Færsluflokkur: Vefurinn

Könnun

Að þessu sinni verður engin hugleiðing. Þess í stað langar mig að biðja ykkur um að hjálpa mér við að gera þessa síðu betri með því að svara þessari könnun sem er hér til hliðar. Hún verður þarna í viku og mun ég í framhaldinu birta niðurstöðurnar. Sumir eru nefnilega farnir að hafa orð á því að ég sé helst til þung í mínum bloggfærslum upp á síðkastið.

 

vi_erum_vinir.jpg

 

Að lokum óska ég ykkur góðrar helgar og hafið þið það sem allra best.

 

Munið svo að:  Dagur án hláturs er glataður dagur.


Mýslan mín

Agnes

 

í dag er það mýslan mín hún Agnes sem á afmæli og er hún 19 ára í dag. Þó að hún sé langminnst að þá var samt LANGerfiðast að koma henni inn í þennan heim. Hún Agnes mín er líka eina stelpan í hópnum. Hún er sú allra rólegasta og jafnframt sú alvörugefnasta. Hún er líkust mér og minnir mig afskaplega á sjálfa mig þegar ég var yngri. Það er ekki til að dóttir mín geri eitthvað af sér, það er bara ekki í henni. Eins og er með mig þá fæddist þessi drottning fullorðin. Og dugleg er hún. Því miður er hún orðin fullorðin og er flutt að heiman, þannig að ég gat ekki kysst hana til hamingju með daginn en sendi henni þess í stað fljúgandi koss hér í gegnum netið. Einnig er þessari drottningu minni gjörsamlega fyrirmunað að vera með símann á sér, en þegar hún er með hann þá er ansi oft slökkt á honum. Kom það mér því ekki mikið á óvart þegar ég hringdi í morgun að hún skuli ekki svara, en hún hringdi nú til baka fljótlega.

 

Til hamingju með 19 árið þitt hjartans Mýslan mín. Og ég hlakka mikið til að sjá þig fljótlega. Hér er svo moli sem mig langar að tileinka þér krútta og vona að þú hugsir mikið um hann á þessu ári. Gleymdu svo aldrei hversu heitt ég elska þig stelpa,

 

Uppspretta hamingjunnar er í hjarta þínu, ekki í umhverfinu í kringum þig.


Orlofið búið

Jæja yndislega fólk, þá er orlofið mitt búið og ég komin heim.

Þegar ég kvaddi starfsfólkið á deildinni þá spurðu þær hvernig ég hefði nú haft það í orlofinu. "Ég er búin að hafa það mjög gott, góð þjónusta og yndislegt starfsfólk. Verst þið misskilduð þetta fyrstu 3 sólarhringana þar sem þið trufluðuð mig á 4 tíma fresti til að taka úr mér blóð" sagði ég og glotti feitt. Þá var einn sjúkraliðinn fljót að svara og sagði "ÞAÐ VORU BARA HJÚKKURNAR" um leið og hún benti á eina. LoL

Sérfræðingurinn kom til að útskrifa mig um leið og hún sagði mér hvað hefði komið út úr öllum þessum rannsóknum. Það eina sem hún gat sagt var að niðurstöðurnar meikuðu engan veginn sens og að hún hefði bara aldrei séð þetta áður. Hún var með helling af línuritum til að útskýra sitt mál, en ég var bara engu nær. Fyrir mér voru þetta bara línur á blaði. Ég meina....... ef þetta meikar ekki sens fyrir hana..... hvernig átti það þá að gera það fyrir mig? Er von maður spyrji. En hún er enn að bíða eftir fleiri niðurstöðum og ætlar þá að funda með fleiri innkirtlasérfræðingum og reyna að fá botn í þetta. 

Þó furðulegt megi virðast þá gerðist nú margt skemmtilegt þarna enda starfsfólkið með eindæmum skemmtilegt. Ekki ætla ég að telja þetta allt saman upp en ég verð að minnast á eitt. Einn daginn lá ég þarna í rúminu og var ég að lesa. Einn herbergisfélagi minn var með gest hjá sér og var mikið fjör hjá dömunum. Allt í einu heyri ég að þær eru eitthvað að rembast við að lesa frönsku. Þá er gesturinn víst að læra kokkinn og þarf hún núna að læra heitin á fagmálinu sem er víst franska. Var hún með bókina sína með sér og skemmtu þær sér við að lesa upp úr henni. Ég var farin að eiga ansi bágt með mig því mér fannst þær svo fyndnar. Á endanum gat ég ekki á mér setið og segi "Adda mín................. það er sko greinilegt að ég verð að taka þig í smá frönskukennslu í kvöld". Labbaði svo til þeirra og ræddi í smástund við þær. Til að gera langa sögu stutta, þá kom í ljós að hún Adda mín er fyrrum nemandi minn. Dóttir mín er snillingur í að roðna meistaralega ENN......... ég hef ALDREI séð manneskju roðna eins mikið og hana Öddu þegar hún fattaði hver ég var. En ég s.s kenndi henni frönsku þegar hún var í 10 bekk árið 1999. Ef þið hafið lesið athugasemdirnar við síðustu færslu, þá ætti þetta að skýra skotin sem gengu á milli Leifs sonar minns og Öddu Monster.

Að lokum þá var síðasti opnunardagur Blaze í gær og fór ég til að vinna. Hann Gunnar minn var vægast sagt ekki glaður að sjá mig þegar hann fattaði að ég ætlaði mér að vinna þennan daginn. En ég gat ekki annað. Ég bara varð að vera með síðasta daginn. Ég er búin að leggja allt mitt í þessa búð, síðustu 3 ár (tæp) og gott betur en það. Það verður sárt og skrítið að taka allt niður næstu 2 vikurnar. Marga fasta og góða kúnna höfum við eignast á þessum tíma og verður erfitt að sjá eftir þeim. En ég stend enn fast á því að þetta hafi verið rétt ákvörðun eins og sakir standa. Tíminn einn á eftir að leiða það í ljós.

Lífið heil elskurnar mínar og allir hinir og megi almætti geyma ykkur og vernda.

 

Þar til næst þá er hér einn góður moli sem ég fann.  Þú ert lifandi segull. Það sem þú dregur inn í líf þitt er í samræmi við ríkjandi hugsanir þínar. -Brian Tracy

 


Frumburðurinn tvítugur.

Leifur minn 

Þessi ungi maður er tvítugur í dag. Vá hvað mér finnst samt stutt síðan ég átti hann. Margar eru þær orðnar gleðistundirnar sem hann hefur fært mér og hlakka ég mikið til komandi ára. Hann er nefnilega eins og gott rauðvín ......... verður s.s betri með árunum. En eins og gefur að skilja þá þekki ég þennan dreng eins og lófann á mér og veit þess vegna að hann hálfpartinn gerir ráð fyrir því að ég bloggi um hann í dag, og ekki vil ég bregðast manninum. So here it is.

 

Til hamingju með daginn hjartað mitt.  Hér er svo visdómsmoli fyrir tuttugasta árið þitt

 

Ný tækifæri blasa við þér á hverjum morgni þegar þú vaknar, þú þarft aðeins að taka eftir þeim og nýta þau. 


Afsökunarbeiðni og fréttir

Fyrst langar mig að biðja ykkur vini mína afsökunar á því að hafa ekki gefið mér stund í langan tíma til að kíkja á bloggin ykkar. Loforðið mitt stendur um að það standi nú allt til bóta þó að það verði ekki alveg strax. En eins og ég hef sagt að þá er bara voðalega lítil orka eftir þegar ég er búin að vinna. Vonandi verðið þið áfram þolinmóð við mig sem fyrr.

Við hjónin fórum og hittum sérfræðinginn í dag. Mér hefur farið töluvert aftur síðustu vikurnar og verð ég lögð inn næstkomandi mánudag og er gert ráð fyrir að ég verði alla vikuna. Þar verða ítarlegar rannsóknir framkvæmdar og framhaldsmeðferð ákveðin. Taugarnar eru eitthvað að gera mér lífið leitt og gera það að verkum að ég kúgast kannski allt í einu í miðri setningu. Þetta er frekar neyðarlegt og er ég farin að kvíða því að þetta gæti gerst meðan ég er að afgreiða. Ekki vildi ég láta afgreiða mig og starfsmaðurinn færi allt í einu að kúgast. Ég er heldur ekki að bregðast rétt við lyfjameðferðinni og grínaðist sérfræðingurinn með að það væri kannski réttast að skrifa kennslubók um mitt tilfelli.

Einnig vissi ég ekki lengur í hvorn fótinn ég átti að stíga og er því komin með hækju Tounge. Hana nota ég þegar ég er orðin mjög þreytt í fótleggnum. Hún fer mér sko alveg þrusuvel get ég sagt ykkur.

Við Gunnar tókum síðan mjög erfiða ákvörðun um daginn. En við erum s.s búin að ákveða að loka versluninni. Ég hef bara ekki orku í að berjast á báðum vígstöðvum, því svona rekstur er í dag afskaplega þungur og barátta á hverjum einasta degi. Ég er alveg ákveðin í að berjast og hafa betur í veikindabaslinu en til að geta það þá þarf ég á allri minni orku að halda. Og hún er bara sem stendur af mjög skornum skammti. Ástandið í þjóðfélaginu hjálpaði bara til við að taka þessa ákvörðun. Búðinni verður lokað í kringum mánaðarmótin og er rýmingarsalan í fullum gangi núna. Þetta er meðal annars ein ástæðan fyrir því að ég geti bráðum staðið við loforð mitt um að sinna ykkur bloggvinum mínum aðeins betur.

Jæja elskurnar mínar................... þetta eru fréttirnar sem stendur. Veit ekki alveg hvenær ég blogga næst en það verður vonandi fljótlega.

 

Hér er svo molinn að vanda: Í hvert sinn sem eitthvað gott hendir þig, láttu þá eitthvað gott henda einhvern annan.

 

Knús á línuna


8 ár

Brúðkaup

Í dag eru 8 ár síðan þessi mynd var tekin.

Ekki ætla ég að hafa mörg orð um þetta. Enda bý ég ekki yfir nægilega sterkum orðum til að lýsa manninum mínum. Það eina sem ég get í rauninni sagt er að ég er svo hriiiiikalega vel gift!!! Vonandi segir þetta allt sem segja þarf. Ekki get ég hugsað mér lífið án hans og ég vil það ekki heldur. Aldrei hefði ég getað og gæti ekki staðið í öllu sem gengur á hjá mér án hans stuðnings og styrks. Ég hreinlega ELSKA þennan mann. 

 

Molinn að þessu sinni er því tileinkaður honum Gunnari mínum: Ást er tvær samhljóma sálir og tvö hjörtu sem slá í takt.


Fréttir af mínum og mér

Jæja ætli það sé ekki kominn tími á smá blogg.

Ég fór stóra dýfu um daginn og er hægt og rólega að komast upp aftur. Ég taldi þetta vera eingöngu vegna fréttanna sem ég fékk rétt eftir jólin en minn heitt elskaði minnti mig á að ég hefði líka verið svona síðast þegar ég fór í þessa lyfjameðferð. Það tæki líkamanum tíma að aðlagast og þetta væri bara svona. Mér var farið að mislíka sjálfa mig ansi mikið og kunni bara ALLS EKKI við þessa skapvondu Tínu.

Nokkrir vina minna sem lesa þetta blogg komu alveg sérstaklega til þess að knúsa mig og þótti mér endalaust vænt um það. Einar bloggvinur með meiru gerði sér meira að segja ferð úr bænum til þess. Það jákvæða er að vanlíðanin sem fylgir þessu gleymist fljótt. Allavega geri ég það. Ég var meira að segja búin að gleyma því að ég ætti sérstök ógleðilyf!!! Sigurlín vinkona mín kom um daginn og var ég þá ælandi eins og múkki. Mundi hún þá eftir þessum lyfjum og leitaði í hvert einasta box (sko nóg til af þeim) og las á alla fylgiseðlana þar til hún fann rétta lyfið. Svona vinir eru ómetanlegir. Svo hlær hún bara að mér ef ég er í geðvonskukasti og finnst ég bara fyndin.

Núna erum við hjónin að undirbúa útsölu í búðinni. Við erum orðin nokkuð þekkt fyrir að hafa þetta aldrei eins og er engin breyting þar á. Það var búið að vera hryllilega rólegt að gera og ákváðum við þess vegna að loka búðinni á meðan undirbúningurinn er. Ég einfaldlega hef ekki orku í að sprengja mig á þessu utan eðlilegs opnunartíma. Vonandi sýnir fólk því skilning. Í raun efast ég um annað. Margir hérna vita orðið af baráttu minni. Við munum svo opna aftur á þriðjudaginn hress og kát. Eða í það minnsta kát. Útsalan hjá okkur að þessu sinni verður með því sniði að allt er sett á heildsöluverð. Jebb þið lásuð þetta rétt. Síðast vorum við enn kræfari og tókum núllin af. SHIT þá varð sko allt vitlaust. En við ætlum ekki að gera það núna. Núna fer s.s allt á heildsöluverð. Og venju samkvæmt þá verður þetta stutt en góð útsala.

Elsku Hrönn mín kom og hjálpaði til við að verðmerkja og var það hreinasti brandari að fylgjast með henni. Hvað þá að hlusta á hana. Nokkrum sinnum heyrðist í henni "Tína.............. sko ég tek ekki þátt í þessari vitleysu!!!" En hún hætti nú samt ekki að hjálpa þessi elska.

 

Jæja elsku vinir......................... læt hér staðar numið í bili. Farið vel með ykkur

 

Molinn: Stundum erum við svo önnumkafin við að öðlast meira, að við gleymum þakklætinu yfir því sem við höfum.

Guð geymi ykkur

 

 

 


Upside....... down

Í þessum skrifuðum orðum veit ég ekkert hvernig mér líður eða hvernig mér eigi að líða. Ekki gat árið nefnilega leyft sér að klárast áfallalaust hjá mér. Þess vegna ákvað ég að setjast við tölvuna og blogga (allra meina bót er mér sagt). Kannski verð ég einhverju nær á eftir. Hver veit?

Í dag tók ég nokkur skref aftur á bak að mínu mati, heilsufarslega séð. Málið er þannig vaxið að ég hef lengi kvartað við sérfræðinginn minn undan verkjum og vanlíðan, en eins og þið kannski (sum ykkar) munið að þá var ekki hlustað á mig. Ýmist hefur verið að líða yfir mig í tíma og ótíma eða ég ansi nálægt því. Hárið er allt að detta af svo eitthvað sé nefnt. Alltaf talaði sérfræðingurinn minn um að mér væri batnað en að það tæki tíma að verða almennileg aftur.

22 des kom sérfræðingurinn minn aftur úr fríi og hringdi hún í mig til að heyra hvernig ég hefði það. Eftir samtalið spurði hún hvort ég gæti komið morguninn eftir í rannsókn og svarið sem hún fékk var "fyrr frýs í helvíti". Á Þorláksmessu er brjálað að gera í búðinni og ekki séns ég hefði tíma til að fara í bæinn. Niðurstaðan varð sú að ég færi strax eftir jól eða í gær nánar tiltekið. Sama prófið var gert í gær og þegar kom í ljós að ég væri sjálf farin að framleiða kortisól aftur og það vel.

Ég fékk svo símtal í morgun frá ritara sérfræðingsins, þar sem við hjónin vorum beðin um að koma strax í dag kl 13:30. Þið getið ímyndað ykkur hvernig okkur leið. Ekki ætla ég að gera lítið úr hræðslunni sem bærði á sér. Bæði héldum við að nú væri heilaæxlið farin að gera einhvern óskunda og við blasti farmiði til Svíþjóðar. Ég hringdi strax í Sigurlínu bestu vinkonu mína og fékk hana til að koma og róa mig niður. Einnig fór ég til Sammýar vinkonu minnar og bað hana að fara með eins og eina bæn fyrir mig því ég væri hrædd. Ekki stóð á styrk vinkvenna minna. Og er ég virkilega rík að eiga þær að.

Ekki vissum við hverju við mættum búast við þegar við hittum sérfræðinginn. Hún byrjaði á að eyða miklum tíma í að útskýra og að mér fannst að réttlæta, hvers vegna hún hefði ekki hlustað á mig síðustu mánuði og verið svona hrikalega loðin í svörum. Einnig sagðist hún hafa viljað sjá með eigin augum hvernig ég líti út í dag og að ég væri ekki að ýkja með hárið. Við ókyrrðumst talsvert því ekki kom hún sér að efninu. En loksins kom það.  Niðurstaðan úr rannsókninni í gær var mjög neikvæð. S.s ég framleiði sama sem ekkert kortisól sjálf. Ekki gat hún svarað því hvers vegna niðurstaðan hefði verið svona góð síðast en ekki núna og ekki veit hún hvað er í gangi. Það hvort heilaæxlið er að gera eitthvað af sér kemur í ljós í næstu viku. Núna er ég komin aftur á byrjunarreit og þarf aftur að taka inn lyfin í 3 vikur og hitti hana næst 22 janúar. Þá verður frekari meðferð og framhald ákveðin.

Ég er mjög glöð að vita að ég var ekki að búa mér til þessa vanlíðan síðustu vikurnar og mánuði eins og hún hélt. Og ég er mjög glöð yfir því að hún sé búin að viðurkenna það. Enda hvæsti minn heittelskaði svolítið á hana og var ég mjög ánægð með það. En ég veit ekki hvernig mér líður með þessi skref til baka. Ég er þreytt á sálinni, það er það eina sem ég veit. Og ég er ekki frá því að vonleysi sé farin að segja til sín. Ég nenni þessu ekki lengur. Ég sagði við Sigurlínu á sunnudagskvöldið að niðurstaðan yrði ekki eins góð og síðast en ég bjóst ekki við svona stóru stökki.

Ég var tiltölulega nýbúin að sætta mig við hármissinn. Er núna með knallstutt hár. Þannig að ég get ýft því og þá ber minna á því í bili. Næsta skref verður að raka það allt af. Núna er ég eins og kvikmyndastjörnurnar................... ég vakna nákvæmlega eins og þegar ég fer að sofa!!! Svo þarf ég ekki að hafa áhyggjur af áramótagreiðslunni + töluverðan hársápusparnað. Nú verð ég að sætta mig við nýju fréttirnar og veit ég geri það............. á endanum. Þarf bara smá tíma.

Eins og ég hef áður sagt, að þá hlýtur Guð að hafa mikið álit á okkur hjónum fyrst hann telur okkur geta borið þetta endalaust.

 

Í stað þess að skrifa minn venjubundna mola þá langar mig að skrifa hérna örstutta bæn.

Guð. Hjálpaðu mér að viðurkenna alla þá króka sem leið mín liggur um. Hjálpaðu mér að höndla hið góða og það miður góða, sem á vegi mínum liggur.

Ég sendi ykkur öllum kveðju ljóss og kærleika. Þar til næst.

 

 


Ég óska ykkur farsældar á komandi ári.

Ekki fann ég hjá mér dropa af orku til að skrifa hérna jólakveðju til ykkar. Og skammast ég mín pínu fyrir það.

Þess í stað sendi ég hér áramótakveðju. Megi Guð færa ykkur ró í hjarta og birtu í sálinni á árinu sem er að ganga í garð. Megi þið öðlast 365 dagar sem færir ykkur óvænta atburði, helling af gleði, dassi af reynslu en umfram allt, hlass af hamingju. Einnig vil ég þakka ykkur öllum fyrir ómetanlegan stuðning og styrk sem þið veittuð mér öll á árinu sem er að líða. Mér hefur þótt mikið gott að hella úr skálum mínum hér á blogginu, og ekki hefur staðið á hvatningum, hlýju og jákvæðni frá ykkur.

Marga vini hef ég eignast hér og bind ég miklar vonir við að eignast enn fleiri, því endalaust er plássið sem ég hef fyrir nýja vini. Takk öll fyrir að vera til og ávallt til staðar.

Árið 2008 hefur svo sannarlega verið okkur hjónum viðburðaríkt en fullt af lærdómi. Eftir stöndum við sterkari og reynslunni ríkari. Og þó ég hafi nú lært mikið á árinu sem er að líða og sé á margan hátt þakklát fyrir það ................... þá held ég svei mér að ég taki mér frí frá þessum skóla á komandi ári!!!

Mín lokaorð fyrir þetta ár eru því þessi:

 

Reynslan er forréttindi þess að teljast manneskja.

Ég finn bragðið af spagettíinu.

Ég finn lyktina af hreinu lofti.

Ég finn viðareldinn hjá nágranna mínum taka kuldahrollinn úr loftinu.

Ég get elskað.

Ég finn sársauka.

Er þetta ekki yndisleg reynsla?

Og ég þakka Guði hvert augnablik og tilfinninguna fyrir þeirri lífsreynslu sem ég hef öðlast.

Ekki má ég svo klikka á molanum. Ef þú elskar lífið skaltu ekki sóa tímanum, því tíminn er það sem lífið er búið til úr. - Benjamin Franklin

 

P.s Takk fyrir afmæliskveðjurnar.


Nefndu 4 atriði

Góð vinkona, vandvirk, ósérhlífin og óþolinmóð.

Ég las einhversstaðar þessa setningu "Ef þú bara vissir hversu fáir nenna í raun og veru að hugsa mikið, ef þá nokkuð um þín mál, þá hefðir þú minni áhyggjur af áliti manna"

Spáið í því hvað það er mikið til í þessu!! Við eyðum svo oft tíma í að hugsa um hvað öðrum finnist að við steingleymum að velta fyrir okkur hvað okkur finnst um okkur sjálf. Samt eru ansi margir sem munu segja að þeim sé sko skítsama um hvað öðrum finnst. En innst inni held ég að flestir átti sig á að þessi staðhæfing sé ekki alveg eins sönn og viðkomandi vill vera láta. Auðvitað er okkur ekki sama. Og satt að segja þá á okkur heldur ekki að standa á sama. Við þurfum bara að breyta þessu aðeins.

Leyfið mér að útskýra þetta aðeins nánar. Málið er að við hugsum að mínu mati of mikið um hvað öðrum finnist um hvað við erum að gera, hvernig við erum klædd, hvað við kaupum, hvaða áhugamál við höfum og svo framvegis. Þegar við ættum í raun að hugsa um hvernig við viljum láta minnast okkar eftir að við förum yfir landamærin. Ég er handviss um að sá hugsunarháttur fengi okkur til að hugsa aðeins meira áður en við framkvæmum, segjum eða gerum.

Einnig er það of algengt að við hugsum okkur niður. Hvað á ég við með því? Ég á við að þegar við rennum yfir okkur sem manneskju með kostum og göllum, þá séum við of gjörn á að einblína á gallana. Við viljum helst ekki segja of mikið frá okkar kostum, því aðrir gætu tekið því sem mont eða eitthvað svoleiðis.

Ég hugsaði um þetta í gær þegar ég var komin í rúmið, og var þá að velta fyrir mér hvaða 4 atriði myndu best lýsa mér. Aldrei hefði ég getað trúað því hvað þetta er í raun erfitt. Fyrst komu gallarnir ósjálfrátt upp, og voru sko snöggir upp á yfirborðið. Þá píndi ég mig til að finna eitthvað gott við mig. Ég strikaði yfir í huganum í það minnsta 100 sinnum. Af því mér fannst ég þá vera of góð með mig og ýmislegt í þá veru. Svo ákvað ég að hætta þessari vitleysu því það heyrði hvort eð er engin í mér þar sem ég var að hugsa þetta. Þá gat ég alveg talið nokkur atriði. Þá fór ég að velta fyrir mér af hverju í ósköpunum ég gæti ekki sagt þetta um sjálfa mig? Var þetta eitthvað feimnismál? Er endilega dyggð falin í hógværðinni? Er bara ekki allt í lagi að ég hafi til að bera kosti nákvæmlega eins og allir aðrir?

Ég hélt það nú!!! Og hér efst í færslunni birtast mín 4 atriði sem mér finnst lýsa mér best. Og nú kemur tilgangurinn með þessari færslu. Mig langar að biðja ykkur um að gera það sama. Ég myndi gjarnan vilja heyra hvaða 4 atriði lýsa ykkur best. Ég veit minnst um 1 gott atriði við hvert ykkar sem hérna kvittið reglulega og samt þekki ég mörg ykkar lítið sem ekkert. Flest ykkar eigið ykkar einkenni hér á blogginu sem segir margt um ykkur. Og ég hef verið svo lánsöm að hitta ekki enn á neinn sem ég get ekki sagt eitthvað gott um.

Ég mana ykkur til að gera þetta og sum ykkar mun jafnvel finnast þetta erfiðara en þið tölduð. Takið eftir hvernig hugurinn fer af stað um leið og þið byrjið. Hversu gagnrýnin þið verðið jafnvel áður en þið sendið. Alveg hreint ótrúlegt hvað við erum oft óvægin við okkur sjálf. En vitiði............... þegar upp er staðið er ég sjálf mjög ánægð með að deila með ykkur þeim kostum sem ég tel mig búa yfir sem og galla. En það er eitt sem mig langar alveg sérstaklega að biðja ykkur um...... og það er að minnst 3 atriði séu kostur en ekki galli Wink

 

Að lokum er hinn vanabundni moli: Hefur hver til síns ágætis nokkuð. - Brennu-Njáls saga. - Gunnar á Hlíðarenda.

 

Farið vel með ykkur og munið að mér finnst þið ÆÐI.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband