Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
30.6.2008 | 09:19
Þetta stemmir allt saman.
Fallega tvíburasystir mín hún Anna Bella er ekki væntanleg til baka frá Spáni fyrr en á miðvikudaginn. Þannig að ég spái bjartviðri þar til þá. Hún er búin að vera allt of lengi úti þessi elska (5 vikur nánar tiltekið) og fyrir utan stöku rigningaskúrum, þá hefur verið hér glaðasólskin upp á hvern dag þennan tíma sem hún hefur verið fjarverandi.
Þökk sé nútímavæðingu og internetsins, þá hef ég getað talað við þessa elsku upp á hvern dag, og hef ég verið iðin við að monta mig af veðrinu hér á klakanum. Þess vegna væri það nú alveg týpískt að góðviðrisdögunum myndi ljúka daginn sem hún kemur heim! Bara svona til að ég hætti að vera með kjaftinn í hánorður.
Ég myndi að vísu skipta hvenær sem er á sólinni og það að fá hana systir mína til baka. Reyndar myndi ég skipta á hverju sem er fyrir hana ef út í það er farið. Höfum aldrei verið aðskildar svona lengi þrátt fyrir að vera orðnar þetta gamlar. Og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég er bara alls ekki að fíla hennar fjarveru! Það er bara ekki flóknara en það. Ég veit ég hljóma voðalega eigingjörn en það er líka allt í lagi. Ég vil bara að hún fari að drulla sér heim og það strax.
Nú ætla ég að halda áfram að telja niður þar til hún kemur.
Moli dagsins er því tileinkaður tvíbökunni minni: Þegar þú ert of lengi fjarverandi fer ég í gamla garðjakkann þinn og sit umvafin þér. Pam Brown
Áfram bjart vestantil | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.6.2008 | 07:14
Konur kaupa föt fyrir karlinn - helstu mistök
Eins og fram hefur komið, þá eigum við hjónin herrafataverslunina Blaze á Selfossi, og þar sem ég er gjörsamlega andlaus í dag en langaði samt að skrifa e-ð, þá ákvað ég að "stela" þar kafla sem ég skrifaði einhvern tímann á heimasíðu verslunarinnar í "góðum ráðum" og setja hann inn hér. Vonandi hafið þið gaman af þessu.
Ertu orðin þreytt á að tuða í eiginmanninum svo hann versli sér föt sem hann svo sannarlega þarfnast? Ferðu að versla á hann upp á þitt einsdæmi í von og óvon um að hann verðlauni þig einungis með því að neita að ganga í fötunum? Nógu erfitt er nú samt að finna réttu fötin (meira að segja fyrir konur). Þegar verslað er á karlana í þínu lífi, hvort heldur er eiginmaður, kærasti eða sonur, þá bætir mótspyrna þeirra aðeins við vandamálið.
Mistök #1
Að versla á hann án þess að vita hvað hann vantar, og eiga þá á hættu að eiga þá tvennt af því sama og eyða þar með í óþarfa.
Lausn: Hjálpaðu honum að sjá mikilvægi þess að vera með skipulagðan fataskáp. Gefið ykkur tíma til að fara yfir fataskápinn hans áður en þið svo mikið sem íhugið skoðunarleiðangur í verslanir. Ég get lofað því að þið eigið bæði eftir að finna nokkrar flíkur sem hann annað hvort passar ekki lengur í eða hefur ekki lengur smekk fyrir.
Að klikka á því að kanna hvað það er sem honum líkar og líkar ekki við.
Lausn: Falastu eftir áliti hans á því hvað honum líkar og hvað ekki. Hvað hann myndi eða myndi ekki klæðast, og hagaðu síðan vali á fatnaðinum eftir þessum upplýsingum. Sumir karlmenn vilja skera sig út í útliti. Í hans tilfelli hefði hann t.d gaman af því að finna stællega slaufu.
Mistök #3
Að henda sér út í djúpu laugina án þess að kanna vatnið fyrst, sem gerir þig óöruggari og draga úr möguleikunum að fá sem mest fyrir peningana.
Lausn: Láttu þér líða vel í heim karlmannsfatnaðar áður en þú hættir þér í leiðangur með honum. Einföld leið til þess er að skoða nokkrar verslanir ein.
Mistök #4
Að velja liti á hann sem fara þér vel.
Mistök #5
Að gleyma því að þetta sé hans verslunarferð ekki þín.
Lausn: Áður en þið farið út úr húsi, þá skulið þið ræða hvað það er sem þið hyggist ætla að versla, hvar og hversu langan tíma þetta gæti hugsanlega tekið.
Gangi þér vel.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 07:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.6.2008 | 06:56
Fyrirmynd mín hann pabbi og börnin mín
Hann elsku pabbi minn á afmæli í dag. Þessi elska er með þvílíkt jafnaðargeð og er svo rólegur að það hálfa væri allt of mikill hægagangur fyrir mig. Það er stundum talað um að blóðið hreyfist ekki í fólki........... well hjá honum er staðreyndin sú að hann er svo rólegur að blóðið bakkar! Hann reyndar fyllir flokki Tuðilíusa ásamt elskunni minni hann Gunnar. En ég segi þetta kannski bara vegna þess að ég er svo hrikalega ofvirk og mikill tuðari sjálf, að ég yrði líklega bara að deyja úr einsemd ef ég myndi ekki sópa saman fólki í þessum flokki með mér. But who am I to tell . Pabbi minn er búsettur í Stykkishólmi og sé ég hann því allt of sjaldan sem er miður, því hann er með skemmtilegri mönnum sem ég þekki og fróðleiksmoli í gegn, og með hjarta úr hreinu gulli. Til hamingju með daginn elsku pabbi minn
Ég má síðan til með að deila með ykkur smásögu af strákunum mínum Óla og Valda sem mér finnst frekar fyndin. En við fórum í gærkvöldi í bústað til Gunnars míns hins og Huldu vinkonu og á heimleiðinni hljóp einhver fjandans púki í Valda sem ákvað að reyna af fremsta megna að pirra bróður sinn með því að tala endalaust. Því fór af stað sagan endalausa og hef ég aldrei fyrr á ævinni heyrt aðra eins vitleysu (enda skiptu staðreyndir þar engu máli). Meðal annars þá stökk hann upp, upp, upp (orðið endurtekið minnst 20 x) í geiminn og hrapaði þaðan niður í Suðurskautið og svona fram eftir götunum. Óli sat þarna pollrólegur og horfði bara út um gluggann og sagði ekki orð. Greinilega ákveðinn í að láta Valda ekki takast áætlunarverk sitt. Það endaði með því að okkur hjónunum þótti orðið nóg um (eftir 20 mín langa "sögu") og stoppuðum söguna. En þá heyrist eftirfarandi:
Valdi: Þetta var reyndar leiðinleg saga, en góð fyrir litla krakka þar sem þau myndu bara sofna úr leiðindum.
Óli: Ó nei góði minn, ég get nefnilega sagt þér það að þau væru lööööngu búin að drepa þig!!
En þessar elskur eru svo sannarlega með hjarta úr gulli líka. Þannig var nefnilega um daginn að ég var að setja í þvottavél, sem er ekki í frásögu færandi, nema hvað þegar ég er að fara að stinga buxum af Valda í vélina þá finn ég farsímann hans í vasanum. Ég kallaði á hann og sagði honum að hann yrði nú að fara í gegnum vasana áður en hann setti fötin sín í körfuna. Síðan sagði ég börnunum að ef ég fyndi pening í vösunum hjá þeim við þvottaiðju mína að þá myndi ég hirða þá og setja í sparibaukinn sem ég er með inn í þvottahúsi, og fyrir þann pening myndi ég á endanum kaupa eitthvað fallegt handa mér. Þá heyrist í Valda eftir að hafa fengið að sjá baukinn minn "þá er víst best að fara að skilja einhverjar krónur eftir í vösunum" og var Kristján honum innilega sammála með það. Er hægt að biðja um meira þegar maður á svona börn?
Eigið þið ljúfan dag elskurnar mínar.
Ekki get ég svo klikkað á mola dagsins! En hann er að þessu sinni svohljóðandi: Ást verður til að fegra athafnir fjölskyldunnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.6.2008 | 07:23
Fólk í dómarasæti
Ég var nú alveg ákveðin í því að tjá mig ekkert um þetta hundamál. En ég hef verið að lesa athugasemdir sem sumir bloggarar hafa skilið eftir varðandi þetta hundamál allt og gat bara ekki orða bundist lengur.
Mikið afskaplega finn ég til með þessu fólki sem telur sig geta sett sig í sæti dómarans. Enda dettur mér ekki til hugar að fara að pirrast eða vera reið út í þau, því þau hljóta að eiga mikið bágt sjálf og við einhverskonar leiða að stríða. Sumir hafa meira að segja gengið svo langt að hringja í lögregluna til að skammast í þá fyrir að afhenda hvolpinn aftur til eiganda síns! Að mínu mati eru það þessir sjálfskipuðu dómarar sem gera heiminn örlítið verri en hann er, þ.e.a.s fólkið sem hengir bakara fyrir smið. Minnumst Lúkasarmálsins og hvernig það fór.
Væri ekki tímanum betur varið í að fagna því að hvolpurinn fannst á lífi? Notum orkuna sem við öll búum yfir í jákvæða hluti og hugsanir. Bæði mun okkur líða miklu betur sjálf og heimurinn getur þá ekki annað en batnað fyrir vikið.
Það er ekkert að því að tjá sig um málefni og fréttir svo fremi sem ALLAR staðreyndir séu á hreinu. Ekki er það mitt mál hvort eigandinn sé sekur eða saklaus, því ég veit akkúrat ekkert um það. Sá sem þetta gerði verður bara að eiga við sína eigin samvisku.
Eitt veit ég, og það er að ég á hérna 12 vikna gamlan hvolp................ og mikið rosalega getur hún verið snögg að hlaupa og láta sig hverfa ef litið er af henni í augnablik!!!
Elskum friðinn, hann fer svo miklu betur með sálartetrið í okkur.
Moli dagsins hljómar því svo að þessu sinni: Dæmdu aldrei í reiði. Reiðin líður hjá en dómurinn stendur eftir.
Eigandinn saklaus | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.6.2008 | 07:04
Skilningur
Ég hef undanfarið verið að lesa bókina Kona fer til læknis eftir Ray Kluun. Og ég verð að segja eins og er að hún hefur hjálpað mér mikið þó svo að um skáldskap sé að ræða. Bókin er um eiginmann konu sem fer til læknis og greinist með krabbamein í brjósti sem svo síðar breiðist út, um tilfinningar hans, framhjáhald og baráttu.
"Hvernig getur svona bók hjálpa Tínu?" kunnið þið að spyrja ykkur núna. Jú hún hefur hjálpað mér að skilja hann Gunnar minn örlítið betur. Við sem eigum í veikindabaráttu eigum erfitt og oft á tíðum ansi bágt, satt er það. En fyrst ég er á annað borð að segja ykkur skoðun mína, þá held ég að svona barátta sé makanum sem og aðstandendum erfiðari þó á annan hátt sé. Makinn vill nefnilega oft gleymast í svona og fellur hálfpartinn í skugganum. Sjaldan (ef nokkurn tímann) er hann spurður hvernig honum líði. Meðan barátta sjúklingsins er aðallega líkamleg þá er barátta makans andleg og öllu erfiðari viðureignar, því það er í raun ætlast til þess að hann sé kletturinn sem ekkert bjátar á. Það er jú ekki hann sem finnur til eða er veikur.
T.d á ég það allt of oft til að setja upp leikþátt þegar ég hitti fólk (er orðin ansi góð í því). Set upp "mér líður bara vel" grímu en Gunnar veit betur og skilur ekkert í því af hverju ég geri þetta. Hvernig get ég líka ætlast til þess þegar ég skil það ekki sjálf. Hann er í rauninni sá eini sem veit hvernig mér líður í raun og veru. Hann veit hvernig úr mér er allur vindur eftir svona leikþátt. Sama er þegar ég fer af stað á fullu í að gera og græja og læt sem ég heyri ekki líkamann kvarta hástöfum. Hann reynir að stoppa mig en ég hlusta ekki. Ég er komin í einhvern "ég skal geta þetta" frekju og þrjóskugír. Síðan er það hann sem neyðist til þess að horfa bjargarlaus á afleiðingarnar. Það lendir þá á elskunni minni að reyna eftir fremsta megni að bæta líðan mína, þó ég hafi vitað mætavel sjálf hvernig færi og er þá alfarið sjálfri mér að kenna. Það er hann sem lendir í að stappa í mig stálinu þegar mig langar að gefast upp, þó að ekki veitti af að einhver stappaði stálinu í hann.
Hann verður stundum jafnvel reiður við mig fyrir að hafa gert ákveðna hluti vitandi hvernig fer. En þá finnst mér hann skilningssljór og jafnvel vondur við mig. Ekki bað ég um að vera veik! Hvernig vogar hann sér að vera með leiðindi við mig? Sér maðurinn ekki að ég vil ekki vera eins og aumingi, sívælandi og kvartandi? Og svona held ég áfram hálfgerðri píslarvættisframkomu í sjálfselsku minni án þess að leiða hugann í eina sekúndu að honum og hvernig honum líður. Ég get í það minnsta tekið pillu eða eitthvað, en hvað getur hann gert annað en horft á, þegar hann vildi helst af öllu sveifla töfrasprota og "púff" allt er komið í lag? Nákvæmlega EKKERT.
En af hverju er ég að segja ykkur þetta? Jú vegna þess að mig langar að biðja ykkur að sýna aðstandendum smá athygli ef þið þekkið til svona aðstæðna. Ég held að makinn verði allt of oft svakalega einmana í svona ferlum, því það er sjúklingurinn sem fær alla athyglina meðan honum er hálfpartinn ýtt til hliðar, en samt er ætlast til alls af honum. Fyrir alls ekki svo löngu síðan þá sagði ég við Gunnar "mér finnst þú eitthvað svo einn". Hann horfði á mig stutta stund og sagði svo "það er vegna þess að ég er það". Úfff hvað mig langaði þá að eiga svona töfrasprota.
Þessi bók gerði nú engin kraftaverk á frekjunni ég og fékk mig ekki til þess að hætta að láta svona, allavega ekki ennþá, en ég er að vinna í því. Hún aftur á móti fékk mig til að staldra fyrr við, hugsa aðeins um Gunnar og hvað ég er að gera. En til að forðast allan misskilning þá vil ég taka fram að ég er ekki með brjóstakrabbamein og Gunnar er ekki hlaupandi út um allt haldandi framhjá. Bara svo það sé á hreinu.
Til hinna sem eru sjúklingar eins og ég langar mig aðeins að segja eitt. Munum að virða og þakka okkar nánustu fyrir það sem þau gera og ganga í gegnum. Gefum okkur smá tíma til að taka eftir því hvernig þeim líður.
Elskið lífið, ykkur sjálf og náungann. Það er vel þess virði.
Moli dagsins er því þessi: Sá er vinur sem í raun reynist.
Gunnar minn: Takk ástin mín......... ég er vegna þín.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
21.6.2008 | 06:19
Móðir?
Hér sit ég og hugsa um börnin mín 5 og hugsa um það hvað í ósköpunum fær foreldri til að meiða barnið sitt, Hvað þá viljandi og á svo hrottalegan hátt. Það vona ég að þessi drengur og hin börnin sem svona er ástatt um, fái góða hjálp og jafni sig á sálinni. Nú þegar heyrist of mikið af svona fréttum um misnotkun á börnum, við getum rétt ímyndað okkur hversu margar sögur við heyrum ekki af. Notum tækifærið og knúsum okkar eigin börn aðeins meira. Aldrei hægt að gera of mikið af því held ég.
Hér er svo moli dagsins: Gerðu ætíð það sem rétt er. Það gleður einhvern og verður öllum hinum undrunarefni.
Móðir misþyrmdi fimm ára syni sínum skelfilega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.6.2008 | 07:00
Koma svooooooooooo
EF þú hefur ekki hugmynd um hvað þú ætlar að gera um helgina, þá veit ég um eitt sem getur haldið þér og þínum uppteknum í smá tíma á laugardaginn í það minnsta
Við hjónin eigum Herraverslunina Blaze á Selfossi og erum jafnframt styrktaraðilar Knattspyrnudeildar Umf. Selfoss. Þessi deild er búin að gera svakalega góða hluti og langar okkur því að blása til leiks og styrkja þá enn betur með hjálp frá ykkur.
Laugardagurinn 21. júní verður bæði skemmtilegur og sérstakur í Blaze að því leyti að 20% af sölu dagsins mun renna beint til knattspyrnudeildar Umf. Selfoss. Þú verslar fatnað eða gjafabréf eins og venjulega, en um leið ert þú að styrkja íþróttastarfið svo um munar. Þetta finnst okkur skemmtileg leið til að sýna stuðning í verki og sýna deildinni á Selfossi hversu sterkt bakland hún hefur. Verslunin verður opin kl. 10-18 og heitt á könnunni. Láttu þetta endilega berast áfram.
Þú getur líka styrkt önnur góð málefni á jafn einfaldan máta og skemmt þér meira að segja þokkalega í leiðinni með okkar aðstoð ef þú vilt, en þú getur lesið meira um það hér . Að gefnu tilefni vil ég samt taka fram að þó þetta sé herraverslun þá geta konur líka nýtt sér þetta.
Hér er svo moli dagsins rúsínurnar mínar: Engin gleði jafnast á við það að starfa öðrum til heilla.
Gangið svo glöð inn í helgina með sól í hjarta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.6.2008 | 07:26
Þakklæti frá litlu frekjunni
Mig langar að þakka öllum sem hafa aðstoðað mig undanfarið við allt sem mér hefur dottið í hug að vilja gera, og þá sérstaklega honum Sigga Þór. Hans hjálp og þolinmæði hafa verið og eru mér ómetanleg.
Einn af mínum verstu göllum gæti verið sá hvernig allt á að gerast núna en ekki seinna þegar ákvörðun hefur verið tekin. Get ég orðið pirruð og beinlínis leiðinleg ef hlutirnir gerast ekki nógu hratt. En ég reyni að bæta mig á því sviði þó það gangi nú ekki alltaf vel.
Við Gunnar höfum sjaldnast farið á sama hraða. Meðan ég er svona "núna" manneskja, þá er hann meira "ekkert liggur á" maður. Þetta hefur orðið til þess að hlutirnir gerast oftast hjá okkur þá á réttum hraða því við endum yfirleitt á því að fara milliveginn.
Þessa dagana hefur litla frekjan ég haft yfirhöndina hvað varðar vinnuhraða. Ég vildi klára hlutina sem fyrst og engar refjar. Ég gat bara einhvern veginn ekki beðið eftir því að lífið kæmist aftur í fastar skorður og héldi áfram sinn vanagang eftir allt sem á undan er gengið. Mér fannst að eina leiðin til þess að ná því og ná að slaka á, væri s.s að klára þessar "make over" framkvæmdir sem við höfðum ráðist í. Ég hafði 1000 ástæður og rök fyrir því af hverju þetta ætti að klárast sem allra allra fyrst. Því miður bitnaði þetta á þeim sem voru að rétta mér hjálparhönd. Kom út eins og ég væri vanþakklátt ofdekrað barn ef þetta gekk ekki nógu vel. Fyrir það skammast ég mín. Þegar hin vildu slaka aðeins á, þá hélt ég bara áfram í stað þess að slaka örlítið á. Þetta gerði það að verkum að hinir höfðu móral yfir því að setjast niður. Það er ekki fyrr en núna þegar ég slaka á og er orðin örþreytt sem ég fatta hvernig framkoma mín var. Það er reyndar ekki allt búið enn, en ég ætla að hlusta á manninn minn og aðra í kringum mig og slaka aðeins á. Jafnframt að gefa þá öðrum svigrúm til að anda.
Kolla mín fór með mig til Reykjavíkur í gær, þar sem ég gat þá verslað gardínur, lampaskerma og fleira dót í stað þess sem eyðilagðist í skjálftanum. Þessi elska þekkir mig orðið ansi vel og vissi að ég myndi fara í það strax um kvöldið að sauma þessar gardínur og að ég myndi ekki hætta fyrr en ég væri búin. Þess vegna bauðst hún til þess að koma og hjálpa mér við þetta. Þannig yrði þetta fyrr búið.
Eftir kvöldmatinn mætti Siggi vinur minn aftur, tilbúin í að halda áfram að mála. Leifur minn og Sandra tengdadóttir mín birtust líka allt í einu. Og það er óhætt að segja að allt hafi farið á fullt. Gunnar minn og Siggi héldu áfram að mála. Kolla, Sandra, Agnes dóttir mín og ég fórum að vinna í gardínunum. Sandra og Agnes klipptu efnið til, ég saumaði, Kolla setti hjólin á og svo setti Leifur gardínurnar upp. Þetta var eins og verksmiðja hérna, enda skotgekk þetta.
Ég tók nokkrar myndir til að sýna ykkur. Þið getið séð þær í "myndaalbúmunum". En mikið leið mér samt vel að labba hérna um húsið eftir að við vorum búin að taka til! En ég lofa að klára rest hægt og rólega, á réttum hraða og frekjulaust.
Hér er svo moli dagsins: Nú, þegar hann er liðinn, hvað gerðir þú í gærdag sem er þess vert að minnast á?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.6.2008 | 08:06
Hverjar eru líkurnar?
Ég er þessa vikurnar í lyfjameðferð og uppgötvaði mér til mikillar hrellingar í gær að af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þá var ég búin með þau lyf sem reynast mér lífsnauðsynleg og væri ekki einu sinni með lyf fyrir kvöldið. Ég hringdi að sjálfsögðu í ofboði suður svo hægt væri að bjarga þessu. Vandamálið er að þetta er ekki lyf sem þú bara stekkur út í apótek og kaupir. Þetta er svokallað undanþágulyf og bara lyfseðillinn er A4 blað í þríriti, og verður Tryggingastofnun (ef ég man rétt) að samþykkja þetta og svona fram eftir götunum. Vegna einhverra mistaka hafði ég s.s ekki fengið nóg af þeim. Skil ekki enn hvernig þetta gat gerst og afhverju ég fattaði þetta ekki fyrr. Þessi lyf eru einnig ófáanleg á sjúkrahúsinu hér á Selfossi.
En þá komum við að kjarna málsins. Ég er með 2 sérfræðinga, 1 skurðlækni og 1 heimilislækni á mínum snærum, ef svo má að orði komast, OG ÞAU ERU ÖLL Í FRÍI Á SAMA TÍMA !! Hverjar eru líkurnar á að svoleiðis gerist? Fúslega skal ég viðurkenna að ég panikeraði , en sko bara smá, ég tók ekki dramadrottninguna á þetta, bara svo það sé á hreinu. Málið er að án þessara lyfja þá er, tja......... segjum þetta bara pent og rétt.......fjandinn laus og ég spítalamatur med det samme. Nú voru góð ráð dýr.
Það fór því allur dagurinn í þetta hjá mér. Með dyggilegri aðstoð lyfjafræðings hér á Selfossi (en mig minnir að hann heiti Aðalsteinn) þá tókst að bjarga þessu korteri fyrir lokun. Grínlaust. Ég þurfti að fara hérna á læknavaktina þar sem ég beið í tæpa 2 tíma eftir að komast að, en á meðan var lyfjafræðingurinn búin að hringja á undan mér í vaktlækni og finna leið til að komast "framhjá" öllu þessu undanþágurugli til bráðabirgða. En þetta bjargaðist og það er fyrir öllu. Við þetta var bara úr mér allur vindur og ég eins og sprungin blaðra á eftir. En allt er gott sem endar vel. Við skulum sko alls ekki gera lítið úr því.
Mér varð s.s ekki mikið úr verki í gær á heimilinu og gerði næsta lítið annað en þetta. En það stendur nú til bóta í dag. Það er að vísu farið að draga talsvert úr orkunni hjá mér, en bætist því meira í hjá hinum. Þrællinn hans Sigga komst því miður ekki, en Siggi og Marta komu í drullugallanum og til í slaginn eins og fyrri daginn þessar elskur. Við byrjuðum frekar seint í gærkvöldi og gerðum þess vegna ekki mikið. Við hjónin ætlum að reyna að vera svolítið dugleg í dag. Ég vil nefnilega klára þetta í síðasta lagi á morgun, vegna þess að á fimmtudagsmorgun munu 2 hörkuduglegar konur frá heimilishjálpinni koma og þrífa, og finnst mér það frekar ömurlegt ef ég get í fyrsta lagi ekki nýtt mér þetta vegna þess að það er enn allt í framkvæmdarúst, eða vegna þess að það á allt eftir að fara í rúst aftur þegar þær eru farnar.
Annars er ég búin að setja inn nýtt albúm undir myndirnar af framkvæmdunum. Endilega fylgist þið með þar ef þið viljið. Reyni að muna eftir því að taka svona "fyrir og eftir" myndir.
Utanlandsfarinn minn er að koma heim á eftir og ég er bara að bíða eftir að geta sótt hann. Jú víst var nú gott að fá smá frí frá honum, en betra finnst mér að fá hann heim. Ég hlakka bæði til og kvíði að heyra allar sögurnar sem hann á eftir að segja mér. Hann getur nefnilega verið eins og útvarpsstöð þegar hann byrjar að tala þessi elska, s.s óstöðvandi. Alveg eins og systir hans.
Hér er svo moli dagsins hunangshrúgurnar mínar og gleðilegan 17 Júní .
Hver sem þú ert og hvar sem þú ert, þú hefur alltaf rangt fyrir þér ef þú ert dónalegur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.6.2008 | 07:16
Brjáluð helgi.
Ef þetta er ekki ekki búið að vera einhver bilaðasta helgi ever, þá hef ég ekki glóru um hvað bilað er. En það er alveg magnað hvernig ein smá framkvæmd getur undið upp á sig á alveg hroðalegan hátt, svo vægt sé til orða tekið. En í guðanna bænum ekki misskilja mig. Ég er endalaust þakklát og glöð yfir þessu, en guð hjálpi mér hvað ég verð fegin þegar þetta er búið!
Á LAUGARDAGINN var björgunarsveitin (Gunnar minn hinn og Siggi Þór) kallaðir út til að hjálpa frúnni (mig) við að nálgast sófasettið sem við hjónin versluðum okkur. Eiginmaðurinn þurfti að vinna til 4 en húsgagnaverslunin lokaði 12. Ég hvorki gat né vildi (best að kalla hlutina réttum nöfnum) vera sófalaus fram yfir helgi. En þetta var sko ekkert mál frekar en fyrri daginn að fá þessa 2 gullmola í þesskonar björgunaraðgerðir. Sófasettið er frekar mikið um sig og fylgdu því miklar pælingar hvernig ætti að koma því inn. Í fljótu bragði leit nefnilega ekki út fyrir að gert væri ráð fyrir því þegar þetta hús var byggt að inn yrðu sett húsgögn fyrir fullorðna eða að sófaframleiðandinn gerði aldrei ráð fyrir að þetta sett yrði selt og færi INN í venjulegt heimahús. Á myndinni sjáið þið spekingana tvo við áætlanagerð. En inn komst það. Þeir eru nú þekktir fyrir flest annað en að gefast upp þessar elskur.
Í síðustu færslu talaði ég um hvernig við Siggi Þór fórum á flug með hvernig þyrfti að mála og svona............ well til að gera langa sögu stutta að þá erum við nánast búin að mála allt húsið upp á nýtt að innan. Hann Siggi vinur minn lét nefnilega ekki sitja við orðin tóm heldur fór hann í Húsasmiðjuna, keypti pensla, málningu og tilbehör og svo var bara byrjað!! Áður en ég vissi af þá var ég farin að pússa hurðir og karma. Og þetta er svikalaust með því leiðinlegra sem ég hef gert um ævina . Við gerðum samt ekkert svakalega mikið þann daginn því okkur hjónum og erfingjum var boðið í mat til Gunnars og Huldu vinafólk okkar. Gunnar minn hinn grillaði hrygg á teini og ég verð bara að viðurkenna að þetta er einhver albesti hryggur sem ég hef smakkað og þyki ég nú nokkuð liðtæk í eldhúsinu gott fólk.
Á SUNNUDAGINN fékk ég svo sms frá Sigga Þór kl 10 um að hann væri sko aldeilis klár í slaginn um leið og ég væri það (hverskonar spurning var þetta eiginlega ?). Hann vildi s.s ólmur halda áfram. Vorum við að tala um ofvirkni í síðustu færslu people? Ég var þá reyndar búin að pússa 2 hurðir af 10 og að byrjuð á þeirri 3 þegar þetta var. Hann var þá ekki lengi að koma sér á staðinn og síðan var haldið áfram sleitulaust til kl 22. Svei mér ef það er ekki bara í fyrsta skipti sem ég þakka fyrir að reykja! Það voru nefnilega einu pásurnar sem við tókum okkur. Ég tók þetta reyndar á verkjalyfjum en áfram skyldi haldið. Staðreyndin er nefnilega sú að það er alls ekki að ég sé ofvirk, heldur einfaldlega staðreynd að ég lið fyrir það að eiga hlutina eftir. Það er svo oft sem byrjað er á einhverju, síðan stoppað í það sem á að heita "nokkra daga" sem enda í nokkur ár og eru síðan aldrei kláruð. Marta kærastan hans Sigga Þórs kom síðan og kíkti á okkur, hvarf aftur, og var síðan mætt í vinnufötunum þessi elska og byrjuð að mála líka. Henni fannst alveg kolómögulegt að sitja bara og horfa. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hitti hana, en ég fékk strax mjög notalega tilfinningu og leið vel í kringum hana. Gunnar minn fór svo í bæinn að sækja borðstofusettið sem við keyptum okkur og sit ég núna við það.
Siggi svili minn fór síðan til Svíþjóðar aðfaranótt sunnudagsins og er farinn að vinna þar. Ef ég skil þetta rétt, þá verður hann þar í 3 vikur, kemur heim í viku, út aftur og svona koll af kolli. Ég sakna þess mest að hafa ekki náð að kveðja hann almennilega sökum anna, bæði hjá mér og svo hjá honum. Það voru auðvitað margir sem vildu kveðja hann. En þarna braut ég eina af mínum aðal reglum, en það er að gefa sér tíma til að kveðja. Eitt af því mikilvægasta í samskiptum við fólk í mínum huga, er að kveðja alltaf og gera það almennilega. Þú veist ekki nema þetta sé í síðasta skipti. Ég á í það minnsta eftir að sakna hans mikið, en ég veit hann var spenntur að takast á við þetta nýja verkefni, en spennunni fylgdi jafnframt mikill tregi yfir því að fara frá Margréti konu sinni og börnum sem eru fólkið sem hann metur hvað mest.
Í dag ætla ég svo að taka það rólega (get eiginlega ekki annað) og búa mig svo undir átök kvöldsins, því Siggi Þór ætlar að mæta hérna aftur en með þræl með sér og það á bara að klára dæmið. Sem betur fer eru hérna fullt af veggjum með sprungum sem við getum þá ekki málað yfir því að matsmennirnir frá viðlagasjóðnum eiga eftir að koma og meta þær skemmdir. Minnkar vinnuna óneitanlega.... í bili. Siggi sá nefnilega hvað öll þessi uppbygging gerði fyrir sálina mína og færðist því allur í aukana. Ætli það endi ekki bara á því að það eina sem verður eins og fyrir skjálftann verði húsgrunnurinn????? Maður spyr sig.
Hér er svo moli dagsins: Það er fáránlegt að skipta fólki í gott og slæmt. Fólk er annað hvort heillandi eða leiðinlegt.
Knús á línuna inn í daginn gott fólk.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)