Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Ég er ekkert ofvirk....... það eru bara hinir sem eru hægir!!

Ég er því miður búin að komast að því að mér er bara ekki viðbjargandi. Ég er eins og versta gelgja á mótþróaskeiði Blush. Það er stöðugt verið að segja við mig "Tína...... nú verður þú að slappa af, þú mátt ekki lyfta neinu, þú verður að láta aðra gera þetta, ekki ofreyna þig" og svona gæti ég haldið endalaust áfram. Fólk hefur varla sleppt orðinu, þegar ég er farin af stað. Svo fylgir þessum skipunum alltaf sama setningin "draslið/skíturinn fer ekki neitt". En það er einmitt málið gott fólk. Þessi fjandi fer ekki af sjálfu sér. Ef svo væri, þá skyldi ég alveg slappa af. Þannig að ég geri þetta bara sjálf, þó ég sé lengur að því. Ekki þar fyrir utan að það er ekki nokkur fræðilegur möguleiki á því að ég nenni bara að hanga dag eftir dag og gera ekki neitt. Það er nefnilega frekar leiðinlegt til lengdar sjáið þið til.

Ein hliðarverkun veikinda minna er að beinin í mér eyðileggjast. Þannig að læknirinn sagði við mig að ef það er sól úti, þó ekki væri nema smá glæta, þá skyldi ég koma mér út. Þetta ku víst að vera gott fyrir beinin. Okeiiiii ekkert að því. En svo var ég farin að vera eins og sólþurrkaður tómatur að framan, þannig að ég ákvað að jafna litinn út (svo það verði nú gott báðum megin) og besta leiðin til þess væri að vinna í garðinum. Svoleiðis að mín fór í gær að klóra upp mosann og grasið sem er á milli hellnanna hér á stéttinni fyrir utan. Og er núna brennd á bakinu. Þetta er allt að koma sko LoL

Vaka, sem er yndisleg kona frá félagsþjónustunni, hringdi svo í mig í gær til að láta mig vita að það ætti að senda mér 2 hörkuduglegar konur næstkomandi fimmtudag, til að hjálpa mér við þrifin hérna og taka ærlegan skurk á heimilið. Ég spurði hana þá hvort ég gæti beðið þær að taka eldhúsinnréttinguna fyrir mig, þar sem enn væri fullt af glerbrotum að finna í skúffunum og víðar. Þessi elska sagði að það væri ekki venjan en vegna aðstæðna þá yrði það gert. Nema hvað nú þarf ég að hringja í hana og láta hana vita að ég sé eiginlega búin að þessu. Málið var að eftir símtalið, þá gat ég ekki á heilli mér setið við tilhugsunina um öll glerbrotin, að ég ákvað að byrja í það minnsta á þessu. Ég vissi svo ekki af mér fyrr en ég var búin. En getið þið sagt mér eitt? Hvernig í ósköpunum stendur á því að skúffurnar minnka á milli þess sem þær eru tæmdar, þrifnar og fylltar aftur?????? Ég get svarið fyrir það að ég ætlaði ALDREI að koma eldhúsáhöldunum fyrir aftur.Skenkur_3

Ég hitti síðan Sigga Þór vin okkar, og það var alveg honum líkt að bjóða fram aðstoð sína. "Sko Tína...... við gerum þetta svona...... ég kem með kerruna og þú reddar króknum og svo hespum við þessu bara af!". Þetta er svo dæmigert og lýsandi fyrir þennan dreng. Það á ekkert að slóra við  hlutina............ bara gera þetta og engar refjar. Þannig að hann kom í gærkvöldi og hjálpaði Gunnari mínum að bera út stóru húsgögnin sem eyðilögðust. Þeir tóku svo skurk í bílskúrnum og fóru á haugana. Og áður en ég vissi af þá vorum við Siggi farin að tala um að úr því við værum nú á annað borð að umbylta heimilinu (því þetta er ekkert annað en það), hvort við ættum ekki bara að mála veggina líka, lakka svo hurðirnar því þær eru svo ljótar á litinn. Og svona var haldið endalaust áfram. Og ef ég þekki Sigga rétt, þá verður þetta gert áður en nokkur getur sagt AMEN!

Utanlandsfarinn minn hringdi svo í mig í gær og sagði mér frá því hvernig hann hefði sjálfur farið út í búð að versla og bara reddað málunum. En svo hefur hann einnig ofsalegar áhyggjur af henni systur minni elskulegu, sem er orðin sárlasin með bronkitís og læti. En hann fullvissaði mig um það að hann ætlaði að sinna henni. Hann fór svo í Gocart með Arnþóri og Henrý Mána í gær, en þeir síðarnefndu unnu hann. Það skal tekið fram að Kristján hafði sko 150 afsakanir og ástæður á reiðum höndum fyrir því af hverju hann tapaði. Þannig að ef ég síðan skildi hann rétt, þá verður einvígi á milli hans og Arnþórs í þessu aftur í dag. Kristján þvílíkt dýrkar Arnþór og sagði við Önnu systir "veistu Anna, að hann Arnþór er alveg ofsalega skemmtilegur. Ég skil alveg að þú skulir elska hann" Heart

Og þá er komið að mola dagsins: Dagurinn í gær er liðinn. Morgundagurinn er óvænt ánægja. Dagurinn í dag er gjöf.

 


Mikið gaman - mikið fjör, og lífið heldur áfram.

Tryggingafélagið gerði upp við okkur í fyrradag og hófst þar með hin eina og sanna "enduruppbygging". Við hjónin byrjuðum á því að gera lista yfir því sem lægi á að endurnýja og forgangsraða og af nógu er að taka.

Almáttugur hvað borðstofuhúsgögn eru dýr!! Við ákváðum þess vegna að sörfa bara netið og leita okkur að notuðum húsgögnum í borðstofuna. Þegar ég var orðin rangeygð af tölvunotkun og uppiskroppa með leitarsíður, og hreinlega ekki að nenna þessu, haldið þið ekki að það poppi ekki bara upp þetta fínasta sett. Ég hefði ekki getað orðið glaðari þó að húsgögnin hefðu bara birst hérna í borðstofunni og raðað sér upp sjálf. Oki oki, ég segi það kannski ekki alveg, en ég var ansi nálægt því Cool. Núna er þetta frá og allt hitt eftir.

 

Siggi_3Siggi svili minn er búin að vera á Dale Carnegie námskeiði og var síðasti tíminn í gærkvöldi. Nemendum var boðið að taka með sér gest í útskriftina, og bauð Siggi mig með sér. Hver einasti nemandi var kallaður upp einn í einu og var sá hin sami beðinn að halda örstutta ræðu um notagildi námskeiðsins, hvað þau hefðu fengið út úr því og framtíðarsýn. Hér á myndinni sjáið þið hann Sigga halda sína ræðu. Margt merkilegt fólk var þarna á ferðinni og var virkilega gaman að heyra hvernig þau hefðu lært að setja sér markmið og fylgja þeim eftir. Ég hef í það minnsta séð stórkostulega breytingu á honum Sigga. Hann er allur miklu jákvæðari og léttari en áður en hann fór á þetta námskeið.

 

 

Einn hafði gengið með þann draum í maganum í nokkur ár að búa til ákveðna heimasíðu en alltaf hummað það fram af sér. Hann lét loksins verða af því og má ég til með að benda ykkur á hana www.tilvitnun.is . Ég er ofsalega tilvitnanaglöð kona og skrifa t.d alltaf tilvitnun eða málshátt í hvert einasta jólakort, og það fá engir 2 eins kort. Þannig að ég hef alltaf setið hérna með stafla af bókum í nokkra daga til að finna það sem ég vil skrifa í þessi blessuðu kort. Finnst mér því þessi síða vera enn ein guðs gjöfin (hin var settið) fagna henni gríðarlega og er ég alveg klár á því að ég eigi eftir að nota þessa síðu mikið.

Á meðan fór Gunnar minn með yngsta barninu okkar honum Valdimar í bíó og sáu þeir myndina "The incredible Hulk". Skildist mér á þeim að það hefði bara verið ógó gaman.

Í dag ætla ég svo að halda áfram að versla, sem er ljúfsár skemmtun. Öllu má nefnilega ofgera og þetta er svo svakalega mikið sem þarf að versla maður minn. Ég þarf að hringja í hana Gunnu mína í Gunnubúð (IKEA) og blikka hana smá til að aðstoða mig og flýta fyrir mér. Þannig að ef þú lest þetta elsku vinkona þá áttu s.s von á símtali og eins gott að þú sért ekki í kaffi á meðan Police

Að lokum er hér moli dagsins: Ekkert er betra en hvatning góðs vinar.


Utanlandsfarinn minn

Hann Kristján minn fór kokhraustur og stoltur í sinni fyrstu ferð einn til útlanda. Þegar ég segi einn þá á ég við að hann ferðaðist einn, en fór til að hitta uppáhalds frænku sína hana systur mína. Eftir að eiginmaðurinn fór af stað með hann út á völl, þá vissi ég að ég yrði ekki í rónni fyrr en ég væri búin að fá símtal um að hann væri lentur í fanginu á Önnu. Ég gat bara ekki beðið eftir að heyra í honum.

Ég þurfti nú samt ekki að bíða lengi. Fljótlega hringdi nefnilega gemsinn hjá mér og var það Kristján að hringja. "SHIT" hugsaði ég með mér. Það er bara allt komið strax til fjandans. Ekkert smá svartsýn. En nei nei, það var sko ekkert vandamál á ferð, því um leið og ég svara segir hann "halló elsku mamma mín...... ég er hérna staddur í fríhöfninni...... hvað viltu nú að ég kaupi handa þér?" Greinilega veraldarvanur heimshornaflakkari þar á ferð!

Mér létti svo mikið að ég skellihló bara og langaði mikið að segja "karton af sígarettum og kippu af bjór takk". En lét það nú vera. Ég bað hann að bíða með að versla nokkuð þar til hann væri kominn til Spánar. Hjartagullið mitt er nefnilega þannig af guði gerður (já og mér og pabba hans) að hann langar alltaf að gleðja alla í kringum sig, og er snöggur að eyða peningum sínum í allskonar gjafir fyrir fólkið sitt, en gleymir svo sjálfum sér þar til hann allt í einu áttar sig á að hann á ekkert eftir til að eyða í sjálfum sér.

En til að gera langa ferðasögu stutta þá fann hann frænku sína þegar hann var kominn út og allt gekk að óskum. Ég á örugglega eftir að fá nánari ferðalýsingu þegar hann kemur heim aftur.

Hann hringdi síðan í mig í gærkvöldi þegar hann átti að fara að sofa og var með heimþrá þessi elska. Ég spurði hann þá hvort hann skemmti sér ekki vel. Ekkert lítið sem hann móðgaðist við þá spurningu "maður getur nú saknað mömmu sinnar þó maður skemmti sér! Svo langaði mig bara að heyra röddina þína" Whistling

"En þetta er skrítið land mamma mín, hér er nefnilega ekki hægt að drekka vatnið því það er ógeð vont og svo er sundlaugin skítköld. Hafa þeir aldrei heyrt um heita potta????"

En hann var annars voðalega spenntur fyrir deginum í dag því hann er að fara á einhvern markað núna í morgunsárið, sem systir mín segir að sé algjört æði. En ef ég skildi hann rétt þá er hann líka að fara að keppa í Gocart (veit ekkert hvernig þetta er skrifað) við hann Arnþór sem er maður systur minnar. "Sko mamma....... Arnþór sagðist vera miklu betri en ég í þessu, en hann getur ekki bara sagt svona án þess að sanna það. Og ég ætla sko að vinna hann". Það verður fróðlegt að vita hvernig þessi viðureign fer.

Sonur Arnþórs er 4 ára trítill sem heitir Henrý Máni, og er Kristján stundum að passa hann. Í íbúðinni við hliðina á þeirri sem Anna systir er í, búa þessa stundina 2 systur á aldri við mig og á önnur þeirra 5 ára son. Systir mín og Arnþór þekkja þær stöllur orðið nokkuð vel og fara gjarnan í heimsókn yfir til þeirra. Kristján gerði sér lítið fyrir og fór til systranna og spurði þær hvort hann ætti ekki að gera þeim greiða. "tja.... það fer auðvitað eftir greiðanum" sagði önnur konan. "Sko á ég ekki bara að passa litla strákinn fyrir ykkur? Ég er hvort eð er að passa þennan" og nikkaði í áttina að Henrý Mána. Að lokum spurði Kristján "á svo ekki að skella sér í laugina stelpur?" LoL.

Svo tók hann eftir því að önnur konan sat þarna berbrjósta í sólbaði, horfði á hana í smástund og sagði svo "þú ert ekkert spéhrædd er það!" Og var þetta staðhæfing frekar en spurning Grin 

Ég hlakka mikið til að heyra frá honum aftur og bíð ég spennt eftir að fá mynd af stráknum mínum, sem ég mun setja hingað inn við fyrsta tækifæri. Ég sakna hans sárt og finnst bæði skrítið og erfitt að hafa hann ekki hérna hjá mér. En mikið svakalega vona ég að hann skemmti sér nú vel þarna úti, því það er akkúrat það sem hann þarf núna og á innilega skilið.

Hér er svo moli dagsins elskurnar mínar "Gerðu það sem þú getur, með því sem þú hefur, þar sem þú ert"  Theodore Roosevelt


Óheppni eða karma? Pæling

Í þessari færslu vil ég byrja á því að þakka öllum nær og fjær fyrir veitta aðstoð og sýndan hlýhug, sérstaklega okkur til handa sem búsett erum á skjálftasvæðinu. Óteljandi eru þeir sem lögðu allt sitt í að létta öðrum lífið og töldu margir ekki eftir sér að gera það myrkrana á milli og létu sig sjálf sitja á hakanum á meðan, þrátt fyrir að hafa jafnvel orðið sjálf fyrir tjóni.   

Þið sem eruð farin að lesa bloggið hjá mér, eru líklega búin að fatta það að ég tek oft á málum með því að slá þeim upp í grín. En stundum gerast of margir hlutir á stuttum tíma og manni fallast hreinlega hendur og hvorki veit hvað segja eða gera skal. Og þess vegna fer maður að velta spurningunni fyrir sér hvort um hreina óheppni sé að ræða eða karma.

Ég hef átt við mjög slæm veikindi að stríða það sem af er ári og fór í stóran uppskurð 2 vikum fyrir stóra skjálftann. Ég ætla nú ekki að fara að tíunda hér um þessi veikindi að öðru leyti en að ég á því miður enn langt í land í átt að bata. EN hálfnað er verk þá hafið er. Ég hugga mig við það Wink.

Skjálftinn stóri reið svo yfir eins og landsmenn vita og misstum við hrikalega mikið, en sem betur fer var ekkert af þessu ómetanlegt. Margir fóru því miður verr út úr þessu en við. En það sem ég furða mig á eru óliðlegheitinsem maður hefur mætt. Fyrst var það antiksalinn, en þessi elska gjörsamlega tapaði sér fyrirvaralaust þegar ég var að falast eftir verðmati á antiksetti, vegna þess að vegna okkar hérna fyrir austan þá hefði hún núna engan tíma til að sinna sínum viðskiptavinum og var virkilega foj yfir því. Og komst ég hvorki lönd né strönd á þeim bæ.

Svo var það elsku matsmaðurinn sem kom til mín í gær!! Fólk hefur talað mikið um það hversu almennilegir þessir matsmenn séu og skilningsríkir og þar fram eftir götunum. Það gerði það að verkum að ég andaði léttar og beið róleg eftir því að röðin kæmi að okkur og á meðan ákvað ég að gera það sem í mínu valdi stæði til að létta þeim lífið. Ég lagði á mig margra klukkutíma vinnu við að skrá niður og finna út verð á hlutunum sem við eigum að fá bætt. Að sjálfsögðu er til þess ætlast og lágmark að fólk geri það og skrái í það minnsta niður hlutina, þó ekki væri nema það. Nema að ég vil meina að ég hafi lagt á mig meira en ég hefði þurft. Málið var að ég taldi að þar sem þessar elskur væru að standa í þvílíku brjálæði þessa vikurnar þá væri lágmark að gera þetta almennilega. En í því sambandi sýndi hún Hulda vinkona mín og nágranni mér gott fordæmi. Ég setti þetta allt saman skilmerkilega í excel skjal, hringdi um allar trissur til að fá verð, flokkaði þetta allt saman niður á herbergin og svona mætti lengi telja. Svo fékk hann disk með öllum tjónamyndunum á sem meðlæti. Það fyrsta sem hann spurði eftir að inn var komið var "er ekki hægt að gera bara við þetta?"og benti á antik borðstofuskenkinn (en þið getið séð myndir af því hvernig hann fór undir "tenglar"). öööööö sýnist þér það? spurði ég, en hann varð að viðurkenna að það væri að sjálfsögðu út í hött. Ekki þurfti hann að stoppa neitt lengi hjá mér þar sem ég hafði gengið þannig frá hlutunum að þess þurfti ekki.

En ekki er öll sagan sögð. Málið var að á sumum hlutum vissi ég ekki verðið, samanber borðstofusettið eða stóru bókahilluna/hillusamstæðuna. Einnig hélt ég að tryggingafélög væru bara með standart tjónaverð fyrir þvottavélar og þessháttar heimilistæki. Jæja ekki kvartaði hann nú mikið yfir því og sagðist ætla bara að kanna málið og finna út úr þessu, og var í rauninni hinn almennilegasti. Svo komst ég að því í morgun hjá henni Lindu minni sem vinnur hjá mínu tryggingafélagi hér á Selfossi, að svoleiðis virkaði þetta ekki, þar sem verðmunur á svona tækjum og búnaði gæti munað jafnvel um tugi þúsunda og væri þess vegna leitast eftir því að finna verð á öðru sambærilegu og fyrir var. Þetta meikaði algjörlega sens í mínum huga. Fór ég þess vegna heim og ákvað nú að bretta upp ermar og klára þetta sem eftir var af listanum, hringjandi aftur um allt til að fá verð. Þar fóru nokkrir klukkutímar sem ég taldi engan veginn eftir mér. Síðan hringi ég voða ánægð í matsmanninn til að láta hann vita að ég hefði klárað þetta (var eins og stoltur smákrakki) og spurði hvort hann vildi ekki að ég sendi honum uppfærða listann. Áður mér brá, en þarna vissi ég ekki hvort ég hefði bara misst af einhverju eða hvað. Maðurinn var svo fúll og að mínu mati með attitude. Nei hann vildi sko ekki fá þennan lista "byrjaðu bara að telja þetta upp".Jújú allt í fína hugsaði ég og byrja að telja upp, en svo segi ég við hann að þetta séu nú þó nokkrir hlutir og hvort hann sé nú alveg öruggur á því að ég eigi ekki bara að senda þetta á hann. Þá dæsti hann og samþykkti loks að ég gerði það, því hann myndi hvort eð er senda þetta beint frá sér. En ég var því miður (hans vegna og mín) ekki alveg búin með spurningarnar, því svo spurði ég hann hvernig og hvað yrði gert varðandi hillusamstæðuna sem væri mikið skemmt. Þá sagði hann "það er bara ekki okkar stefna að borga fyrir svona hluti, heldur látum við bara gera við þetta!". Þarna var mér allri lokið Crying Hann var greinilega orðinn ansi pirraður greyið. Ég skil vel og átta mig á því að þessir matsaðilar séu bæði þreyttir, gott ef ekki útkeyrðir og pirraðir. En almáttugur............ það er ég líka! Kannski hljómaði þetta allt saman verr en raun var. Kannski er ég að gera of mikið úr þessu og er að láta einhverja viðkvæmni hlaupa með mig í gönur. En þarna gat ég bara ekki meira. Enda sagði ég þeim hjá tryggingafélaginu að mín vegna væri það í lagi að gera við þetta, en þeir mættu Í þá koma og tæma út úr samstæðunni, fara með hana  til Reykjavíkur, setja í viðgerð, koma með hana til baka og raða í hana aftur, því ég ætlaði EKKI að gera það. Nú væri ég búin að fá nóg.

Jæja gott fólk.......... nú er ég rækilega búin að pústa frá mér. Ef einhver hefur nennt að lesa allt þetta raus þá skil ég ekkert í ykkur en þakka fyrir mig, því það var alveg svakalega gott að koma þessu frá mér, I must say.

Elsku hjartans Tigercopper minn: Ég setti 180 þús á settið og verð svo bara að vona að þeir hjá tryggingafélaginu leiðrétti það ef það reynist vera of lágt. En eins og fyrr segir í þessari færslu, að þá er ég bara búin að fá nóg og vil bara klára þetta. Þakka þér enn of aftur fyrir ómetanlega hjálp vinur minn. 

En ég lofa ykkur því að gera þetta ekki að vana, þ.e.a.s að væla og kvarta svona.

Knús á línuna krúslurnar mínar og farið vel með ykkur Heart


Tveir afmælisstrákar.

Elskulegur eiginmaður minn á afmæli í dag og er því orðinn fullra 34 vetra. Út af öllu sem hefur gengið á undanfarið, þá hef ég ekki komist í að undirbúa eða gera neitt fyrir þetta tilefni Frown. En við skulum líta á björtu hliðarnar gott fólk (en þið munið að það er alltaf hægt)....... hann verður 34 ára í heilt ár. Þannig að ég hef enn tíma til að finna upp á einhverju. Þessi drengur er traustari en nokkur klettur, samviskusamur úr hófi fram, fyndinn, tuðari af guðs náð (við köllum hann stundum Tuðilíus) en umfram allt er hann besti eiginmaður sem nokkur kona getur óskað sér. Auðvitað er hann langt frá því að vera fullkominn, guði sé lof fyrir það. Það held ég að fullkomið fólk hljóti að vera leiðinlegt.

Kannist þið við það að langa stundum að segja einhverjum nákomnum hversu "innilega" vænt ykkur þykir um viðkomandi en finna samt ekki nægilega sterk orð, sérstaklega án þess að það hljómi eins og klisja? Þannig er ansi oft komið fyrir mér þegar ég horfi á eiginmann minn og það sterkasta sem ég gat fundið og komst næst því að lýsa mínum tilfinningum, var að ég er yfirmáta stolt yfir því að Gunnar er maðurinn sem ég fæ að deila skugga með.

En eins og fyrirsögnin gefur til kynna þá eru afmælisstrákarnir 2. Hinn strákurinn átti afmæli 3 júní. Það vill svo til að hitt ammlisbarnið heitir LÍKA Gunnar og býr hér á móti okkur, en til aðgreiningar þá kalla ég hann "Gunnar minn hinn". Hann er maðurinn hennar Huldu vinkonu minnar og besti nágranni sem hægt er að óska sér. Alltaf sérlega bóngóður og allur af vilja gerður til að aðstoða mann ef það er í hans valdi, létta manni lundina og ávallt áhugasamur um manns hagi. Gunnarnir 2, eru tveir af sama meiði. Einu atriðin sem aðskilur þá tvo eru nokkur ár + 1 vika, og útlitið. Þegar þeir tveir fara af stað í gríninu þá er fátt sem getur bjargað manni frá sárum magaverkjum daginn eftir. Það sem þeim getur dottið í hug (og þá sérstaklega Gunnar minn hinn) og veltur upp úr þeim, er oft á tíðum með hreinum ólíkindum. Þeir eru miklir veiðifélagar, fótbolta og formúluáhugamenn. Það eina sem þeir eru reyndar sammála um þegar kemur að áhugamálunum er veiðin. En það er stundum bara því skemmtilegra að hlusta á þá 2 þrasa um hin áhugamálin sín LoL.

Tveir af sama meiði

Gunnar minn til vinstri og Gunnar minn hinn til hægri, í einni veiðiferðinni. Do I need to say more people???

 (Þar sem ég var auðvitað búin að knúsa Gunna minn hinn á hans afmælisdegi þá er eftirfarandi kveðja eingöngu ætluð Gunnari mínum. (hinn væri nefnilega vís með að snúa út úr þessu sjáið þið til)
Til hamingju með afmælið ástin mín.
P.s Bíð spennt eftir að utanlandsfarinn minn (sjá síðustu færslu) vakni svo ég geti nú fengið að heyra aðeins í honum, en ég sakna hans gríðarlega sárt. Ferðin gekk framúrskarandi vel hjá stráknum mínum. Ég mun svo segja ykkur betur frá því þegar ég er búin að heyra í honum.
Kramkveðjur í bili

 


Verða börnin okkar ekki alltaf "litlu" börnin okkar?

ÖSSSSSSS ég held að ég sé að gera "litla" barnið mitt vitlaust þessa stundina. Held hann sé alvarlega að íhuga að setja inn smáauglýsingu í öllum blöðum landsins sem myndi hljóma einhvern veginn svona "Óska eftir því að vera tekinn til ættleiðingar á gott heimili gegn því að vera sóttur. Taugaveiklaðar mömmur vinsamlegast afþakkaðar!"

UtanlandsfarinnÁstæðan fyrir öllum þessum látum, er að strákurinn minn hann Kristján er að fara í fyrsta skipti einn til útlanda í dag. Hann er nánar tiltekið að fara til Spánar til tvíburasystur minnar og verður hjá henni í viku. Þannig að ég er búin að vera með endalausa fyrirlestra um hvað hann eigi að gera, hvenær og hvernig. Síðan fylgir fast á eftir hverju hann eigi að varast í hinum stórvarhugaverða heimi, og svona tuða ég nú endalaust. En hann er nú ósköp þolinmóður við mig þessi elska og held ég að hann sé farinn að dauðvorkenna mér frekar en hitt. Elskulegi eiginmaðurinn minn ætlar að kanna í innritunarröðinni hvort hann finni ekki þar einhverja góðviljaða konu/fjölskyldu sem getur haft auga með honum. Ég efa að það verði mikið mál. Allavega þætti mér alveg sjálfsagt að gera það ef ég yrði spurð, en það er auðvitað ekki víst að allir hugsi þannig. Eins og þið sjáið á myndinni þá er hann ekkert svo lítill lengur enda orðinn 15 ára. En hann er og verður SAMT alltaf litla barnið mitt. 

Síðan bættist við nýr fjölskyldumeðlimur á heimilið í gær. Hún heitir Lukka og er 8 vikna gömul tík. LukkaFyrir eigum við eina labrador tík og einn kött. Mín skoðun er bara sú að aldrei er til nóg af börnum eða dýrum. Einnig er ég búin að bæta við myndum af strákunum mínum síðan úr sumarbústaðarferðinni, en það voru bara 2 erfingjar af 5 sem komu þangað með okkur. Svo eru líka nokkrar myndir af tíkunum Sif og Lukku.

 

 

 

Hér er síðan moli dagsins hungangshrúgurnar mínar: Allt sem þarf til að finnast hamingjan vera hér og nú er einlægt og nægjusamt hjarta.

 

 


Maður þarf sko ekki lengur vekjaraklukku hér á Selfossi

Mér var bókstaflega hrist fram úr bæði í gærmorgun og svo aftur í morgun. Þetta er farið að virka eins og vekjaraklukka á þessu heimili. Verst að ég er sú eina sem vaknar við þetta. Reyndar mætti þessi svokallaða klukka vekja mig aaaaaaðeins seinna, þó ekki væri nema örlítið Sleeping . Og finnst mér þá ekki til mikils ætlast. Eða hvað?
mbl.is Skjálftar við Hveragerði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Selfossflakkari með meiru

Usssssssss ég held svei mér að ég hafi aldrei verið eins dugleg að heimsækja fólk á einum og sama deginum síðan ég flutti hingað á Selfoss fyrir 5 1/2 ári síðan!!

Málið er að í dag ákvað ég að vera suddalega dugleg og taka þvottahúsið (var ekki enn búin að því) í gegn eftir skjálftann. En þar leyndist líka þessi svakalegi stafli af þvotti sem þurfti að þvo. Bæði var óhreinn þvottur þarna fyrir, svo helltist sykur, hveiti og so videre yfir hreina þvottinn (en ekki hvað) og svo gerði ég þau alverstu mistök sem þreytt húsmóðir getur gert........... ég skipaði erfingjunum um daginn að taka til inni hjá sér Errm og þá fyrst fylltist þvottakarfan skal ég segja ykkur. En okeiiii þarna vandaðist málið. Þvottavélin mín er nefnilega ónýt eftir skjálftann. Einnig var bara allt of mikil rigning til að nenna niður að á og þvo upp á gamla mátann, en ég fullvissa ykkur um það að þetta hafði sko ekkert með leti að gera. Ég vil nefnilega meina það að ég skrepp saman í rigningu. Svoleiðis að nú voru góð ráð dýr. En Tína deyr ekki ráðalaus. Ég ákvað s.s að fara í heimsóknir færandi hendi Grin

Fyrst fór ég með þvott til hennar Huldu minnar sem býr hérna á móti. Þaðan fór ég svo (með þvott) og heimsótti elsku mágkonu mína hana Margréti. En á meðan vélin var að þvo hjá henni þá bakaði litli frændi vöfflur ofan í liðið. Ekkert lítið efnilegur strákurinn. Í staðinn hótaði ég þeim því að ég myndi með þessu áframhaldi flytja til þeirra, því síðast þegar ég heimsótti þau, sem var daginn eftir skjálftann, þá fékk ég þessa líka dýrindis máltið. Gæti sko alveg vanist þessu. Skellti svo aftur í aðra vél hjá henni áður en ég fór og fékk svo heimsendingarþjónustu á tauinu seinna um kvöldið. Talandi um service. Þetta, elsku krúslurnar mínar, kalla ég sjálfsbjargarviðleitni.

En ekki var ég samt búin með heimsóknirnar. Það kom nefnilega í ljós að ekki væri hægt að verðmeta skenkinn minn út frá myndinni sem ég setti hérna í annari færslu, því til þess var hann of mikið skemmdur. Þá var 2 erfingjum af 5 skellt í sófann umkringdir myndaalbúmum í leit að mynd þar sem skenkurinn sæist nú almennilega. UREKA við fundum 2!! Þá var fátt annað eftir en að koma þeim yfir í tölvutækt form. En shit....... skanninn eyðilagðist líka. Frúin hljóp þá aftur yfir til hennar Huldu sinnar, fékk svo að blikka son hennar (sem er svona tölvukall) og plataði hann illilega til að skanna þetta nú inn fyrir mig. Og ekki var hann nú lengi að redda þessu.

Núna er ég búin að setja þessar myndir í albúm hér á síðunni og skrifa þessa bloggfærslu. Hinir 2 fyrrnefndu erfingjar voru að spila guitar hero hér við hliðina á mér á full blast og ekki nóg með það, heldur spiluðu þeir sama lagið aftur og aftur og aftur. Það endaði með að ég fór nú aðeins að tuða yfir þessu og líka yfir því hversu hátt stillt þetta nú væri hjá þeim. En þá segir Kristján "þetta er bara svo afslappandi mamma". Ég gat nú ekki annað en furðað mig á þessari fullyrðingu en fékk fljótlega skýringu frá sama spekingnum "mamma mín........ þú ert kona! EF þú værir karl, þá myndir þú skilja þetta" Og þar hafið þið það. Að ég skyldi ekki fatta þetta sjálf Pinch

Og þá er komið að mola dagsins: Lífið er þeim fullt af stórum stundum sem kunna að umgangast smáar stundir. Sigrid Undset   

 


Það finnast bjartar hliðar á ÖLLUM málum.

Meira að segja á jarðskjálftamálum. Jújú stundum neyðumst við kannski til að finna bjánalegan flöt á sumum málum, en þetta verður þá bara í versta falli fyndið en dreifir huganum. Auðvitað missti ég mikið í jarðskjálftanum sem reið hérna yfir í síðustu viku, en meðan að húsið mitt lítur ekki út eins og eftirfarandi mynd, þá dettur mér ekki til hugar að kvarta. Það sluppu allir lifandi og að mínu mati er varla hægt að biðja um meira.

Hrunið hús

Við hjónin + erfingjar fórum upp í bústað sem við áttum pantaðan á sunnudaginn var og eyddi ég talsverðum tíma í að spekúlera í hvernig ástandið á kofanum yrði þegar við kæmum heim. En svo þegar í kotið var komið þá ákvað ég að setja á mig derhúfu og svo leppa fyrir augunum (svona eins og sett er á hestana svo þeir sjái ekki til hliðar) og vera bara ekkert að pæla í þessu meira. Svo lengi sem húsið er íbúðarhæft og engar sprungur sem ekki er hægt að stinga prjón í gegn þá ætla ég sko ekki að fá mígrenikast yfir þessu. Matsmenn frá viðlagasjóðnum eiga eftir að koma með sína tækni og eru sko miklu færari en ég í að meta hvort það er húsið sem er skakkt eða hvort það er hreinlega bara jafnvægiðskynið hjá okkur sem hefur brenglast.

Þá ákvað Tína að finna jákvæðu punktana!!! Og hefst nú talningin gott fólk.

1) Vegna veikinda minna var ég búin að sækja um tímabundna heimilishjálp. Ég segi tímabundið því ég ætla mér ekki að vera í þessu veseni endalaust. En núna get ég dregið beiðnina til baka þar sem ekkert er eftir til að þrífa!! Hugsið ykkur tímasparnaðinn. Ekkert eftir til að þurrka af. Sem var nú eitt af því leiðinlegra sem ég gerði

2) Hef ekki haft svona mikið skápapláss í eldhúsinu síðan ég hóf búskap fyrir mörgum árum síðan, og svei mér ef ég var ekki fyrst haldin valkvíða yfir því í hvaða skáp ég ætti nú að setja þennan eina disk sem eftir var. Svo skemmtum við okkur bara alveg ágætlega yfir því að finna út hvar hann var nú settur síðast. Að vísu fékk minn elskulegi matarstell í kveðjugjöf frá vinnufélögunum eftir skjálftann mikla. En það er samt enn nóg pláss eftir í skápunum þannig að leikurinn heldur áfram.

3) Eins og síðasta færslan sagði til um að þá gerðum við úr þessu skemmtilegan fjölskylduleik sem kostar okkur ekki krónu. Og það er að giska á hvað skjálftarnir eru stórir sem enn dynja á okkur. Víst er þetta á stundum óþægilegt en oftast virka þessir skjálftar á mann eins og ef kraftakarl hefði slegið mann á bakið og á stundum er maður ekki einu sinni viss um að þetta hafi verið skjálfti. En ef setið er við borð ásamt öðrum þegar svona skjálfti kemur að þá er fyrst spurt hvort einhver hafi verið að hrista borðið. Ef ekki þá fer leikurinn af stað.  

4) Ekki skortir fólki lengur umræðuefnið lengur. Hvorki á kaffistofum landsmanna eða heimahúsum.

 Maður hefur því í rauninni aðeins um tvennt að velja. Taka á þessu á húmornum eða leggjast í kör og vorkenna sér. Fyrir mitt leyti þá finnst mér fyrri skosturinn miklu, miklu skemmtilegra. Vonandi gerið þið það sama.    

 Gangið nú um lífið með gleði í hjarta og dassi af kæruleysi. Það skaðar engan og þá allra síst ykkur sjálf. Og bannað að gleyma hversu frábær þið eruð, hver á sinn hátt. 

 


Annað augað vísar í austur en hitt í vestur

Sko.................... þið megið ekki vera neitt voðalega hrædd eða áhyggjufull, en ég er ekki að grínast þegar ég segi ykkur að ég lít út eins og á myndinni hérna! Og meira að segja textinn sem á myndinni er passar fullkomlega við ástandið.  RangeygðÁstæðan er að ég er búin að vera bókstaflega í ALLAN dag að gera svokallaða tjónaskýrslu fyrir þessar elskur sem ég er enn að bíða eftir frá tryggingafélaginu. Mín ákvað s.s að vanda til verka og gera þetta almennilega. Ekkert slor á þessum bæ get ég sagt ykkur. Hlýt á fá + í kladdann fyrir viðleitni í það minnsta. Ég er búin að sitja hérna fyrir framan tölvuna og skrásetja í excel (ógó flott) allt sem ég missti. Ég var nú löngu búin að finna út að ég hefði misst mikið en HALLÓ!! Hefði helst þurft eins og 2 aukahendur (sem mér finnst persónulega ekki sérlega gróf krafa ef þið spyrjið mig) 2 hendur á lyklaborðið, ein fyrir símann og svo hina fyrir kaffið sem ég drakk ótæpilega í þeirri viðleitni að halda mér vakandi yfir þessu. En nú er ég búin elskurnar mínar, eða í það minnsta með það sem ég gat. Mér skilst að þessar rúsinur hjá tryggingafélaginu séu með stöðluð verð fyrir ísskápa, þvottavélar og þess háttar og ætla ég glöð að láta þeim eftir að finna út úr því.

Þetta bloggstand á mér er strax búið að gefa mér mikið og alveg merkilegt hvað þetta gerir hjartanu mikið gott að fá smá útrás hérna. Ætli það sé ekki aðallega vegna þess að ég hef ofboðslega mikla þörf fyrir að tala, en þar sem ég á slatta mikið af börnum að þá kemst ég aldrei að? Pæling. Einnig vil ég grípa tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir að gefa ykkur tíma til að kíkja á þetta bull hjá mér og ekki finnst mér leiðinlegt þegar ég sé kommenta birtast frá ykkur líka.

En sérstakar þakkir og hjartans knús fær hann Tigercopper Heart . Þar held ég að sé maður með hreinræktað hjarta úr gulli á ferð. Ef þú lest þetta hunangshrúgan mín, þá eru skilaboð til þín í kommentakerfinu mínu við síðustu færslu. Þú kannski kíkir á það?

Af skjálftamálum er það að frétta að það kom einn þungur í gær og svo annar núna í kvöld. Það er varla að ég geti sagt að við kippum okkur nokkuð upp við það lengur og fara þá yfirleitt eftirfarandi samtöl af stað.

Einhver 1: Fannstu þennan?

Einhver 2: Játs....... ég held að þessi hafi verið allavega 2,5

Einhver 1: Nauts! Hann var sko minnst 3

Og þá er hlaupið af stað í tölvuna og richter kvarðinn á veður.is kannaður að undangengnu veðmáli.           

Það er helst tíkin okkar hún Sif sem hefur eitthvað bilast við öll þessi læti undanfarið. Ég held nefnilega að hún haldi núna að hún sé belja FootinMouth. Síðan stóri skjálftinn var í síðustu viku, þá neitar hún að borða inni, úti skal maturinn vera. Sama er með vatnið. Þetta væri svo sem ekki í frásögu færandi ef hún myndi nú hundskast til að borða matinn sinn sem er settur út fyrir hana eins og hún sé drottning götunnar, en NEI það eina sem hún borðar er gras Shocking. Sumir eru bara hreinlega furðulegri en aðrir.

Gullmoli dagsins er síðan að hver dagur og hver stund er sigur í sjálfu sér. Notum því tímann vel.

Knús á ykkur krúttin mín. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband