Færsluflokkur: Heimspeki

Enn ein pælingin

Kannast þú við að fara allt í einu að hugsa um eitthvað sem þú hefur gert einhverjum eða sagt sem var kannski miður fallegt? Það kemur ansi oft fyrir mig nú til dags og fer ég þá ósjálfrátt að gretta mig og hjartað í mér herpist við tilhugsunina. Um leið spyr ég sjálfa mig "hvað varstu að hugsa þá og hver var nákvæmlega tilgangurinn með þessu?"

Helst langar mig þá að hlaupa af stað og biðja viðkomandi fyrirgefningar á gjörðum mínum og/eða orðum. En hver væri hugsunin á bak við? Væri ég að þessu til að hinum líði betur eða til að friða sjálfa mig og mína samvisku?

Sannleikurinn skal sagður hér og er ég hrædd um að hið siðarnefnda væri rétta ástæðan. Jújú ég get svo sem talið sjálfri mér trú um að ég væri að þessu til að hinum líði betur og væri það sjálfsagt líka viljinn með því, en við vitum öll að það væri ekki allskostar rétt. Sennilegast er viðkomandi búin að jafna sig á særindunum að því marki að þetta hefur engin áhrif á hið daglega líf.

En hvað get ég þá gert þegar samviskan bankar upp á vegna liðinna atburða? Mín skoðun er að tvennt verði að koma til. Það fyrsta er að iðrast einlæglega og hitt er að læra af reynslunni. Staðreyndin er sú að annað má sín lítils ef hitt fylgir ekki. Ég tel heldur ekki nóg að segja mér sjálfri mér að þetta ætli ég aldrei að gera aftur. Því eftir stendur að ég særði einhvern og verð ég að bæta fyrir það. Mitt mat er að best sé að vera einhversstaðar ein með sjálfri mér og gefa mér svo tíma til að setja mig spor þess sem fyrir varð, helst þar til ég skynja sársaukann sem ég olli með framferði mínu. Þetta held ég að sé eina leiðin til að iðrast einlæglega og læra af reynslunni.

Ansi oft bregst ég við aðstæðum án þess að hugsa. T.d get ég nefnt eitt af því sem ég þoli ekki, en það er léleg þjónusta. En hver þykist ég vera? Er ég svona óskaplega sjálfhverf og merkileg að mér sé gjörsamlega fyrirmunað að gefa gaum að því að kannski líður afgreiðslumanninum ekki vel á sálinni, í hjartanu eða líkamlega? Ætla ég virkilega að vera sú sem bætir á vanlíðan viðkomanda? Dóttir mín vinnur við afgreiðslu og hefur það ansi oft komið fyrir að hún kemur eyðilögð heim vegna framkomu viðskiptavina. Hún hefur sagt mér að stundum sé hún bara búin að fá nóg af ömurlegri framkomu manna að þegar svo kemur einn almennilegur þá sé það henni nánast um megn að vera almennileg á móti.

Lítum okkur nær og tökum aðeins til hjá okkur og okkar framkomu. Ég veit ekki með ykkur en svo sannarlega langar mig ekki til að vera manneskjan sem eyðileggur daginn fyrir öðrum. Þess vegna ætla ég að æfa mig í að setja mig í spor annarra.

Það býr kærleikur og samkennd í okkur öllum. Dreifum því í kringum okkur. Brosum meira, því meðan við brosum er erfitt að hnussa, agnúast út í aðra, hvæsa eða vera með leiðindi.

 

Guð geymi ykkur öll, fangið ljósið sem býr innra með ykkur og látið það lýsa upp ykkar tilveru.

 

 

Molinn:  Það skiptir ekki mestu að bæta árum við líf sitt, heldur hitt, að bæta lífi við ár sín. - Alexis Carrel


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband