu verslunarinnar í "góðum ráðum" og setja hann inn hér. Vonandi hafið þið gaman af þessu.

women shoppingErtu orðin þreytt á að tuða í eiginmanninum svo hann versli sér föt sem hann svo sannarlega þarfnast? Ferðu að versla á hann upp á þitt einsdæmi í von og óvon um að hann verðlauni þig einungis með því að neita að ganga í fötunum?  Nógu erfitt er nú samt að finna réttu fötin (meira að segja fyrir konur). Þegar verslað er á karlana í þínu lífi, hvort heldur er eiginmaður, kærasti eða sonur, þá bætir mótspyrna þeirra aðeins við vandamálið.

Hér eru nokkur ráð til að ná sem bestum árangri sem mun bæði auðvelda honum og ekki síst þér lífið. En það er mikilvægt að konur viðurkenna þeirra þátt í að viðhalda vandamálið og sinn þátt í honum. Hér á eftir fara 5 algeng mistök sem konur gera þegar þær versla á mennina og leiðir til að forðast þau.

Mistök #1 

Að versla á hann án þess að vita hvað hann vantar, og eiga þá á hættu að eiga þá tvennt af því sama og eyða þar með í óþarfa.

Lausn:  Hjálpaðu honum að sjá mikilvægi þess að vera með skipulagðan fataskáp. Gefið ykkur tíma til að fara yfir fataskápinn hans áður en þið svo mikið sem íhugið skoðunarleiðangur í verslanir. Ég get lofað því að þið eigið bæði eftir að finna nokkrar flíkur sem hann annað hvort passar ekki lengur í eða hefur ekki lengur smekk fyrir.

Skrifaðu niður hvað hann á ekki og hvar þarf að bæta inn í. Þú gætir jafnvel fundið gersemar sem þið sleppið þá við að versla. Föt, hvort sem þú ert að versla á þig eða hann, kosta auðvitað peninga.
Vertu viss um hvað hann vantar og hvað ekki og vertu vopnuð innkaupalista þegar þú ferð af stað – ásamt hvaða stærðir hann notar.
Mistök #2 

Að klikka á því að kanna hvað það er sem honum líkar og líkar ekki við.

Lausn: Falastu eftir áliti hans á því hvað honum líkar og hvað ekki. Hvað hann myndi eða myndi ekki klæðast, og hagaðu síðan vali á fatnaðinum eftir þessum upplýsingum. Sumir karlmenn vilja skera sig út í útliti. Í hans tilfelli hefði hann t.d gaman af því að finna stællega slaufu.

Aðrir vilja frekar falla inn í fjöldann. Fyrir hann gildir þá frekar staðlað bindi með látlausu mynstri, eða peysa í hlutlausum lit frekar en breiðteinótt. Sumir karlmenn fá hreinlega útbrot af ullartrefli, eða finnst vesti vera of þvingandi. En þó svo hann hafi ákveðnar skoðanir, þá er ekki þar með sagt að þú megir ekki stundum kynna hann fyrir nýjungum sem hann hefði annars aldrei skoðað.
Vertu bara viðbúin með annan valkost ef hann mótmælir. Það er mikilvægt að þú berir virðingu og sért sveigjanleg varðandi hans skoðunum ef þú vilt hann leiti álits hjá þér í framtíðinni.

Mistök #3 

Að henda sér út í djúpu laugina án þess að kanna vatnið fyrst, sem gerir þig óöruggari og draga úr möguleikunum að fá sem mest fyrir peningana.

Lausn: Láttu þér líða vel í heim karlmannsfatnaðar áður en þú hættir þér í leiðangur með honum. Einföld leið til þess er að skoða nokkrar verslanir ein.

Taktu eftir að umhverfið er miklu háttvísari en brjálæðið sem oft einkennir kvenfataverslanir í sama flokki. Farðu í nokkrar rándýrar verslanir, nokkrar hófsamari og líka þær sem flokkast sem lágvöruverslanir. Eftir nokkrar afslappaðar “vettvangsferðir” verður þú betur í stakk búin til að velja réttu búðina til að versla á hann í hans félagsskap, byggt á sameiginlegum smekk og upphæð sem á að eyða.
Ef þú hefur einhverjar spurningar, mundu þá að góður afgreiðslumaður mun með gleði svara þér, þar sem hann veit af reynslu að þú sért líklega í könnunarleiðangur og komir því frekar aftur með viljugan kaupanda í eftirdragi.

Mistök #4 

Að velja liti á hann sem fara þér vel.

Lausn: Vertu viss um að þú sért ekki að láta persónulegan litasmekk hafa áhrif á hvað er verslað.  Þó svo þið deilið öllu öðru í lífinu þá er ekki þar með sagt að litir sem fara þér vel eigi líka við um hann. Taktu mið af háralit, húðlit og augnlit. Berðu mismunandi liti við andlitið á honum í dagsbirtu til að finna út hvaða litatónar og mynstur lífga mest upp á hann og draga fram það besta. Þær flíkur sem mestu máli skipta þegar kemur að litum eru jakkaboðungarnir, skyrtukraginn, bindi og peysur. Þessar flíkur eiga að passa vel saman til að draga fram það besta við hann – nefnilega andlitinu!!

Mistök #5 

Að gleyma því að þetta sé hans verslunarferð – ekki þín.

Lausn: Áður en þið farið út úr húsi, þá skulið þið ræða hvað það er sem þið hyggist ætla að versla, hvar og hversu langan tíma þetta gæti hugsanlega tekið.

Karlmaður er (oftast) markvissari þegar kemur að innkaupum, og mun virkilega meta skilvirknina í viðleitni þína. Eins og þú líklega veist nú þegar, að rölta stefnulaust um verslunarkjarna og búðarráp – eitthvað sem flestum konum finnst skemmtilegt – er bara eitthvað sem flestum karlmönnum finnst með öllu tilgangslaust.  Mikilvægast af öllu er að halda plani þegar hann er búin að versla það sem hann ætlaði sér.
Aldrei að biðja hann um að bíða í einhverjum sófa á meðan þú leitar að “aðeins nokkrum hlutum” fyrir þig. HEY, ef þú getur gert verslunarferð jákvæða og hagkvæma að hans mati, þá gæti hann jafnvel tekið upp á því að koma þér á óvart með því að bjóða þér út að borða á eftir!!

Gangi þér vel.

Heimildir
Að lokum kemur svo moli dagsins: Gleymdu þeirri hjálp sem þú hefur veitt, minnstu þess þakklætis sem þér hefur hlotnast.

Fyrirmynd mín hann pabbi og börnin mín

PabbiHann elsku pabbi minn á afmæli í dag. Þessi elska er með þvílíkt jafnaðargeð og er svo rólegur að það hálfa væri allt of mikill hægagangur fyrir mig. Það er stundum talað um að blóðið hreyfist ekki í fólki........... well hjá honum er staðreyndin sú að hann er svo rólegur að blóðið bakkar! Hann reyndar fyllir flokki Tuðilíusa ásamt elskunni minni hann Gunnar. En ég segi þetta kannski bara vegna þess að ég er svo hrikalega ofvirk og mikill tuðari sjálf, að ég yrði líklega bara að deyja úr einsemd ef ég myndi ekki sópa saman fólki í þessum flokki með mér. But who am I to tell Whistling. Pabbi minn er búsettur í Stykkishólmi og sé ég hann því allt of sjaldan sem er miður, því hann er með skemmtilegri mönnum sem ég þekki og fróðleiksmoli í gegn, og með hjarta úr hreinu gulli. Til hamingju með daginn elsku pabbi minn InLove 

 

Ég má síðan til með að deila með ykkur smásögu af strákunum mínum Óla og Valda sem mér finnst frekar fyndin. En við fórum í gærkvöldi í bústað til Gunnars míns hins og Huldu vinkonu og á heimleiðinni hljóp einhver fjandans púki í Valda sem ákvað að reyna af fremsta megna að pirra bróður sinn með því að tala endalaust. Því fór af stað sagan endalausa og hef ég aldrei fyrr á ævinni heyrt aðra eins vitleysu (enda skiptu staðreyndir þar engu máli). Meðal annars þá stökk hann upp, upp, upp (orðið endurtekið minnst 20 x) í geiminn og hrapaði þaðan niður í Suðurskautið og svona fram eftir götunum. Óli sat þarna pollrólegur og horfði bara út um gluggann og sagði ekki orð. Greinilega ákveðinn í að láta Valda ekki takast áætlunarverk sitt. Það endaði með því að okkur hjónunum þótti orðið nóg um (eftir 20 mín langa "sögu") og stoppuðum söguna. En þá heyrist eftirfarandi:

Valdi: Þetta var reyndar leiðinleg saga, en góð fyrir litla krakka þar sem þau myndu bara sofna úr leiðindum.

Óli: Ó nei góði minn, ég get nefnilega sagt þér það að þau væru lööööngu búin að drepa þig!! LoL

En þessar elskur eru svo sannarlega með hjarta úr gulli líka. Þannig var nefnilega um daginn að ég var að setja í þvottavél, sem er ekki í frásögu færandi, nema hvað þegar ég er að fara að stinga buxum af Valda í vélina þá finn ég farsímann hans í vasanum. Ég kallaði á hann og sagði honum að hann yrði nú að fara í gegnum vasana áður en hann setti fötin sín í körfuna. Síðan sagði ég börnunum að ef ég fyndi pening í vösunum hjá þeim við þvottaiðju mína að þá myndi ég hirða þá og setja í sparibaukinn sem ég er með inn í þvottahúsi, og fyrir þann pening myndi ég á endanum kaupa eitthvað fallegt handa mér. Þá heyrist í Valda eftir að hafa fengið að sjá baukinn minn "þá er víst best að fara að skilja einhverjar krónur eftir í vösunum" og var Kristján honum innilega sammála með þaðHeart. Er hægt að biðja um meira þegar maður á svona börn?

Eigið þið ljúfan dag elskurnar mínar.

Ekki get ég svo klikkað á mola dagsins! En hann er að þessu sinni svohljóðandi: Ást verður til að fegra athafnir fjölskyldunnar.

 


Fólk í dómarasæti

Ég var nú alveg ákveðin í því að tjá mig ekkert um þetta hundamál. En ég hef verið að lesa athugasemdir sem sumir bloggarar hafa skilið eftir varðandi þetta hundamál allt og gat bara ekki orða bundist lengur.

Mikið afskaplega finn ég til með þessu fólki sem telur sig geta sett sig í sæti dómarans. Enda dettur mér ekki til hugar að fara að pirrast eða vera reið út í þau, því þau hljóta að eiga mikið bágt sjálf og við einhverskonar leiða að stríða. Sumir hafa meira að segja gengið svo langt að hringja í lögregluna til að skammast í þá fyrir að afhenda hvolpinn aftur til eiganda síns! Að mínu mati eru það þessir sjálfskipuðu dómarar sem gera heiminn örlítið verri en hann er, þ.e.a.s fólkið sem hengir bakara fyrir smið. Minnumst Lúkasarmálsins og hvernig það fór.

Væri ekki tímanum betur varið í að fagna því að hvolpurinn fannst á lífi? Notum orkuna sem við öll búum yfir í jákvæða hluti og hugsanir. Bæði mun okkur líða miklu betur sjálf og heimurinn getur þá ekki annað en batnað fyrir vikið.

Það er ekkert að því að tjá sig um málefni og fréttir svo fremi sem ALLAR staðreyndir séu á hreinu. Ekki er það mitt mál hvort eigandinn sé sekur eða saklaus, því ég veit akkúrat ekkert um það. Sá sem þetta gerði verður bara að eiga við sína eigin samvisku.

Eitt veit ég, og það er að ég á hérna 12 vikna gamlan hvolp................ og mikið rosalega getur hún verið snögg að hlaupa og láta sig hverfa ef litið er af henni í augnablik!!!

Elskum friðinn, hann fer svo miklu betur með sálartetrið í okkur.

Moli dagsins hljómar því svo að þessu sinni: Dæmdu aldrei í reiði. Reiðin líður hjá en dómurinn stendur eftir.


mbl.is Eigandinn saklaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilningur

bcahadided 

Ég hef undanfarið verið að lesa bókina Kona fer til læknis eftir Ray Kluun. Og ég verð að segja eins og er að hún hefur hjálpað mér mikið þó svo að um skáldskap sé að ræða. Bókin er um eiginmann konu sem fer til læknis og greinist með krabbamein í brjósti sem svo síðar breiðist út, um tilfinningar hans, framhjáhald og baráttu.

"Hvernig getur svona bók hjálpa Tínu?" kunnið þið að spyrja ykkur núna. Jú hún hefur hjálpað mér að skilja hann Gunnar minn örlítið betur. Við sem eigum í veikindabaráttu eigum erfitt og oft á tíðum ansi bágt, satt er það. En fyrst ég er á annað borð að segja ykkur skoðun mína, þá held ég að svona barátta sé makanum sem og aðstandendum erfiðari þó á annan hátt sé. Makinn vill nefnilega oft gleymast í svona og fellur hálfpartinn í skugganum. Sjaldan (ef nokkurn tímann) er hann spurður hvernig honum líði. Meðan barátta sjúklingsins er aðallega líkamleg þá er barátta makans andleg og öllu erfiðari viðureignar, því það er í raun ætlast til þess að hann sé kletturinn sem ekkert bjátar á. Það er jú ekki hann sem finnur til eða er veikur.

T.d á ég það allt of oft til að setja upp leikþátt þegar ég hitti fólk (er orðin ansi góð í því). Set upp "mér líður bara vel" grímu en Gunnar veit betur og skilur ekkert í því af hverju ég geri þetta. Hvernig get ég líka ætlast til þess þegar ég skil það ekki sjálf. Hann er í rauninni sá eini sem veit hvernig mér líður í raun og veru. Hann veit hvernig úr mér er allur vindur eftir svona leikþátt. Sama er þegar ég fer af stað á fullu í að gera og græja og læt sem ég heyri ekki líkamann kvarta hástöfum. Hann reynir að stoppa mig en ég hlusta ekki. Ég er komin í einhvern "ég skal geta þetta" frekju og þrjóskugír.  Síðan er það hann sem neyðist til þess að horfa bjargarlaus á afleiðingarnar.  Það lendir þá á elskunni minni að reyna eftir fremsta megni að bæta líðan mína, þó ég hafi vitað mætavel sjálf hvernig færi og er þá alfarið sjálfri mér að kenna. Það er hann sem lendir í að stappa í mig stálinu þegar mig langar að gefast upp, þó að ekki veitti af að einhver stappaði stálinu í hann.

Hann verður stundum jafnvel reiður við mig fyrir að hafa gert ákveðna hluti vitandi hvernig fer. En þá finnst mér hann skilningssljór og jafnvel vondur við mig. Ekki bað ég um að vera veik! Hvernig vogar hann sér að vera með leiðindi við mig? Sér maðurinn ekki að ég vil ekki vera eins og aumingi, sívælandi og kvartandi? Og svona held ég áfram hálfgerðri píslarvættisframkomu í sjálfselsku minni án þess að leiða hugann í eina sekúndu að honum og hvernig honum líður. Ég get í það minnsta tekið pillu eða eitthvað, en hvað getur hann gert annað en horft á, þegar hann vildi helst af öllu sveifla töfrasprota og "púff" allt er komið í lag? Nákvæmlega EKKERT.

En af hverju er ég að segja ykkur þetta? Jú vegna þess að mig langar að biðja ykkur að sýna aðstandendum smá athygli ef þið þekkið til svona aðstæðna. Ég held að makinn verði allt of oft svakalega einmana í svona ferlum, því það er sjúklingurinn sem fær alla athyglina meðan honum er hálfpartinn ýtt til hliðar, en samt er ætlast til alls af honum. Fyrir alls ekki svo löngu síðan þá sagði ég við Gunnar "mér finnst þú eitthvað svo einn". Hann horfði á mig stutta stund og sagði svo "það er vegna þess að ég er það". Úfff hvað mig langaði þá að eiga svona töfrasprota.

Þessi bók gerði nú engin kraftaverk á frekjunni ég og fékk mig ekki til þess að hætta að láta svona, allavega ekki ennþá, en ég er að vinna í því. Hún aftur á móti fékk mig til að staldra fyrr við, hugsa aðeins um Gunnar og hvað ég er að gera. En til að forðast allan misskilning þá vil ég taka fram að ég er ekki með brjóstakrabbamein og Gunnar er ekki hlaupandi út um allt haldandi framhjá. Bara svo það sé á hreinu.

Til hinna sem eru sjúklingar eins og ég langar mig aðeins að segja eitt. Munum að virða og þakka okkar nánustu fyrir það sem þau gera og ganga í gegnum. Gefum okkur smá tíma til að taka eftir því hvernig þeim líður.

Elskið lífið, ykkur sjálf og náungann. Það er vel þess virði.

 

Moli dagsins er því þessi: Sá er vinur sem í raun reynist.

Gunnar minn: Takk ástin mín......... ég er vegna þín.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband