Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Kærleikskveðja

Góður vinur minn sendi mér þetta og fann ég mikla þörf á að deila þessu með ykkur.

Ég vakna þennan morgun og vel að hann sé góður
vel að  hann sé yndislegur, myrkur og hljóður
ég vel að kúra um stund og staðnæmast  við það
hve stórkostlegt sé lífið ef fátt amar að.

 Ég ákveð því að velja að vandamálin fá
vistuð séu hjá  mér til þess eins að ljá
tilverunni ennþá fleiri tilbrigði og fleti
ég tek  þeim opnum örmum svo nýtt mér þau ég geti.

Og eftir litla stund ég vel að fara á fætur
faðma  þennan morgun og allar hans rætur
hita mér gott kaffi af kærleik þess ég nýt  
kex smyr með osti í blöðin svo ég lít.

Að endingu ég segi við þig sem þetta lest
þetta er  góður dagur, hafðu það sem best
ég óska þess að hugsanir fallegar þig  finni
ég faðmlag þér sendi og kveð þig að sinni.

Höfundur: Unnur Sólrún


Draumar eru eins og neistar

Lítið rólega í kringum ykkur. Allt sem þið sjáið í dag var einhvern tímann draumur einhvers. Okkar kynslóð hefur notið góðs af draumum svo margra.

Mandela, Einstein, Gandhi, Spielberg, Móðir Teresa, Gates, Disney og listinn gæti haldið áfram endalaust. Allt byrjaði þetta hjá þeim með draumi. Hver getur gleymt öflugustu ræðu allra tíma sem Luther King hélt "I have a dream"? Förum öll aðeins aftur í tímann og sjáum hversu langt við höfum náð síðan King byrjaði að á fyrir þessum raunveruleika.

"Djúpt í hvers manns hjarta, liggur neisti sem kveikir í hugarflugi manns. hugurinn ber mann hálfa leið en hjartað sér um rest. Þú munt finna trúna í eigið sköpunarverk"

Ekki halda að ég sé svona klár sko, en þetta er lausleg þýðing á lagi sem Celine Dion söng - The power of the dream.

Ok kannski sjáið þið ykkur ekki sem Mandela eða Bill Gates. En ef ske kynni að þið væruð ekki búin að fatta það sjálf, að þá innst í okkur öllum leynist draumur. Hann er búin að vera þarna frá því við vorum sköpuð. Því draumarnir eru það sem gefa okkur bæði framtíð og vonir.

Reglulega ættum við að gefa okkur tíma til að ímynda okkur það besta sem gæti orðið. Setjum hversdags áhyggjurnar til hliðar í örlitla stund, enda nægur tími fyrir þær seinna. Vekjum aftur upp löngu gleymd markmið og allt of vel geymdir draumar. Minnum okkur á alla frábæru möguleikana sem lífið hefur upp á að bjóða fyrir okkur. Endurnýjum ákvarðanir okkar svo við getum byrjað að sá.

Eyðum nokkrum gæðastundum með draumum okkar. Þeir eru raunverulegir upp að því marki sem þið leyfið. Upp að því marki sem þið helgið ykkur draumunum og vinnið fyrir þá, verða þeir að veruleika.

Lokaversið í laginu hennar Celin hljómar svona "Það er svo mikill kraftur í okkur öllum, konum, börnum og körlum. Það er á þeirri stundu sem þú telur þig ekki geta meira, sem þú uppgötvar að þú getir það."

Ég held það sé vel þess virði að láta reyna á þetta og láta draumana rætast, því það er ALDREI of seint. En þetta er hugleiðing vikunnar elskurnar mínar. Vonandi kemur hún að einhverju gagni fyrir einhverja. Knús inn í vikuna ykkar.

 

Molinn þessu tengdu er: Allir draumar geta ræst, ef við höfum hugrekkið til að fylgja þeim eftir.- Walt Disney


Lengi getur maður á sig "blómum" bætt

Halló elsku hjartans dúllurassarnir mínir.

Sorry að ég skuli ekki hafa bloggað lengi en það hefur slatta gerst síðustu daga og hef ég þurft bæði tíma og frið til að melta þetta allt saman.

Mamma mín er loksins á batavegi og var hún send aftur í Stykkishólm í gær og er núna á sjúkrhúsinu þar. Ég hef daglega verið hjá henni og fylgst með haukfráum augum. Grey konan............ hún fékk sko engan frið fyrir mér þessi elska. En þar sem þetta er farið af bakinu á mér þá myndaðist pláss fyrir annað Crying

Ég fór í sneiðmyndatöku á heilanum um daginn og fékk ég þær fréttir á föstudaginn var að æxlið hefði stækkað en að enn stæði ekki til að gera neitt í því. Ég skil þetta ekki og skil í rauninni ekki hverju er verið að bíða eftir. En ég verð víst að sætta mig við þetta og halda áfram að halda í voninni og bíða. Einnig tilkynnti Helga sérfræðingurinn minn að hún væri hætt við að sjokkera nýrnahettuna í gang. Ekki skil ég neitt í því heldur og útskýrði hún það ekkert nánar þrátt fyrir ítrekaðar spurningar mínar þar að lútandi.

Svo fór ég í krabbameinsleitarstöðina í dag vegna þess að ég fann hnút í öðru brjóstinu sem og hita og fannst mér því að betra væri að láta athuga það nánar. Það kom þá reyndar í ljós að um stíflaðan mjólkurkirtil væri að ræða og létti mér svakalega við að heyra það. En það var skammgóður vermir því miður. Því læknirinn fann annan hnút (við holhöndina) sem henni leist ekki betur á en svo að hún vill láta kanna það nánar. Fer ég í þá myndatöku 27 okt. Einnig var leghálsinn skoðaður og sýni tekið. Þar kom í ljós að legið er orðið allt frekar mikið stórt og bólgið vinstra megin. Einnig hafði hún áhyggjur af því að það mætti varla koma við legið án þess að úr blæddi fyrir vikið. Þetta vill hún líka láta skoða nánar og verður það gert 15 þessa mánaðar.

Þetta með legið kom mér gjörsamlega í opna skjöldu vegna þess að ég hef ekkert fundið neitt til þar. Jújú blæðingarnar hafa verið í algjöri fokki en ég hélt það væri vegna cushing sjúkdómsins. Og það kom mér hrikalega á óvart hvað ég reyndist finna mikið til vinstra megin við skoðun. Sársaukinn var næstum því brútal.

Ég veit ekki hvernig mér á að líða gagnvart þessu. Ég var búin að búa mig undir að fá athugasemd við annað hvort (svona til að vera viðbúin) en ekki bæði. Svei mér ef ég er ekki bara komin yfir hræðsluna um að eitthvað sé að mér. Það er svo hrikalega margt búið að ganga á að það kemur mér orðið ekkert á óvart lengur. Liggur við að ég segi bara "jájá blessaður komdu bara með þetta, ég er orðin vön og þoli þetta alveg" Margir hafa sagt við mig að það sé ekki lagt meira á mann en maður getur borið og greinilegt að lengi getur maður á sig "blómum" bætt. En þó svo að ég þoli þetta alveg að þá hef ég áhyggjur af mínum nánustu sem verða sífellt hræddari um mig. Elskulegur eiginmaður minn virðist vera í lausu lofti og gat hann heldur ekki sagt mér hvernig sér liði en áhyggjurnar voru augljósar.

En það er víst ekkert annað í stöðunni en halda pollýönnu leiknum áfram og vona það besta þar til og ef annað kemur í ljós.

Lítum nú aðeins á það góða sem hefur gerst hjá mér síðustu daga. Ég komst að því að Hrönn vinkona mín með meiru fer út að labba með hundana sína eldsnemma að morgni. Og úr því ég vakna sjálf alltaf á ókristilegum tíma, þá spurði ég hana hvort ég mætti slást í för með hana ásamt mínum hundum og var það auðsótt mál. Vitiði................... ég hef aldrei sofið eins vel og eftir að ég ætlaði að byrja á þessum göngum með henni. Núna fer ég orðið ekki á fætur fyrr en um kl 9 á morgnana og hef því aldrei farið í þessar göngur með þessari elsku!!! Ætli tilhugsunin ein hafi ekki bara verið svo hrottalega þreytandi? Og svo kynntist ég yndislegri konu í dag. En ég get alltaf bætt við mig vinum. Þessi kona heitir Rannveig og er hún cushing sjúklingur eins og ég. Síðast þegar ég heyrði í sérfræðinginn minn þá bað ég hana að láta þessa konu hafa númerið mitt svo hún gæti haft samband ef hún vildi. Þessi elska gerði það sama dag og hún fékk númerið sem var núna á þriðjudaginn og hittumst við svo heima hjá henni í dag. Það var voðalega gott að hitta konu sem hægt er að bera bækur sínar saman við og ekki skemmir fyrir að hún Rannveig mín hefur alveg yndilega og afslappaða nærveru. Ég hlakka sko mikið til að kynnast henni betur.

En jæja krúttin mín............... ætla að kalla þetta gott í bili og ætla að kíkja aðeins á bloggin ykkar, en ég hef ekki gert það síðan að mamma mín veiktist. Líka er þessi færsla orðin hin þokkalegasta langloka og eru nú takmörk fyrir því hverju er hægt að bjóða ykkur vinum mínum upp á. Þungavigtarknús á ykkur öll.

 

Molinn: Menn verða að fá svolítinn mótbyr, annars hætta þeir að vera manneskjur. Þá setjast þeir bara og láta sér leiðast og vita ekki hvað gleði er. - Gabriel Scott


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband